Höfuðhögg
Iðkendur geta lent í því að hljóta höfuðhögg á æfingu eða í keppni. Ef grunur leikur á að iðkandi hafi fengið heilahristing skal hann hvorki halda áfram æfingu né keppni ef hann er staddur á slíkri.
Heilahristingur orsakast af áverka beint á höfuð, andlit, háls eða óbeint á aðra líkamshluta. Áverkinn veldur tímabundinni truflun á heilastarfsemi og geta einkenni varað frá nokkrum klukkustundum til nokkurra daga eða jafnvel lengur.
Einkenni
Venjulega koma einkenni heilahristings fram nokkrum mínútum eða klukkustundum eftir höfuðhögg.
Einstaka sinnum eru einkennin ekki greinanleg í nokkra daga. Þess vegna þarf að fylgjast með ef breytingar verða á líðan fyrstu dagana eftir höfuðhögg.
Helstu einkenni eru:
- Höfuðverkur sem hverfur ekki, eða minnkar ekki þrátt fyrir verkjalyfjagjöf
- Þreyta og/eða sljóleiki
- Ógleði og/eða uppköst
- Einstaklingi finnst hann utan við sig eða ringlaður
- Minnisleysi – einstaklingur man ekki hvað gerðist rétt fyrir eða eftir höfuðhöggið
- Klaufska eða ójafnvægi
- Óeðlileg hegðun – pirringur eða skapsveiflur
- Sjóntruflanir – einstaklingur sér óskýrt, er með tvísýni eða sér „stjörnur“
- Einstaklingur missir meðvitund eða á erfitt með að halda sér vakandi
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og Knattspyrnusamband Íslands unnu í samstarfi fræðslumyndbönd tengd höfuðhöggum og heilahristingi.
Hér að við hliðina má sjá eitt myndbandanna.
Hér fyrir neðan má finna fræðslu frá KSÍ og ÍBR um höfuðhögg og heilahristinga.