Sumargleði á sumarskákmóti Fjölnis

Vignir Vatnar Stefánsson stigahæsti skákmaður Íslands 20 ára og yngri sigraði alla sína andstæðinga á Sumarskákmóti Fjölnis sem fram fór í hátíðarsal Rimaskóla. Batel Haile Goitom varð efst stúlkna og Markús Orri Jóhannsson efstur í yngri flokki. Vignir Vatnar sem kemur frá Hörðuvallaskóla í Kópavogi hefur allan sinn grunnskólaferil verið tíður gestur á skákmótum Fjölnis og ekki síður sigursæll. Það mættu alls 56 grunnskólakrakkar á þetta glæsilega mót, um helmingur úr grunnskólum Grafarvogs. Meðal verðlaunahafa úr Grafarvogi voru þeir Arnar Gauti Bjarkason Vættaskóla, Eiríkur Emil Hákonarson Húsaskóla, Jón Bjarni Margrétarson Hamraskóla og Rimaskóladrengirnir Joshua Davíðsson, Arnór Gunlaugsson og Arnar Gauti Helgason.

Rótarýklúbbur Grafarvogs gaf alla verðlaunabikara mótsins líkt og áður.

Sumarskákmótið var vel sótt að venju og hart barist um 20 efstu sætin sem gáfu áhugaverða vinninga frá Dominos, SAMbíóunum og 66° N. Skákmótið gekk afar vel fyrir sig enda flestir þátttakendurnir með reynslu af grunnskólamótum vetrarins. Teflt var í rúmgóðum hátíðarsal Rimaskóla en á milli umferða nýttu krakkarnir sér að leika í fjölbreyttum leiktækjum félagsmiðstöðvarinnar og skemmtu sér vel. Skákstjórar voru þeir Helgi Árnason formaður skákdeildar Fjölnis og Páll Sigurðsson.

Auk 20 vinninga var boðið upp á happdrætti þar sem 10 vinningar bættust við. Vinningslíkurnar því 50% sem gerist vart betra.

 

Mynd 1:  Í hópi verðlaunahafa á Sumarskákmóti Fjölnis; Batel 1. sæti stúlkna og Arnar Gauti 2. sæti í yngri flokk

Mynd 2:  Þau unnu Rótarýbikarana: Batel, Markús Orri og Vignir Vatnar ásamt Helga Árnasyni formanni skákdeildar Fjölnis

Mynd 3:  Um 20 stúlkur tóku þátt í mótinu og gáfu strákunum ekkert eftir


Skákdeildin verðlaunaði Joshua og Aron Örn

Á sumarskákmóti Fjölnis 2019 var kunngjört hverjir hlytu nafnbótina „Afreksmeistari Fjölnis“ og „Æfingameistari Fjölnis“ tímabilið 2018 – 2019.

Fyrir valinu að þessu sinni urðu þeir Joshua Davíðsson afreksmeistari og Aron Örn Scheving Hlynsson æfingameistari.

Joshua tefldi á 1. borði skáksveit Rimaskóla sem náði 2. sæti á Íslandsmóti grunnskólasveita 2019 og hann varð í 2. sæti í flokki 1600 ELÓ á alþjóðlegu skákmóti í Västerås í Svíþjóð svo að eitthvað sé nefnt af skákafrekum hans í vetur.

Aron Örn teflir einnig með skáksveitum Rimaskóla og er í hópi afar efnilegra 5. bekkinga sem mæta nánast á allar skákæfingar og skákmót sem í boði eru.


Óskar Dagur keppir á móti í Stokkhólmi

Óskar Dagur Jónasson leikmaður 4.flokks var valinn í Reykjavíkurúrvalið til að keppa fyrir Íslands hönd á grunnskólamóti höfuðborga Norðurlandanna.

Hann er fulltrúi Fjölnis og Grafarvogs á þessu móti.

Grunnskólamót höfuðborga Norðurlandanna 2019 fer fram í Stokkhólmi dagana 20.-24.maí. Mótið hefur verið haldið árlega frá árinu 1948 fyrir utan eitt ár og hefur lið frá Reykjavík tekið þátt síðan 2006.

Nánari upplýsingar má nálgast HÉR!