Viðburðarík sumarbyrjun í frjálsum

Það hefur verið nóg um að vera hjá frjálsíþróttadeild Fjölnis síðustu vikurnar.

FJÖLNISHLAUPIÐ

Á Uppstigningardag, 29.maí, fór Fjölnishlaupið fram í 37. sinn en að vanda var keppt í 10 km, 5 km auk 1,4 km skemmtiskokki. 85 manns skiluðu sér í mark í 10 km hlaupinu, 97 í 5 km hlaupinu og hvorki fleiri né færri en 183 í skemmtiskokkinu.

VORMÓT FJÖLNIS

Þann 3.júní hélt deildin sitt árlega Vormót Fjölnis, fyrir 11-15 ára iðkendur. Hvorki mótshaldarar né íþróttafólk létu gula viðvörun fyrri hluta dags hafa áhrif á sig og mættu yfir 100 keppendur til leiks og kepptu í spretthlaupi, langstökki, kúluvarpi og 600/800m hlaupi. Þrátt fyrir að veður hafi ekki verið upp á sitt besta voru samt sem áður sett tæplega 100 persónuleg met á mótinu. Fjölnisstúlkurnar Margrét Einarsdóttir og Eva Unnsteinsdóttir lönduðu báðar gulli í kúluvarpi auk þess sem Eva nældi í silfur í 100 m hlaupi og brons í langstökki. Agnes Ingunn Steinsdóttir náði einnig í bronsverðlaun í 800 m hlaupi.

MEISTARAMÓT ÍSLANDS

Helgina 14.-15.júní fór svo fram Meistaramót Íslands 11-14 ára. Iðkendur Fjölnis settu 17 persónuleg met á mótinu og komu heim með 5 gullverðlaun, 2 silfur og 6 brons. Eva Unnsteinsdóttir var Íslandsmeistari í kringlukasti, kúluvarpi, spjótkasti og þrístökki. Aðrir verðlaunahafar Fjölnis voru þau Arnþór Ísar Leifsson, Agnes Ingunn Steinsdóttir og Viktorija Sudrabina Anisimova.

13 ára stúlkur unnu svo Íslandsmeistartitilinn í 4×100 m boðhlaupi og urðu einnig Íslandsmeistarar í liðakeppni 13 ára stúlkna með miklum yfirburðum. Frábær árangur hjá stúlkunum.

Viku síðar, helgina 20.-22.júní fór svo fram Meistaramót Íslands 15-22 ára. Þar átti Fjölnir 17 keppendur og kom heim með 16 Íslandsmeistaratitla, 9 silfurverðlaun og 5 bronsverðlaun. Íslandsmeistaratitli náðu:

Kjartan Óli Bjarnason – 200 m og 400 m hlaup 18-19 ára pilta

Pétur Óli Ágústsson – 110 m grindahlaup og 400 m grindahlaup 18-19 ára pilta

Grétar Björn Unnsteinsson – stangarstökk 18-19 ára pilta

Kristjana Lind Emilsdóttir – 100 m og 200 m hlaup 20-22 ára stúlkna

Christina Alba Marcus Hafliðadóttir – 200 m hlaup og langstökk 18-19 ára stúlkna

Sara Gunnlaugsdóttir – 400 m hlaup og 400 m grindahlaup 20-22 ára stúlkna

Hanna María Petersdóttir – stangarstökk 20- 22 ára stúlkna

Arna Rut Arnarsdóttir – 100 m grindahlaup og kringlukast 20-22 ára stúlkna

Boðhlaussveitir Fjölnis – 4×100 m boðhlaup 18-19 ára pilta og 4×400 m blandað boðhlaup 20-22 ára.

20-22 ára stúlkur vörðu svo Íslandsmeistaratitill sinn í liðakeppni.

BIKARKEPPNIR FRÍ

Fyrstu helgina í júli fóru svo fram Bikarkeppnir Frjálsíþróttasambandsins, sem er stigakeppni liða. Einn keppandi er frá hverju lið í hverri grein og safnar hver keppandi stigum fyrir lið sitt í samræmi við það sæti sem hann lendir í. Fjölnir sendi sameiginlegt lið með UMSS í flokkum fullorðinna auk stúlknaliðs í undir 15 ára flokki. Karlaliðið endað í 2.sæti, einungis 2 stigum á eftir sigurliðinu, kvennaliðið var í 3.sæti og í heildar stigakeppni endaði liðið í 3.sæti.

EVRÓPUBIKAR LANDSLIÐA

Að auki átti Fjölnir tvo keppendur í 3.deild Evrópubikars landsliða í Maribor í Slóveníu 24.-25.júní, sem er sambærilegt Bikarkeppni FRÍ, þar sem einn keppandi kemur frá hverju landi og safnar stigum fyrir liðið. Guðjón Dunbar D. Þorsteinsson keppti í þrístökki og Daði Arnarson keppti í 800 m hlaupi en hann bætti sinn persónulega árangur utanhúss í hlaupinu. Ísland gerði sér lítið fyrir og sigraði keppnina með yfirburðum og mun því keppa 2.deildinni eftir 2 ár.

Frábærar vikur að baki og enn fullt spennandi framundan það sem eftir lifir sumri.


Fjölnisfólk á Norðurlandamótinu í U16 körfubolta

U16 landslið Íslands í körfubolta – bæði drengja og stúlkna – eru nú stödd í Finnlandi, þar sem Norðurlandamótið fer fram dagana 1.–6. júlí

Við hjá Fjölni erum stoltust af okkar fólki sem tekið hefur sæti í hópunum:

Frá Fjölni eru:

U16 stúlknalið

Arna Rún Eyþórsdóttir

Elín Heiða Hermannsdóttir

Helga Björk Davíðsdóttir

Aðstoðaþjálfari: Stefanía Ósk Ólafsdóttir

U16 drengjalið

Ísarr Logi Arnarsson

Þjálfari: Baldur Már Stefánsson

🎥 Streymisaðgangur

Til að fylgjast með leikjunum í beinni eða í endursýningu, er hægt að kaupa aðgang að streymi á Start | koristv.fi

🌐 Upplýsingasíður mótsins
Stelpurnar –  https://tulospalvelu.basket.fi/category/44060!kvkp2526/group/302254

Drengirnir –  https://tulospalvelu.basket.fi/category/42633!kvkp2526/tables

💪 Gleðilegar hamingjuóskir og góðs gengis
Við óskum ykkur öllum til hamingju með frábæran árangur. Það er ómetanlegt að sjá okkar fólk taka þátt í alþjóðlegum keppnum — Áfram Fjölnir!


Benedikt Rúnar Guðmundsson ráðinn í starf þjálfara yngri flokka

Gengið hefur verið frá ráðningu Benedikts Rúnars Guðmundssonar í starf þjálfara yngri flokka hjá Körfuknattleiksdeild Fjölnis.

Benedikt þarf vart að kynna fyrir körfuboltaunnendum, enda hefur hann vakið mikla athygli undanfarin misseri fyrir þjálfarastörf sín. Hann á langan og farsælan feril að baki, hefur unnið með fjölmörgum félagsliðum og oft hlotið Íslands- og bikarmeistaratitla með bæði unglinga- og meistaraflokki. Síðastliðinn vetur þjálfaði hann lið Tindastóls í Bónusdeild karla, sem háði úrslitaeinvígi við Stjörnuna á dögunum. Benedikt hefur jafnframt þjálfað marga yngri flokka og verið þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í körfubolta. Nú tekur hann við yngri flokkum Fjölnis og er væntanlegur til að styrkja og efla starf deildarinnar enn frekar.

Arnar B. Sigurðsson, formaður Körfuknattleiksdeildar Fjölnis: „Ráðning Benedikts er stórt skref í okkar stefnu um að hækka prófíl og styrkja stöðu Fjölnis í íslenskum körfuknattleik. Með reynslu og þekkingu mun Benedikt leiða yngri flokkana áfram á vegi framfara og þróunar. Við í stjórninni erum sannfærð um að með ráðningu hans styrkjum við enn frekar þá öru uppbyggingu sem átt hefur sér stað í yngriflokkastarfi félagsins á síðustu árum.“

Benedikt Rúnar Guðmundsson: „Ég er mjög spenntur fyrir nýju verkefni hjá Fjölni. Þessi hópur er áhugaverður og metnaðarfullur, og ég hlakka til að vinna með stjórn, iðkendum og öðrum þjálfurum, mörgum þeirra hef ég unnið með áður. Síðan ég var hjá Fjölni tímabilið 2020–2021 hefur alltaf verið planið að koma aftur, því hér leið mér mjög vel. Ég er því hæstánægður að vera kominn aftur og vera partur af frábæru ungliðastarfi.“


Baldur Már framlengir hjá Fjölni

Baldur Már framlengir hjá Fjölni

Körfuknattleiksdeild Fjölnis hefur framlengt samning við Baldur Má Stefánsson sem þjálfara meistaraflokks karla. Baldur tók við liðinu í nóvember síðastliðnum og leiddi það úr neðri hluta deildarinnar í sæti í undanúrslitum – árangur sem sýnir bæði styrk og stefnu í þjálfun Baldurs.

Baldur er vel þekktur innan félagsins, en á árum áður starfaði hann sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla hjá Fjölni í tvö ár, ásamt því að þjálfa drengja- og unglingaflokka félagsins með góðum árangri. Hann hefur einnig komið víða við í þjálfun, meðal annars hjá Stjörnunni, Álftanes, Breiðabliki og yngri landsliðum Íslands. Áður en Baldur snéri aftur í Grafarvoginn starfaði hann sem aðstoðarþjálfari ÍR í Bónusdeildinni.

Baldur segir sjálfur um framhaldið: „Ég er gríðarlega spenntur fyrir uppbyggingunni hjá okkur í Fjölni bæði innan og utan vallar. Við erum með sterkt lið og efnilega yngri flokka. Markmiðið er að stækka körfuboltasamfélagið í Grafarvoginum og koma liðinu á hærri stall.“

Stjórn körfuknattleiksdeildar Fjölnis fagnar áframhaldandi samstarfi við Baldur: „Það er okkur mikilvægt að halda áfram með Baldur við stjórnvölinn. Hann hefur skýra sýn á framhaldið, þar sem byggt er á sterkum kjarna heimamanna og áframhaldandi þróun yngri leikmanna félagsins. Við erum spennt fyrir framtíðinni og þeirri vegferð sem við höfum hafið saman.“

Við óskum Baldri áframhaldandi góðs gengis í Grafarvogi – framtíðin er björt!


Fréttabréf Listskautadeildar

Fréttabréf Listskautadeildar

Kæru iðkendur, foreldrar og stuðningsfólk,

Við viljum byrja á því að þakka sjálfboðaliðum okkar fyrir frábæra aðstoð. Starf eins og okkar byggist að stórum hluta á sjálfboðavinnu og væri einfaldlega ekki mögulegt án ykkar! Takk fyrir ykkar ómetanlega framlag 💛💙

Kristalsmótið endurvakið

Kristalsmótið var endurvakið í ár og haldið 5. apríl. Um er að ræða félagalínumót sem gekk mjög vel og skapaði skemmtilega stemningu á svellinu. Við vonumst til að gera þetta að árlegum viðburði á næsta tímabili.

Grunnpróf í apríl

Nokkrir skautarar þreyttu grunnpróf í apríl. Þetta eru próf sem hægt er að taka eftir að hafa lokið Skautum regnbogans og sýna getustig iðkenda með tilliti til keppnisþátttöku. Vel gert öll sem tóku prófin!

Keppnisferð til Riga

Í maí fór hópur skautara í keppnisferð til Riga í Lettlandi til að taka þátt í Volvo Open Cup. Fyrir marga var þetta fyrsta keppnisferðin til útlanda og fengu þau dýrmæta reynslu sem mun nýtast þeim áfram á skautasviðinu.

Þátttaka í starfi Skautasambandsins

Skautaþing ÍSS fór fram í maí og er mikilvægt að Fjölnir eigi virka fulltrúa í stjórnum og nefndum innan Skautasambands Íslands. Þjálfarar og afrekshópur tóku einnig þátt í afreksbúðum Skautasambandsins og ISU Visiting Coach verkefni – mikill lærdómur og innblástur þar að fá.

Vorhátíð og Disney á ís

Föstudaginn 30. maí héldum við vorhátíð í Gufunesbæ með grilli og leik. Mæting var frábær og veðrið með besta móti – kærar þakkir til allra sem komu og gerðu daginn einstakan.

Tveimur dögum síðar, sunnudaginn 1. júní, héldum við árlega vorsýningu deildarinnar. Þemað í ár var Disney á ís og tóku iðkendur frá öllum getustigum þátt – frá skautaskólanum upp í afrekshóp. Atriði úr Aladdín, Litlu hafmeyjunni, Hin ótrúlegu, Inside Out og fleiri kvikmyndum voru flutt og sýningarnar voru báðar troðfullar. Takk öll sem mættuð og studduð iðkendurna okkar!

Sumarbúðir og námskeið

Í júní höldum við sumarbúðir í samstarfi við Skautafélag Reykjavíkur (SR). Boðið er upp á þriggja vikna námskeið og er skráð í hverja viku fyrir sig.

  • Vika 1: Gestaþjálfarar eru Alexander Majorov og Anita Östlund

  • Vikur 2 & 3: Bibiána Poliačková Srbecká

Skráning fyrir framhaldshópa 1–4 og hóp 5 fer fram á:
👉 https://xps.is/shop/fjolnir

Athugið að kennt er á rauðum dögum – um er að ræða þrjár fimm daga vikur. Hópar 1–4 geta einnig skráð sig í hádegismat í gegnum XPS.

Skautaskólinn heldur einnig áfram með sumarnámskeið fyrir börn í 1.–4. bekk:
👉 https://www.abler.io/shop/fjolnir

Dagskrá haustannar (með fyrirvara um breytingar)

  • Haustmót, Laugardalur: 26.–28. september

  • NLT, Egilshöll: 23.–26. október (eða 30. okt. – 1. nóv.)

  • Íslandsmót, Laugardalur: 28.–30. nóvember

  • Afreksbúðir í kjölfar Íslandsmóts

  • Norðurlandamót, Danmörku: 27. jan. – 1. feb. 2026

  • Vormót, Akureyri: 27.–29. mars

  • Skautaþing: maí 2026

Æfingar hefjast aftur eftir verslunarmannahelgi – nánari upplýsingar koma síðar.

Að lokum viljum við þakka ykkur öllum fyrir frábært tímabil og hlökkum til að sjá ykkur hress og kát á nýju tímabili!

Með kærri þökk,
Listskautadeild Fjölnis 💛💙


Daði Arnarson og Guðjón Dunbar D. Þorsteinsson á Smáþjóðaleikunum

🇮🇸 Fjölnir á Smáþjóðaleikunum 2025!
Frjálsíþróttadeild Fjölnis tilkynnir með stolti að tveir iðkendur félagsins keppa fyrir hönd Íslands á Smáþjóðaleikunum í Andorra dagana 26.–31. maí.

🏃‍♂️ Daði Arnarson keppir í 1.500 metra hlaupi fimmtudaginn 29. maí

🏃‍♂️ Guðjón Dunbar D. Þorsteinsson keppir í langstökki fimmtudaginn 29. maí og þrístökki laugardaginn 31. maí

Við óskum Daða og Guðjóni innilega til hamingju með landsliðsvalið og sendum þeim okkar bestu óskir um gott gengi á leikunum! 💛💙

📺 Fylgist með leikunum hér: eoctv.org


Berglind Bjarnadóttir tekur við starfi verkefnastjóra á skrifstofu Fjölnis

Berglind Bjarnadóttir tekur við starfi verkefnastjóra á skrifstofu Fjölnis

Það gleður okkur að tilkynna að Berglind Bjarnadóttir hefur tekið við starfi verkefnastjóra á skrifstofu Fjölnis. Berglind kemur þó ekki langt að – hún þarf einungis að færa sig um skrifborð!

Berglind hefur starfað hjá Fimleikadeild Fjölnis í yfir 10 ár, þar síðast sem verkefnastjóri deildarinnar. Áður en hún hóf störf á skrifstofunni starfaði hún sem þjálfari af mikilli elju. Hún þekkir því starfið innan úr og utan, býr yfir dýrmætri reynslu og sterku tengslaneti innan félagsins – og ekki síst brennandi áhuga á starfi Fjölnis. Við hlökkum til að vinna áfram með henni í þessu nýja og spennandi hlutverki.

Á sama tíma kveðjum við með miklu þakklæti Málfríði Sigurhansdóttur, eða Fríðu okkar, sem hefur verið ómetanleg í sínu starfi. Fríða hefur sinnt starfi sínu af fagmennsku, hlýju og einstakri umhyggju – og skilur eftir sig bæði stórt skarð og hlýjar minningar. Við óskum henni innilega velfarnaðar í næsta kafla og vonum að leiðir okkar liggi áfram saman með einhverjum hætti.

Velkomin í nýtt hlutverk, Berglind – og hjartans þakkir fyrir allt, kæra Fríða. 💛


Skráning hafin á sumarnámskeið Fjölnis 2025!

📢 Skráning hafin á sumarnámskeið Fjölnis 2025!

Sumarið nálgast – og við hjá Fjölni bjóðum börnum að taka þátt í líflegum og fjölbreyttum sumarnámskeiðum í Egilshöll. Námskeiðin eru ætluð börnum fædd 2015–2019 og fara fram í júní undir stjórn okkar færustu þjálfara og góðra aðstoðarmanna.

🌟 Fjölbreytt úrval íþrótta

Við bjóðum upp á fjölmargar íþróttagreinar, þar sem börnin fá tækifæri til að prófa sig áfram í mismunandi greinum, styrkja hreyfifærni og byggja upp sjálfstraust – allt í gegnum leik og gleði.
Það er tilvalið að skrá börn í bæði fyrir- og síðdegisnámskeið, og njóta þar með heillar dagskrár með heitum hádegismat í hádeginu.

🌞 SUMARNÁMSKEIÐ

Fyrir börn fædd 2015–2018
📍 Egilshöll
🕘 Hægt að velja námskeið fyrir og/eða eftir hádegi
🍽 Hægt er að kaupa hádegismat – og einnig bara pizzu á föstudögum, ef það hentar betur.
👶 Gæsla í boði fyrir og/eða eftir námskeið
📅 Dagskrá:
• 10.–13. júní
• 16.–20. júní
• 23.–27. júní

🎯 FJÖLGREINANÁMSKEIÐ

Fyrir börn fædd 2016–2019
📅 23.–27. júní
👟 Öll börn fá að prófa fjölbreyttar íþróttagreinar
🍽 Með heitum hádegismat
👶 Gæsla í boði fyrir og/eða eftir námskeið

🔔 ATHUGIÐ!

Skráning fer fram á abler.io/shop/fjolnir
Það er mjög mikilvægt að forráðamenn sæki Abler appið til að fylgjast með tilkynningum og upplýsingum tengdum námskeiðunum.

Fjölnir sér um að halda stuðinu uppi í allt sumar – við hlökkum til að sjá sem flest börn taka þátt í frábæru og hreyfiríku sumri! ☀️⚽🤸‍♀️


Vorsýning fimleikadeildar

Vorsýning fimleikadeildar Fjölnis 31. maí

Nú fer að koma að því að við förum að setja okkur í vorsýningarstellingar.

ATHUGIÐ

Æfingar eru ekki endilega á hefðbundnum tímum og því mikilvægt að foreldrar og iðkendur fylgist vel með æfingaskipulagi næstu daga inná XPS.  Hér fyrir neðan má síðan finna samæfingaskipulag fyrir alla hópa.

 

Smellið á myndirnar til þess að sjá þær stærri

 

Miðasala er hafin á Stubb.is

Smellið á sýningarnar til þess að fara beint á miðasölu – Athugið að það getur verið misjafnt á hvaða hópar sýna

Sýning 1  (kl 10:00) 

Sýning 2 (kl 12:00)

Sýning 3 (kl 14:00)

Sýning 4 (kl 16:00)

Sjálfboðaliðaskjal

https://docs.google.com/spreadsheets/d/1hjjn4dKN-ejcus6f2qGQjdOCyX9JR7wQGjR2Sc7RhdA/edit?usp=sharing

Miðaverð 

  • 16 ára og eldri 2.750 kr 
  • 6-15 ára 1.750 kr
  • 5 ára og yngri Frítt *

    *ætlast til þess að setið sé undir börnum undir 5 ára

Almennar upplýsingar

Búningar


Ársskýrsla Fjölnis 2024

Á aðalfundi Fjölnis sem haldinn var þann 8. apríl sl. var samkvæmt venju kynnt skýrsla stjórnar ásamt ársreikningi félagsins. Í ársreikningnum sem finna má í nýútkominni ársskýrslu félagsins má sjá að gríðarlegur viðsnúningur varð á rekstri félagsins á milli áranna 2023 og 2024. Árið 2023 var félagið í heild rekið með tæplega 88 m.kr. tapi sem helst skýrðist af rekstri meistaraflokka félagsins í boltagreinum auk reksturs skautadeildanna tveggja. Eftir að hafa gripið til ýmissa aðgerða til að snúa rekstrinum við varð niðurstaðan sú að félagið var árið 2024 rekið með rúmlega 6 m.kr. afgangi sem gerir viðsnúning upp á um 94 m.kr. á milli ára.

Ljóst er að slíkur árangur næst ekki nema með því að allir lögðust á eitt með að finna nýjar leiðir í öflun fjár sem og að skera niður kostnað eins og hægt var. Er þar fjölmörgum sjálfboðaliðum félagsins ásamt starfsfólki þess fyrir að þakka.

Aðalstjórn Fjölnis vill þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóg ásamt þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem styrktu félagið með ýmsum hætti fyrir þeirra framlag. Það er hins vegar ljóst að verkefninu er ekki lokið, það tekur tíma að vinna sig að fullu til baka eftir taprekstur og því verður haldið áfram á sömu braut þ.e. að hafa allar klær úti við að ná í fjármagn til rekstursins ásamt því að halda kostnaði niðri eins og kostur er.

Starfsemi Fjölnis er samfélagslega mikilvægt verkefni í Grafarvogi og nágrenni enda býður félagið upp á afar fjölbreytt íþróttastarf fyrir íbúa hverfisins á öllum aldri. Iðkendur félagsins í dag eru um 3.500 talsins og fer fjölgandi.

Félagið biðlar því áfram til íbúa hverfisins og annarra velunnara félagsins að taka vel á móti hinum ýmsu fjáröflunum sem iðkendur standa fyrir sem og er fólk hvatt til að mæta á viðburði félagsins hvort sem eru íþróttaleikir, sýningar, mót eða viðburðir eins og þorrablót, herra- og konukvöld, skötuveisla o.s.frv. Allt eru þetta mikilvægar tekjulindir fyrir félagið auk þess að vera hinar bestu skemmtanir.

Þá skorar aðalstjórn félagsins á fyrirtæki í Grafarvogi og nágrenni að standa við bakið félaginu og fjölbreyttu starfi þess.

Stöndum saman og eflum blómlegt íþróttalíf í hverfinu okkar.

Áfram Fjölnir - #félagiðokkar

 

Ársskýrslu félagsins fyrir árið 2024 er hægt að lesa hér:


UNGMENNAFÉLAGIÐ FJÖLNIR

Egilshöll | Fossaleyni 1 | 112 Reykjavík | Kt. 631288-7589

Opnunartími skrifstofu

Mánudaga – fimmtudaga
09:00-12:00 og 13:00-16:00

Föstudaga
09:00-12:00

Símatími skrifstofu

Mánudaga – fimmtudaga
10:00-11:30

Sími: 578-2700

Hafðu samband

skrifstofa@fjolnir.is

Translate »