Vormót Fjölnis í frjálsum íþróttum var haldið þriðjudaginn 4. júní á frjálsíþróttavellinum í Mjódd.
Frjálsíþróttafólk á aldrinum 11-15 ára lét gula viðvörun ekki hafa áhrif á sig og mættu um 120 keppendur til leiks í 60m/100m hlaupi, langstökki, kúluvarpi og 600m/800m hlaupi.
Aðstæður voru ekki vænlegar til bætinga þetta árið en Fjölnisfólk kom með fern verðlaun heim í Grafarvoginn. Unnur Birna Unnsteinsdóttir (15 ára) náði í gullverðlaun fyrir kúluvarp, silfurverðlaun fyrir 800m hlaup og bronsverðlaun fyrir langstökk. Aron Magnússon (14 ára) nældi sér í bronsverðlaun fyrir langstökk.
Mót sem þetta krefst fjölda sjálfboðaliða til að allt gangi upp og tímasetningar standist. Þar stöndum við Fjölnisfólk einstaklega vel bæði hvað varðar þátttöku iðkenda og foreldra sem iðulega mæta og sinna verkefnum með jákvæðni og gleði að leiðarljósi. Við getum verið stolt af okkar fólki.
Meðfylgjandi eru nokkrar myndir af sjálfboðaliðum að sinna hinum ýmsu störfum á vellinum. Áfram Fjölnir!