Þrjú ungmenni frá Fjölni í úrvalshóp FRÍ

FRÍ hefur birt nýjan úrvalshóp ungmenna og að þessu sinni eru þrír Fjölnisiðkendur í hópnum. FRÍ skilgreinir ákveðin lágmörk sem þarf að ná til að komast í hópinn. Þau sem eru í hópnum eru:

 

Kjartan Óli Ágústsson 18 ára fyrir góðan árangur í 800 m hlaupi.

Sara Gunnlaugsdóttir 15 ára fyrir góðan árangur í 400 m hlaupi.

Katrín Tinna Pétursdóttir 17 ára fyrir góðan árangur í hástökki og langstökki.

 

Greinilega efnilegt íþróttafólk þarna á ferðinni en fleiri hafa tækifæri fram á vorið til að ná lágmörkunum og komast inn í hópinn.

Listinn í heild sinni er hér.

Lágmörkin má finna hér.


Stórmót ÍR 2020

Stórmót ÍR var haldið helgina 18. til 19. janúar í frjálsíþróttahöllinni í Laugardal. Að þessu sinni átti Fjölnir 22 keppendur á mótinu á aldrinum 13 til 25 ára. Stóðu þeir sig mjög vel og komu alls 14 medalíur í hús; 5 gull, 4 silfur og 5 brons. Þeir sem komust á verðlaunapall voru:

Kjartan Óli Ágústsson sigraði í 800 m hlaupi karla á tímanum 1:58,73 sem er persónuleg bæting hjá honum og einnig sigraði hann í 1500 m hlaupi karla á tímanum 4:19,74.

Katrín Tinna Pétursdóttir vann silfur í hástökki stúlkna 16-17 ára með stökk yfir 1,71 m sem er persónuleg bæting hjá henni og einnig vann hún silfur í langstökki með stökk uppá 5,10 m. Hún vann svo brons í 60 m hlaupi á tímanum 8,47 sek.

Sara Gunnlaugsdóttir sigraði í 400 m hlaupi 15 ára stúlkna á tímanum 62,89 sek og hún vann brons í 200 m hlaupi á tímanum 28,14 sek.

Guðný Lára Bjarnadóttir vann silfur í 400 m hlaupi stúlkna 16-17 ára á tímanum 64,95 og brons í 200 m hlaupi á tímanum 29,17 sek sem er persónuleg bæting hjá henni.

Bjarni Anton Theódórsson sigraði í 400m hlaupi karla á tímanum 51,51 sek.

Sólon Blumenstein sigraði í 800 m hlaupi 14 ára pilta á tímanum 2:30,47.

Birkir Einar Gunnlaugsson vann silfur í 1500 m hlaupi karla á tímanum 4:21,83.

Helga Þóra Sigurjónsdóttir vann brons í hástökki kvenna með stökk yfir 1,56 m.

Pétur Óli Ágústson vann brons í 60 m hlaupi 13 ára pilta á tímanum 8,76 sek.

Þetta er mjög góður árangur og þess má geta að aðrir keppendur voru margir að bæta sinn persónulega árangur.

 

Öll úrslit mótsins eru hér.

Vídeó o.fl. frá mótinu eru á facebook síðu frjálsíþróttadeildar ÍR.


Æfingar fyrir alla í frjálsum

Æfingar á vorönn í frjálsum íþróttum eru byrjaðar. Gaman er að segja frá því að flott, ný aðstaða hefur verið tekin í notkun í Egilshöll þar sem frjálsar íþróttir eru í forgangi. Frjálsíþróttadeildin er með æfingar fyrir allan aldur. Æfingatímar á vorönn eru þessir:

6-10 ára – 1.-4. bekkur:

Þriðjudagar í Egilshöll kl 16:15-17:15

Fimmtudagar í Egilshöll kl 16:15-17:15

Laugardagar í Laugardalshöll kl 10-11

11-14 ára – 5.-8. bekkur:

Mánudagar í Egilshöll kl 15:30-16:30

Fimmtudagar í Laugardalshöll kl 16:00-17:30

Föstudagar í Egilshöll kl 15:30-16:30

Laugardagar í Laugardalshöll kl 10:00-11:30

15 ára og eldri:

Mánudagar í Laugardalshöll kl 17:00-19:00

Þriðjudagar í Laugardalshöll kl 17:30-19:30

Miðvikudagar í Laugardalshöll kl 17:00-19:00

Fimmtudagar í Laugardalshöll kl 17:30-19:30

Föstudagar í Laugardalshöll kl 17:00-19:00

Laugardagar í Laugardalshöll kl 11:00-13:00

Fullorðnir:

Þriðjudagar í Laugardalshöll kl 18:30-20:00

Fimmtudagar í Laugardalshöll kl 18:30-20:00

Laugardagar í Laugardalshöll kl 10:00-12:00

Hlaupahópur:

Mánudagar við Foldaskóla kl 17:30-19:00

Miðvikudagar við Foldaskóla kl 17:30-19:00

Fimmtudagar í Laugardalshöll kl 17:15-19:00

Laugardagar – breytilegur tími og staðsetning

 

Allar upplýsingar um æfingatíma er að finna hér.

Allar upplýsingar um þjálfara er að finna hér.

Allar upplýsingar um æfingagjöld er að finna hér.


Góður árangur Fjölnisfólks í Gamlárshlaupinu

Hið árlega Gamlárshlaup ÍR fór fram á gamlársdag kl 12. Hlaupið var ræst við Hörpuna í frekar blautu veðri. Fjölnisfólk fjölmennti í hlaupið og stóð sig frábærlega.

Ingvar Hjartarson varð í öðru sæti í karlaflokki á tímanum 34:45.

Arndís Ýr Hafþórsdóttir varð í þriðja sæti í kvennaflokki á tímanum 37:55.

Helga Guðný Elíasdóttir varð í fjórða sæti í kvennaflokki á tímanum 39:26.

Guðrún Axelsdóttir varð í öðru sæti í aldursflokknum 55-59 ára á tímanum 52:16.

Rósa Friðriksdóttir sigraði aldursflokkinn 60-64 ára á tímanum 52:19.

Signý Einarsdóttir sigraði aldursflokkinn 65-69 ára á tímanum 54:34.

Lilja Björk Ólafsdóttir varð í öðru sæti í aldursflokknum 65-69 ára á tímanum 01:01:06.

Öll úrslit hlaupsins eru hér.

Myndirnar eru fengnar af facebooksíðu Gamlárshlaups ÍR.


Áramót Fjölnis 2019

Frjálsíþróttadeild Fjölnis hélt sitt árlega Áramót í frjálsíþróttahöllinni í Laugardal mánudaginn 30. desember. Mótið tókst vel í alla staði og ber að þakka fyrir framlag allra þeirra sjálfboðaliða sem lögðu hönd á plóginn.

Fjölnir átti 12 keppendur á mótinu sem stóðu sig mjög vel.

Kjartan Óli Ágústsson sigraði í 800 m hlaupi á tímanum 2:05,15.

Katrín Tinna Pétursdóttir sigraði í hástökki kvenna með stökk yfir 1,68 m sem er persónuleg bæting hjá henni. Hún varð í þriðja sæti í langstökki kvenna þegar hún stökk 4,92 m.

Vilhelmína Þór Óskarsdóttir varð í öðru sæti í 200 m hlaupi kvenna á tímanum 27,04 sek.

Bjarni Anton Theódórsson varð í öðru sæti í 200 m hlaupi á tímanum 23,11 sek.

Helga Þóra Sigurjónsdóttir varð í öðru sæti í hástökki kvenna með stökk yfir 1,60 m.

Hildur Hrönn Sigmarsdóttir varð í öðru sæti í kúluvarpi 15 ára stúlkna (3 kg) með kast uppá 8,69 m sem er persónuleg bæting hjá henni.

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir ÍR átti besta afrek mótsins þegar hún hljóp 60 m á tímanum 7,54 sek sem gefur 1039 IAAF stig sem er stórglæsilegur árangur. Fær hún til varðveislu farandbikar mótsins sem er ávallt veittur þeim íþróttamanni sem á besta afrek mótsins skv. stigatöflu IAAF.

Öll úrslit mótsins eru hér.


Minna og Daði íþróttafólk frjálsíþróttadeildarinnar 2019

Íþróttafólk Fjölnis 2019 var heiðrað við hátíðlega athöfn föstudaginn 27. desember. Íþróttafólk frjálsíþróttadeildarinnar voru Vilhelmína Þór Óskarsdóttir og Daði Arnarson.

Vilhelmína er 21 árs gömul frjálsíþróttakona sem hefur æft frjálsar íþróttir frá unga aldri og hefur síðustu ár einbeitt sér að keppni í hlaupum. Hefur hún náð mjög góðum árangri í 60, 100, 200 og 400m hlaupum. Á árinu 2019 hljóp hún 400m á 57,29sek sem gefur 965 IAAF stig sem er frábær árangur. Þessi árangur setur hana í 4. sæti á listanum yfir bestu tíma í 400m hlaupi innanhúss árið 2019. Vilhelmína eða Minna eins og hún er alltaf kölluð er í landsliði Íslands í hópi 4x400m boðhlaupskvenna. Hún var líka kjörin íþróttakona deildarinnar í fyrra.

Daði er tvítugur og hefur æft frjálsar íþróttir frá unga aldri. Hann hefur aðallega einbeitt sér að 800m hlaupi undanfarin ár en líka náð góðum árangri í 600m og 1500m hlaupum. Á þessu ári hljóp hann 600m á tímanum 1:22,18 sem gefur 929 IAAF stig sem er frábær árangur. Þessi árangur setur hann í annað sæti á listann yfir bestu afrek í 600m hlaupi innanhúss á þessu ári. Þess má geta að Daði tekur þátt í þjálfun yngri iðkenda deildarinnar og nýtur mikilla vinsælda hjá þeim og er góð fyrirmynd.

Fjölnismaður ársins var að þessu sinni hjónin Lilja Björk Ólafsdóttir og Guðmundur Magni Þorsteinsson sem eru öflugir hlauparar í hlaupahópi Fjölnis. Þessi dugnaðarhjón tilheyra hópi fárra í heiminum sem klárað hafa sex stærstu marþon í heimi. Þau eru elst íslenskra hjóna sem það hafa afrekað. Hjónin, sem eru á sjötugsaldri, byrjuðu að hlaupa um fertugt og eru hvergi nærri hætt. Í Grafarvogi ólu þau upp börn sín fjögur og þegar þau voru að nálgast fertugt gafst loks tími fyrir áhugamál. Um leið og ungarnir voru flognir úr hreiðrinu reimuðu þau á sig hlaupaskóna og héldu af stað. Þau höfðu þá aldrei stundað hlaup en byrjuðu strax í hlaupahópi Grafarvogs, sem heitir nú hlaupahópur Fjölnis. Það var árið 1995 og hafa þau hlaupið meira og minna síðan.

Þau fundu sig vel í hlaupunum og áður en varði lá leiðin í maraþon. Það átti eftir að vinda upp á sig svo um munar. Sex stærstu hlaup heims eru í London, New York, Boston, Berlín, Tokýó og Chicago og hafa þau hjón klárað þau öll. Þessi hlaup eru fjöl­menn­ustu maraþonin og það var búinn til klúbbur fyr­ir fólk sem hef­ur klárað öll þessi hlaup, en klúbburinn heitir Abbott World Marathon Majors og má finna þar rúmlega þrjátíu Íslendinga. Aðeins sex þúsund manns í heiminum geta státað af að hafa klárað öll þessi stærstu hlaup heims. Líklega eru fá hjón á sjötugsaldri í þeim hópi og eru þau Lilja og Guðmundur elst íslenskra hjóna sem það hafa afrekað.

Frjálsíþróttadeildin óskar þeim til hamingju með valið.


Fjölnir stofnar þríþrautarhóp

Hjólreiðafélag Reykjavíkur, sunddeild Fjölnis og frjálsíþróttadeild Fjölnis hafa tekið höndum saman og sett upp æfingaplan fyrir þá sem hafa áhuga á því að stunda þessar þrjár íþróttir samhliða.

Hvort heldur sem þig langar að koma þér í gott form, vera hluti af skemmtilegum æfingahópi, taka þátt í Landvættum eða einhvers konar þríþraut þá er þetta eitthvað fyrir þig!

Þaulreyndir þjálfarar taka á móti þér í hverri grein fyrir sig og við setjum okkur markmið saman. Skref fyrir skref náum við svo markmiðunum. Sendu okkur línu á trihfrogfjolnis@gmail.com eða skráðu þig bara og mættu!

Við byrjum á 4 vikna sundnámskeiði mánudaginn 6.janúar 2020. Námskeiðið kostar 15.000 kr, en ef þú heldur áfram í þríþrautarhópnum, þá ganga 10.000 kr upp í félagsgjaldið. Námskeiðið fer fram á ensku.
Athugið að sundnámskeiðið er kennt á mánudögum og föstudögum kl. 19-20 í Grafarvogslaug.

Verð fyrir janúar til júní 2020 er 30.000 kr. Skráningar opna 1.janúar á https://fjolnir.felog.is/ og mættu í fyrsta tímann mánudaginn 6.janúar.

Hlökkum til að sjá þig!


Jólamót Fjölnis

Frjálsíþróttadeild Fjölnis hélt sitt árlega jólamót fyrir yngstu iðkendurna sunnudaginn 8. desember. Mótið var haldið í frjálsíþróttahöllinni í Laugardal. Keppt var í 60 m spretthlaupi, langstökki, skutlukasti og 200m hlaupi. Mótið gekk mjög vel og virtust keppendur vera mjög ánægðir. Mótið var styrkt af Krumma leikföngum og Íslandsbanka.  Að móti loknu fengu allir glaðning frá Krumma leikföngum og viðurkenningarskjal.


Fjölnisjaxlinn 2019

Það var mögnuð stemning um helgina þegar fyrsti „FJÖLNISJAXLINN“ fór fram. Um hundrað íþróttaiðkendur, foreldrar, þjálfarar, leikmenn og aðrir áhugasamir tóku þátt í að gera þessa íþróttaþrekraun að veruleika. Boðið var upp á tvær útfærslur fyrir íþróttaiðkendur krakka og foreldra þ.e. synt 200 metra, hjólað 3km og hlaupið 1km. Fyrir íþróttaiðkendur unglinga, foreldra, þjálfara, leikmenn og þá sem æfa þríþraut var synt 400 metra, hjólað 10km og hlaupið 3km. Það var tvöfalt meiri þátttaka en gert hafði verið ráð fyrir, mögnuð stemning allan tímann og gríðarlega mikil ánæga með fyrsta jaxlinn. Áfram Fjölnir og áfram Fjölnisjaxlinn - Allir með á næsta ári!!!

Aðalstyrktaraðili Fjölnisjaxlins er eitt nýjasta og besta fyrirtækið í hverfinu Fanntófell og myndir er hægt að skoða hjá besta hverfisfjölmiðlinum okkar “Grafarvogsbúar”

https://www.facebook.com/Grafarvogsb%C3%BAar-111119802396520/

Knattspyrnudeild, Frjálsíþróttadeild og Sunddeild Fjölnis vilja sérstaklega þakka öllum fyrir sitt framtak til að gera Fjölnisjaxlinn að veruleika þ.e. þátttakendum/keppendum, starfsmönnum/sjálfboðaliðum, ÍTR og Grafarvogssundlaug, starfsmönnum Grafarvogslaugar, áhorfendum, öllum styrktaraðilum og hverfisfjölmiðlinum Grafarvogsbúar fyrir ljósmyndatöku.

Myndir frá jaxlinum má sjá hér.


Fjölnisjaxlinn 2019

Ert þú það öflugur íþróttamaður/íþróttakona að þú getir klárað Fjölnisjaxlinn?

Knattspyrnudeild Fjölnis í samstarfi við frjálsíþróttadeild og sunddeild félagsins ætla að keyra í gang fyrsta „Fjölnisjaxlinn“ og skora á alla íþróttaiðkendur að skrá sig til leiks.

Skráning í einstaklingsáskorun: https://docs.google.com/forms/d/e/1FAIpQLScq1bDFYzjUxJd5EwS6y_VOunOejZbvZWymLUc-1Dp2KniUAw/viewform?usp=sf_link

Skráning í liðaáskorun: https://docs.google.com/forms/d/e/1FAIpQLSfLWikt_hqZVGXX-MMf1WUEqNiIK_BdzgsyaPeFQkJ69cSV_g/viewform?usp=sf_link

#FélagiðOkkar