Fræðsluefni
Stefnumótun og leiðavísir körfuboltadeildar Fjölnis 2018-2022
Inngangur
Körfuboltadeild Fjölnis byggir allt sitt starf á þessum gildum:
FAGMENNSKA – GLEÐI – VIRÐING
Hlutverk körfuboltadeildar:
„Að skapa tækifæri fyrir alla iðkendur með metnaðarfullu og faglegu starfi
þar sem árangur og gleði eru höfð að leiðarljósi!“
Framtíðarsýn körfuboltadeildar:
„Árið 2020 verður eftirsóknarvert að æfa með og starfa fyrir Fjölni, körfuboltadeild“
KÖRFUBOLTINN er stefnumótun og leiðarvísir varðandi áherslur í þjálfun körfuknattleiksdeildar Fjölnis og er ætlaður foreldrum iðkenda ásamt þjálfurum deildarinnar.
Tilgangur KÖRFUBOLTANS er stuðla að faglegu starfi innan félagsins með því að skýra og skilgreina hlutverk þeirra sem koma að starfi deildarinnar. Stefnumótunin er kaflaskipt eftir aldri iðkenda og hefur hver aldurshópur tiltekna yfirskrift:
9 ÁRA OG YNGRI; ÁHUGI
10-12 ÁRA; KEPPNI
13-16 ÁRA; METNAÐUR
17 ÁRA OG ELDRI; ÁRANGUR
Með KÖRFUBOLTANUM er mælst til að iðkendur á ákveðnum aldri, læri og kunni skil á ákveðnum grunnþáttum er varða hugarfar og hegðun. Þannig byggist sú færni iðkenda upp stig af stigi. Í byrjun er lögð áhersla á að iðkendur tileinki sér ákveðið viðhorf til íþróttastarfsins en síðan byggist ofan á þann grunn eftir því sem á líður. Iðkendur fá því verkefni við hæfi á hverju ári og með hækkandi aldri og auknum þroska eru gerðar meiri kröfur til iðkenda. KÖRFUBOLTINN er ákveðinn grunnur í þjálfun félagsins en er í raun hugsaður sem viðmið og hafa þjálfarar eftir sem áður svigrúm og frelsi til byggja ofan á KÖRFUBOLTANN í sinni þjálfun út frá eigin hugmyndum og reynslu.
Starf körfuknattleiksdeildar Fjölnis byggir einnig á eftirfarandi lykilmarkmiðum:
STOLTIR IÐKENDUR ÖFLUGUR FÉLAGSANDI FRAMÚRSKARANDI ÞJÁLFUN
Hverju lykilmarkmiði fylgja eftirfarandi mælanleg og tímasett starfsmarkmið:
STOLTIR IÐKENDUR
• Tvöfalda iðkendafjölda fyrir 1. október 2022.
• Leikmenn meistaraflokka sem spila í efstu deild haustið 2020 séu yngri iðkendum fyrirmyndir.
• Hafa a.m.k 3 foreldra í hverjum flokki í stjórnunarhlutverki fyrir 1. desember 2020.
• Fjöldi áhorfenda á heimaleikjum meistaraflokka sé að jafnaði að hálf-fylla stúkuna haustið 2020.
• Eiga lið í fyrstu tveimur sætum Íslandsmóta í öllum yngri flokkum vorið 2020.
• Eiga þátttakendur í öllum landsliðum haustið 2022.
ÖFLUGUR FÉLAGSANDI
• Aukning á sölu stuðningskorta verði um 50% ár hvert, næstu þrjú árin.
• Fjölgun sjálfboðaliða á SAM-bíó mótinu í nóvember 2020 verði um 50%.
• Tvöföldun á fjölda sjálfboðaliða körfuboltadeildar fyrir árslok 2020.
FRAMÚRSKARANDI ÞJÁLFUN
• Gefa út þjálfarahandbók fyrir árslok 2020.
• Kynna afreksstefnu deildarinnar sem þjálfarar vinna eftir fyrir lok árs 2020.
• Allir þjálfarar hafi menntun samkvæmt viðmiðum KKÍ fyrir árið 2020.
• Halda árlega tvo fundi þjálfara og stjórnar þar sem markmið og stefna eru yfirfarin.
• Halda í upphafi tímabils fund þjálfara og foreldra/iðkenda þar sem markmið vetrarins eru yfirfarin og staðfest.
• Þjálfarar skulu a.m.k annað hvert ár sækja endurmenntunarnámskeið.
9 ára og yngri; áhugi
Hjá yngstu iðkendum er mikilvægast að gera þátttöku í skipulögðu íþróttastarfi spennandi og eftirsóknarverða. Iðkendur eru sérstaklega móttækilegir fyrir nýjungum og fjölbreyttri hreyfingu. Næg tækifæri eru til að hafa jákvæð áhrif á áhuga þeirra fyrir tilteknum íþróttum og hreyfingu almennt. Því er lögð sérstök áhersla á að styrkja innri áhugahvöt iðkenda með það fyrir augum að þeir njóti ástundunarinnar, finnist skemmtilegt í íþróttum og rækti með sér djúpstæðan áhuga og ástríðu á íþróttum. Lagður er grunnur að íþróttaiðkun til framtíðar.
Skipulag:
Jafnframt því að leggja áherslu á kennslu í tækniatriðum og tækniþjálfun þá er áhersla á að gera æfingar skemmtilegar, fjölbreyttar og spennandi. Fjölbreyttar æfingar auka áhuga og ánægju af þátttökunni, auka hreyfiþroska og hreyfifærni, draga úr líkum á álagsmeiðslum sem og brottfalli úr íþróttinni.
ÞJÁLFARAR
Byggja starfið upp á því að það sé skemmtilegt iðkendur æfa af því að það er skemmtilegt og hætta að æfa af því það hættir að vera skemmtilegt.
Á þessu stigi fá flestir iðkendur sín fyrstu kynni af körfuboltaíþróttinni. Öllu máli skiptir að sú reynsla sé jákvæð og hvetjandi til framtíðarþátttöku. Hér verður gleðin að vera í fyrirrúmi.
Hafa leiki í fyrirrúmi og örva sköpun.
Skipuleggja æfingar vel, sem felur í sér að fækka “dauðum” stundum.
Hafa skemmtilega líkamlega áreynslu á æfingum líkamleg hreyfing veitir vellíðunartilfinningu.
Iðkendur kynnast einföldum grunnatriðum íþróttarinnar og öll áhersla er lögð á jákvæðni við fyrstu kynni.
Leggja áherslu á að hver og einn iðkandi sé mikið með bolta í höndunum og fái tækifæri til að spreyta sig á einföldum boltaæfingum við hæfi.
Leggja áherslu á fjölbreyttar æfingar sem stuðla að því að ná valdi á grunntækniatriðum íþróttarinnar á ánægjulegan hátt fjölbreytnin kemur í veg fyrir leiða og styrkir hreyfifærni og hreyfiþroska iðkenda.
Auka fjölbreytni með því að hafa annars konar hreyfingu í upphitun og/eða brjóta upp starfið með því að hafa öðruvísi æfingu (t.d. hlaup, sund, fimleika, sjálfsvarnaríþrótt, 1-2x á önn) – kemur í veg fyrir leiða og víkkar sjóndeildarhringinn.
Lögð áhersla á frammistöðumarkmið umfram útkomumarkmið.
Áhersla á félagsfærni, s.s kurteisi, að fylgja fyrirmælum, bera virðingu fyrir liðsfélögum og vera hluti af liðsheild.
Leggja áherslu á að börnin kynnist því að ná árangri og að þau upplifi jákvæðri styrkingu í gegnum körfuboltann.
KÖRFUKNATTLEIKSDEILDIN
Ræður þjálfara með menntun og reynslu við hæfi.
Útvegar æfingatíma, æfingabúnað og viðeigandi aðstöðu.
Styður við þjálfara og tilnefnir tengilið innan stjórnar sem veitir leiðbeiningar við úrlausnarmál þegar á þarf að halda.
Hvetur, og styður við þjálfara í endurmenntun þeirra.
Leggur áherslu á jafnrétti og sanngirni milli allra sem að starfinu koma.
IÐKENDUR
Leggja sig fram við æfingar og hlýða fyrirmælum þjálfara.
Minna sig á að liðið er alltaf mikilvægara en einstaklingurinn.
Læra hvað því fylgir að æfa íþróttir, hvað það er að vera íþróttamaður.
Sýna þjálfara og liðsfélögum kurteisi.
Tileinka sér strax stundvísi með því að mæta á réttum tíma.
FORELDRAR
Brýna fyrir börnum mikilvægi þess að sýna þjálfara og liðsfélögum kurteisi og virðingu og að kenna þeim strax mikilvægi þess að fara eftir fyrirmælum.
Styðja við þjálfarann við ögun sinna barna.
Stuðla að fjölbreyttri íþróttaiðkun eða hreyfingu barna sinna. Hvetja þau og leyfa þeim að prófa nýja hreyfingu og nýjar íþróttagreinar, sem og að stunda almennt heilbrigðan lífsstíl.
Styðja við æfingasókn og þátttöku í mótum.
Greiða æfingagjöld sem innfela m.a:
Þjálfun, aðstöðu, þátttökugjöld til KKÍ vegna móta og þátttökurétt.
Útskýra fyrir börnum sínum hugtakið liðsíþrótt, þar sem enginn einn er mikilvægari en liðið og að allir verði að leggja sig fram fyrir liðið.
Styðji liðið frekar en einstaka leikmenn, segi „áfram Fjölnir“ frekar en að hvetja áfram einstaka leikmenn.
Endurgjöf:
Endurgjöf byggist á jákvæðri styrkingu þar sem verið er að vinna að því að byggja upp áhuga iðkenda á æfingum og íþróttinni sem og sjálfstraust til að takast á við krefjandi verkefni.
ÞJÁLFARAR
Umbuna fyrir góða og jákvæða hegðun, skapa góð fordæmi.
Hrósa fyrir viðleitni en ekki einungis árangursríkar tilraunir, hrósa fyrir tilraunir að settu marki en ekki einungis fyrir tilraunir sem heppnast.
Veita virka endurgjöf, þ.e. hrósa eða gagnrýna sem fyrst eftir atburð, áhrifaríkast að endurgjöfin komi strax.
Hrósa og hvetja frekar en gagnrýna og skamma, hrós og jákvæð styrking ýtir undir ánægju iðkenda og árangur.
Gagnrýna hegðun en ekki einstaklinga, það er ekkert að einstaklingunum sjálfum heldur þarf stundum að lagfæra eitthvað í hegðun þeirra.
Leitast við að nota samlokuaðferðina þegar þarf að gagnrýna: hrós (+) gagnrýni (-) hrós (+), þegar þarf að gagnrýna er gott að byrja á jákvæðum skilaboðum, koma svo með það sem þarf að laga og enda á jákvæðan hátt til að iðkandi hafi jákvæða tilfinningu fyrir þeim skilaboðum sem komið var á framfæri. Dæmi: Það er frábært hvað þú tekur vel á. Þú þarft að gera … með þessum hætti fremur en … Með þessu áframhaldi verður þú góður leikmaður…
Hrósa fyrir tilraunir til að beita réttri tækni frekar en rétta útkomu með rangri tækni, meiri áhersla á að hvetja iðkendur til að beita réttri tækni heldur en að hrósa þeim fyrir eitthvað sem við eigum ekki að vera að kenna þeim.
KÖRFUKNATTLEIKSDEILDIN
Skapar jákvætt og hvetjandi umhverfi þar sem allir eru velkomnir og öllum líður vel, skrifstofa Fjölnis tekur vel á móti iðkendum, miðlar upplýsingum og leysir úr vandamálum sem upp kunna að koma með því að skapa farveg og ferla fyrir iðkendur og foreldra til að koma sínum athugasemdum á framfæri.
IÐKENDUR
Leggja áherslu á að koma vel fram við æfinga- og liðsfélaga sína, hvetja þá og hrósa þeim í stað þess að skamma.
Læra það smátt og smátt hvað það er að vera góður liðsfélagi og Fjölnismaður.
FORELDRAR
Styðja börnin og hvetja til þátttöku í meðlæti og mótlæti, jákvæð hvatning og styrking.
Leggja áherslu á skemmtun, vináttu og gleði, frekar en árangur.
Aðstoða börnin við að venjast hugtakinu lið.
Skynjun iðkenda:
Áhugahvöt iðkenda stjórnast mikið til af getu og færni á ákveðnu sviði og þá sérstaklega skynjun þeirra á eigin færni og að þeir séu að iðka íþróttir á eigin forsendum.
ÞJÁLFARAR
Allir iðkendur eru mikilvægir, allir verða að finna til sín til að njóta sín – allir hafa hlutverk.
Draga fram styrkleika hvers og eins, vinna með kosti hvers og eins í stað þess að áherslan sé á að koma í veg fyrir galla einstaklinga.
Meta getu iðkenda út frá þroska hvers og eins, varast að meta færni og styrkleika iðkenda út frá samanburði þar sem iðkendur geta verið á mjög mismunandi þroskastigi.
Skilja að skynjun iðkenda á eigin færni er mikilvægari en raunveruleg færni, að iðkendur telji að þeir hafi hæfileika á einhverju sviði ýtir undir áhuga þeirra og skuldbindingu.
Skapa aðstæður sem bæta skynjun iðkenda á eigin færni, að gera iðkendum betur kleift að fjölga árangursríkum tilraunum og ná settum markmiðum ýtir undir áhuga þeirra og skuldbindingu.
Hafa í heiðri að börn eiga að æfa eins og börn en ekki eins og fullorðnir – áhersla á krefjandi en raunhæf verkefni við hæfi hvers og eins.
KÖRFUKNATTLEIKSDEILDIN
Veitir góðum árangri eins og framförum og mætingu eftirtekt með t.d. umfjöllun á heimasíðu, viðurkenningum, umbun o.fl. við hæfi.
IÐKENDUR
Hugsa fyrst og fremst um að bæta eigin frammistöðu í stað þess að bera sig saman við aðra.
FORELDRAR
Leggja áherslu á styrkleika og framfarir iðkenda en síður samanburð við aðra.
Taka virkan þátt í starfi Fjölnis t.d með því að mæta á leiki, þátttöku í foreldrastarfi, stjórnum o.fl.
10-12 ára; keppni
Samkvæmt viðmiðum Körfuknattleikssambands Íslands hefst keppni hjá 10 ára börnum. Körfuknattleiksdeildin gerir allt sem í sínu valdi er til að tryggja að iðkendur fái verkefni við hæfi og getu hverju sinni. Þjálfarar kappkosta við að gefa öllum tækifæri til að vaxa og dafna.
Rammi og festa:
Áhersla er á gott skipulag og góða hegðun þar sem enginn einn er mikilvægari en liðið.
ÞJÁLFARAR
Setja skýr viðmið um mætingar og hegðun sem og afleiðingar, leggja áherslu á að farið sé eftir þeim viðmiðum.
Umbuna fyrir góða mætingu og/eða góða hegðun t.d. hrós.
Sýna gott fordæmi, mæta á tilsettum tíma, hefja æfingar og ljúka þeim á settum tíma.
Tryggir gott upplýsingastreymi tilkynnir allar breytingar með ábyrgum hætti tímanlega, s.s. ef æfingar falla niður, breytingar á æfingatímum, upplýsingar um mót, o.fl.
KÖRFUKNATTLEIKSDEILDIN
Hefur skýra stefnu og markmið um áherslur í starfinu.
Tryggir, með útgáfu handbókar, aðgengi að öllum nauðsynlegum upplýsingum – æfingatöflur sem og símanúmer ábyrgðarmanna eins og þjálfara og starfsfólks Fjölnis.
IÐKENDUR
Leggja sig fram við að mæta á allar æfingar, í starfinu felst sú skuldbinding að iðkendur mæti á æfingar.
Leitast við að mæta á réttum tíma á æfingar.
Leggja sig fram á æfingum.
FORELDRAR
Hvetja iðkanda til að mæta á allar æfingar sem og félagslega viðburði flokks og félags.
Tilkynna þjálfara ef iðkandi kemur of seint á æfingu, kemst ekki á æfingu eða á skipulagða félagslega viðburði flokks.
Greiða æfingagjöld sem innfela m.a:
Þjálfun, aðstöðu, þátttökugjöld til KKÍ vegna móta og þátttökurétt.
Virðing:
Áhersla er á að virðingu fyrir sjálfum sér og öðru fólki, félaginu og aðstöðu.
ÞJÁLFARAR
Allir iðkendur eru jafnir í augum þjálfarans, allir fá leiðsögn og hvatningu og það gilda sömu reglur og viðmið fyrir alla.
Sýna ávallt virðingu fyrir öðrum iðkendum, starfsfólki, foreldrum, dómurum, andstæðingum og félaginu sjálfu.
Eru í æfingafatnaði félagsins á æfingum, leggja sig fram við að vera í hreinum og snyrtilegum æfingafatnaði.
Stýra umgengni iðkenda láta iðkendur ganga frá eftir sig hlutum eins og búnaði, boltum, stólum, rusli, o.fl.
Sýna gott fordæmi í háttsemi og umgengni.
Hjálpa iðkendum að setja sig í spor annarra.
Standa með félaginu og starfi þess, ef einhverju er ábótavant í starfinu ber að taka það upp við stjórnendur deildarinnar en ekki iðkendur.
KÖRFUKNATTLEIKSDEILDIN
Starfsfólk sýnir þjálfurum, iðkendum og foreldrum virðingu í daglegu starfi.
Leggur drög að dagskrá foreldrafunda og þjálfara í hverjum flokki fyrir sig.
Gerir drög að samskiptasamningi fyrir iðkendur og þjálfara.
Liðshugtakið er deildinni efst í huga.
IÐKENDUR
Bera virðingu fyrir öllum í kringum sig; liðsfélögum, þjálfurum, dómurum, andstæðingum, foreldrum og starfsfólki.
Ganga frá eftir sig, skilja við íþróttasal, áhaldageymslu, búningsklefa og fleira eins og þeir komu að
aðstöðunni.
Gera samskiptasamning sem byggir á virðingu fyrir hver öðrum.
Tilkynna þjálfara eða foreldrum um einelti eða önnur mál sem upp kunna að koma.
FORELDRAR
Sýna gott fordæmi, tala ekki illa um þjálfara, iðkendur, andstæðinga eða dómara í viðurvist iðkenda.
Standa með félaginu og starfi þess, ef einhverju er ábótavant í starfinu ber að taka það upp við þjálfara eða starfsfólk en ekki iðkendur.
Hvetja alla iðkendur jafnt í keppni, ekki eingöngu eigin börn.
Vinátta:
Félagslegt athæfi utan æfinga- og íþróttatíma eykur samheldni og ánægju iðkenda auk þess að draga úr líkum á ótímabæru brottfalli úr íþróttum.
ÞJÁLFARAR
Styðja við foreldra og hvetja þá til að standa markvisst fyrir félagslegu athæfi í stað æfinga t.d. hjólatúr, keilu, sundferðum o.fl.
Leggja mikla áherslu á aga og góða hegðun, taka strax og vel á agavandamálum.
Áhersla á að iðkendur fái að njóta sín og að agavandamál annarra iðkenda skemmi ekki fyrir upplifuninni.
Gefa iðkendum kost á að velja hvað á að gera hverju sinni, t.d. hægt að leita eftir hugmyndum iðkenda með nafnleynd til að allir taki þátt en ekki einungis þeir sem ráða ríkjum í flokkunum.
Koma með hugmyndir og ábendingar varðandi framkvæmd, mynda ramma utan um félagslegt athæfi.
KÖRFUKNATTLEIKSDEILDIN
Býður upp á aðstöðu til félagslegs athæfis t.d. með samningum við tiltæka aðila eins og kvikmyndahús, keilusal, sundlaugar o.fl.
Leitast við að bjóða upp á athæfi sem tengist jákvæðum og heilbrigðum lífsstíl.
IÐKENDUR
Leggja sig fram um að mæta og taka þátt í félagsstarfi.
Sýna frumkvæði og taka þátt í ákvarðanatöku, óhræddir við að koma fram með hugmyndir.
Það eru allir með, engir skildir útundan.
FORELDRAR
Taka þátt í slíku starfi bjóða fram aðstoð sína.
Kynnast öðrum þátttakendum en eigin börnum og helstu vinum þeirra sem og foreldrum.
Eru jákvæðir og hvetjandi í félagsstarfinu, ekki einungis gagnvart íþróttalegum árangri.
Sýna frumkvæði, koma fram með hugmyndir til þjálfara, deildarinnar eða iðkenda og benda á leiðir til framkvæmda og koma að framkvæmd ýmissa verkefna í samvinnu við deildina og/eða þjálfara.
Sjálfstraust:
Áhersla er á að skapa umhverfi þar sem iðkendur eru óhræddir við að leggja sig fram, takast á við áskoranir og gera mistök.
Til þess að iðkendur verði óhræddir við að gera mistök þá þarf að leiðbeina þeim um hvað þarf að bæta, benda á mistökin og hvernig hægt er að gera betur. Þannig geti viðkomandi lært af mistökunum og gert betur síðar.
Hrós og viðurkenning eflir sjálfstraust.
ÞJÁLFARAR
Byggja á því að allir geta náð árangri og allir verða að finna til sín, skynjun einstaklinga er mikilvæg.
Leggja áherslu á framfarir þar sem allir geta bætt sig og eru óhræddir við að gera mistök.
Miða árangur einstaklinga út frá þeim sjálfum þar sem áhersla er á framfarir hvers og eins, einstaklingsmiðaður árangur.
Veita jákvæða og hvetjandi endurgjöf, hvetja iðkendur til að miða alltaf að því að bæta sig og takast á við nýjar áskoranir.
Setja upp áskoranir og markmið sem iðkendur geta náð ef þeir leggja sig fram.
Líta á mistök sem skref í átt að árangri, tala frekar um tilraunir heldur en mistök.
Byggja á því að árangur og framfarir eiga sér stað vegna stjórnanlegra þátta eins og ástundunar, viðhorfs og vinnusemi en ekki vegna heppni eða meðfæddra hæfileika.
KÖRFUKNATTLEIKSDEILDIN
Býr til árangurshvetjandi umhverfi, sýnir áhuga og veitir flokkum og einstaklingum stuðning og aðhald.
Setur upp viðmið um mismunandi tegundir árangurs eins og sigra, framfarir, ástundun, háttvísi, o.fl.
Gerir vel við flokka og einstaklinga sem ná árangri í víðum skilningi þess orðs, eins og framförum og/eða viðhorfum, t.d. með umfjöllun á heimasíðu.
IÐKENDUR
Eru óhræddir að ráðast í krefjandi verkefni en verkefnin verða að vera raunhæf.
Eru óhræddir við að gera mistök – gera sér grein fyrir því að þau eru eðlilegur þáttur á leið að árangri.
FORELDRAR
Veita jákvæða og hvetjandi endurgjöf, áhersla á framfarir og bætingu.
Styðja við ákvarðanir þjálfara um leikskipulag og liðsval hverju sinni.
13-16 ára; metnaður
Á unglingsárunum standa einstaklingum ýmsir valkostir til boða. Lagt er upp með að styrkja innri metnað þeirra gagnvart íþróttaiðkuninni sem leiðir til meiri aga, skuldbindingar og betri árangurs í því sem þeir taka sér fyrir hendur. Árangur í íþróttum sem og öðru í lífinu næst aðeins með því að leggja sig verulega vel fram.
Fjölnir leggur áherslu á að allir árgangar eigi lið í fremstu röð eða í A-riðli. Starfið í heild mótast og byggist upp á þeim metnaði, sigurhefð.
Skuldbinding:
Áhersla er á að kenna iðkendum að árangur næst aðeins með því að leggja sig fram í því sem maður tekur sér fyrir hendur. Að vera hluti af liði felur í sér skuldbindingu sem felur í sér m.a. eftirfarandi:
Að leggja á sig alla þá vinnu sem liðinu er falið að sinna.
Að vinna að markmiði liðsins hverju sinni samhliða eigin markmiðum.
Meðvitund um að enginn einn er mikilvægari en liðið.
Standa með liðsfélögum í gegnum súrt og sætt.
Skoðanir og áherslur þjálfarans eru alltaf ríkjandi, sama hvað öðrum finnst, iðkendum, foreldrum eða öðrum utanaðkomandi aðilum.
ÞJÁLFARAR
Setja fram markmið liðsins/liðanna fyrir veturinn í heild og koma þeim skýrt á framfæri við iðkendur.
Auka skilning iðkenda á að árangur krefst aga, ástundunar og fórna.
Leggja áherslu á að iðkendur skuldbindi sig til að taka þátt í starfinu af heilum hug.
Leggja áherslu á að allir leggi sig fram á öllum æfingum.
Leggja áherslu á að iðkendur mæti á allar æfingar sem og á aðra viðburði sem við koma starfinu.
Stuðla að markmiðssetningu einstaklinga, langtímamarkmiða og skammtímamarkmiða.
Gera íþróttatengd markmið eftirsóknarverð – að iðkendur geri sér grein fyrir þeirri lífsfyllingu, stolti og sjálfstrausti sem næst í kjölfar árangurs sem skapast af aga og skuldbindingu.
Leggja áherslu á að iðkendur nálgist áskoranir alltaf af áræðni og óttaleysi.
Setja iðkendur ekki í aðstæður sem þeir treysta sér ekki í.
Erum í þessu til að vinna! Sumir sigrar eru liðsins og sumir eru persónulegir.
FÉLAGIÐ
Virkjar iðkendur og foreldra í starfi félagsins í dómgæslu, tiltekt, við félagslega viðburði o.fl.
Stendur fyrir fræðslu um markmið, hamingju og árangur.
IÐKENDUR
Leggja sig fram við að mæta á allar æfingar.
Eru reiðubúnir að „fórna“ öðru til að æfa og bæta sig í íþróttum.
Setja sér markmið í íþróttum sem og í öðru, gott að skrifa markmiðin niður.
FORELDRAR
Leggja áherslu á að iðkendur stundi íþróttir og sín áhugamál af samviskusemi.
Eru til staðar til stuðnings og hvatningar.
Leggja sig fram um að vera til fyrirmyndar þegar liðið er í keppni, gagnvart dómurum, framkvæmdaraðilum móta og öðrum áhorfendum auk þess að hvetja liðið en ekki einungis eigin börn.
Greiða æfingagjöld sem innfela m.a:
Þjálfun, aðstöðu, þátttökugjöld til KKÍ vegna móta og þátttökurétt.
Virða og nota þær samskiptaleiðir sem þjálfari og félagið býður uppá.
Vanda sig í samskiptum er varða liðið á samskiptamiðlum.
Virða rétt þjálfara til að velja lið (A,B,C o.s.frv.), leikstíl sem og að stýra æfingum, agamálum liðsins og öðrum verkefnum sem eru á ábyrgð þjálfara.
Taka að sér verkefni fyrir félagið.
Leiðtogafærni:
Áhersla er á að skapa umhverfi þar sem einstaklingar eru hvattir til að stíga fram, tjá sig og taka ábyrgð.
ÞJÁLFARAR
Láta iðkendur stjórna upphitun/teygjum á æfingum og í keppni.
Láta iðkendur skipuleggja og stjórna æfingum til að venjast stjórnun, ábyrgð og að auka skilning þeirra á íþróttinni sem og starfinu í heild sinni (t.d. er hægt að skipta hópnum upp og láta þrjá iðkendur stjórna æfingu 1x í mánuði).
Láta iðkendur skipuleggja/stjórna fundum og félagslegu athæfi.
Hafa skýr viðmið um hlutverk fyrirliða/leiðtoga hópa og liða, skipta reglulega um fyrirliða og leiðtoga til að sem flestir sem fái tækifæri til að reyna sig.
Ýta undir ábyrgð og hlutverk öflugra einstaklinga, vinna sérstaklega með þá þar sem þeir geta smitað hópinn af jákvæðum viðhorfum, gildum og vinnubrögðum.
KÖRFUKNATTLEIKSDEILDIN
Virkjar iðkendur í þágu félagsins, þeir geta komið með hugmyndir um hvað megi bæta í starfinu (t.d. ungmennaþing), eða að taka að sér verkefni eins og tónlistarstjórnun, kynningar, o.fl. á keppnum.
IÐKENDUR
Sýna frumkvæði og ábyrgð, sækja í að taka ákvarðanir.
Gera sér grein fyrir hvað þeir vilja koma þeim skilaboðum á framfæri.
Skilgreina sína sigra og efla sig með markmiðasetningu.
FORELDRAR
Hvetja iðkendur til að sýna frumkvæði og taka ábyrgð í íþróttum og félagsstarfi.
Leggja sig fram um að vera til fyrirmyndar.
Lífsstíll:
Áhersla er á heilbrigðan lífsstíl sem forsendu vellíðunar og árangurs.
ÞJÁLFARAR
Eru jákvæðar og heilbrigðar fyrirmyndir er varðar háttvísi, skuldbindingu, mataræði, vímuefna- og tóbaksnotkun, snyrtimennsku og almenna hegðun.
Gera iðkendum grein fyrir mikilvægi heilbrigðs lífsstíls fyrir árangur í íþróttum og almenna líðan.
Setja viðmið um æskilegan lífsstíl, mögulega með þátttöku iðkenda.
KÖRFUKNATTLEIKSDEILDIN
Bannar tóbaks- og vímuefnanotkun í kringum iðkendur félagsins.
Fræðir iðkendur um næringu og mataræði, sem og skaðsemi vímuefna og tóbaks, t.d. með heimsóknum afreksfólks og fyrirmynda.
IÐKENDUR
Leitast við að tileinka sér hollt og fjölbreytt mataræði, frekar að borða margar litlar máltíðir á dag heldur en fáar og stórar.
Æfa vel og leggja sig fram en gera sér grein fyrir mikilvægi hvíldarinnar, læra að hlusta á líkamann og fara t.d. fyrr að sofa þegar þeir eru þreyttir eða mikið stendur til daginn eftir.
Sýna metnað og sjálfstraust með því að nota ekki vímuefni, tóbak, rafrettur, vape og önnur örvandi efni.
FORELDRAR
Bjóða upp á hollan og fjölbreyttan mat, senda börn sín með hollt nesti þegar við á.
17 ára og eldri; árangur
Á þessu stigi er lögð sérstök áhersla á að virkja alla þá þætti sem búið er að fara í gegnum fram til þessa með það fyrir augum að ná árangri í víðum skilningi þess orðs. Árangur felst ekki eingöngu í því að ná góðum úrslitum í keppni heldur einnig í því að iðkendur standi sig almennt vel í þeim verkefnum sem þeir standa frammi fyrir eins og námi, vinnu og í samskiptum.
Seigla er sá eiginleiki sem af fræðimönnum er talinn einn sá mikilvægasti fyrir unga og aldna. Seigla byggir á framsýni, markmiðasetningu, langtímaáætlunum og úthaldi.
Fjölnismenn þjálfa með sér seiglu!
Andlegur styrkur:
Áhersla er á að iðkendur standi sig vel þrátt fyrir ágjöf og sýni seiglu í leið að árangri.
ÞJÁLFARAR
Hvetja og styrkja á jákvæðan hátt, eru almennt hvetjandi og hafa trú á að iðkendur geti náð árangri og gert góða hluti.
Setja upp áskoranir fyrir iðkendur þar sem þeir þurfa sífellt að taka á öllu sem þeir eiga.
Gera iðkendum grein fyrir að mótlæti er eðlilegur þáttur í lífsins verkefnum, hvernig við bregðumst við mótlæti er það sem mótar karakter okkar og ákvarðar hvaða árangri við náum.
Gera iðkendum stundum viljandi erfitt fyrir, setja þá t.d. í stöðu á æfingum sem virkilega reynir á sjálfsstjórn og hugarfar þeirra, eins og t.d. að dæma meðvitað á móti þeim þó ósanngjarnt sé.
Skipuleggja æfingar þannig að þær reyni mikið á andlega hlið iðkenda, þær eiga jafnvel að vera erfiðari en keppnir.
Vinna með viðbrögðin, kenna hvaða leiðir eru árangursríkastar við að bregðast við mótlæti, t.d. að brjóta verkefnið niður í lítil markmið.
Styrkja rétt viðbrögð með verðlaunum/hrósi, viðbrögð eins og seiglu, að gefast ekki upp og hætta aldrei þó íþróttalegur árangur (úrslit) hafi ekki verið þeim að skapi.
KÖRFUKNATTLEIKSDEILDIN
Veitir iðkendum sem standa sig vel tækifæri til að takast á við nýjar áskoranir, til dæmis að tveir iðkendur í mánuði fái tækifæri til að æfa með eldri flokki sem verðlaun fyrir vel unnin verk.
IÐKENDUR
Sýna góðan karakter með því leggja sig alltaf fram og hætta aldrei.
Gera sér grein fyrir að mótlæti er eðlilegur hlutur í lífinu en með seiglu þá er hægt að sigrast á mótlæti. Það eykur sjálfstraust og gerir viðkomandi kleift að ná miklum árangri í því sem að höndum ber.
FORELDRAR
Hvetja og styrkja á jákvæðan hátt.
Eru til staðar, sérstaklega þegar á móti blæs.
Styðja með greiðslu æfingagjalda sem innfela m.a:
Þjálfun, aðstöðu, þátttökugjöld til KKÍ vegna móta og þátttökurétt.
Sjálfstæði:
Áhersla er á að iðkendur séu sínir eigin þjálfarar og öðlist aukinn styrk og sýn á árangur í víðara samhengi.
ÞJÁLFARAR
Hvetja iðkendur til að leggja meira á sig með aukaæfingum, skuldbindingu og heilbrigðum lífsstíl.
Eru iðkendum innan handar varðandi aukaæfingar og lífsstíl – gefa iðkendum góð ráð og leggja til æfingaáætlanir, sértækar æfingar, markmiðasetningu, lesefni, fræðslu, o.fl.
KÖRFUKNATTLEIKSDEILDIN
Býður iðkendum upp á að nýta aðstöðu þegar færi gefst, tilkynnir t.d. lausa tíma eða þegar svigrúm myndast t.d markvissar morgunæfingar.
Býður iðkendum upp á aðstöðu til stoðæfinga, styrktaræfinga, fyrir teygjur, o.fl.
IÐKENDUR
Æfa sjálfir aukalega; þeir eru að hluta til eigin þjálfarar.
Æfa markvissa þætti, t.d. ákveðin tækniatriði, styrk o.fl.
Setja sér einstaklingsbundin markmið og leiðir til að ná þeim.
FORELDRAR
Hvetja og styrkja á jákvæðan hátt.
Eru til staðar, sérstaklega þegar á móti blæs.
Virða rétt þjálfara til ákvörðunartöku á þeim þáttum er snúa að þjálfun og keppni.
Halda skoðunum sínum um liðs- og leikskipulag fyrir sig.
Sigurvegarar:
Áhersla er á að iðkendur tileinki sér hugarfar sigurvegarans í öllu sem þeir taka sér fyrir hendur.
ÞJÁLFARAR
Miðla til iðkenda áherslu á að sigrar og árangur byggja á stjórnanlegum innri þáttum eins og vilja, viðhorfi og vinnusemi.
Kenna spennu- og streitustjórnun, benda iðkendum á leiðir til að stilla spennustig og auka þannig líkur á góðum árangri.
Gera iðkendum kleift að njóta þess að keppa, það á fyrst og fremst að vera skemmtilegt.
Kenna iðkendum listina að kunna að vinna, að njóta þess að fagna sigri án þess að gera lítið úr andstæðingum og gera sér grein fyrir að á morgun er nýr dagur.
Leggja áherslu á viðhorf og frammistöðu iðkenda frekar en sigra og ósigra, iðkendur geta lagt sig alla fram og tapað eða lagt sig ekki fram og sigrað.
KÖRFUKNATTLEIKSDEILDIN
Gerir vel við metnaðarfulla afreksmenn félagsins.
IÐKENDUR
Leggja sig alltaf fram á æfingum og í keppni við að sigra, vilja vinna og hata að tapa.
Einbeita sér að verkefninu sem framundan er, það er líklegra til árangurs heldur en að einblína á stöðu og úrslit.
Einbeita sér að stjórnanlegum þáttum, eigin undirbúningi fyrir keppni og frammistöðu en ekki dómgæslu, öðrum keppendum, áhorfendum eða öðru.
FORELDRAR
Leggja áherslu á viðhorf og frammistöðu frekar en sigra og ósigra.