Katrín Tinna og Bjarni Anton íþróttafólk frjálsíþróttadeildar 2020

Val á íþróttafólki Fjölnis fór fram 17. des sl. Að þessu sinni voru Katrín Tinna Pétursdóttir og Bjarni Anton Theódórsson valin íþróttafólk frjálsíþróttadeildarinnar:

Íþróttakona: Katrín Tinna Pétursdóttir

Katrín Tinna er 17 ára gömul frjálsíþróttakona sem hefur æft frjálsar íþróttir í nokkur ár. Hún hefur náð góðum árangri í hástökki og langstökki og einnig spretthlaupum. Hún náði að stökkva yfir 1,71m í hástökki á Stórmóti ÍR í janúar sem er glæsilegur árangur. Gefur það 936 IAAF stig. Þessi árangur setur hana í 3. sæti á listanum yfir besta árangur í hástökki á Íslandi árið 2020.

Íþróttakarl: Bjarni Anton Theódórsson

Bjarni Anton er 22 ára gamall og hefur æft frjálsar íþróttir í mörg ár. Hann hefur aðallega einbeitt sér að styttri hlaupum og keppir í 100, 200 og 400 m hlaupum og náð mjög góðum árangri. Á þessu ári hljóp hann best 400m á tímanum 50,70 sek í Bikarkeppni FRÍ í mars. Gefur það 877 IAAF stig sem er frábær árangur. Þessi árangur setur hann í annað sæti á listann yfir bestu afrek í 400m hlaupi innanhúss á þessu ári. Þess má geta að Bjarni Anton tekur þátt í þjálfun yngri iðkenda deildarinnar og nýtur mikilla vinsælda hjá þeim og er góð fyrirmynd.


Óskar fær hvatningarverðlaun unglingaþjálfara

Uppskeruhátíð FRÍ var með óhefðbundnum hætti að þessu sinni vegna Covid. Veittar voru þar ýmsar viðurkenningar. Óskar Hlynsson yfirþjálfari hjá frjálsíþróttadeild Fjölnis fékk hvatningaverðlaun unglingaþjálfara. Óskar hefur haldið úti flottu starfi hjá Fjölni í fleiri ár og hefur myndað þar góðan hóp efnilegra frjálsíþróttaungmenna. Hann er mikil fyrirmynd, er hvetjandi og hefur verið duglegur við það að aðstoða FRÍ í ýmsum verkefnum. Deildin óskar honum til hamingju með verðlaunin. Sjá nánar frétt á síðu FRÍ hér.