32-liða úrslit Mjólkurbikars karla. Fjölnir - Selfoss
Mjólkurbikar karla
32-liða úrslit
Fjölnir – Selfoss
Miðvikudaginn 24. júní kl. 19:15 á Extra vellinum
Þá er komið að því að Fjölnir hefji leik í Mjólkurbikar karla þetta árið. Líkt og önnur úrvalsdeildarlið kemur Fjölnir inn í bikarkeppnina í 32-liða úrslitum. Ásmundur Arnarsson hefur stillt upp sama byrjunarliði í fyrstu tveimur umferðum Pepsi Max deildarinnar. Athyglisvert verður að sjá hvort ný andlit komi inn í byrjunarliðið. Í tapinu gegn Stjörnunni í síðasta leik skoraði Jóhann Árni Gunnarsson sitt fyrsta mark í efstu deild og nýliðinn Örvar Eggertsson lék sinn fyrsta leik fyrir Fjölni. Fáir hafa leikið bæði fyrir Fjölni og Selfoss. Undirrituðum er ekki kunnugt um fleiri en Tómas Leifsson, Ragnar Heimi Gunnarsson, Ágúst Örn Arnarson og Geir Kristinsson, sem nú er formaður meistaraflokksráðs karla hjá Fjölni, sem leikið hafa fyrir bæði félög.
Andstæðingurinn
Selfoss endaði síðasta tímabil í 3. sæti 2. deildar, einu stigi frá sæti í 1. deild. Selfoss lagði Snæfell 5-0 í fyrstu umferð bikarkeppninnar í ár. Í annarri umferð bar Selfoss sigurorð á Hvíta riddaranum, 0-1. 2. deild karla hófst í síðustu viku, þar unnu Selfyssingar 3-4 sigur á Kára. Þekktasti og besti leikmaður Selfoss er eflaust markahrókurinn Hrvoje Tokic. Tokic skoraði 24 mörk í 22 leikjum með Selfossi á síðasta tímabili. Framherjinn gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu í sigri liðsins á Kára. Annar lykilmaður í liði Selfoss er hinn 17 ára Guðmundur Tyrfingsson. Guðmundur er einnig markaskorari og gerði hann fernu í fyrstu umferð bikarkeppninnar. Þjálfari Selfoss er Dean Martin. Besti árangur Selfoss í bikarkeppni er að hafa leikið til undanúrslita árin 1969 og 2016.
Hvað segir sagan?
Fjölnir og Selfoss hafa mæst níu sinnum í deildar- og bikarkeppnum. Fjölnir hefur unnið fimm leki, Selfoss þrjá og einu sinni hefur leik lokið með jafntefli. Áhorfendur þurfa þó ekki að hafa áhyggjur af jafntefli í leik liðanna á miðvikudag, leikið verður til þrautar verði jafnt að venjulegum leiktíma liðnum. Síðustu viðureign liðanna lauk með 3-0 sigri Fjölnis. Leikurinn var hluti af mögnuðum endaspretti Fjölnis í 1. deild karla haustið 2013 sem lauk með deildarmeistaratitli félagsins. Steinar Örn Gunnarsson er eini núverandi leikmaður Fjölnis sem var í leikmannahópi liðsins í umræddum leik. Einu sinni áður hafa Fjölnir og Selfoss mæst í bikarkeppni KSÍ. Liðin drógust saman í sömu umferð keppninnar árið 2011. Þeim leik lauk með 1-0 sigri Fjölnis. Það ár komst Fjölnir í 8-liða úrslit keppninnar.* Það er besti árangur Fjölnis í bikarkeppninni frá bikarúrslitaleikjunum á árunum 2007 og 2008. Kæra Fjölnisfólk, fjölmennum á völlinn, hvetjum félagið okkar til sigurs og leyfum okkur að dreyma.
Leikmannahópur Fjölnis
1 – Steinar Örn Gunnarsson (m)
4 – Sigurpáll Melberg Pálsson
5 – Torfi Tímoteus Gunnarsson
6 – Grétar Snær Gunnarsson
7 – Ingibergur Kort Sigurðsson
8 – Arnór Breki Ásþórsson
9 – Jón Gísli Ström
10 – Viktor Andri Hafþórsson
11 – Hallvarður Óskar Sigurðarson
12 – Atli Gunnar Guðmundsson (m)
14 – Lúkas Logi Heimisson
16 – Orri Þórhallsson
17 – Valdimar Ingi Jónsson
19 – Daníel Smári Sigurðsson
23 – Örvar Eggertsson
25 – Sigurjón Daði Harðarson (m)
27 – Dagur Ingi Axelsson
28 – Hans Viktor Guðmundsson, fyrirliði
29 – Guðmundur Karl Guðmundsson, varafyrirliði
31 – Jóhann Árni Gunnarsson
32 – Kristófer Óskar Óskarsson
33 – Eysteinn Þorri Björgvinsson
42 – Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson
Þjálfari: Ásmundur Arnarsson
Aðstoðarþjálfarar: Gunnar Már Guðmundsson og Gunnar Sigurðsson
Miðasala á leikinn er hafin, nánar hér. Rétt er að minna á að árskort á Extra völlinn gilda ekki á leiki í bikarkeppni.
Sjáumst á vellinum. Áfram Fjölnir!
#FélagiðOkkar
Grétar Atli Davíðsson
*Fjölnir fór einnig í 8-liða úrslit árið 2015.
Sjá einnig:
Fyrri viðureignir liðanna
Viðburður á Facebook
Fjölnir á Facebook og Twitter
Útdráttur í happdrætti knattspyrnudeildar
Happdrætti Knattspyrnudeildar Ungmennafélagsins Fjölnis 19. júní 2020
Vinninga ber að vitja fyrir 1. september 2020 á skrifstofu Fjölnis.
Fyrsti heimaleikur sumarsins: Fjölnir - Stjarnan
Pepsi Max deild karla
2. umferð
Fjölnir – Stjarnan
Sunnudaginn 21. júní kl. 16:45 á Extra vellinum
Eins og flestum Fjölnismönnum er kunnugt hófst tímabilið með 1-1 jafntefli gegn Víkingi. Af þeim fjórtán leikmönnum Fjölnis sem komu við sögu í leiknum voru fimm að þreyta frumraun sína í efstu deild, þeir Atli Gunnar Guðmundsson, Valdimar Ingi Jónsson og Orri Þórhallsson voru allir í byrjunarliðinu. Inn af varamannabekknum í sínum fyrstu leikjum í efstu deild komu Lúkas Logi Heimisson og Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson. Leikurinn var einnig frumraun Lúkasar í meistaraflokki. Þá lék Grétar Snær Gunnarsson sinn fyrsta leik í gulu treyjunni.
Á milli leikja hefur einn leikmaður bæst við í hóp Fjölnis. Í vikunni gengu Fjölnir og Víkingur R. frá samkomulagi um félagaskipti Örvars Eggertssonar sem skrifaði undir samning við Fjölni sem gildir út tímabilið 2021. Örvar er 21 árs kanntmaður sem leikið hefur 44 leiki fyrir Víking og skorað í þeim fjögur mörk. Örvar á það sameiginlegt með Valdimar Inga Jónssyni og Arnóri Breka Ásþórssyni að hafa þótt gríðarlega efnilegur í frjálsum íþróttum.
Andstæðingurinn
Stjarnan hóf tímabilið með því að leggja Fylki 2-1 með sigurmarki í uppbótartíma. Stjarnan hefur á að skipa reyndu liði sem litlum breytingum hefur tekið á síðustu árum. Rúnar Páll Sigmundsson er á sínu sjöunda tímabili sem þjálfari Stjörnunnar. Í vetur bættist Ólafur Jóhannesson inn í þjálfarateymið og eru þeir Rúnar báðir aðalþjálfarar. Stjarnan endaði í fjórða sæti á síðustu leiktíð. Fjölnir og Stjarnan mættust í Lengjubikarnum í febrúar. Heilt yfir var var jafnræði með liðunum í þeim leik en voru Fjölnismenn rækilega minntir á gæði Hilmars Árna Halldórssonar sem óumdeilanlega hefur verið einn allra besti leikmaður Íslandsmótsins síðustu ár. Hilmar Árni gerði bæði mörk þeirra bláklæddu gegn engu marki Fjölnismanna.
Hvað segir sagan?
Fjölnir og Stjarnan hafa nítján sinnum mæst í deildar- og bikarkeppni. Liðin hafa unnið sitt hvora sjö leikina og fimm leikir endað með jafntefli. Fjölnir hefur átt undir högg að sækja gegn Stjörnunni á síðustu árum. Fjölnir hefur ekki borið sigurorð á Stjörnnunni síðan Mark Charles Magee lék á alls oddi í 1-3 sigri Fjölnismanna fyrir fimm árum síðan. Með Ásmund Arnarsson í brúnni hefur Fjölnismönnum gengið vel gegn Stjörnunni; fjórir sigrar, þrjú jafntefli og ekkert tap.
Einn eftirminnilegasti leikur liðanna var í bikarkeppninni árið 2007. Torsóttasti sigur Fjölnis á leið sinni í bikarúrslit það ár var 2-3 sigur á Stjörnunni í 16-liða úrslitum keppninnar. Stjarnan komst í 2-0 með mörkum frá Guðjóni Baldvinssyni. Pétur Markan minnkaði muninn fyrir Fjölni áður en Ómar Hákonarson jafnaði undir lok venjulegs leiktíma. Ómar sem hafði farið úr axlarlið í leiknum innsigldi svo 2-3 sigur Fjölnis í framlengingu. Auk Guðjóns Baldvinssonar spiluðu tveir aðrir núverandi leikmenn Stjörnunnar umræddan leik, þeir Halldór Orri Björnsson og Daníel Laxdal. Leikurinn er einnig merkilegur fyrir þær sakir að hann er einn af fáum leikjum þar sem núverandi aðstoðarþjálfari Fjölnis, Gunnar Már Guðmundsson, kom inná sem varamaður. Ásmundur Arnarsson stýrði Fjölni á þessum tíma.
Leikmannahópur Fjölnis
1 – Steinar Örn Gunnarsson (m)
4 – Sigurpáll Melberg Pálsson
5 – Torfi Tímoteus Gunnarsson
6 – Grétar Snær Gunnarsson
7 – Ingibergur Kort Sigurðsson
8 – Arnór Breki Ásþórsson
9 – Jón Gísli Ström
10 – Viktor Andri Hafþórsson
11 – Hallvarður Óskar Sigurðarson
12 – Atli Gunnar Guðmundsson (m)
14 – Lúkas Logi Heimisson
16 – Orri Þórhallsson
17 – Valdimar Ingi Jónsson
19 – Daníel Smári Sigurðsson
23 – Örvar Eggertsson
25 – Sigurjón Daði Harðarson (m)
27 – Dagur Ingi Axelsson
28 – Hans Viktor Guðmundsson, fyrirliði
29 – Guðmundur Karl Guðmundsson, varafyrirliði
31 – Jóhann Árni Gunnarsson
32 – Kristófer Óskar Óskarsson
33 – Eysteinn Þorri Björgvinsson
42 – Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson
Þjálfari: Ásmundur Arnarsson
Aðstoðarþjálfarar: Gunnar Már Guðmundsson og Gunnar Sigurðsson
Miðasala á leikinn er hafin, nánar hér.
Sjáumst á vellinum. Áfram Fjölnir!
#FélagiðOkkar
Grétar Atli Davíðsson
Sjá einnig:
Fyrri viðureiginir liðanna
Fjölnir á Facebook og Twitter
Fjölnir – Stjarnan á Facebook
Upphitunarpistill - Víkingur R. - Fjölnir
Pepsi Max deild karla
1. umferð
Víkingur R. – Fjölnir
Mánudaginn 15. júní kl. 18:00 á Víkingsvelli
Biðin eftir endurkomu Fjölnis í efstu deild karla tekur loks enda mánudaginn 15. júní kl. 18:00 þegar við Fjölnismenn bregðum okkur í Fossvoginn og etjum kappi við Víking. Fjölnir og Víkingur komu saman upp úr B-deild sumarið 2013 og hefur Fossvogsliðið haldið sér í efstu deild æ síðan.
Á síðustu leiktið endaði Víkingur í 7. sæti og varð auk þess bikarmeistari. Bæði Fjölnir og Víkingur hafa efnilega leikmenn innan sinna raða sem reikna má með að spili stórt hlutverk í sumar. Þekktustu leikmenn Víkings eru þó án nokkurs vafa reynsluboltarnir Sölvi Geir Ottesen og Kári Árnason. Þjálfari Víkings er Arnar Gunnlaugsson.
Eftir að hafa leikið í B-deild frá 2010 til 2013 átti Fjölnir endurkomu í deild þeirra bestu sumarið 2014. Fyrsti leikur Fjönis í endurkomunni það sumar var einnig gegn Víkingi. Leikið var á Fjölnisvelli og enduðu leikar með 3-0 sigri Fjölnis.
Fjölnir hefir haft nokkuð gott tak á Víkingi í efstu deild. Í tíu viðureignum liðanna í efstu deild hefur Fjölnir unnið sex leiki og Víkingur þrjá. Jafntefli var niðurstaðan í síðasta leik liðanna í efstu deild.
Leikir þessara liða í efstu deild hafa jafnan verið besta skemmtun. Í átta viðureignum af tíu hafa veirð skoruð þrjú mörk eða fleiri. Hvorugu liðinu hefur tekist að halda hreinu í viðureignum liðanna síðustu fimm ár. Í viðureginum félaganna í efstu deild hafa Fjölnismenn skorað 19 mörk gegn 14 mörkum Víkings.
Í ljósi sögunnar er tilefni til bjarsýni. Af síðstu 7 leikjum liðanna í efstu deild hefur Fjölnir fagnað sigri fimm sinnum. Sagan vinnur hins vegar ekki leiki en vonandi tekst okkur Fjölnismönnum að viðhalda góðu taki sem við höfum haft á Víkingum.
Aðrir fróðleiksmolar
- Ásmundur Arnarsson stýrir Fjölni í efstu deild í fyrsta sinn í ellefu ár.
- Hans Viktor Guðmundsson mun leiða Fjölnisliðið til leiks sem nýr fyrirliði liðsins.
- Meðal leikmanna sem leikið hafa bæði fyrir Fjölni og Víking eru Þórður Ingason, Davíð Þór Rúnarsson og Pétur Georg Markan.
- Í fyrsta sinn er enginn leikmaður í meistaraflokkshóp hjá Fjölni eldri en félagið. Elsti leikmaður liðsins er Guðmundur Karl Guðmundsson, fæddur árið 1991.
Leikmannahópur Fjölnis
1 – Steinar Örn Gunnarsson (m)
2 – Eysteinn Þorri Björgvinsson
4 – Sigurpáll Melberg Pálsson
5 – Torfi Tímoteus Gunnarsson
7 – Ingibergur Kort Sigurðsson
8 – Arnór Breki Ásþórsson
9 – Jón Gísli Ström
10 – Viktor Andri Hafþórsson
11 – Hallvarður Óskar Sigurðarson
12 – Atli Gunnar Guðmundsson (m)
14 – Lúkas Logi Heimisson
16 – Orri Þórhallsson
17 – Valdimar Ingi Jónsson
19 – Daníel Smári Sigurðsson
21 – Grétar Snær Gunnarsson
25 – Sigurjón Daði Harðarson (m)
27 – Dagur Ingi Axelsson
28 – Hans Viktor Guðmundsson, fyrirliði
29 – Guðmundur Karl Guðmundsson, varafyrirliði
31 – Jóhann Árni Gunnarsson
32 – Kristófer Óskar Óskarsson
42 – Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson
Miðasala á leikinn er hafin, nánar hér. Sjáumst á vellinum í sumar. Áfram Fjölnir!
#FélagiðOkkar
Grétar Atli Davíðsson
Dusan Ivkovic tekur við meistaraflokki kvenna
Dusan Ivkovic tekur við meistaraflokki kvenna.
Það er knattspyrnudeildinni sönn ánægja að tilkynna Dusan Ivkovic sem nýjan aðalþjálfara meistaraflokks kvenna en hann tekur við af Helenu Ólafsdóttur sem lét af störfum nýverið.
Dusan er reyndur og metnaðarfullur þjálfari sem þekkir vel til innan félagsins og innviða þess en hann þjálfaði síðast árið 2018 hjá Fjölni. Hann hefur lokið UEFA-A þjálfaragráðu og býr yfir alþjóðlegri þjálfarareynslu en áður en kom að Covid þá var hann m.a. þjálfari í knattspyrnuakademíu í Peking í Kína.
Axel Örn Sæmundsson og Arnór Ásgeirsson verða vitanlega áfram í teyminu og munu sinna sínum hlutverkum áfram af festu sem aðstoðarþjálfari og styrkarþjálfari liðsins.
Knattspyrnudeildin fagnar þessari ráðningu og hlakkar til samstarfsins og getur jafnframt ekki beðið eftir því að keppnistímabilið hefjist.
#FélagiðOkkar
Helena Ólafsdóttir lætur af störfum
Helena Ólafsdóttir lætur af störfum sem þjálfari meistaraflokks kvenna.
Helena Ólafsdóttir og stjórn knattspyrnudeildar Fjölnis hafa komist að samkomulagi um að verða við ósk Helenu um að láta af störfum sem þjálfari meistaraflokks kvenna.
Vegna annarra verkefna, þar á meðal sem stjórnandi Pepsi marka kvenna á Stöð2Sport, sér Helena ekki fram á að geta sinnt þjálfarastarfinu af fullum krafti í sumar.
Helena hefur tilkynnt liðinu um ákvörðun sína en hún er tekin með hagsmuni liðsins að leiðarljósi.
Stjórn knattspyrnudeildar og meistaraflokksráð kvenna hefur nú þegar hafist handa við að leita að eftirmanni hennar. Stjórn hefur falið Axel Erni Sæmundssyni aðstoðarþjálfara að stýra liðinu tímabundið.
Helenu eru þökkuð góð störf og óskað velfarnaðar í framtíðinni.
Virðingafyllst,
Stjórn knattspyrnudeildar Fjölnis
#FélagiðOkkar
Fjölnir og Stöð 2 Sport Ísland
Vinnum saman – Fjölnir og Stöð 2 Sport Ísland
Til að bregðast við breyttu umhverfi í íslenskri knattspyrnu vegna núverandi aðstæðna í íslensku samfélagi hafa KSÍ, ÍTF og Stöð 2 Sport ákveðið að bjóða upp á lausn sem bæði aflar félögum í Pepsí Max deildunum nýrra tekna og eflir umfjöllun um deildirnar.
Stuðningsmönnum Fjölnis stendur til boða að kaupa sérstaka áskrift af Stöð 2 Sport Ísland, á 3.990 á mánuði með bindingu til 1. desember, en með því að kaupa áskriftina ertu um leið að styrkja félagið sem telst afar kjærkomið á tímum sem þessum.
Meðal efnis sem er á dagskrá á Stöð 2 Sport Ísland á því tímabili er að óbreyttu eftirfarandi:
Pepsí Max deildin (kk og kvk)
Mjólkurbikar (kk og kvk)
Þjóðadeildin
Umspil fyrir EM 2021 karla
Undankeppni EM 2022 kvenna
Olís deildin í handbolta (kk og kvk)
Domino’s deildin í körfubolta (kk og kvk)
Sameiginleg yfirlýsing knattspyrnudeildar Fjölnis og Bergsveins Ólafssonar
Sameiginleg yfirlýsing knattspyrnudeildar Fjölnis og Bergsveins Ólafssonar
Beggi hefur ákveðið í samráði við stjórn og þjálfara að leggja skóna á hilluna og mun þar af leiðandi ekki leika með Fjölnisliðinu í sumar. Ástæða þess er að neistinn og ánægjan vegna fótboltans er ekki lengur til staðar hjá honum og því getur hann ekki gefið sig af heilum hug í verkefnið.
„Ég hef ákveðið að hætta í fótbolta, sem hefur verið svo stór hluti af lífinu mínu öll þessi ár. Ástæðan fyrir því er að ástríðan mín gagnvart fótboltanum hefur minnkað töluvert á meðan hún hefur aukist verulega í öðru sem ég hef verið að taka mér fyrir hendur í lífinu. Vegna anna og ástríðu við sálfræðina, fyrirlestrana og námskeiðanna sé ég mig því miður ekki geta gefið Fjölni mitt allra besta. Það væri því óheiðarlegt við sjálfan mig og Fjölni í heild sinni að halda áfram. Ég vil þakka Fjölni fyrir að móta mig að þeim einstaklingi sem ég er í dag. Ég er óendanlega þakklátur fyrir allt það sem klúbburinn hefur gert fyrir mig. Ég er stoltur Fjölnismaður og verð það um ókomna tíð. Þið sjáið mig grjótharðan á pöllunum í sumar. Takk fyrir mig.“
Þetta eru auðvitað óvænt tíðindi en Beggi á að baki 166 leiki fyrir Fjölni og hefur verið fyrirliði liðsins. Knattspyrnudeildin þakkar Begga fyrir allt sitt framlag til félagsins og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni.
Unnið er hörðum höndum að því að undirbúa leikmannahópinn fyrir komandi átök en framundan er spennandi tímabil í Pepsi Max deildinni.
#FélagiðOkkar
Undirritað,
-Knattspyrnudeild Fjölnis og Bergsveinn Ólafsson
Útdrætti á happdrætti frestað til 15. júní
Embætti Sýslumannsins á Suðurlandi heimilar frestun á útdrætti í happdrætti knattspyrnudeildar Fjölnis sem fara átti fram í dag, fimmtudaginn 30. apríl 2020 til mánudagsins 15. júní 2020 vegna Covid-19.
Ennþá er hægt að tryggja sér miða, en fjöldi glæsilegra vinninga er í boði og er aðeins dregið úr seldum miðum.
Miðaverð er 2.0o0 kr. og eru 3.500 miðar í boði.