Sigurpáll Melberg framlengir við Fjölni

Sigurpáll Melberg Pálsson hefur framlengt samningi sínum við knattspyrnudeild Fjölnis til ársins 2022. Sigurpáll er öflugur varnarmaður með mikla reynslu en hann hefur leikið 121 leik og skorkað 5 mörk.

Þetta eru mikil gleðitíðindi en Sigurpáll hefur staðið sig vel síðan hann kom til liðs við Fjölni fyrir tímabilið 2018 og verið einn af lykilleikmönnum liðsins undanfarin tvö ár. Knattspyrnudeild Fjölnis óskar Sigurpáli til hamingju og væntir mikils af honum.

#FélagiðOkkar


Sigurjón Daði framlengir við knattspyrnudeild Fjölnis!

Sigurjón Daði framlengir við knattspyrnudeild Fjölnis!

Sigurjón Daði Harðarson, markvörður, hefur framlengt samningi sínum við Fjölni út keppnistímabilið 2023.

Þetta eru góðar fréttir en Sigurjón er uppalinn Fjölnismaður, sem kemur úr hinum sterka 2001 árgangi félagsins. Sigurjón hefur leikið samtals 17 landsleiki með yngri landsliðum Íslands.

Við óskum Sigurjóni til hamingju og hlökkum til að fylgjast með honum í framtíðinni.

#FélagiðOkkar


Lúkas Logi skrifar undir þriggja ára samning

Það er ánægjulegt að tilkynna í dag gekk knattspyrnudeildin frá þriggja ára samningi við Lúkas Loga Heimisson (f. 2003).

Lúkas er einn af okkar efnilegustu leikmönnum sem kemur upp úr yngri flokka starfi Fjölnis. Hann hefur spilað 7 leiki með meistaraflokki karla í deild og bikar á þessari leiktíð auk þess hefur hann spilað 3 leiki fyrir U-16 ára landslið Íslands. Þá hefur hann skorað 15 mörk með 2. flokki á Íslandsmótinu.

Við óskum Lúkasi til hamingju og hlökkum til að fylgjast með honum í framtíðinni.

#FélagiðOkkar


Hans Viktor framlengir

Hans Viktor Guðmundsson er búinn að framlengja núgildandi samning sinn og gildir framlengingin út tímabilið 2022.

Hans er 24 ára og getur bæði leikið á miðjunni sem og í miðverði. Í sumar hefur Hans tekið þátt í öllum átján leikjum Fjölnis.

Á sínum tíma lék Hans tólf U21 landsleiki og skoraði hann eitt mark.

Þetta eru frábærar fréttir!

#FélagiðOkkar


Æfingar 8. flokks í knattspyrnu

ÆFINGAR FRÁ OG MEÐ 7. OKTÓBER:

Í ljósi breyttra aðstæðna í samfélaginu þurfum við að breyta aðkomu foreldra að æfingum barna í 8. flokki sem hér segir:
• Foreldrar mega ekki vera með barni sínu á æfingunni.
• Velkomið að eldri systkini/skyldmenni (14 – 16 ára/8. – 10. bekkur) mæti og fylgi barninu eftir á æfingunni.
• Þjálfarar verða við inngang á Egilshöll og taka á móti börnunum áður en æfing hefst.
• Gætið þess að mæta hvorki of snemma né of seint (sjá tímasetningar að neðan).
• Engir klefar verða í notkun fyrir æfingar og þarf barnið því að vera alveg tilbúið og með reimaða skó þegar það mætir.
• Enginn aukabúnaður og/eða skór eiga að fylgja barninu.
• Að æfingu lokinni fylgja þjálfarar börnum í anddyri og gæta þeirra þar til þau verða sótt.
• Vinsamlegast hugið að sóttvörnum fyrir og eftir æfingu – handþvottur, spritt o.s.frv.
• Ef barnið finnur fyrir einkennum þá á að halda sig heima.
• Vinsamlegast virðið þessi tilmæli.

Æfingatímar:

8. flokkur kvenna (2015-2016)
Miðvikudagur kl. 17:30-18:30 – Egilshöll
Laugardagur kl. 09:00-10:00 – Egilshöll

8. flokkur karla yngri (2016)
Miðvikudagur kl. 17:30 Egilshöll
Laugardagur kl. 10:00 Egilshöll

8.flokkur karla eldri (2015)
Miðvikudagur kl. 16:30 Egilshöll
Laugardagur kl. 09:00 Egilshöll


Upphitun: Stjarnan - Fjölnir

Pepsi Max deild karla
11. umferð
Stjarnan – Fjölnir
Sunnudaginn 4. október kl. 17:00 á Samsungvellinum, Garðabæ.

Nú þegar fimm leikir eru eftir af keppnistímabilinu er Fjölnir tíu stigum frá Víkingi R. sem situr í næsta sæti fyrir ofan fallsvæðið. Í síðasta leik laut Fjölnir í lægra haldi í Kaplakrika, 1-0. Andstæðingur Fjölnis á næstkomandi sunnudag gerði 1-1 jaftefli við FH síðastliðið fimmtudagskvöld. Fjölnir og Stjarnan mættust í 2. umferð á Extra vellinum og vann Garðabæjarliðið 1-4 sigur. Stjarnan situr í fjórða sæti deildarinnar með 28 stig en hefur leikið leik færra en öll önnur lið deildarinnar að KR frátöldu. Stjarnan er því í harðri baráttu um Evrópusæti.

Fjölnir á ansi veika von um að halda sæti sínu í deildinni. Vinni Víkingur leik sinn á sunnudag gegn KA og tapi Fjölnir gegn Stjörnunni verður tölfræðilegur möguleiki Fjölnis á að halda sæti sínu í deildinni ekki lengur til staðar.

Leikurinn í Garðabæ verður sá síðasti fyrir landsleikjahlé. Ekki verður leikið aftur í efstu deild fyrr en 15. október. Um er að ræða frestaðan leik frá 11. umferð. Sigurpáll Melberg Pálsson verður í leikbanni í leiknum á sunnudag vegna uppsafnaðra gulra spjalda. Stjörnumennirnir Halldór Orri Björnsson og Brynjar Gauti Guðjónsson verða fjarverandi af sömu ástæðu.

Sjáumst á vellinum. Áfram Fjölnir!

#FélagiðOkkar

Grétar Atli Davíðsson


Nýtt fótboltatímabil að hefjast

Nú er nýtt tímabil að hefjast hjá yngri flokkum og knattspyrnudeild Fjölnis er að blása til sóknar í yngri flokka starfi. Á síðustu mánuðum hefur verið unnin mjög góð og markviss stefnumótunarvinna innan knattspyrnudeildar með það að markmiði að auka enn frekar gæði starfsins.

Stór skref hafa verið stiginn og starfa nú tveir yfirþjálfarar í fullu starfi hjá félaginu sem hvor um sig ber ábyrgð á faglegu starfi annars vegar stúlknamegin og hinsvegar drengjamegin. Þetta er stórt skref sem að vonandi leiðir til fjölgunar, ekki síst stúlknamegin, sem og enn faglegra starfi sem mun skila sér til félagsins á næstu árum.

Dagana 3. – 25. október býður Fjölnir börnum fædd árið 2015 og 2016 að æfa frítt og eru þjálfarar og starfsfólk spennt að taka á móti sem flestum börnum. 17. október verður svo haldið Októbermót Fjölnis þar sem allir þeir sem æfa geta tekið þátt gegn þátttökugjaldi.

Æfingatöflur knattspyrnudeildar eru komnar inn á heimasíðu félagsins og má nálgast þar. Minni foreldra að muna að skrá börnin inni á https://fjolnir.felog.is/ svo að æfingatöflur birtist í Sideline appinu.

Svo eru yngri flokkar Fjölnis einnig á Facebook og hvet ég ykkur öll að fylgja okkur þar
https://www.facebook.com/Fj%C3%B6lnir-Yngri-flokkar-Knattspyrnudeild-300328627123537

Árangur yngri flokka félagsins hafa verið með ágætum og er tilvalið að minna á að nýkringdir bikarmeistarar í 3. flokki karla spila úrslitaleik Íslandsmótsins sunnudaginn 4. október klukkan 13:00 á Kópavogsvelli og hvetjum við sem flesta til mæta og hvetja

#FélagiðOkkar

 

Fyrir hönd Barna- og unglingaráðs knattpyrnudeildar Fjölnis

Sævar Reykjalín
Formaður BUR


Upphitun: FH - Fjölnir

Pepsi Max deild karla
18. umferð
FH - Fjölnir
Sunnudaginn 27. september kl. 14:00 í Kaplakrika

Næst liggur leið okkar Fjölnismanna í Kaplakrika. Fjölnir situr á botni deildarinnar með sex stig, níu stigum frá Víkingi sem er í næsta örugga sæti. Sex leikir eru eftir af mótinu. Vonin um að Fjölnir haldi sæti sínu í deild þeirra bestu veikist með hverjum leik sem ekki vinnst. Veika vonin lifir á meðan enn er tölfræðilegur möguleiki á að lifa af. Fyrst og síðast þarf Fjölnir að spila upp á stoltið í þeim leikjum sem eftir eru. Aðeins einu sinni áður hefur lið lokið tímabili með innan við tíu stig í tólf liða A-deild, það var lið Keflavíkur sem féll fyrir tveimur árum síðan með fjögur stig.

FH er í öðru sæti deildarinnar. Bæði lið töpuðu á heimavelli í síðustu umferð, Fjölnir fyrir ÍA, 1-3, og FH fyrir Val, 1-4. Fyrri leik FH og Fjölnis í sumar lauk með 0-3 sigri Hafnfirðinga. Nánar er vikið að fyrri viðureignum liðanna í upphitunarpislti fyrir leik liðanna í ár. Enginn leikmanna Fjölnis verður í leikbanni á sunnudag. FH-ingurinn Guðmann Þórisson verður hins vegar í leikbanni eftir að hafa fengið rautt spjald í síðasta leik.

Sjáumst á vellinum. Áfram Fjölnir!

#FélagiðOkkar

Grétar Atli Davíðsson


Upphitun: Fjölnir - ÍA

Pepsi Max deild karla
10. umferð
Fjölnir - ÍA
Fimmtudaginn 24. september kl. 16:15 Extra vellinum

Á fimmtudag Fjölnir og ÍA í Pepsi Max deild karla. Enn leita Fjölnismenn að fyrsta sigrinum í ár. Fjölnir situr á botni deildarinnar með sex stig, níu stigum frá öruggu sæti í deildinni. Skagamenn sitja í áttunda sæti með sautján stig. Um er að ræða frestaðan leik. Leikurinn átti að fara fram í 10. umferð. Bæði lið hafa leikið fimmtán leiki. Fjölnir gerði 1-1- jaftefli við KA um helgina og ÍA lagði Gróttu 3-0 á mánudag.

Félögin hafa mæst átta sinnum í A-deild. Fjölnir hefur unnið helming viðureignanna. Skagamenn hafa unnið tvo leiki og tveir hafa endað með jafntefli. Búast má við markaleik. Í viðureignum Fjölnis og ÍA í efstu deild hafa verið skoruð 3,5 mörk að meðaltali í leik.

Engin lið hafa fengið á sig fleiri mörk í sumar en Fjölnir og ÍA. Skagamenn hafa skorað næst flest mörk í deildinni í ár. Því miður hafa aðeins tvö lið skorað færri mörk en Fjölnir í sumar. Viktor Jónsson, Tryggvi Hrafn Haraldsson og Stefán Teitur Þórðarson hafa að mestu séð um markaskorun Skagamanna. Markahæsti leikmaður Fjölnis í sumar er Jóhann Árni Gunnarsson með fjögur mörk. Þjálfari Skagamanna er Jóhannes Karl Guðjónsson.

Leikið er á einkennilegum tíma vegna birtuskilyrða. Stuðnignsmönnum er heimilt að mæta a völlinn. Fjöldatakmarkanir miðast við 200 einstaklinga í hverju sóttvarnarhólfi. Fjölnir býður upp á tvo hólf. Áfram Fjölnir!

#FélagiðOkkar

Grétar Atli Davíðsson

Leikmannahópur Fjölnis

1 – Steinar Örn Gunnarsson (m)

4 – Sigurpáll Melberg Pálsson

5 – Torfi Tímoteus Gunnarsson

6 – Grétar Snær Gunnarsson

7 – Ingibergur Kort Sigurðsson

8 – Arnór Breki Ásþórsson

9 – Jón Gísli Ström

10 – Viktor Andri Hafþórsson

11 – Hallvarður Óskar Sigurðarson

12 – Atli Gunnar Guðmundsson (m)

14 – Lúkas Logi Heimisson

16 – Orri Þórhallsson

17 – Valdimar Ingi Jónsson

19 – Daníel Smári Sigurðsson

20 – Péter Zachán

21 – Jeffery Monakana

23 – Örvar Eggertsson

25 – Sigurjón Daði Harðarson (m)

28 – Hans Viktor Guðmundsson, fyrirliði

29 – Guðmundur Karl Guðmundsson, varafyrirliði

31 – Jóhann Árni Gunnarsson

32 – Kristófer Óskar Óskarsson

42 – Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson

80 - Nicklas Halse

Þjálfari: Ásmundur Arnarsson
Aðstoðarþjálfarar: Gunnar Már Guðmundsson og Gunnar Sigurðsson


Upphitun: Fjölnir - KA

Pepsi Max deild karla
17. umferð
Fjölnir – KA
Laugardaginn 19. september kl. 14:00 á Extra vellinum

Leiðin var löng frá Seltjarnarnesi í Grafarvog eftir 2-2 jafntefli Fjölnis og Gróttu síðastliðið mánudagskvöld. Fjölnir er með fimm stig á botni deildairnnar, níu stigum frá þeim þremur liðum sem eru í næstu sætum fyrir ofan fallsvæðið. KA situr í níunda sæti deildarinnar, með betri markatölu en ÍA en lakari en Víkingur. Leik Fjölnis og KA í fyrri umferðinni lauk með 1-1 jafntefli. Báðar fyrri viðureignir liðanna í efstu deild í Grafarvogi hafa endað með jafntefli. Nánar er vikið að fyrri viðureignum liðanna og tengingum á milli félaganna í upphitunarpistli fyrir leik liðanna í sumar.

KA er það lið í deildinni sem hefur náð í fæst stig á útivelli í sumar. Aftur á móti er Fjölnir með lakasta heimavallarárangur A-deildarliða það sem af er móti. Ekkert lið hefur skorað færri mörk í sumar en KA og ekkert fengið lið fengið á sig fleiri mörk en Fjölnir. Ekkert annað lið en FH og Stjarnan hefur fengið á sig færri mörk en KA í sumar. Af fjórtán stigum KA í sumar hafa átta þeirra komið með jafnteflum. Öll fimm stig Fjölnis í sumar hafa fengist með jafnteflum.

Guðmundur Karl Guðmundsson afplánaði leikbann í síðasta leik og reikna má með því að hann komi aftur inn í liðið. Nicklas Halse lék sinn fyrsta leik fyrir Fjölni gegn Gróttu. Jeffery Monakana gæti leikið sinn fyrsta leik fyrir Fjölni á laugardag.

Útlitið er ekki bjart sem stendur en á meðan möguleiki er fyrri hendi á að halda sætinu í deildinni má ekki leggja árar í bát.

Áfram Fjölnir!

#FélagiðOkkar

 

Grétar Atli Davíðsson