Fjáröflunarreglur frjálsíþróttadeildar Ungmennafélagsins Fjölnis

* Reglur þessar gilda um sameiginlega fjáröflun iðkenda á vegum frjálsíþróttadeildar

  1. Allar fjáraflanir skulu vera á því formi að ákveðin gæði komi til afhendingar gegn gjaldi þ.e. að um einhverskonar sölustarfsemi sé að ræða eða að vinna sé innt af hendi. Ef við á skulu einstaklingar við fjáraflanir vera merktir félaginu og geta gefið upplýsingar fyrir hvern og til hvaða verkefnis fjárins er aflað. Ekki er heimilt að leita beint til fyrirtækja um beinan fjárstuðning nema með samþykki stjórnar deildarinnar.
  2. Skipting fjár er á forræði frjálsíþróttadeildar og skal eins og unnt er vera merkt hverjum einstaklingi sem tekur þátt í fjáröflun fremur en um sé að ræða sameiginlegan sjóð. Stjórn skal halda yfirlit yfir fjáraflanir; tekjur og til hvaða verkefna peningum var varið.
  3. Fjáröflun skal miðast við að standa straum af beinum ferða- og dvalarkostnaði eða öðrum kostnaði einstaklinga, s.s. kaupum á æfinga- og keppnisfatnaði sem deildin stendur fyrir eða æfingagjöldum. Fjáröflun á einungis að standa straum af kostnaði vegna iðkenda sjálfra og eftir atvikum fyrir fararstjóra og þjálfara, ásamt kostnaði við þátttöku í viðburðum sem skipulagðir eru sem hluti af viðkomandi ferð. Ekki er gert ráð fyrir að þátttakendur geti með fjáröflun í nafni félagsins aflað sér fjármuna umfram beinan kostnað.
  4. Ef einstaklingur hættir æfingum gildir sú regla að það fé sem hann hefur safnað rennur í sameiginlegan sjóð deildarinnar til fjármögnunar á æfinga- eða keppnisferðum. Mögulegt er að sækja um undanþágur vegna breytinga á heilsufari eða félagslegum aðstæðum. Í þeim tilfellum er haldið eftir 20% af inneign sem hlutdeild af þjálfara og fararstjórakostnaði. Beiðni um útgreiðslu þarf að berast stjórn  frjálsíþróttadeildar sem getur hafnað beiðni eða samþykkt hana að uppfylltum þeim skilyrðum sem hún metur nauðsynleg. Í ljósi 4. gr. er meginreglan þó sú að einstaklingar geta ekki fengið endurgreitt það sem safnast hefur þótt viðkomandi hætti æfingum.

 

 

Reykjavík 10.02.2020

Stjórn Frjálsíþróttadeildar