Fimleikaæfingar falla niður útaf mótahaldi
Um helgina erum við að halda Bikarmót í hópfimleikum og áhaldafimleikum.
Í dag ,fimmtudag, kl 18:30 hefst uppsetning fyrir mótið.
Allar æfingar falla því niður frá 18:30 í dag og engar æfingar verða fram yfir helgi.
Vonandi komast skilaboðin til allra.
Á mánudaginn verður venjuleg dagskrá.
Fjölnir er Íslandsmeistari í íshokkí kvenna annað árið í röð! 🏆
Fjölnir er Íslandsmeistari í íshokkí kvenna annað árið í röð! 🏆
Leikur 4 – Skautafélag Akureyrar vs. Fjölnir, þriðjudagur 19. mars kl. 19:30
Lokastaða: Fjölnir 2 – 1 Skautafélag Akureyrar
Fjölnir tryggði sér í gærkvöldi Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí kvenna annað árið í röð með frábærum 2-1 sigri á Skautafélagi Akureyrar á útivelli. Liðið vann úrslitaeinvígið 3-1 og fagnaði innilega eftir erfiða og spennandi rimmu.
Frá upphafi var ljóst að SA ætlaði sér sigur og settu þær mikla pressu á vörn Fjölnis. Sóknaraðgerðir heimaliðsins voru beittar, en Fjölnir sýndi styrk sinn í varnarleiknum. Hvort sem það voru skot sem leikmenn blokkuðu eða stórkostlegar markvörslur Karítasar Halldórsdóttur, tókst Fjölni að halda markinu hreinu í fyrsta leikhluta.
Þrátt fyrir yfirburði SA í upphafi var það Fjölnir sem náði að opna leikinn á 18. mínútu. Hilma Bergsdóttir vann pökkinn af varnarmanni SA og skoraði án stoðsendingar, nokkuð gegn gangi leiksins. Fjölnir fór því með 1-0 forystu inn í fyrsta leikhlé.
Í öðrum leikhluta jafnaðist leikurinn nokkuð og bæði lið fengu góð færi. Á 37. mínútu jók Fjölnir forskot sitt þegar Flosrún Vaka Jóhannesdóttir skoraði eftir mikið kapphlaup fyrir framan mark SA. Laura Ann Murphy og Elín Darkoh lögðu upp markið og Fjölnir var komið í vænlega stöðu, 2-0.
Þriðji leikhluti hófst með mikilli ákefð frá SA, og sex mínútum inn í lotuna tókst Önnu Sonju Ágústsdóttur að koma heimaliðinu inn í leikinn með marki. SA setti allt í sölurnar í lokin og sótti af krafti, en Fjölnir hélt út með sterkan varnarleik og kláraði leikinn með 2-1 sigri.
Með þessum sigri vann Fjölnir úrslitaeinvígið 3-1 og fagnaði Íslandsmeistaratitlinum annað árið í röð. Frábær liðsheild, skipulagður varnarleikur og öflug frammistaða í lykilaugnablikum tryggðu titilinn.
Skot á mark í leik #4
Fjölnir: 25
SA: 21
Ungmennafélagið Fjölnir óskar ykkur innilega til hamingju með vel verðskuldaðan titil! Þið eruð snillingar!! 💕
Sumarstörf Fjölnis fyrir 17-25 ára

Við höfum opnað fyrir umsóknir í sumarstörf Fjölnis 2025 fyrir 17-25 ára!
Við bjóðum upp á fjölbreytt störf fyrir 17-25 ára. Í boði er að vinna á íþróttasvæðinu í Dalhúsum, á sumarnámskeiðum deilda ásamt fjölgreinanámskeiði félagsins. Umsækjendur geta hakað við það starf sem þeir óska eftir, það er í boði að velja fleiri en eitt starf, t.d. að starfa á knattspyrnu- og listskautanámskeiðum.
Vinnutímabil fyrir 17-25 ára fer eftir nánara samkomulagi þegar ráðning liggur fyrir.
Sækja þarf um hér: https://forms.office.com/e/xQW1FM2gv5
Umsækjendur þurfa einnig að sækja um hjá Hinu Húsinu hér: https://jobs.50skills.com/reykjavik/is/34337
Laun eru greidd út samkvæmt kjarasamningum Reykjavíkurborgar.
Allar nánari upplýsingar veitir skrifstofa Fjölnis á sumarnamskeid@fjolnir.is.
Umsóknarfrestur er til 18. apríl
Öllum umsóknum verður svarað.
*Umsóknir fyrir sumarstörf fyrir unglinga hjá Vinnuskólanum opna á næstu dögum!
#FélagiðOkkar
Frábær frammistaða í fyrsta leik úrslitakeppninnar
MFL Kvenna með sannfærandi sigur í fyrsta úrslitaleiknum
Meistaraflokkur kvenna í íshokkí spilaði sinn fyrsta leik í á þriðjudaginn í Egilshöll gegn Skautafélagi Akureyrar í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn. Úrslitin ráðast í einvígi þar sem fyrsta liðið til að vinna þrjá leiki sigrar titilinn.
Liðið tryggði sér öruggan 5-0 sigur í þessum fyrsta leik úrslitakeppninnar gegn SA.
Lykilmenn og frammistaða:
- Fyrsta sóknarlínan var áberandi í sóknarleiknum og kom við sögu í öllum fimm mörkum liðsins.
- Framherjinn Berglind Leifsdóttir átti frábæran leik og lagði sitt af mörkum í öllum mörkunum með 2 mörk og 3 stoðsendingar.
- Markvörðurinn Karitas Sif Halldórsdóttir hélt hreinu með yfirvegaðri og traustri frammistöðu í markinu.
Liðsframmistaða: Liðið spilaði skipulagðan varnarleik og stjórnaði svæðinu fyrir framan markið vel. Þessi agi í vörninni gerði liðinu kleift að snúa hratt í sókn, skapa góðar sendingaleiðir og veita sterkari stuðning í sóknaraðgerðum. Ákvarðanataka var góð allan leikinn, sem skilaði sér í árangursríkri spilamennsku á öllum svæðum íssins.
Skot á mark:
Fjölnir: 23
SA: 12
Frábær byrjun á úrslitaeinvíginu og nú er markmiðið að viðhalda þessum gæðum í næsta leik.
Næstu leikir:
- Úrslit #2 í Akureyri á fimmtudag kl. 19:30
- Úrslit #3 í Egilshöll á laugardag kl. 17:00
- Möguleg úrslit #4 í Akureyri á þriðjudag í næstu viku kl. 19:30
- Möguleg úrslit #5 í Egilshöll á fimmtudag í næstu viku kl. 19:45
Fjölnir Bikarmeistarar í listskautum!
Fjölnir deildarmeistari í Toppdeild kvenna
Kvennalið Fjölnis deildarmeistari í Toppdeild kvenna
Um nýliðna helgi tryggði kvennalið Fjölnis sér deildarmeistaratitilinn í Toppdeild kvenna með 1-0 sigri á kvennaliði Skautafélags Akureyrar. Með þessum sigri komst Fjölnir í 31 stig og gerði þar með út um möguleika SA á að ná toppsætinu.
SA hefði þurft að sigra Fjölni um helgina og einnig vinna Skautafélag Reykjavíkur í síðasta leik deildarkeppninnar til að eiga möguleika á efsta sætinu. Með sigrinum tryggðu Fjölnis-konur sér einnig heimaleikjarétt í úrslitakeppni Toppdeildar kvenna.
Úrslitakeppni kvenna hefst 11. mars næstkomandi, og ljóst er að Fjölnir fer inn í keppnina með mikinn kraft og sjálfstraust eftir glæsilega deildarkeppni.
Fjölnir óskar leikmönnum, þjálfurum og öllum sem komu að liðinu innilega til hamingju með árangurinn!
Skákdeild Fjölnis Íslandsmeistari félagsliða 2025
Skákdeild Fjölnis Íslandsmeistari félagsliða 2025 – Fullt hús stiga annað árið í röð!

Íslandsmóti skákfélaga lauk um helgina og skákdeild Fjölnis tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í Úrvalsdeild með yfirburðum. Fjölnismenn unnu allar tíu viðureignir sínar í mótinu og hlutu fullt hús stiga, 20 stig, líkt og í fyrra. Þetta er annað árið í röð sem Fjölnir fer ósigrað í gegnum Úrvalsdeildina.
Yfirburðir á öllum borðum
Fjölnismenn sýndu styrk sinn í hverri viðureign og voru ávallt skrefi á undan andstæðingum sínum. Liðið skipuðu okkar sterkustu skákmenn, sem allir lögðu sitt af mörkum til sigursins.
Ótrúlegur árangur Fjölnis
Það er ljóst að skákdeild Fjölnis hefur byggt upp afar sterkt lið sem hefur sett mark sitt á íslenska skáksenu. Að vinna Íslandsmeistaratitilinn með fullt hús stiga tvö ár í röð er afrek sem fá lið hafa náð.
Við óskum ykkur innilega til hamingju með þennan magnaða árangur!
Kristalsmót Fjölnis - mótstilkynning
Kristalsmót Fjölnis
Mótshaldari: Fjölnir
Staðsetning móts: Egilshöll, laugardaginn 5. apríl
Mótsstjóri: Kristel Björk Þórisdóttir
Aðstoðarmótsstjóri: Halldóra Hrund Guðmundsdóttir
Keppnisflokkar
Félagalína | 15 ára og eldri, drengir og stúlkur | Special Olympics og Adaptive Skating | |
6 ára og yngri unisex | 25 ára og eldri, menn og konur | Level I | Parakeppni |
8 ára og yngri unisex | Level II | SO | |
10 ára og yngri unisex | Level III | Unified | |
12 ára og yngri, drengir og stúlkur | Level IV | ||
14 ára og yngri, drengir og stúlkur | Level V |
Keppnisreglur sem notaðar verða:
Keppniskerfi félaganna, notast við Stjörnukerfi.
Keppniskerfi Special Olympics og Adaptive Skating, notast við Stjörnukerfi SO/AS.
Dómarakerfi sem notuð verða:
( ) Kerfi A ( ) Kerfi B (x ) Kerfi C ( x) Kerfi D ( ) Kerfi E
Skráning og skil gagna
Félag sendir inn tilkynningu um þjálfara og liðsstjóra:
Senda þarf nöfn þjálfara og liðsstjóra á kristelbjork@gmail.com í síðasta lagi 29. mars 2024. Senda þarf nöfn, símanúmer og netföng þeirra.
Skráning og greiðsla keppnisgjalda:
Skráning og greiðsla keppnisgjalda skulu berast eigi síðar en 29. mars 2025 í tölvupósti á kristelbjork@gmail.com og á og á meðfylgjandi eyðublaði.
Á eyðublaðinu skal koma fram fullt nafn keppanda, kennitala, keppnisflokkur og keppnisgjald.
Keppnisgjald að fjárhæð kr. 4.500 skal greiðast fyrir hvern keppanda eigi síðar en 29. mars 2025.
Greiða skal inn á reikning Fjölnis, 114-26-7013, kt: 631288-7589.
Vinsamlegast setjið í skýringu: mótið, keppnisgjöld félags. Staðfesting greiðslu sendist á listgjaldkeri@fjolnir.is og leifur@fjolnir.is
Tónlist:
Tónlist skal skila í rafrænu formi inn á drive möppu sem Fjölnir mun deila með félögunum. Einnig þurfa keppendur að hafa tónlist á rafrænu formi með sér til vara.
Skil á tónlist: 29. mars 2025
Upplýsingar um mót
Birting keppendalista:
Dregið í keppnisröð og dagskrá birt á heimasíðu Fjölnis www.fjolnir.is þann 1. apríl 2025
Birting úrslita:
Úrslit verða birt að móti lokni á heimasíðu Fjölnis, www.fjolnir.is
Verðlaun og þátttökuviðurkenningar:
Í keppnisflokkum 6, 8 og 10 ára og yngri eru ekki gefin upp verðlaunasæti. Allir keppendur fá þátttökuviðurkenningu. Í öðrum keppnisflokkum eru veittir verðlaunapeningar fyrir efstu þrjú (3) sætin. Þátttökuviðurkenningar eru veittar til annarra keppenda.
Drög að dagskrá:
Laugardagurinn kl. 8-16, nánari dagskrá verður birt þegar skráningu líkur.
Forföll:
Foröll skulu tilkynnast á netfangið kristelbjork@gmail.com. Einungis er hægt að sækja um endurgreiðslu vegna keppnisgjalda hafi forföll verið tilkynnt áður en keppandi átti að keppa. Endurgreiðsla nemur helmingi keppnisgjalda.
Persónuverndarákvæði (GDPR)
Með skráningu á mótið gerir skautari og/eða forráðamaður sér grein fyrir því að upplýsingar um gegni skautara á mótinu eru gerðar opinberar og geymdar hjá Fjölni og Skautasambandi Íslands. Þá gerir skautari/forráðamaður sér grein fyrir að teknar eru ljósmyndir af skauturum á mótinu og þær birtar opinberlega og mögulega í fjölmiðlum.
Fyrir hönd mótshaldara:
Mótsstjóri: Kristel Björk Þórisdóttir
Dags: 21.02.2025
Netfang: kristelbjork@gmail.com
Símanúmer: 895-0284
22 Íslandsmeistaratitlar til Frjálsíþróttadeildar Fjölnis
22 Íslandsmeistaratitlar til Frjálsíþróttadeildar Fjölnis
Síðastliðnar helgar hafa farið fram Meistaramót Íslands innanhúss í frjálsum íþróttum. Eldri aldursflokkar (30 ára og eldri) og fjölþrautarfólk riðu á vaðið, því næst tóku 11-14 ára iðkendur við, þá 15-22 ára og að lokum fullorðinsflokkur þar sem keppendur þurfa að ná tilgreindum árangri til að fá þátttökurétt.
Fjölnisiðkendur komu heim með 22 Íslandsmeistaratitla frá þessum mótum, auk 22 silfurverðlauna og 11 bronsverðlauna. Að auki settu keppendur Fjölnis hátt í 100 persónuleg met á þessum mótum sem gefur til kynna í hve mikilli sókn frjálsíþróttafólk Fjölnis er um þessar mundir.
Gaman er frá því að segja að 13 ára stúlkur og 20-22 ára stúlkur voru Íslandsmeistarar félagsliða í sínum flokkum. Á Meistaramóti Íslands í fullorðinsflokki urðu karlarnir í öðru sæti í stigakeppninni og samanlagt var Fjölnisfólk í þriðja sæti í heildarstigakeppninni.
Einnig ber að nefna að á Meistaramóti Íslands 15-22 ára bætti Grétar Björn Unnsteinsson, 15 ára gamalt mótsmet um 21 sentimetra í stangarstökki 18-19 ára.
Þessar niðurstöður á meistaramótunum innanhúss er staðfesting á því hve frábærum árangri Fjölnisfólk er að ná núna og er Fjölnir að stimpla sig inn sem eitt af bestu frjálsíþróttafélögum landsins.
Íslandsmeistaratitli náðu:
MÍ 11-14 ára
Eva Unnsteinsdóttir – 60m grindahlaup, þrístökk og kúluvarp 13 ára stúlkna
MÍ 15-22 ára
Sara Þórdís Sigurbjörnsdóttir – Stangarstökk 18-19 ára stúlkna
Grétar Björn Unnsteinsson – Stangarstökk 18-19 ára pilta
Kjartan Óli Bjarnason – 400m hlaup 18-19 ára pilta
Arna Rut Arnarsdóttir – Þrístökk 20-22 ára stúlkna
Guðný Lára Bjarnadóttir – 800m og 1500m hlaup 20-22 ára stúlkna
Hanna María Petersdóttir – Stangarstökk 20-22 ára stúlkna
Sara Gunnlaugsdóttir – 400m hlaup 20-22 ára stúlkna
Guðjón Dunbar D.Þorsteinsson – Þrístökk 20-22 ára pilta
Sveit Fjölnis – 4×400 m blandað boðhlaup 20-22 ára
MÍ fullorðinna
Katrín Tinna Pétursdóttir – Stangarstökk kvenna
Daði Arnarson – 800m og 1500m hlaup karla
Grétar Björn Unnsteinsson – Stangarstökk karla
Guðjón Dunbar D.Þorsteinsson – Hástökk og þrístökk karla
MÍ eldri aldursflokka
Kristján Svanur Eymundsson – 1500m hlaupa 30-34 ára karla
Valgerður Sigurðardóttir – 60m hlaup og langstökk 45-49 ára kvenna
Norðurlandamót 2025
Norðurlandamót 5. – 9. feb
Norðurlandamótið á listskautum fór fram í Asker í Noregi dagana 5. – 9. febrúar og átti Fjölnir tvo fulltrúa af fjórum sem tóku þátt. Voru það þær Arna Dís Gísladóttir og Elín Katla Sveinbjörnsdóttir. Einnig fór Benjamin Naggiar yfirþjálfari með sem þjálfari í ferðina.
Fyrri keppnisdagur
Fyrsti keppnisdagur var fimmtudagurinn 6. febrúar og var keppt í stutta prógramminu. Af íslensku skauturunum var Arna Dís fyrst á ísinn. Eftir sitt prógram fékk hún 24,05 stig og endaði fyrsta daginn í 17. sæti.
Elín Katla fór seinust af íslensku keppendum inn á svellið til að taka sitt stutta prógramm. Endaði hún í 8. sæti á fyrsta deginum með 32,86 stig fyrir sína frammistöðu.
Seinni Keppnisdagur
Á seinni keppnisdeginum sem var á föstudeginum fór Arna Dís inn á svell þriðja af íslendingunum. Fyrir sitt frjálsa prógram fékk hún 48,75 stig og með því endaði hún í 72,80 stig í heildarstigum. Með þessum árangri náði hún 14. sætinu í heildastigum.
Seinust íslendinganna inn á svellið til að taka frjálsa prógrammið var Elín Katla. Fyrir frjálsa prógrammið fékk Elín 61,32 stig sem skilaði Elínu í 96,18 stig og 6. sætinu í heildarstigum.
Hæstu stig á Norðurlandamóti
Með sínum 96,18 heildarstigum náði Elín Katla þeim glæsilega árangri að fá hæstu heildarstig sem íslenskur skautari hefur fengið í Advanced Novice flokki á Norðurlandamóti. Óskum henni til hamingju með þann árangur.



