Sumarskákmót Fjölnis 2025

Okkar glæsilega sumarskákmót Fjölnis 2025 verður haldið í Rimaskóla fimmtudaginn 8. maí frá kl. 16:00 - 19:00 
Dagskrá:

🕓 Kl. 16:00 – Skráning hefst
Kl. 16:00 – Helgi Áss Grétarsson, Íslandsmeistari, teflir fjöltefli á meðan skráning fer fram
🏆 Kl. 16:45 – Heiðursgestur afhendir verðlaunagripi Rótarý fyrir Æfingameistarann 2024–2025
Kl. 16:45 – 5 umferðir tefldar – Skákstjórar: Helgi Árnason og Gauti Páll
Kl. 18:00 – Ókeypis veitingar í boði Skákdeildar Fjölnis
🎁 Kl. 18:30 – Verðlaunaflóð:

  • 40 vinningar
  • Happdrætti
  • 3 verðlaunagripir til eignar

🔚 Kl. 19:00 – Mótinu lýkur


Vinningsnúmer úr Sumarhappdrætti Fjölnis

🎉 Vinningsnúmer úr Sumarhappdrætti Fjölnis eru komin í hús! 🎉
Sjáðu vinningsnúmerin á meðfylgjandi mynd 📸
🎁 Vinninga má sækja á skrifstofu Fjölnis í Egilshöll frá og með mánudeginum 28. apríl til og með 30. maí.
📧 Þau sem unnu árskort á heimaleiki meistaraflokka í knattspyrnu geta sent póst á arna@fjolnir.is til að fá vinninginn sinn.
Takk fyrir frábæran stuðning 💛

Fjögur ný námskeið hjá skautadeild

Námskeið í skautahlaupi

Langar þig að bæta hraðann, tækni og þol á skautum? Komdu og æfðu skautahlaup með okkur í vor! Þetta námskeið er fyrir alla sem vilja styrkja sig á skautasvellinu, bæta færni sína og njóta skemmtilegra æfinga í góðum hópi.

Listskautadeild Fjölnis í samstarfi við Skautasamband Íslands heldur námskeið í skautahlaupi fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna.

Farið er yfir helstu atriði tengslum við skautahlaup og hvað helst þarf að hafa í huga við skautaiðkun.

Hlaupanámskeiðin henta vel sem grunnur fyrir byrjendur eða lengra komna sem langar til að fræðast og ná meiri hraða og úthaldi.

Námskeiðið er líka frábær viðbót fyrir alla þá sem stunda listskauta og íshokkí til að byggja upp hraða og snerpu.

Þjálfari er Andri Freyr Magnússon,  er hann fyrir löngu búinn að byggja upp langan þjálfara feril í íshokkí SA-SR-Fjölni sem og listskauta hjá Öspinni.

  • Tímabil: 23. apríl – 28. maí
  • Fyrir: Skautara fædda 2000 og eldri
  • Æfingatímar:
  • Miðvikudagar 21:00-21:40
  • Föstudagar 6:30-7:30
  • Staðsetning: Skautasvellið í Egilshöll
  • Verð: 28.310 kr

Frábært tækifæri til að þróa skautahreyfingar, þol og hraða undir handleiðslu þjálfara!

Ekki er gerð krafa á að vera á skautahlaupsskautum

Tökum hraðann á þetta – sjáumst á svellinu!

⛸ 6 vikna skautanámskeið fyrir byrjendur og lengra komna! ⛸

Viltu bæta þig á skautum eða prófa eitthvað nýtt? Þetta 6 vikna námskeið er fyrir fædda 2011 og eldri, bæði byrjendur og þá sem vilja þróa færni sína enn frekar í skemmtilegu og hvetjandi umhverfi!

  • 📅 Tímabil: 23. apríl – 31. maí (6 vikur)
  • 📍 Staðsetning: Skautasvellið í Egilshöll
  • 💰 Verð: Frá 15.000 kr
  • 👥 Fyrir: 2011 og eldri

🕒 Æfingatímar:

  • ➡️ Miðvikudagar
  • 🔹 20:00-20:50 (afís)
  • 🔹 21:00-21:40 (á svellinu)

🔥 Hægt er að velja námskeið með eða án afís æfinga!

Á námskeiðinu verður unnið með:

  • ✅ Grunnatriði skauta- og jafnvægistækni
  • ✅ Tækniæfingar fyrir stöðugleika og stjórn á hreyfingum
  • ✅ Framfarir út frá færnistigi hvers og eins
  • ✅ Skemmtilegar og fjölbreyttar æfingar fyrir alla
  • Skautar og hjálmar eru í boði fyrir þá sem vilja fá lánað!

Hvort sem þú ert að stíga þín fyrstu skref eða vilt bæta þig enn frekar, þá er þetta námskeið fyrir þig! Komdu með og finndu gleðina á ísnum! ❄️💙

⛸ Skautaskólinn – 6 vikna námskeið hefst 23. apríl!

Langar barninu þínu að læra að skauta? Skautaskólinn er fullkominn fyrir börn á aldrinum 3-12 ára sem vilja læra grunnatriðin á ísnum í skemmtilegu og öruggu umhverfi! ❄️

  • 📅 Tímabil: 23. apríl – 31. maí (6 vikur)
  • 📍 Staðsetning: Skautasvellið í Egilshöll
  • 💰 Verð frá 15.000 kr
  • 👦👧 Fyrir börn fædd 2012-2021

🕒 Æfingatímar:

  • ➡️ Miðvikudagar kl. 16:20-17:00
  • ➡️ Laugardagar kl. 12:20-13:00
  • 🔹 Hægt er að skrá sig á miðvikudaga, laugardaga eða báða daga!

📩 Skráning fer fram á XPS!

Í skautaskólanum læra börn:

  • ✅ Fyrstu skrefin á ísnum
  • ✅ Jafnvægisæfingar
  • ✅ Að skauta áfram og aftur á bak
  • ✅ Að stoppa á öruggan hátt

Skautar og hjálmar eru í boði fyrir öll sem vilja fá lánað!

Komdu og prófaðu – skautagleðin bíður! ⛸💙

Námskeið í samhæfðum skautadansi (Synchro)! ⛸

Langar þig að prófa samhæfðan skautadans? Nú hefur þú tækifæri til að læra og bæta þig í þessari skemmtilegu og lifandi íþrótt!

  • 📅 Tímabil: 23. apríl – 31. maí
  • 👥 Fyrir: Skautara fædda 2000-2012

📍 Æfingatímar:

  • ➡️ Miðvikudagar
    • 🔹 19:15-19:45 (afís)
    • 🔹 20:05-21:00 (á svellinu)
  • ➡️ Laugardagar
    • 🔹 9:40-10:30 (á svellinu)

💰 Verð: 35.813 kr

Komdu og taktu þátt í frábæru námskeiði þar sem við vinnum saman í liðsheild, skemmtilegum mynsturum og öflugri tækni!


Við hlökkum til að sjá þig á svellinu! ⛸❄️


Skriðsundsnámskeið fyrir fullorðna – Skráning hafin!

🏊‍♀️ Skriðsundsnámskeið fyrir fullorðna

Langar þig að læra skriðsund frá grunni eða fínpússa tækni og takt? Fjölnir býður upp á öflugt námskeið fyrir fullorðna, kennt af reyndum kennara í Grafarvogslaug.

 
📅 Dagsetningar: 22. apríl – 29. maí
📍 Staðsetning: Grafarvogslaug
🕗 Tímar: Þriðjudagar og fimmtudagar kl. 20:00–21:00
💰 Verð: 20.000 kr.
🚫 Aðgangur í laugina er ekki innifalinn
 
📩 Skráning og nánari upplýsingar á XPS!
 
Vertu með og styrktu sundtæknina þína með okkur! 💦
 

#FélagiðOkkar 💛💙


Ungbarnasund hjá Fjölni - skráning hafin

👶💦 Ungbarnasund hjá Fjölni 💙

Við bjóðum upp á skemmtilegt og öruggt ungbarnasund fyrir börn á aldrinum 0–18 mánaða í innilaug Grafarvogslaugar! Námskeiðið er frábær leið til að styrkja tengsl og skapa jákvæða upplifun í vatni frá unga aldri.

 
📅 Dagsetningar: 27. apríl – 25. maí
🕙 Tími: Sunnudagar kl. 10:00–10:40
📍 Staðsetning: Innilaug Grafarvogslaugar
💰 Verð: 15.000 kr.
👨‍👩‍👧 Forráðamenn greiða aðgang inn í laugina
📸 Ljósmyndari mætir í síðasta tímanum – dýrmætar minningar fangaðar á mynd!
 
📩 Skráning og nánari upplýsingar á XPS!
 
Við hlökkum til að sjá ykkur í lauginni! 💦✨
 

#FélagiðOkkar 💛💙


Glæsilegur árangur tennisdeildar Fjölnis á Íslandsmóti TSÍ innanhúss 2025

Tennisdeild Fjölnis skilaði frábærum árangri á Íslandsmóti TSÍ innanhúss sem haldið var dagana 27. mars til 2. apríl í Tennishöllinni í Kópavogi. Keppendur félagsins unnu til fjölda verðlauna í ýmsum aldurs- og keppnisflokkum, sem endurspeglar öflugt starf deildarinnar.

Ungt efni skín skært

Hinn 15 ára Daniel Pozo vakti mikla athygli með því að ná 3. sæti í meistaraflokki karla einliða eftir að hafa sigrað Raj Kumar, einn af sterkustu tennisspilurum landsins, með settaúrslitunum 4–6, 7–5, 6–0. Daniel tryggði sér einnig Íslandsmeistaratitil í U16 flokki og hafnaði í 4. sæti í meistaraflokki karla tvíliða.

Sterk frammistaða kvenna

Í meistaraflokki kvenna einliða náði Íva Jovisic 3. sæti og Eygló Dís Ármannsdóttir 4. sæti.

Í tvíliðaleik kvenna unnu Íva og Saule Zukauskaite til silfurverðlauna.

Árangur í yngri flokkum

Systkinin Paula Marie og Juan Pablo Moreno Monsalve sýndu einnig styrk sinn; Paula varð Íslandsmeistari í U12 stelpur einliða og Juan Pablo hafnaði í 2. sæti í U14 strákar einliða.

Frábær árangur í 30+ flokkum

Ólafur Helgi Jónsson náði 4. sæti í 30+ karla einliða og 2. sæti í 30+ karla tvíliða.

Í 30+ kvenna tvíliða unnu Rebekka Pétursdóttir og Sigríður Sigurðardóttir til gullverðlauna og urðu þar með Íslandsmeistarar í þeim flokki.

Þessi árangur endurspeglar metnaðarfullt og faglegt starf tennisdeildar Fjölnis og lofar góðu fyrir framtíðina.

Til hamingju öll með árangurinn!


Verkefnastjóri óskast

Ungmennafélagið Fjölnir óskar eftir að ráða drífandi og kraftmikinn verkefnastjóra á skrifstofu félagsins í Egilshöllinni í Grafarvogi.

Við leitum að skipulögðum einstaklingi með frumkvæði og góða samskiptahæfni sem hefur áhuga á að taka virkan þátt í fjölbreyttum verkefnum félagsins.

Helstu verkefni og ábyrgð:

🔹Umsjón með skráningu iðkenda og innheimtu æfingagjalda
🔹Aðstoð og upplýsingagjöf til stjórna deilda vegna daglegs reksturs
🔹Samskipti við og upplýsingagjöf til samtaka innan íþróttahreyfingarinnar
🔹Skipulagning og aðstoð við viðburði og önnur verkefni á vegum félagsins
🔹Greiðsla reikninga í samvinnu við framkvæmdastjóra
🔹Umsjón með innkaupum á rekstrarvöru
🔹Móttaka, símsvörun og almenn skrifstofustörf

Hæfniskröfur og menntun:

🔹Menntun og/eða reynsla sem nýtist í starfinu
🔹Reynsla af störfum innan íþróttahreyfingarinnar er kostur
🔹Þekking á iðkendakerfum eins og XPS eða Abler er æskileg
🔹Góð kunnátta í íslensku og ensku, bæði í ræðu og riti
🔹Hreint sakavottorð

Umsóknarfrestur:

Umsóknir berist í gegnum Alfreð - https://alfred.is/.../verkefnastjori-oskast-a-skrifstofu...
Umsóknarfrestur er til og með 27. apríl 2025.
Óskað er eftir ferilskrá og kynningarbréfi.
Athugið að unnið verður úr umsóknum jafnóðum og þær berast.


Jón Karl Ólafsson er þriðji heiðursforseti Fjölnis

Aðalfundur félagsins var haldinn þriðjudaginn 8. apríl 2025 í Miðjunni í Egilshöll. Þar kom saman fjölmennur hópur félagsmanna. Á fundinum var tilkynntur þriðji heiðursforseti Fjölnis.

Í reglugerð um veitingu viðurkenninga segir um heiðursforseta: „Heiðursforseti félagsins er æðsta viðurkenning félagsins, sem veita má þeim einstaklingum, sem sinnt hafa formennsku í aðalstjórn félagsins í a.m.k. sjö ár, eða þeim einstaklingum sem þykja hafa unnið sérstaklega vel í málefnum félagsins um árabil. Tilnefningar um heiðursforseta þurfa að hafa stuðning a.m.k. 5 einstaklinga frá aðalstjórn og hið minnsta frá 3 deildum félagsins. Tilnefningar skulu berast skriflega til aðalstjórnar eigi síðar en 4 vikum fyrir aðalfund. Tilnefningar skal bera undir sameiginlegan fund aðalstjórnar og formanna deilda félagsins og eru aðeins samþykktar ef a.m.k. 4/5 hluti þeirra sem mæta á fundinn eru sammála niðurstöðunni.”

Fundur fulltrúa aðalstjórnar með fulltrúum deilda var haldinn þann 2. apríl sl. þar sem tilnefningin var samþykkt samhljóða.

 

Þriðji heiðursforseti Fjölnis er Jón Karl Ólafsson

Jón Karl Ólafsson átti sæti í aðalstjórn Fjölnis í um 20 ár og þar af sem formaður aðalstjórnar frá árinu 2009 til ársins 2024. Fimmtán ár sem formaður í einu stærsta íþróttafélagi landsins er ærið langur tími og krefst mikillar fórnfýsi.

Jón Karl er einstakur maður sem gefur endalaust af sér til félagsmála en hann á alltaf tíma fyrir íþróttahreyfinguna og er boðinn og búinn í að leggja sína krafta og sitt af mörkum fyrir hana.

Við í Fjölnir vorum einstakleg heppinn að hann og fjölskylda hans fluttu í Grafarvoginn og að við skyldum hafa notið krafta hans í öll þessi ár. Jón Karl hefur lagt sig 100% fram um að hlúa að félaginu okkar og hefur alltaf verið klár í að leiða það áfram í gegnum súrt og sætt.

Aðstöðumál eru eitt af stóru verkefnunum hjá íþróttahreyfingunni og þar hefur Jón Karl ásamt Gumma framkvæmdastjóra og aðalstjórn félagsins keyrt hlutina áfram af miklum eldmóð og krafti sem hefur skilað okkur margbættri aðstöðu á undanförnum árum.

Jón Karl gekk í gegnum erfið veikindi á meðan hann stóð vaktina hjá okkur í Fjölni en hann sló ekkert af fyrir félagið og var aðdáunarvert að fylgjast með hvernig hann tókst á við veikindin að æðruleysi og virðingu.

Jón Karl er drengur góður með stórt og hlýtt hjarta sem gefur sig allan í það sem hann tekst á við í lífinu, hann er góður fjölskyldumaður, félagi og vinur. Hann hefur komið að ófáum verkefnum innan íþróttahreyfingarinnar. Hann er einn þeirra sem kann ekki að segja nei og er alltaf tilbúinn að takast á við stór sem smá verkefni fyrir hreyfinguna hvort sem er fyrir Fjölnir, ÍBR, ÍSÍ eða UMFÍ.

Kærar þakkir fyrir allt þitt óeigingjarna starf fyrir félagið Jón Karl síðustu tvo áratugi.

Jón Karl hlaut gullmerki nr. 30 árið 2019 og er hér með þriðji heiðursforseti Fjölnis


Fimm nýir heiðursfélagar Fjölnis

Aðalfundur félagsins var haldinn þriðjudaginn 8. apríl 2025 í Miðjunni í Egilshöll. Þar kom saman fjölmennur hópur félagsmanna. Á fundinum bættust fimm einstaklingar í hóp þeirra heiðursfélaga sem fyrir eru.

Í reglugerð um veitingu viðurkenninga segir um heiðursfélaga: „Heiðursfélagi er næst æðsta viðurkenning sem veitt er til almennra félagsmanna. Hana má veita til þeirra, sem starfað hafa vel og dyggilega fyrir félagið í 20 ár eða lengur. Tilnefningar um heiðursfélaga þurfa að hafa stuðning a.m.k. 3 einstaklinga frá aðalstjórn og hið minnsta 2 deildum félagsins. Tilnefningar skulu berast skriflega til aðalstjórnar eigi síðar en 4 vikum fyrir aðalfund. Tilnefningar skal bera undir sameiginlegan fund aðalstjórnar og formanna deilda félagsins og eru aðeins samþykktar ef a.m.k. 4/5 hluti þeirra sem mæta á fundinn eru sammála niðurstöðunni.”

Fundur fulltrúa aðalstjórnar með fulltrúum deilda var haldinn þann 2. apríl sl. þar sem farið var yfir framkomnar tilnefningar og þær allar samþykktar samhljóða.

Ungmennafélagið Fjölnir óskar nýjum heiðurfélögum innilega til hamingju!

 

Heiðursfélagi nr. 5 - Helgi Árnason

Árið 2004 stofnaði Helgi skákdeild Fjölnis og var jafnframt fyrsti formaður deildarinnar og er það enn. Auk þess að vera formaður deildarinnar í þessi 21 ár sem deildin hefur starfað hefur hann jafnframt verið þjálfari. Raunar hóf hann skákkennslu í Grafarvogi árið 1993 þegar Rimaskóli var stofnaður en Helgi var skólastjóri Rimaskóla frá stofnun skólans 1993 til ársins 2019 og hefur skákin verið eitt af flaggskipum skólans.

Helgi hefur sýnt skákinni og skákdeildinni endalausa virðingu og elju. Deildin hefur alið ófáa afreksmennina í gegnum árin og vakið mikla athygli sem samtenging milli skólaskákar og keppnisskákar. Þess má geta að síðustu tvö árin hefur deildin orðið Íslandsmeistari skákfélaga í úrvalsdeild með fullu húsi stiga bæði árin.

Það hafa aldrei verið æfingagjöld hjá deildinni heldur hefur Helgi verið afskaplega duglegur að sækja styrki til að reka deildina. Hann hefur einnig lagt mikla áherslu á að skákin sé fyrir alla og að öll kyn séu jafn velkomin í skák. Þá hefur Helgi skipulagt og stýrt fjölmörgum skákmótum sem félaginu hefur verið falið að halda á þessum árum.

Frá upphafi skákdeildarinnar hefur deildin alla tíð haft aðstöðu í Rimaskóla fyrir æfingar og sem skólastjóri var Helgi alltaf tilbúinn að greiða götu félagsins og deilda þess með aðstöðu ef þess var nokkur kostur.

Helgi hlaut silfurmerki nr. 63 árið 2005 og gullmerki nr. 23 árið 2018. Þá var Helgi valinn Fjölnismaður ársins árið 2011 og er nú hér með heiðursfélagi Fjölnis nr. 5.

Kærar þakkir fyrir öll þín mikilvægu störf fyrir félagið Helgi og við hlökkum til að starfa með þér áfram.

 

Heiðursfélagi nr. 6 - Hreinn Ólafsson

Hreinn er líklega einn af lengst starfandi sjálfboðaliðum félagsins en hann hóf störf fyrir frjálsíþróttadeildina á fimmta aldursári félagsins, eða árið 1993 - fyrir 32 árum.

Í deildinni starfaði hann samfleytt í stjórn eða varastjórn í 30 ár og sinnti þar margvíslegum hlutverkum og alls konar verkefnum. Árið 1998 þegar 3. unglingalandsmót UMFÍ var haldið í Grafarvogi var Hreinn sem dæmi formaður unglingalandsmótsnefndar. Hreinn er afskaplega yfirvegaður maður, viljugur og lausnamiðaður sem oft hefur komið sér vel í störfum félagsins. Hann er ætíð boðinn og búinn að aðstoða við mótahald og annað það sem til fellur í störfum félagsins og er hann einn af þeim frábæru sjálfboðaliðum sem halda áfram að starfa fyrir félagið þrátt fyrir að börn hans séu vaxin úr grasi og ekki lengur iðkendur hjá félaginu. Auk þess að sinna frjálsíþróttadeildinni í öll þessi ár átti Hreinn einnig sæti í aðalstjórn Fjölnis á árunum 2018-2024 og reyndist hann þar líkt og í öðrum störfum fyrir félagið ráðagóður félagi sem þekkir starf félagsins afskaplega vel.

Hreinn hlaut silfurmerki nr. 8 árið 2000 og gullmerki nr. 18 árið 2015 og er nú hér með heiðursfélagi Fjölnis nr. 6.

 

Heiðursfélagi nr. 7 - Kári Arnórsson

Kári byrjaði eins og flestir sjálfboðaliðar á því að fylgja drengjunum sínum eftir í íþróttunum. Á meðan þeir voru í knattspyrnu sat Kári í flestum foreldraráðum, var liðstjóri og kom að öllu sem sneri að utanumhaldi við rekstur viðkomandi flokka. Þá hefur Kári setið árum saman í stjórn knattspyrnudeildar og hefur gengt þar ýmsum hlutverkum.

Kári hefur jafnframt verið liðstjóri meistaraflokks karla samfleytt frá árinu 2009 og hefur því verið fleygt að líklega er hann „leikjahæstur“ þ.e. skráður á flestar leikskýrslur í mfl. karla í knattspyrnu hjá Fjölni en hann hefur nánast verið á öllum leikjum liðsins allt frá árinu 2009, auk þess að hafa farið flestar æfingaferðir með liðinu.

Það er ekki nóg með að vera sjálfboðaliði í stjórn og liðstjórn heldur hefur Kári verið algjör lykilmaður í öllum framkvæmdum er varða aðalvöll Fjölnis í Dalhúsum, hvort sem um er að ræða byggingu varamannaskýla, aðstöðu fyrir fjölmiðla, byggingu á palli fyrir veitingarekstur, uppsetningu á skiltum og o.s.frv. Einnig stýrði hann framkvæmdum við gerð glæsilegra búningsklefa fyrir meistaraflokk kvenna og karla í Egilshöll. Það liggja því eftir hann ófá handtökin fyrir félagið en fyrir utan allan þann tíma sem hann hefur gefið félaginu í formi vinnu sinnar, sem og sinna starfsmanna, hefur hann einnig útvegað félaginu allskyns efni sem notað hefur verið í framkvæmdir.

Þessu til viðbótar sá Kári um getraunastarf félagsins í fjölda ára og er enn einn þeirra sem alltaf mætir og tekur þátt. Það er því óhætt að segja að Kári sé alltaf boðinn og búinn að koma að öllu því sem viðkemur sjálfboðaliðastarfi Fjölnis.

Kári hlaut silfurmerki nr. 58 árið 2005 og gullmerki nr. 16 árið 2012. Þá var Kári valinn Fjölnismaður ársins árið 2006 og er nú hér með heiðursfélagi Fjölnis nr. 7.

Kærar þakkir fyrir öll þín mikilvægu störf fyrir félagið Kári og við hlökkum til að starfa með þér áfram.

 

Heiðursfélagi nr. 8 - Valborg Guðrún Guðjónsdóttir og heiðursfélagi nr. 9 - Willem Cornelius Verheul

Það er vart hægt að tala um annað þeirra hjóna án þess að nefna hitt – enda hafa þau verið óaðskiljanleg í starfi Karatedeildar Fjölnis í á þriðja áratug. Af þeirri ástæðu er okkur sannur heiður að gera þau að heiðursfélögum Fjölnis fyrir ómetanlegt og óeigingjarnt framlag sitt til íþróttarinnar, deildarinnar og félagsins.

Það er oft talað um að ein krafan til þeirra sem sækjast eftir Dan gráðun (svarta beltið) í karate sé að þau verði að gefa til baka til íþróttarinnar. Fá hafa lagt sig jafn mikið fram um að gera slíkt eins og þau Valborg og Willem.

Án þeirra, ræki Karatedeild Fjölnis einfaldlega ekki þá öflugu starfsemi sem raun ber vitni. Þau hafa lagt ómælda vinnu í uppbyggingu deildarinnar, hvort sem það er í þjálfun, stjórnarsetu, liðsstjórn eða dómgæslu. Öll þeirra börn hafa stundað karate, og sjálf hafa þau gengið í öll möguleg ábyrgðarhlutverk – jafnan oftar en einu sinni.

Það er erfitt fyrir utanaðkomandi að átta sig á því hversu dýrmæt þau eru fyrir starfsemina, en fyrir okkur sem höfum notið eljusemi þeirra og eldmóðs er það augljóst. Kærar þakkir Willem og Valborg fyrir ykkar mikla og óeigingjarna starf í þágu félagsins í áraraðir – við hlökkum til að starfa með ykkur áfram.

Valborg hlaut silfurmerki nr. 123 árið 2014 og gullmerki nr. 27 árið 2018 og er nú eins og áður sagði hér með heiðursfélagi Fjölnis nr. 8.

Willem hlaut silfurmerki nr. 101 árið 2010 og gullmerki nr. 26 árið 2018 og er hér með heiðursfélagi Fjölnis nr.9.


Sex nýir handhafar gullmerkis Fjölnis

Aðalfundur félagsins var haldinn þriðjudaginn 8. apríl 2025 í Miðjunni í Egilshöll. Þar kom saman fjölmennur hópur félagsmanna. Á fundinum voru veitt sex ný gullmerki til félagsmanna Fjölnis.

Í reglugerð um veitingu viðurkenninga segir „Gullmerkið er viðurkenning félagsins, sem veita má þeim sem starfað hafa í stjórnum í 10 ár eða lengur, eða hafa með öðrum hætti unnið vel og dyggilega fyrir félagið. Merkið er einnig veitt fyrir sérstök íþróttaafrek.“

Ungmennafélagið Fjölnir óskar öllum gullmerkishöfum innilega til hamingju!

 

Gullmerki nr. 42 hlýtur María Baldursdóttir (karatedeild)

María Baldursdóttir er fyrrverandi formaður Karatedeildar Fjölnis og hóf fyrst þátttöku í starfi deildarinnar, eins og svo mörg önnur, með því að fylgja börnunum sínum á æfingar. Fljótlega tók hún virkari þátt með því að setjast í stjórn deildarinnar og gegndi formennsku um árabil.

Þegar drengurinn hennar lét af iðkun íþróttarinnar var María þó ekki af baki dottin heldur tók að sér nýtt hlutverk. Fyrir hönd Karatedeildar Fjölnis settist hún í stjórn Karatesambands Íslands og tók þar að sér eitt streitufyllsta og vanþakklátasta hlutverk hreyfingarinnar – formennsku í mótanefnd. Í því hlutverki stýrði hún mótahaldi í níu ár og bar ábyrgð á öllum mótum, bæði smærri mótum Karatesambandsins og á stærri alþjóðlegum mótum eins og Norðurlandameistaramótum og Smáþjóðaleikum.

Íþróttahreyfingin byggist á sjálfboðaliðum, og þar er Karatedeild Fjölnis engin undantekning. Okkar heppni hefur verið að eiga einstaklinga eins og Maríu, sem með óeigingjörnu starfi sínu hefur lagt grunn að öflugri og sjálfbærri starfsemi. #TakkMæja

María hlaut silfurmerki félagsins nr. 151 árið 2017 og hlýtur nú gullmerki nr. 42.

 

Gullmerki nr. 43 hlýtur Snæbjörn Willemsson Verheul (karatedeild)

Snæbjörn byrjaði að æfa karate í janúar 2004 og hefur því verið viðloðandi Karatedeild Fjölnis í 21 ár. Hann hóf fljótlega að keppa fyrir hönd deildarinnar og náði fljótlega góðum árangri. Hann var alltaf í verðlaunasætum í bæði kata og kumite þangað til að hann hætti keppnisþátttöku árið 2011. En á þeim tíma tók hann, meðal annars, þátt í tveimur heimsmeistaramótum sem haldin voru á vegum Kobe Osaka International sambandsins.

Hann hóf fljótt að aðstoða við þjálfun og starfar í dag sem aðstoðaryfirþjálfari deildarinnar. Hann menntaði sig sem styrktarþjálfari og býður framhaldshópum og afrekshópum sérsniðina styrktarþjálfun.

Snæbjörn hefur verið dómari fyrir hönd Fjölnis á mótum innanlands og erlendis og sat á tímabili í stjórn deildarinnar sem fulltrúi yngri iðkenda.

Snæbjörn hlaut silfurmerki félagsins nr. 168 árið 2019 og hlýtur nú gullmerki nr. 43.

 

Gullmerki nr. 44 hlýtur Ágúst Jónsson (frjálsíþróttadeild)

Ágúst kom inn í starf frjálsíþróttadeildarinnar fyrst fyrir um það bil 13 árum síðan, fyrst sem sjálfboðaliði og síðar sem stjórnarmaður. Hann hefur frá fyrsta degi verið mjög virkur, sá um tímatökur fyrir deildina frá fyrsta degi og allt þangað til tímataka.is tók við allri tímatöku fyrir 4-5 árum síðan. Fljótlega eftir að Ágúst kom að starfi deildarinnar tók hann að sér að halda utan um teppalagnir í Laugardagshöllinni fyrir deildina og hefur stýrt því með miklum sóma.

Ágúst var forsprakki hópsins "fullorðins frjálsar" sem fór í gang ca. 2017-18, og hefur verið okkar fremsti maður í öldungaflokki síðustu ár. Enn fremur hefur Ágúst verið einn ötulasti maður deildarinnar við að halda Fjölnishlaupinu gangandi í áraraðir og lagt mikla vinnu í það starf. Þá hefur Ágúst einnig unnið mikið fyrir FRÍ á vegum frjálsíþróttadeildarinnar.

Ágúst hefur verið sérlega ósérhlífinn og duglegur við öll störf sem koma að rekstri frjálsíþróttadeildar Fjölnis og mótahaldi á umliðnum árum. Hann lét af störfum í stjórn frjálsíþróttadeildar nú á dögunum en við vonumst nú til að hafa hann á hliðarlínunni áfram.

Ágúst hlaut silfurmerki félagsins nr. 196 árið 2022 og hlýtur nú gullmerki nr. 44.

 

Gullmerki nr. 45 hlýtur Guðlaug Björk Karlsdóttir (aðalstjórn)

Guðlaug gekk til liðs við stjórn Körfuknattleiksdeildar Fjölnis árið 2013 og gegndi þar lykilhlutverki í áratug. Hún var formaður deildarinnar á árunum 2016–2020 og sinnti á þeim tíma fjölbreyttum verkefnum af miklum metnaði og drifkrafti.

Guðlaug var óþreytandi við að efla starf deildarinnar, virkja fólk í kringum sig og hvetja til þátttöku og umræðu innan stjórnar.

Í hennar formannstíð voru m.a. haldin dómaranámskeið fyrir iðkendur og foreldra, komið á styrktarþjálfun fyrir stúlkur í körfubolta og boðið upp á morgunæfingar fyrir yngri iðkendur. Hún stóð einnig fyrir sumarnámskeiðum með landsliðsfólki, svokölluðum Körfuboltabúðum Fjölnis, sem Ægir Þór Steinarsson og Heiðrún Kristmundsdóttir stýrðu. Guðlaug hafði jafnframt frumkvæði að því að ráða Heiðrúnu í markaðsstarf með það að markmiði að fjölga iðkendum.

Þó Guðlaug hafi látið af formennsku deildarinnar árið 2020 hélt hún áfram að styðja stjórnina af miklum krafti og var í raun burðarás í fjármálum deildarinnar í heilan áratug. Hún lagði ríka áherslu á traust fjármál og sýndi það í verki. Þá stjórnaði hún Fjölnismótunum af mikilli prýði og fagmennsku.

Árið 2020 var Guðlaug kjörin í aðalstjórn félagsins þar sem hún hefur átt sæti síðan en nú hefur hún ákveðið að láta staðar numið og snúa sér að öðrum hugðarefnum.

Starf Guðlaugar er einstakt dæmi um elju, metnað og ómetanlegt sjálfboðastarf í þágu íþróttastarfs – og fyrir það viljum við þakka henni af heilum hug.

Guðlaug hlaut silfurmerki félagsins nr. 181 árið 2019 og hlýtur nú gullmerki nr. 45.

 

Gullmerki nr. 46 hlýtur Guðmundur Lúðvík Gunnarsson (aðalstjórn)

Guðmundur Lúðvík, eða Gummi eins og við flest þekkjum hann settist fyrst í aðalstjórn Fjölnis árið 2008 en var síðar ráðinn framkvæmdastjóri félagsins og gengdi því hlutverki í rúm 13 ár eða þar til hann lét af störfum undir lok síðasta árs.

Það er ærið verkefni að stýra einu stærsta íþróttafélagi landsins og hefur félagið gengið í gegnum gríðarlegar breytingar frá þeim tíma þegar hann tók við stjórnartaumunum. Eitt það stærsta er eflaust að árið 2007 var ákveðið að fara í þá vegferð að færa alla daglega fjársýslu deilda af deildarstjórnum (sjálfboðaliðum) og létta þar með ábyrgðinni af þeim inn á miðlæga skrifstofu þar sem daglegum rekstri er stýrt í dag. Árið 2011 þegar Gummi tók við sem framkvæmdastjóri bretti hann upp ermarnar ásamt aðalstjórn félagsins með

formanninn Jón Karl í broddi fylkingar og keyrði þessar breytingar í gegn sem voru komnar af stað en félaginu vantaði kraft til að klára.

Auk þess hefur félagið stækkað mikið á þessum tíma, bæði hefur deildum fjölgað en ekki hvað síst hefur iðkendum fjölgað mikið með sífellt betri aðstöðu.

Það lýsir Gumma líklega best að hann er ófeiminn við að takast á við verkefni bæði stór sem smá, engin verkefni of lítil eða ómerkileg til að skella sér í þau. Hann er afar bóngóður til allskyns verkefna og hefur hann alla tíð sinnt félaginu einnig sem sjálfboðaliði því að börn þeirra hjónanna hafa í gegnum tíðina verið iðkendur hjá félaginu og sjálfboðaliðavinnunni í kringum það hefur Gummi einnig viljað sinna.

Fjölnir á Gumma gríðarlega mikið að þakka, hann hefur unnið ófáar klukkustundirnar, jafnt um kvöld sem og um helgar til að sinna því sem sinna þarf hjá stóru félagið. Takk fyrir allt Gummi.

Guðmundur hlaut silfurmerki félagsins nr. 134 árið 2015 og hlýtur nú gullmerki nr. 46.

 

Málfríður Ósk, barnabarn og nafna, tekur við gullmerkinu fyrir hönd Málfríðar

Gullmerki nr. 47 hlýtur Málfríður Sigurhansdóttir (aðalstjórn)

Allir sem á einhverjum tímapunkti síðustu 20 ár hafa komið að einhverju sjálfboðaliðastarfi fyrir Fjölni vita hver Fríða er auk alls þess aragrúa iðkenda, foreldra og annarra forráðamanna sem hafa kynnst henni í gegnum árin.

Það má segja að Fríða sé eiginlega búin að vera hjartað í félaginu mörg undanfarin ár. Hún hóf sinn „feril“ sem sjálfboðaliði fyrir Fjölni á síðustu öld, já líklega einhvern tímann í kringum 1997 var hún byrjuð að koma að starfi félagsins og átti síðar eftir að sitja í deildarstjórnum og um tíma sem formaður sunddeildarinnar. Árið 2007 varð félagið svo þeirrar gæfu aðnjótandi að ráða hana til starfa hjá félaginu þar sem hún hefur starfað óslitið síðan eða í rúm 17 ár.

Það er eiginlega þannig að ef Fríða veit það ekki þá veit það enginn ef spurt er um hvernig hlutirnir eru gerðir eða hafa verið gerðir á umliðnum árum hjá félaginu. Fríða er með eindæmum bóngóð, alltaf svo yfirveguð og jákvæð að unun er með að fylgjast. Hvort sem beiðnirnar eru stórar eða smáar þá má alltaf redda því, ég held hreinlega að annað sé ekki til í orðabók Fríðu.

Fríða hefur eins og gefur að skilja á þessum langa tíma fylgt félaginu í gegnum gríðarmiklar breytingar og ávallt hefur hún tekist á við ný verkefni, nýja tækni, nýjar nálganir með bjartsýni og vilja til að læra og takast á við nýja hluti.

Það kemur því ekkert á óvart að hún sé enn tilbúin að takast á við nýja hluti en svo háttar til að hún mun á næstu vikum hverfa frá störfum á skrifstofu Fjölnis og takast á við ný og spennandi verkefni.

Það verður risaskarð að fylla í sporin hennar Fríðu en hún býr nú ennþá hérna hinum megin við götuna og ég hef fulla trú á að hún verði okkar áfram innan handar svona óbeint í það minnsta því Fjölniskona er hún eins og þær gerast bestar.

Málfríður hlaut silfurmerki félagsins nr. 43 árið 2004, var valin Fjölnismaður ársins 2010 og hlýtur nú gullmerki nr. 47.