Borche Ilievski framlengir í Grafarvogi

Borche Ilievski hefur skrifað undir nýjan samning við körfuknattleiksdeild Fjölnis og mun hann þjálfa meistaraflokk karla hjá félaginu til ársins 2026. Borche hefur stýrt meistaraflokk Fjölnis ásamt yngri flokkum félagsins frá 2022. Borche hefur þjálfað lengi á Íslandi en hann byrjaði á Ísafirði og kom Vestra upp í efstu deild á sínum tíma. Einnig hefur hann þjálfað meistaraflokka Tindastóls, Breiðabliks og ÍR ásamt því að vera yngri flokka þjálfari hjá þessum félögum sem og KR áður en hann gekk til liðs við Fjölni í fyrra.

Borche segist hlakka til næstu ára hjá Fjölni og er spenntur fyrir næsta tímabili: ,,Við erum með góðan leikmannahóp af ungum strákum sem eru í lokahópum yngri landsliðana og við munum halda áfram að byggja upp sterkt og samheldið lið sem mun ná góðum árangri á næstu árum,“ sagði þjálfarinn þegar hann skrifaði undir á dögunum.

Samhliða þjálfun meistaraflokks mun Borche þjálfa yngri flokka Fjölnis. ,,Hafin er vinna við að betrumbæta umgjörðina í Grafarvoginum. Ég er ánægður með þróun mála sem mun á endanum skila sér inn á vellinum,“ bætti Borche við.

Með framlengingu á samningi Borche er verið að tryggja stöðuleika í þjálfunarmálum í Fjölni en félagið er lagt af stað í ákveðinna vegferð á körfuboltastarfsemi Grafarvogs. Með því að endurvekja barna-og unglingaráð, ráðningu yfirþjálfara, styrktarþjálfara og menntuðum þjálfurum í yngri flokkum félagsins er félagið að ráðast í metnaðarfulla uppbyggingu í öllu starfi klúbbsins. Takmarkið er að Fjölnir verði eftirsóknarverkt félag til að spila fyrir.

Salvör Þóra Davíðsdóttir og Borche Ilievski eftir að sá síðarnefndi skrifaði undir á dögunum

Tilkynning um lok strætófylgdar

Sú ákvörðun hefur verið tekin að hætta með fylgd á æfingar í haust. Undanfarin 6 ár höfum við fylgt börnum í 1. og 2. bekk til og frá æfingum með Strætó.

Margir þættir höfðu áhrif á þessa ákvörðun, þar með talið hefur ekki tekist að tryggja nægt fjármagn. Verkefnið hefur aldrei verið gallalaust en síðastliðinn vetur komu upp nokkur mál sem vöktu okkur alvarlega til umhugsunar um öryggi barna sem eru í fylgdinni og teljum við það óásættanlegt að geta ekki tryggt öryggi þeirra í okkar umsjá.

Við viljum þakka Strætó, frístundaheimilunum hverfisins og annarra samstarfsaðila fyrir gott samstarf síðustu ár og við kveðjum þetta verkefni með miklum trega því upphaflega var markmiðið að stytta vinnudag barnanna og auka samverustundir fjölskyldunnar. Fylgdin kenndi iðkendum okkar að taka strætó á æfingar sem er gott veganesti inn í framtíðina og vonandi jók sjálfstæði þeirra.

Vinna er hafin við það að stilla upp æfingatímum fyrir þennan aldur og er það gert í samráði við yfirþjálfara og verkefnastjóra deildanna.