Fréttatilkynning frá handknattleiksdeild Fjölnis
Fréttatilkynning frá handknattleiksdeild Fjölnis
Samstarf Fjölnis og Fylkis í meistaraflokki kvenna í handbolta verður ekki framlengt, en félögin komust að sameiginlegri niðurstöðu eftir að tímabilinu í Grill 66 deild kvenna lauk. Meistaraflokkur kvenna mun á ný keppa undir merkjum Fjölnis frá og með næsta tímabili.
Samstarf félaganna hófst fyrir tímabilið 2020-2021 og stóð yfir í þrjú keppnistímabil.
Við viljum þakka Fylki fyrir samstarfið undanfarin ár.
Áframhaldandi samstarf félaganna í 3. og 4. flokki karla og kvenna er í vinnslu og vonumst við eftir því að geta kynnt það á næstu vikum.
#FélagiðOkkar
Sumarstörf 2023 fyrir 15-25 ára
Líkt og fyrri ár munum við hjá Fjölni bjóða upp á fjölbreytt sumarstörf í tengslum við vinæslu sumarnámskeiðin okkar.
HÉR er umsóknareyðublað sem allir þurfa að fylla út til þess að sækja um starf.
ATH! 17-25 ára þurfa líka að fylla út umsókn í gegnum Hitt húsið. HÉR er hlekkur á þá slóð.
Umsóknarfrestur hjá Hinu húsinu er til 15. apríl.
Við hvetjum öll áhugasöm til þess að sækja um!
Kveðja til þín Addi!
–> Birt með leyfi frá fjölskyldu Adda ❤️
Kveðja frá handknattleiksdeild Fjölnis,
Kæra fjölskylda og vinir Stefáns Arnars Gunnarssonar.
Kæri Addi!
Þú komst til félagsins vorið 2014. Þitt hlutverk var að taka við ungu liði sem saman stóð að mestu af uppöldum Fjölnismönnum og stýra liðinu upp á næsta stig. Það tókst þér svo sannarlega að gera. Það eru enn rifjuð reglulega upp úrslitaeinvígin sem háð voru vorin 2015 og 2016, þvílík var stemningin, þvílíkt var fjörið. Vorið 2017 vann liðið svo Grill deildina og tryggði sér sæti í Olís deildinni í fyrsta sinn og ekki var gleðin minni þá.
Þú lést oft í þér heyra, hvort sem var innan vallar eða utan, við leikmenn eða stjórn deildarinnar. Þú gagnrýndir það sem ekki var nógu gott, barðist fyrir betri aðstöðu fyrir deildina og hafðir gríðarlegan metnað fyrir liðinu. Það féll ekki vel í kramið hjá öllum eins og gerist og gengur.
Þú varst að sama skapi mikill leiðbeinandi fyrir unga og upprennandi handknattleiksmenn, jafnt innan vallar sem utan. Þeir hugsa til þín með hlýju og eru eftirfarandi ummæli leikmanna um þig, dæmi um það:
• Addi var frábær þjálfari, drífandi metnaðarfullur og með mikla leiðtogahæfileika.
• Addi lagði ekki bara metnað sinn í það að við Fjölnismenn værum góðir handboltamenn hvort sem það væri tæknilega eða hversu sterkir við værum heldur óskaði hann þess heitast að við næðum árangri í lífinu.
• Hann vildi að við myndum leggja allan okkar metnað í að stunda námið okkar og kom ekkert annað til greina hjá honum en að við kláruðum skólann meðfram handboltanum.
• Addi var fljótur að grípa inn í þegar hann sá að okkur leið illa eða áttum erfiða daga og hvatti okkur til dáða að halda áfram og einbeita okkur að styrkleikum og vinna í veikleikunum.
• Addi var einstaklega góður hlustandi og reyndist okkur öllum mjög vel í persónulegum verkefnum.
• Addi samgladdist okkur líka vel og innilega þegar okkur gekk vel og hurfum jafnvel á braut í annað félag og heyrði reglulega í okkur til að kanna hvernig við hefðum það.
Þá hugsa foreldrar líka til þín með hlýju og er eftirfarandi haft eftir móður leikmanns sem þú þjálfaðir:
• „Ég mun líklega aldrei gleyma því þegar Addi hafði samband á laugardegi um verslunarmannahelgi og tjáði mér að hann hefði áhyggjur af því að tveir leikmenn væru að leggja son minn í einelti. Addi sagðist myndu fylgjast með þessu á og í kringum æfingar og leiki en vildi upplýsa mig um stöðuna. Addi tæklaði þetta mál svo með samtölum við piltana svo úr leystist farsællega.“
Brotthvarf þitt frá félaginu var því miður ekki til fyrirmyndar. Það varð uppþot sem margir í handboltaheiminum muna sjálfsagt eftir. Þú lentir þar í hringiðu sem gerði starf þitt klárlega mun erfiðara en það hefði þurft að vera. Orð voru sögð, ákvarðanir teknar sem særðu og þykir okkur það afskaplega miður.
En við sem störfuðum með þér vitum líka að þú ert gríðarleg tilfinningavera en hefur, til að verja þig, reist í kringum þig girðingu sem þú hleyptir ekki mörgum í gegnum en eftir veru þína hjá félaginu eignaðist þú þó vini sem hafa alla tíð staðið með þér.
Við hjá handknattleiksdeild Fjölnis sendum þér hlýju og þökkum fyrir tímann okkar saman. Þú ert einstakur. Handboltaheimurinn verður fátækari án þín.
Kæra fjölskylda og vinir Adda, við hugsum til ykkar á þessum erfiða tíma. Gangi ykkur sem allra best að takast á við þá miklu óvissu og sorg sem ríkir. Við erum öll ríkari að hafa kynnst Adda.
Ljósmynd: Þorgils G / Fyrsti sigur liðsins í Olís deildinni, 26. nóvember 2017
#FélagiðOkkar
HM TIPPLEIKUR FJÖLNIS
HM TIPPLEIKUR FJÖLNIS
–>> SMELLA HÉR TIL AÐ TAKA ÞÁTT! <<–
Reglur og upplýsingar í hópleik:
- Leikurinn er öllum opinn sem vilja taka þátt.
- Leikurinn fer fram undir einkadeildinni #FélagiðOkkar á https://leikir.betra.is/.
- Þátttakendur stofna aðgang á síðunni og fá upplýsingar sendar um einkadeildina frá félaginu eftir að greiðsla berst.
- Skráningafrestur er til miðnættis 10. janúar.
- Opnunarleikurinn á mótinu er 11. janúar kl. 20:00 þegar Frakkland og Pólland mætast.
- Þátttakendur geta látið kerfið giska sjálfvirkt.
- Þátttökugjald er 1.500 kr.
- Mikilvægt er að skrá sig í skjalið hér að ofan, einnig hægt að opna þessa slóð https://forms.office.com/e/7Fh1K5Py2m.
- Kerfið sér um að reikna út stigin.
- Vegleg verðlaun eru veitt fyrir efstu þrjú sætin.
Vinsamlega millifærið á eftirfarandi:
Upphæð: 1.500 kr.
Rkn: 0114-26-155
Kt: 631288-7589
Kvittun: vidburdir@fjolnir.is
Verðlaun fyrir efstu þrú sætin:
1. sæti – Landsliðstreyja frá Andreu Jacobsen
2. sæti – Fjölnir stuðningsmannatrefill og prjónahúfa með dúsk
3. sæti – PUMA bakpoki með boltaneti
Uppskeruhátíð Fjölnis 2022
Uppskeruhátið Fjölnis fór fram þann 15. desember síðastliðinn að viðstöddum 100 manns. Veitt voru verðlaun fyrir íþróttaafrek ársins, gull- og silfurmerki sjálfboðaliða ásamt vali á íþróttakarli og -konu. Þar að auki var Fjölnismaður ársins heiðraður fyrir ómetanlegt starf í þágu félagsins. Athöfnin fór fram í Keilhöllinni í Egilshöll og var einnig beint streymi frá viðburðinum í gegnum Facebook síðu Fjölnis. Jón Karl, formaður félagsins stýrði athöfninni og stóð hin stórglæsilega Regína Ósk fyrir tónlistaratriðum á athöfninni. Við þökkum Gunnari Jónatanssyni fyrir að taka myndbönd af athöfninni sem og ljósmyndurunum Baldvini Erni Berndsen og Þorgils G fyrir að mynda viðburðinn.
Takk kærlega fyrir komuna og kvöldið, hér fyrir neðan má sjá þá sem hlutu viðurkenningar.
Íþróttakarl Fjölnis árið 2022 er fimleikakarlinn Sigurður Ari Stefánsson
Íþróttakona Fjölnis árið 2022 er körfuboltakonan Dagný Lísa Davíðsdóttir
Fjölnismaður ársins 2022 er Kristján Rafnsson
Íþróttakarl ársins 2022: Sigurður Ari Stefánsson
Sigurður Ari eða Siggi átti glæsilegt fimleikaár. Sigurður Ari varð Íslandsmeistari unglinga í fjölþraut í áhaldafimleikum. Þar sigraði hann með yfirburðum auk þess að vinna gullverðlaun á fimm áhöldum af sex í keppni á einstökum áhöldum. Á árinu var Sigurður einnig valinn til þátttöku í fjölmörgum erlendum verkefnum á vegum Fimleikasambands Íslands. Meðal annars Evrópumóti unglinga, Norðurlandamóti unglinga og Ólympíuleikum æskunnar. Sigurður hefur nú fært sig yfir í Gerplu þar sem hann mun halda áfram sinni fimleikaiðkun undir handleiðslu landsliðsþjálfara Íslands og óskum við honum alls hins besta og hlökkum við til að fylgjast með honum í framtíðinni.
Íþróttakona ársins 2022: Dagný Lísa Davíðsdóttir
Dagný Lísa Davíðsdóttir var valin mikilvægasti leikmaður Subway deildar kvenna á síðasta tímabili þar sem hún leiddi Fjölni til deildarmeistaratitils, þess fyrsta hjá félaginu í boltagreinum í efstu deild. Einnig var hún valin í A-landslið Íslands á síðasta tímabili. Dagný Lísa er framúrskarandi leikmaður en ekki síður góður karakter sem nýtur virðingar liðsfélaga sem ekki er síður mikilvægt í hópíþróttum.
Fjölnismaður ársins: Kristján Rafnsson
Stjáni Rafns, eins og við köllum hann, er sá sem hefur verið lengst í kringum starfið af þeim sem nú eru að starfa við deildina. Þó að Stjáni hafi ekki verið formlega í stjórn er óhætt að fullyrða að verðmæti hans framlags sé engu síðra en annarra. Leikirnir sem Stjáni hefur dæmt án endurgjalds í yngri flokka starfinu verða seint fyllilega taldir en alltaf hefur hann verið klár í slaginn þegar til hans hefur verið leitað. Hann hefur verið duglegur að mæta á leiki meistarflokkanna og missir nánast aldrei af heimaleikjum þar sem hann hjálpar til við uppsetningu og tiltekt auk þess að taka að sér að vera á kústinum í leikjum. Ekkert í starfinu er Stjána óviðkomandi og hann alltaf tilbúinn að hjálpa til. Að auki hefur Stjáni keyrt meistaraflokkana báða í ófáar keppnisferðir, hvort sem er til Ísafjarðar, Akureyrar, Egilsstaða eða Hafnar í Hornafirði í öllum tegundum af veðrum og vindum.
Fimleikadeild
Fimleikakarl: Sigurður Ari Stefánsson
Sigurður Ari eða Siggi átti glæsilegt fimleikaár. Hann varð íslandsmeistari unglinga í fjölþraut í áhaldafimleikum. Á árinu var hann einnig valinn til þátttöku í fjölmörgum erlendum verkefnum á vegum Fimleikasambands Íslands. Við óskum honum alls hins besta í framtíðinni og hlökkum til að fylgjast með honum í framtíðinni.
Fimleikakona: Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Lilja Katrín var valin í úrvalshóp unglinga og í kjölfarið á því í æfingahóp fyrir Norðurlandamót unglinga sem fram fór hér á landi í lok júní. Við óskum henni alls hins besta í framtíðinni og hlökkum til að fylgjast með henni í framtíðinni.
Frjálsíþróttadeild
Frjálsíþróttakarl ársins: Bjarni Anton Theódórsson
Bjarni Anton hefur æft frjálsar íþróttir í fjöldamörg ár. Hann hefur einbeitt sér að styttri hlaupum og keppir aðallega í 200 og 400 m hlaupum. Á þessu ári hljóp hann best 400 m á tímanum 49,69 sek sem er jafnframt besti tíminn á árinu í 400 m hlaupi. Hann var einnig í boðhlaupssveit Fjölnis á Meistaramóti Íslands í 4×400 m boðhlaupi og vann Íslandsmeistaratitil með sigri sveitarinnar.
Frjálsíþróttakona ársins: Vilhelmína Þór Óskarsdóttir (Óskar Hlynsson tók við verðlaunum fyrir hennar hönd)
Vilhelmína hefur æft frjálsar íþróttir frá unga aldri og hefur síðustu ár einbeitt sér að keppni í hlaupum. Hefur hún náð mjög góðum árangri í 60, 100, 200 og 400 m hlaupum. Hún á fimmta besta tímann á árinu í 200 og 400 m hlaupi. Vilhelmína eða Minna eins og hún er alltaf kölluð starfar sem þjálfari yngri iðkenda hjá frjálsíþróttadeildinni.
Handknattleiksdeild
Handboltakarl ársins: Óðinn Freyr Heiðmarsson
Óðinn Freyr stimplaði sig strax inn í ungt og efnilegt Fjölnislið þegar hann gekk í raðir félagsins árið 2019. Hann býr yfir mikilli baráttugleði og dugnaði ásamt því að vinnusemi hans er til fyrirmyndar bæði á æfingum og í keppnum. Hann var lykilmaður í vörn og sókn þegar liðið var hársbreidd frá sæti í efstu deild á síðustu leiktíð.
Handboltakona ársins: Þyri Erla Sigurðardóttir
Þyri Erla er uppalin í Fjölni og spilaði þar alla yngri flokka áður en hún fór að leika með meistaraflokknum. Þyri hefur gríðarlega marga kosti bæði innan vallar og utan og er frábær fyrirmynd fyrir alla iðkendur. Hún er mjög metnaðarfull og er alltaf tilbúin að leggja meira á sig til að bæta sig.
Íshokkídeild
Íshokkíkarl ársins: Martin Simanek
Með ástríðu og gleði, ásamt leiðtogahæfni hefur Martin sýnt okkur öllum að hann er mikil fyrirmynd og leikmaður með mikinn metnað fyrir íshokkídeild Fjölnis. Hann leggur sig ávallt fram og er fyrsti maður til að bjóða fram aðstoð sína.
Íshokkíkona ársins: Kolbrún Garðarsdóttir
Dugnaðarforkur og valkyrja sem berst af miklum eldmóð á ísnum en rífur upp gleðina með drengskap og gleði utan íssins.
Karatedeild
Karatekarl ársins: Gabríel Sigurður Pálmason
Gabríel er fyrirmyndar iðkandi. Einbeittur og duglegur karatemaður. Í ár hefur hann dregið heim silfurpeninga fyrir frammistöðu sína í kata á GrandPrix mótaröðinni, á Íslandsmeistaramóti unglinga og brons fyrir frammistöðu sína á RIG. Metnaður og Heilbrigði eru þau Fjölnisgildi sem Gabríel hefur staðið fyrir í starfi sínu innan karatedeildarinnar.
Karatekona ársins: Eydís Magnea Friðriksdóttir
Sem afrekskona átti Eydís frábært ár. Oftar en ekki kom hún heim með ekki einn, heldur tvo verðlaunapeninga eftir mót. Hún varð GrandPrix meistari í kata og svo bikarmeistari á Bikarmótaröð Karatesambands Íslands. Metnaður er það gildi Fjölnis sem Eydís hefur lifað í starfi sínu innan deildarinnar.
Knattspyrnudeild
Knattspyrnukarl ársins: Lúkas Logi Heimisson
Lúkas Logi Heimisson er afar fjölhæfur og sóknarþenkjandi leikmaður. Í gegnum tíðina hefur Lúkas leikið 9 landsleiki yfir yngri landslið Íslands. Þá hefur hann nú þegar spilað 52 leiki og skorað í þeim 14 mörk fyrir meistaraflokk félagsins þrátt fyrir ungan aldur. Lúkas er mikil fyrirmynd yngri leikmanna og á bjartan feril framundan sem knattspyrnumaður.
Knattspyrnukona ársins: Elvý Rut Búadóttir
Elvý Rut Búadóttir er uppalinn leikmaður hjá Fjölni. Elvý er öflugur miðvörður sem hefur verið lykilmaður í liðinu lengi en hún hefur spilað 179 leiki fyrir Fjölni og skorað 2 mörk. Hún smitar út frá sér jákvæðni og vinnusemi og er alltaf tilbúin að gefa allt sem hún á inn á vellinum. Elvý er frábær leikmaður og mikil fyrirmynd yngri leikmanna.
Körfuknattleiksdeild
Körfuboltakarl ársins: Karl Ísak Birgisson
Karl Ísak er uppalinn Fjölnismaður, mikil þriggjastigaskytta sem hefur verið burðarás í sínum aldursflokki auk þess að vera í lykilhlutverki hjá eldri árgöngum hjá Fjölni. Í vor varð hann bæði bikarmeistari og Íslandsmeistari með drengjaflokki auk þess sem hann var valinn mikilvægasti leikmaður úrslitaleiks Íslandsmótsins þá með 25 stig og 10 fráköst.
Körfuboltakona ársins: Dagný Lísa Davíðsdóttir
Dagný Lísa Davíðsdóttir var valin mikilvægasti leikmaður Subway deildar kvenna á síðasta tímabili þar sem hún leiddi Fjölni til deildarmeistaratitils, þess fyrsta hjá félaginu í boltagreinum í efstu deild. Einnig var hún valin í A-landslið Íslands á síðasta tímabili. Dagný Lísa er framúrskarandi leikmaður en ekki síður góður karakter sem nýtur virðingar liðsfélaga sem ekki er síður mikilvægt í hópíþróttum.
Listskautadeild
Listskautakona ársins: Júlía Sylvía Gunnarsdóttir
Júlía Sylvía er landsliðskona í Junior flokki. Hún hefur staðið sig vel á árinu og tekið miklum framförum. Hún stóð sig eftir væntingum í vor og keppti meðal annars á Reykjarvíkurleikunum og Norðurlandamóti í Danmörku. Á Íslandsmeistaramótinu stóð hún sig sérstaklega vel og varð Íslandsmeistari með mikilli bætingu og einu af hæstu skorum sem Íslendingur hefur náð.
Skákdeild
Skákkarl ársins: Jóhann Arnar Finnsson
Jóhann Arnar var einn af nemendum Rimaskóla sem hóf að æfa skák á sínum fyrstu grunnskólaárum. Eftir að grunnskólagöngu lauk hóf Jóhann Arnar að leiðbeina á hinum vinsælu skákæfingum Fjölnis og leiðir það starf ásamt Helga Árnasyni. Hann var m.a. í 6 manna skáksveit Fjölnis sem tefldi á EM félagsliða í Austurríki í sumar.
Skákkona ársins: Lisseth Acevedo Méndez
Liss eins og hún er alltaf kölluð er landsliðskona Íslands í skák. Hún tefldi með íslenska kvennalandsliðinu á Ólympíuskákmótinu á Indlandi nú í sumar og vann kvennaflokkinn á Alþjóðlega helgarskákmótinu í Gautaborg nú í haust. Liss er ein af fjórum konum frá Fjölni sem tilheyra landsliðshópi Íslands.
Sunddeild
Sundkarl ársins: Kristján Gylfi Þórisson
Kristján er stigahæstur sundmanna í afrekshóp og stóð sig einkar vel á árinu. Kristján hefur æft með félaginu meira og minna allan sinn feril og því er hann vel að þessum titli kominn.
Sundkona ársins: Coco Margaret Johansson
Coco er ung og efnileg sundkona og hefur æft með Fjölni síðustu 2 ár. Hún er stigahæst sundkvenna í afrekshóp og hefur staðið sig gríðarlega vel síðan hún kom til félagsins.
Tennisdeild
Tenniskona ársins: Saulé Zukauskaité
Saulé átti mjög gott ár og náði frábærum og eftirtektarverðum árangri. Þar má helst nefna sigur í einliðaleik á U14 móti í Georgíu, Íslandsmeistari í liðakeppni meistaraflokks og 1. sæti í einliðaleik á U16 Íslandsmóti utanhúss. Hún er dugnaðarforkur og mikil fyrirmynd.
Silfurmerkjahafar
Gullmerkjahafar
Jólagjafahugmyndir fyrir Fjölnisfólk!
Nú fer að líða að jólum og því sniðugt að fara huga að jólagjöfum🎄🎁 Hér eru nokkrar hugmyndir af sniðugum pökkum fyrir Fjölnisfólk 🤩 Hægt er að skoða úrvalið af fatnaði inni á https://teamsport.is/pages/fjolnir eða kíkja í heimsókn í Margt smátt á Guðríðarstíg 6-8 ☃️
Jólakúlan fæst á skrifstofu Fjölnis í Egilshöll ⭐️
Gleðileg Fjölnisjól!
FJÖLNIR X PUMA
Við kynnum stolt FJÖLNIR X PUMA!
Allar deildir í eitt merki
Vefverslunin hefur opnað og nú er hægt að versla PUMA fatnað
Hér er linkur á vefverslunina: https://teamsport.is/pages/fjolnir
Glöggir lesendur sjá líka að við höfum uppfært merkið okkar á fatnaðinum. Liturinn á merkinu er alltaf sá sami og liturinn á PUMA merkinu.
Ungmennafélagið Fjölnir er afar stolt af því að félagið í heild sinni hefur samið við Margt Smátt og mun keppa í Puma næstu 4 árin.
Við erum svo spennt að sýna glæsilega nýja PUMA fatnaðinn okkar og flottu Fjölnis-módelin sem við fengum til liðs við okkur!
#FélagiðOkkar
Myndir: Gunnar Jónatansson
Tímabundin breyting á æfingatöflu í handbolta og körfubolta
Vegna uppsetningar á áhorfendastúku í sal 2 í Fjölnishöll munu æfingatímar í handbolta og körfubolta breytast frá og með 6. september til og með 18. september. Reynt var að halda sömu tímasetningum en einhverjar æfingar færast úr Fjölnishöll í Dalhús og einhverjir flokkar æfa saman.
Töfluna má nálgast hér: 2022_Tímabundin æfingatafla fyrir handbolta og körfubolta vegna uppsetningar stúku í Fjölnishöll.xlsx
Vinsamlega hafið samband við þjálfara viðeigandi flokka fyrir nánari upplýsingar.
#FélagiðOkkar
Besta leiðin á æfingu - Strætófylgd 2022
Fjölniskrökkum í 1. og 2. bekk í Grafarvogi, Grafarholti og Úlfarsárdal býðst að fá fylgd í Strætó
frá frístundaheimili sínu á æfingar í Egilshöll sem byrja kl. 14:40 og enda kl. 15:30 mánudaga
til fimmtudaga. Fylgdin er ekki í boði fyrir æfingar sem ljúka eftir þann tíma.
Krakkarnir eru sóttir á frístundaheimilin (Ingunnar-, Hamra-, Borga- og Rimaskóli) eða á strætóstoppistöðina (Folda-, Húsa-, Sæmundar- og Dalskóli). Þeim er svo fylgt til baka að lokinni æfingu og passað upp á að þau fari út á réttri
stoppistöð.
Við hvetjum iðkendur Fjölnis sem eru að stíga sín fyrstu skref í að bjarga sér sjálf á æfingar til
þess að nýta sér fylgdina og læra í leiðinni að taka Strætó.
Skráning í fylgdina fer fram í gegnum skráningakerfi félagsins fjolnir.felog.is.
Verðskrá fyrir fylgd á haustönn:
Æfing 1x í viku: 5.000 kr
Æfing 2x í viku: 10.000 kr
Æfing 3-4x í viku: 15.000 kr.
Mjög mikilvægt er að foreldrar tilkynni starfsfólki frístundarheimilis hvaða daga barnið á að fara á æfingu.
- Skrá þarf iðkandann á haustönn og svo aftur á vorönn, haldi barnið áfram eftir
áramót. - Börn 11 ára og yngri fá frítt í strætó á höfuðborgarsvæðinu, aðrar almennar
upplýsingar um fargjöld strætó má finna inni á straeto.is - Það er ekki fylgd í boði frá Engjaskóla þar sem þau eru í göngufæri við Egilshöllina
Stundatafla fyrir æfingar sem eru í boði með fylgdinni má sjá hér neðar á síðunni. Vinsamlegast skráið barnið í fylgdina og látið frístundaheimilið vita í síðasta lagi deginum áður en æfingar hefjast.
Gott er ef foreldrar/forráðamenn nái að fara eina ferð með krökkunum í strætó til og frá frístundaheimilinu áður en þau fara í sína fyrstu fylgd.
Þau börn sem fá fylgd verða í sér búningsklefum svo að auðveldara sé að halda utan um hópana. Við verðum í búningsklefum í Fjölnishöll eins og í fyrra.
Við hvetjum foreldra barna í 3. bekk og eldri til að taka strætó á æfingar áfram!
HÉR er hægt að sjá áætlanir ferða til og frá Egilshöll
*Uppfært haust 2022
Uppfært: Strætófylgd í vetur 2021
Við verðum með fylgd í strætó fyrir 1. – 2. bekk í vetur eins og undanfarin ár frá öllum frístundarheimilum í Grafarvogi, Grafarholti og Úlfarsárdal á æfingar sem eru klukkan 14:40 – 15:30 í Egilshöll. Fylgdin hófst miðvikudaginn 1. september. Greinar sem eru í boði eru fimleikar, handbolti, knattspyrna og körfubolti.
Skráning í fylgdina fer fram á fjolnir.felog.is. Vetrargjald (1. september – 31. maí) er 7.900 kr.
Einnig þarf að upplýsa sínu frístundaheimili. Frítt er í strætó fyrir 11 ára og yngri.
Mjög mikilvægt er að foreldrar tilkynni starfsfólki frístundarheimilisins hvaða daga barnið á að fara á æfingu. Stundatafla fyrir æfingar sem eru í boði með fylgdinni má sjá hér neðar á síðunni. Vinsamlegast skráið barnið í fylgdina og látið frístundaheimilið vita í síðasta lagi deginum áður en æfingin er, ekki er nóg að tilkynna þátttöku samdægurs.
Gott er ef foreldrar hafi tök á að fara með krökkunum í strætó frá frístundarheimilinu og til baka áður en þau fara í sýna fyrstu fylgd.
Við verðum með krakkana úr fylgdinni sér í búningsklefum svo auðveldara sé að halda utan um hópana. Við verðum í búningsklefum í Fjölnishöll eins og í fyrra.
Fylgdin verður með sama sniði og fyrri ár. Ath. gerðar hafa verið smávægilegar breytingar á leiðakerfi Strætó. Krakkar sem koma úr Regnbogalandi og Kastala þurfa að labba sjálf út á stoppustöð og til baka frá stoppustöð í frístund eftir æfingar, en það er tekið á móti þeim í vagninum, þeim fylgt á æfingu og til baka aftur. Fylgdarmaður passar upp á að þau fari út á réttri stoppustöð. Sama gildir með Galdraslóð, Fjósið og Úlfabyggð. Starfsfólk frístundarheimilana hafa aðstoðað okkur með fylgdina á stoppustöðvarnar ef þau hafa tök á því. Aðrir skólar fá fylgd frá Frístundarheimilum og til baka. Á mánudögum geta iðkendur úr 7.fl. kk yngri í knattspyrnu komið í fylgdina á æfingu sem hefst kl. 15:30 en foreldrar sækja börnin í Egilshöll eftir æfingu.
Við hvetjum svo foreldra barna í 3. bekk og eldri til að kenna börnum sínum á Strætó.
Í ár er í fyrsta sinn lögð gjaldtaka á fylgdina. Þrátt fyrir styrk frá ÍBR (Íþróttabandalagi Reykjavíkur) þá er kostnaður sem fylgir þessu verkefni of mikill fyrir félagið þar sem styrkurinn nær aðeins yfir hluta kostnaðar.
Upplýsingar um leiðakerfi Fjölnis og Strætó má finna hér