Körfuknattleiksdeild Fjölnis semur við William J. Thompson

Fjölnir hefur samið við William J. Thompson en hann spilaði með Ármanni á síðasta tímabili en ÍA tímabilið þar á undan.

William er 203 cm öflugur miðherji sem kemur til með að styrkja liðið í vörn og sókn. Hann spilaði með Felician háskólanum í fjögur ár við góðan orðstýr.

Hann hefur leikið víða um heim og gert það gott undir körfunni í fráköstum, blokkuðu skotum og stigaskori.

Wiliam kemur til með að styrkja Fjölnisliðið og auka breidd leikmannahópsins sem er óðum að taka á sig lokamynd.

Fjölnisfólk býður William velkominn í Grafarvoginn og vitum að hann á eftir að skína skært hjá okkur á komandi tímabili.


Fjölnir semur við Kennedy Clement og Lewis Diankulu

Fjölnir semur við Kennedy Clement

Kennedy hefur leikið með Selfossi síðustu tímabil við góðan orðstýr. Kennedy, sem kemur frá Spáni og er fæddur 2002 og er 202 cm á hæð, kemur úr ungmennastarfi Real Betis en þaðan hafa komið margir verulega sterkir atvinnumenn s.s. Kristaps Porzingis hjá Dallas Mavericks og Tomas Satoransky hjá Barcelona verandi tveir þeirra.

Ljóst er að Kennedy er mikill fengur fyrir Grafarvoginn en sjálfur sagðist hann vera tilbúinn að hjálpa liðinu að komast í efstu deild. ,,Ég er mjög spenntur að hafa samið við Fjölni og hlakka til að hefjast handa enda verðugt verkefndi framundan hjá Fjölni. Ég er tilbúinn að leggja mitt af mörkum,“ sagði Kennedy eftir að hafa skrifað undir á dögunum.

Lewis Diankulu áfram í Grafarvoginum
Lewis mun snúa aftur í Grafarvoginn og leika með liðinu næsta vetur í fyrstu deildinni. Hann var sterkur fengur fyrir félagið á síðasta tímabili og skilaði rúmlega 20 stigum í leik og 10 fráköstum að meðaltali og því hefur verið óskað eftir kröftum hans aftur. Lewis er 28 ára, 201 cm, kanadískur sem leikur sem miðherji/framherji spilaði í sumar sem atvinnumaður fyrir lið í Bretlandi og Indónesíu en áður fyrr var hann fjögur ár, 2015 til 2019, í bandaríska háskólaboltanum.

Lewis sagðist við undirritunina vera ánægður að vera komin „heim“ til síns heima frá Kanada og geta haft vinsamleg og jákvæð áhrif innan sem utan vallar. „Ég hef alla tíð síðan ný stjórn tók við í febrúar fundið fyrir miklum metnaði í uppbyggingu félagins, jafnt hjá yngri og eldri flokkum, og mig langar að vera hluti af þeirrri þróun, og það er ástæðan fyrir því að mig langar að taka slaginn áfram ásamt því að þjálfarinn og ég vitum nákvæmlega hvað við þurfum að gera til að ná því markmiði.“

Kkd Fjölnis


Körfuknattleiksdeild Fjölnis semur við sex leikmenn!

Körfuknatt­leiks­deild Fjöln­is skrifaði undir nýja samninga við sex af efnilegustu leikmönnum meistaraflokks karla þess efnis að spila með liðinu á næsta tímabili. Um er að ræða þá Rafn Kristján Kristjáns­son, Fannar Elí Hafþórsson, Guðmund­ur Aron Jó­hann­es­son, Garðar Kjart­an Norðfjörð, Kjartan Karl Gunnarsson og Brynjar Kári Gunnarsson sem er einmitt þessa dagana í landsliðsverkefni. Áður höfðu Vikt­or Máni Stef­fen­sen og Ísak Örn Bald­urs­son skrifað undir nýja samninga.

Deildin er virkilega ánægð að sjá þessa efnilegu og frábæru körfuboltamenn framlengja í Grafarvoginum enda miklar vonir bundnar við þá þar sem margir hverjir þeirra eru að fara að spila stór hlutverk á komandi tímabili. Þessi hópur hefur sýnt að hann er tilbúinn í átök og að sjálfsögðu er stefnan sett á góðan árangur.  Mikilvægt er að halda í heimamenn sem eiga án efa eftir að vera í framvarðarsveit Fjölnis á næstu misserum.

Fjöln­ir lék um laust sæti um að komast í Subway deildina í vor en tapaði eftir fimm leikja rimmu þar sem Hamar fór með sigur og vann sér laust sæti í Subway deildinni.

Kkd Fjölnis


Borche Ilievski framlengir í Grafarvogi

Borche Ilievski hefur skrifað undir nýjan samning við körfuknattleiksdeild Fjölnis og mun hann þjálfa meistaraflokk karla hjá félaginu til ársins 2026. Borche hefur stýrt meistaraflokk Fjölnis ásamt yngri flokkum félagsins frá 2022. Borche hefur þjálfað lengi á Íslandi en hann byrjaði á Ísafirði og kom Vestra upp í efstu deild á sínum tíma. Einnig hefur hann þjálfað meistaraflokka Tindastóls, Breiðabliks og ÍR ásamt því að vera yngri flokka þjálfari hjá þessum félögum sem og KR áður en hann gekk til liðs við Fjölni í fyrra.

Borche segist hlakka til næstu ára hjá Fjölni og er spenntur fyrir næsta tímabili: ,,Við erum með góðan leikmannahóp af ungum strákum sem eru í lokahópum yngri landsliðana og við munum halda áfram að byggja upp sterkt og samheldið lið sem mun ná góðum árangri á næstu árum,“ sagði þjálfarinn þegar hann skrifaði undir á dögunum.

Samhliða þjálfun meistaraflokks mun Borche þjálfa yngri flokka Fjölnis. ,,Hafin er vinna við að betrumbæta umgjörðina í Grafarvoginum. Ég er ánægður með þróun mála sem mun á endanum skila sér inn á vellinum,“ bætti Borche við.

Með framlengingu á samningi Borche er verið að tryggja stöðuleika í þjálfunarmálum í Fjölni en félagið er lagt af stað í ákveðinna vegferð á körfuboltastarfsemi Grafarvogs. Með því að endurvekja barna-og unglingaráð, ráðningu yfirþjálfara, styrktarþjálfara og menntuðum þjálfurum í yngri flokkum félagsins er félagið að ráðast í metnaðarfulla uppbyggingu í öllu starfi klúbbsins. Takmarkið er að Fjölnir verði eftirsóknarverkt félag til að spila fyrir.

Salvör Þóra Davíðsdóttir og Borche Ilievski eftir að sá síðarnefndi skrifaði undir á dögunum

Vormót Fjölnis í frjálsum íþróttum

Vormót Fjölnis í frjálsum íþróttum var haldið í blíðskaparveðri fimmtudaginn 1. júní á frjálsíþróttavellinum í Mjódd.
Ágætis þátttaka var í mótinu en 90 keppendur á aldrinum 11-15 ára mættu til leiks.

Keppnisgreinar voru fjórar: spretthlaup, langstökk, kúluvarp og 600m eða 800m hlaup og keppt í þremur aldursflokkum – 11 ára, 12-13 ára og 14-15 ára.

Keppendur Fjölnis settu fjölmörg persónuleg met og komu heim með 8 verðlaun:

Eva Unnsteinsdóttir vann gull í kúluvarpi og 600m hlaupi og brons í 60m hlaupi og langstökki í flokki 11 ára stúlkna

Haukur Leó Kristínarson vann brons í 600m hlaupi í flokki 11 ára pilta

Hilmir Snær Eyjólfsson vann gull í 800m hlaupi og brons í langstökki í flokki 12-13 ára pilta

Guðrún Ásgeirsdóttir vann brons í kúluvarpi í flokki 14-15 ára stúlkna

Að auki var keppt í nokkrum greinum fullorðinna þar sem Fjölniskeppendur bættu mörg hver sín persónuleg met

Á myndunum má sjá Evu Unnsteinsdóttur taka á móti gullverðlaunum og Guðrúnu Ásgeirsdóttur taka á móti bronsverðlaunum


Ísak Örn Baldursson skrifar undir hjá Fjölni

Ísak Örn Baldursson hefur framlengt samning sinn við Fjölni og mun leika með liðinu í 1. deild í vetur.

Ísak hefur spilað með yngri landsliðum Íslands og var á dögunum valinn til að leika með U-20 landsliðinu á tveimur sterkum alþjóðamótum í sumar. Ísak, sem lék stórt hlutverk hjá Fjölni á síðasta tímabili, var á dögunum valinn varnarmaður félagsins á lokahófi félagsins.

,,Ég er spenntur fyrir komandi tímabili, það er góður andi í hópnum, og við ætlum okkur að byggja ofan á það sem við gerðum á síðasta tímabili. Það var vaxandi stemning fyrir körfunni í Grafarvogi síðasta vetur og við vonumst til að sjá sem flesta í stúkunni á þessu tímabili,” sagði Ísak þegar hann skrifaði undir.


KKÍ: U16 - U18 - U20 Landsliðshópar - Lokaval

Nú hafa þjálfarar yngri landsliða Íslands valið sína endanlega liðsskipan en það eru 12 leikmenn í U16, U18 og U20 landsliðunum sem leika á NM og EM í sumar.
Það er okkur mikil ánægja að tilkynna að við eigum nokkra flotta fulltrúa í landsliðunum

U18 stúlkna
Bergdís Anna Magnúsdóttir · Fjölnir
Heiður Karlsdóttir · Fjölnir

U18 drengja
Brynjar Kári Gunnarsson · Fjölnir

U20 kvenna
Stefanía Tera Hansen · Fjölnir
Heiður Karlsdóttir · Fjölnir (mun leika með liðinu á EM)

U20 karla
Ísak Örn Baldursson · Fjölnir

Innilegar hamingjuóskir!

Ljósmyndir: Gunnar Jónatansson


Lokahóf Körfuknattleiksdeildar Fjölnis

Lokahóf Körfuknattleiksdeildar Fjölnis fór fram á dögunum þar sem leikmenn meistaraflokka félagsins tímabilið 2022-2023 voru útnefnd fyrir sitt framlag.

MEISTARAFLOKKUR KARLA
Besti íslenski leikmaðurinn – Hilmir Arnarson
Bestir erlendi leikmaðurinn – Lewis Diankulu
Mestar framfarir – Brynjar Kári Gunnarsson
Besti varnarmaðurinn- Ísak Örn Baldursson

MEISTARAFLOKKUR KVENNA
Besti íslenski leikmaðurinn – Heiður Karlsdóttir
Bestir erlendi leikmaðurinn – Brittanny Dinkins
Mestar framfarir – Stefanía Tera Hansen
Besti varnarmaðurinn- Urte Slavickaite

Innilegar hamingjuóskir kæra Fjölnisfólk!


Viktor Steffensen skrifar undir hjá Fjölni

Viktor Máni Steffensen hefur framlengt samning sinn við Fjölni og mun leika áfram með liðinu á næsta tímabili.  Viktor, sem er uppalinn hjá Fjölni, hefur jafnframt  verið valinn í æfingahópa yngri landsliða KKÍ.

Viktor hefur verið mikið frá vegna hnémeiðsla síðustu tvö tímabil en átti frábæra innkomu í lok síðasta keppnistímabils og segir liðið í stakk búið að fara upp í Subway deildina.  ,,Ég er gríðarlega spenntur fyrir komandi vetri og mér líst vel á hópinn sem samanstendur af ungum og efnilegum strákum undir stjórn virkilega góðs þjálfara.  Við ætlum okkur alla leið og hlakka ég virkilega til að hefjast handa á því verkefni,” sagði Viktor þegar hann skrifaði undir á dögunum.

 

Kkd Fjölnis


Fjáröflunarkvöld körfuknattleiksdeildarinnar 17. maí

Í næstu viku fer fram fjáröflunarkvöld körfuboltadeildar Fjölnis þann 17. maí í hátíðarsal Dalhúsa. Miðakaup fara fram hér: https://xpsclubs.is/fjolnir/registration undir Körfuknattleikur.
Hlökkum til að sjá ykkur!