Íslandsmót 2018

Um helgina var haldið Íslandsmót barna og unglinga ásamt Íslandsmeistaramóti í Egilshöllinni. Mótið var allt hið glæsilegasta. Á laugardeginum hófst keppni hjá keppnisflokkum Chicks og Cubs. Þessir ungu og efnilegu skautarar stóðu sig mjög vel og var öllum keppendum veitt viðurkenning að keppni lokinni. Næst var keppt í flokki Basic Novice.

Mjótt var á milli tveggja efstu þar sem Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir úr SA vann með 26.71 stig, í öðru sæti var Kristín Jökulsdóttir frá SR með 26.43 stig og í þriðja sæti var Rakel Sara Kristinsdóttir úr Fjölni með 20.43 stig. Í Keppnisflokki Intermediate Novice voru það tvær Fjölnisstúlkur sem voru í efstu sætunum þar sem Valdís María Sigurðardóttir var í fyrsta sæti með 24.33 stig, í öðru sæti var Harpa Karin Hermannsdóttir með 24.18 stig og í þriðja sæti var Ólöf Thelma Arnþórsdóttir úr SR með 23.41 stig.

Á laugardeginum lauk einnig keppni í flokknum Intermediate Ladies. Þar stóð Berglind Óðinsdóttir úr Fjölni sem sigurvegari með 36.66 stig, Elísabet Ingibjörg Sævarsdóttir úr SA var í öðru sæti með 34.41 stig og Sólbrún Víkingsdóttir úr Fjölni var í þriðja sæti með 32.19 stig.

Keppendur í flokkum Advanced Novice, Junior og Senior skautuðu stutta prógramið sitt í lok laugardagsins. Þessir keppendur komu svo aftur og kepptu í frjálsa prógraminu á sunnudeginum. Að keppni lokinni var það Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir úr SA sem stóð uppi sem Íslandsmeistari í keppnisflokki Advanced Novice með hvorki meira né minna en 106.07 stig samanlagt úr báðum prógrömum, aldeilis frábær árangur hjá henni. Í öðru sæti var Rebekka Rós Ómarsdóttir úr SR með 74.64 stig og Herdís Heiða Jing Guðjohnsen úr SR í þriðja sæti með 74.21 stig. Íslandsmeistari í keppnisflokki Junior var Marta María Jóhannsdóttir úr SA með samanlagt 103.10 stig, í öðru sæti var Aldís Kara Bergsdóttir úr SA með 100.51 stig og í þriðja sæti var Viktoría Lind Björnsdóttir með 91.71 stig.

Íslandsmeistari í keppnisflokki Senior var Margrét Sól Torfadóttir úr SR með samanlagt 102.25 stig og í öðru sæti var Eva Dögg Sæmundsdóttir úr Fjölni með 86.97 stig. Óskum við þeim ásamt öllum keppendum mótsins til hamingju með frammistöðu sína um helgina.


Aðventumót Ármanns

Árlega aðventumót Ármanns var haldið nú um helgina. Á mótinu var keppt í 4., 5., og 6. þrepi í áhaldafimleikum. Mótið var ótrúlega vel heppnað og skemmtilegt og áttu Fjölniskrakkar frábæra keppni.
Við erum stolt af okkar iðkendum og þjálfurum, til hamingju öll.