Uppgjör formanns knattspyrnudeildar

Uppgjör formanns knattspyrnudeildar

Nú er komið að lokum keppnistímabilsins 2025, en undirbúningur fyrir það hófst í október í fyrra. Leikmenn meistaraflokka fá nú stutt frí, en hefja æfingar aftur í október.

Árangur í sumar

Kvennalið okkar keppti í annarri deild og lenti í fjórða sæti. Undir stjórn Vesko Chilingirov er að myndast lið sem leikur góða knattspyrnu. Enn meira máli skiptir er að liðsheildin er feikilega öflug og samheldin, það er eitthvað sem þessir leikmenn munu búa að löngu eftir að knattspyrnuiðkun lýkur. Enn eru talsverð færi til framfara hjá liðinu, þannig voru þrír markahæstu leikmenn liðsins aðeins með fimm mörk hver og enginn þeirra sóknarmaður. Við munum kappkosta að styrkja lykilstöður í liðinu og ætlum því að fara upp um deild á árinu 2026.

Karlalið okkar keppti í Lengjudeild og lenti í neðsta sæti deildarinnar. Okkar bíður því sumardvöl í annarri deild. Það er rétt að dvelja aðeins við þessa stöðu og hvernig við viljum bregðast við henni. Við seldum lykilleikmenn frá okkur í fyrravetur, auk þess sem mikilvægir leikmenn hættu knattspyrnuiðkun. Þeir fjármunir sem þarna mynduðust voru að langmestu leyti notaðir til að greiða upp skuld deildarinnar við Aðalstjórn, ekki var svigrúm á þeim tíma til að bæta miklu við liðið. Undirbúningstímabilið fór illa af stað og liðið var seint að komast í keppnisfært ástand. Við vissum að við færum inn í mót með ungt lið, en töldum að við hefðum hóp eldri leikmanna sem ættu að geta stutt við yngri leikmenn og auðveldað þannig þessa hröðu yngingu á liðinu. Þetta reyndist ofmat og var eldri leikmönnum fækkað yfir sumarið. Þess í stað tóku yngri leikmenn mun stærra hlutverk en þeim hafði verið ætlað og e.t.v. var sanngjarnt. Þannig tóku þessir drengir út hraðari þroska en ella og töp í jöfnum leikjum gegn efstu liðum deildarinnar í jöfnum leikjum undir lok tímabils sýna hvað í þessum hóp býr og hvað framtíðin getur boðið upp á hjá okkur Fjölnismönnum.

Hver eru næstu skref?

Ég held að við getum öll litið í eigin barm og séð að við hefðum getað gert eitthvað betur í þessu ferli. Það er hollt að horfa til tilvitnunar í orð breska listamannsins Banksy sem sagði “Winners are not those who never lose, but those who never quit.” Það er nákvæmlega þannig sem við ætlum að bregðast við þessari stöðu. Við munum efla þetta lið í lykilstöðum og nýta frábæra unga Fjölnisdrengi til að koma okkur aftur í Lengjudeildina árið 2027. Þessi hópur á ekki erindi í aðra deild og á ekki að vera í botnbaráttu Lengjudeildar. Við setjum þetta mál aftur fyrir okkur. Þetta mun ekki gerast nema að við leggjum meira á okkur og berjumst fyrir hverjum bolta. Það hefur verið sérstakt ánægjuefni að sjá unga leikmenn meistaraflokks koma og skrifa undir nýja samninga við félagið undir þessum kringumstæðum. Þeir skynja vel að þrátt fyrir einhvern hiksta erum við á ferðalagi sem er spennandi að taka þátt í. Þetta er þessum piltum til sóma.

Við erum á síðustu tveimur árum búin að endurráða í allar stöður aðalþjálfara í deildinni. Nýir aðilar stýra meistaraflokksliðum (varla hægt að kalla Herra Fjölni “nýjan aðila”) og nýir þjálfarar stýra starfssemi BUR. Þessar breytingar eru partur af hugmyndafræði að samhæfa starfið og að deildin starfi eftir afreksstefnu sem byggir á þéttu samstarfi barna- og unglingastarfs og afreksflokka. Auk þessara breytinga munum við sjá frekari breytingar varðandi þjálfun og þjónustu við iðkendur. Þannig munu allir iðkendur frá 5. flokki njóta viðeigandi styrktarþjálfunar frá komandi hausti. Þannig bætum við árangur, minnkum hættu á meiðslum og bætum þjónustu við iðkendur.

Stefna okkar er skýr. Fjölnir á, sem ein stærsta knattspyrnudeild landsins, að eiga meistaraflokkslið í efstu deildum íslenskrar knattspyrnu. Til þess þurfa nokkrir hlutir að gerast: Við þurfum að framleiða fleiri afreksiðkendur í barna- og unglingastarfi, ungir leikmenn okkar þurfa að fá tækifæri til að þróast, fjárhagur okkar þarf að vera traustur og aðstaða okkar þarf að standast samanburð. Þegar horft er til þeirra verkefna sem við höfum lagt mesta orku í má sjá að þau eru í takt við þessa stefnu.

Fjárhagsmál deildarinnar

Talsvert hefur verið rætt um fjárhagsvanda Fjölnis. Hafandi horft á reikninga deildarinnar síðustu tvö ár sýnist mér að ljóst sé að það hafi “slökknað” á starfseminni í Covid. Eigin fjáröflun deildarinnar dróst mjög saman og tók ekki við sér eftir að stuðningi opinberra aðila lauk. Þetta er að einhverju leyti heimatilbúinn vandi, en félagið býr ekki við þá stöðu sem sum önnur félög njóta, að eiga sterka bakhjarla sem móta fjárhaginn. Við höfum hins vegar saman lagt mikla vinnu í að auka tekjuöflun deildarinnar, höfum lækkað rekstrarkostnað og þannig snúið taprekstri við. Við höfum greitt niður skuldir við Aðalstjórn félagsins og rekum orðið býsna heilbrigða deild. Það er þó enn mikil vinna óunnin, enn þarf að auka tekjur deildarinnar til að byggja upp öflugri starfssemi.

Aðalstjórn Fjölnis hefur tekið mikið framfaraskref með auknum aðskilnaði í fjárhag deilda félagsins. Þannig renna allar tekjur knattspyrnudeildar beint inn á bankareikninga deildarinnar og nýtast eingöngu til að standa straum af kostnaði við rekstur hennar. Fyrra fyrirkomulag var öllu óskýrara og kom í veg fyrir að einstakar deildir nytu ráðdeildar sinnar. Þetta mun vonandi verða til að efla fjárhag og rekstur allra deilda UMF Fjölnis.

Síðustu tvö ár höfum við lagt mikinn metnað í að efla barna- og unglingastarf knattspyrnudeildar. Við höfum breytt mjög miklu varðandi skipulag barna- og unglingastarfs og tengingu við afreksstarfið. Ég held að við getum strax séð árangur þessa, í gær lék hinn 15 ára gamli Brynjar Elí Jóhannsson sinn fyrsta leik með meistaraflokki karla. Hann er yngsti leikmaður sem hefur leikið keppnisleik með meistaraflokki Fjölnis.

Iðkendum yngri flokka hefur fjölgað talsvert á síðustu tveimur árum. Þá höfum við lagt áherslu á að fá yngri iðkendur, nú síðast með knattspyrnuskóla fyrir 3-4 ára börn. Með þessum hætti búum við til fleiri iðkendur sem njóta holls lífstíls og eiga möguleika á að verða afreksiðkendur í framtíðinni. Við höfum nýtt aukið fjárhagslegt svigrúm til að bæta innviði okkar, bæði til að auka þjónustu við iðkendur og að bæta tekjuöflun deildarinnar. Þessir einstaklingar hafa unnið frábært starf og haft mjög jákvæð áhrif, á fjárhag, ytri ásýnd og aðra þætti starfseminnar. Allt þetta mun efla okkur í framtíðinni.

Aðstaða til iðkunar

Knattspyrnudeild Fjölnis býr við mun lakari aðstöðu til æfinga og keppni en aðrar sambærilegar knattspyrnudeildir á höfuðborgarsvæðinu. Aðstaða okkar er samanburðarhæf til félög sem eru að hámarki með helming af þeim fjölda sem við þjónustum. Þessi staða háir félaginu klárlega í að ná árangri og bjóða þá þjónustu sem keppinautar okkar geta boðið. Þessa stöðu þarf að laga, strax. Það er ekki boðlegt að ungmenni í Grafarvogi séu hornsett þegar kemur að möguleikum til knattspyrnuiðkunar. Aðalstjórn félagsins hefur átt í áralöngum viðræðum við Reykjavíkurborg. Knattspyrnudeild mun væntanlega fá rödd við það borð, ljóst er að þetta er eitt mikilvægasta verkefni deildarinnar á næstu misserum.

Að lokum, stuðningur Grafarvogsbúa við félagið er okkur gríðarmikilvægur. Við þurfum að fá fólk á völlinn, sem hvetur liðið til dáða. Áhorfendur eru 12. maður liðsins, ef vel tekst til. Allir á völlinn.

Með Fjölniskveðju,
Formaður knattspyrnudeildarinnar
Björgvin Jón Bjarnason


Fjölnir með glæsilegan árangur á frjálsíþróttavettvangi í sumar

Fjölnir með glæsilegan árangur á frjálsíþróttavettvangi í sumar

Nú er sumartímabilinu í frjálsum íþróttum lokið og Fjölnir getur státað af fjölmörgum glæsilegum árangri síðustu vikna.

Norðurlandameistaramót U20

Í lok júlí voru þrír Fjölnismenn valdir í landslið Íslands fyrir Norðurlandameistaramót U20:

  • Grétar Björn Unnsteinsson – stangarstökk

  • Kjartan Óli Bjarnason – 400m hlaup

  • Pétur Óli Ágústsson – 400m grindahlaup

Allir stóðu sig með prýði og bæði Kjartan Óli og Pétur Óli bættu persónuleg met á mótinu.

Meistaramót Íslands í fjölþrautum og eldri aldursflokkum

Helgina 16.–17. ágúst fór fram Meistaramót Íslands í fjölþrautum sem og í eldri aldursflokkum.

  • MÍ Fjölþrautir

    • Eva Unnsteinsdóttir, sem keppir í flokki 13 ára, tók þátt í fimmtarþraut stúlkna 15 ára og yngri. Hún setti nýtt aldursflokkamet 13 ára og hafnaði í 4. sæti.

    • Arna Rut Arnarsdóttir keppti í sjöþraut kvenna, setti tvö persónuleg met og endaði í 2. sæti.

  • MÍ Eldri aldursflokkar
    Fjórir eldri iðkendur Fjölnis, auk boðhlaupssveitar, tóku þátt og unnu til sjö Íslandsmeistaratitla og fjögurra silfurverðlauna.

    • Auður Aðalbjarnardóttir bætti aldursflokkamet í spjótkasti 45–49 ára, eftir að hafa tekið fram spjótkastsskóna í fyrsta sinn í 20 ár.

Meistaramót Íslands – aðal

Á Meistaramóti Íslands sem haldið var á Selfossi um helgina átti Fjölnir 19 keppendur. Úrslitin urðu:

  • 3 Íslandsmeistaratitlar

  • 8 silfurverðlaun

  • 3 bronsverðlaun

Íslandsmeistarar urðu:

  • Guðjón Dunbar D. Þorsteinsson – þrístökk

  • Hanna María Petersdóttir – stangarstökk

  • Helga Þóra Sigurjónsdóttir – hástökk

Fjölnir endaði í 3. sæti í stigakeppni liða.


✨ Þetta var frábær uppskera í sumar og ljóst að framtíðin í frjálsum íþróttum hjá Fjölni er björt. Við hlökkum til að fylgjast með áframhaldinu á vetrartímabilinu!

(Myndir: Hlín Guðmundsdóttir hjá FRÍ og iðkendur)


Fjölniskonur í íslenska landsliðinu á Billie Jean King Cup

Fjölniskonur í íslenska landsliðinu á Billie Jean King Cup 🎾🇮🇸

Við hjá Fjölni erum afar stolt af þeim árangri sem okkar ungu og efnilegu tennisspilarar hafa náð – og í ár voru það ekki færri en þrjár Fjölniskonur sem spiluðu fyrir hönd Íslands á Billie Jean King Cup, stærstu og virtustu landsliðakeppni kvenna í tennis í heiminum.

Eygló Dís Ármannsdóttir, Bryndís Rósa Nuevo Armesto og Íva Jovisic voru allar hluti af íslenska liðinu sem keppti í Evrópuhópi III í Chisinau í Moldóvu. Þær mættu þar sterkum liðum frá m.a. Lúxemborg, Finnlandi og Svartfjallalandi ásamt öðrum þjóðum í sama styrkleikaflokki.

Billie Jean King Cup, sem áður hét Fed Cup, er risaviðburður í heimi tennissins og hefur verið haldinn frá árinu 1963. Árið 2020 var keppnin endurnefnd til heiðurs bandarísku tennishetjunni og jafnréttisbaráttukonunni Billie Jean King, einni af áhrifamestu íþróttakonum allra tíma. Keppnin er sambærileg við Davis Cup í karlaflokki og safnar saman landsliðum víðs vegar að úr heiminum – yfir 100 þjóðir hafa tekið þátt frá upphafi.

Í hverri viðureign, svokallaðri tie, eru leiknir einliðaleikir og tvíliðaleikir sem ráða úrslitum. Núverandi fyrirkomulag gerir ráð fyrir úrslitakeppni (Finals) þar sem sterkustu landsliðin mætast á einum stað yfir eina viku. Ísland spilar í Group III en þátttakan í sjálfri keppninni er mikilvægur áfangi fyrir íslenskt tennis og þróun íþróttarinnar hér heima.

Á mynd frá vinstri: Anna Soffia Grönholm, Bryndís Rósa Armesto Nuevo (Fjölnir), Eygló Dís Ármannsdóttir (Fjölnir) og Íva Jovisic (Fjölnir) með landsliðsþjálfaranum Raj Bonifacius

Eygló Dís heldur áfram að láta til sín taka

Eygló Dís heldur áfram að láta til sín taka

Við hjá Fjölni erum afar stolt að segja frá því að Eygló Dís, ein af okkar flottu tennisspilurum, heldur nú áfram ævintýri sínu í tennis með skólagöngu og keppni í Bandaríkjunum. Eygló er á leið í Southern New Hampshire University þar sem hún mun spila NCAA Division II Tennis frá og með haustinu.

Eygló hefur sýnt mikla seiglu og metnað á vellinum og uppskorið flottan árangur á undanförnum misserum:

  • Valin í íslenska landsliðið í Billie Jean King Cup
  • 2. sæti í bæði tvíliða og tvenndarleik í Meistaraflokki á Íslandsmóti utanhúss
  • 3. sæti í einliðaleik á sama móti
  • 2. sæti með liði sínu í Íslandsmóti liðakeppni
  • Sigraði í Meistaramóti Reykjavíkur í einliðaleik í Meistaraflokki kvenna í ár

Við erum ótrúlega stolt af Eygló Dís og hlökkum til að fylgjast með henni takast á við nýjar áskoranir bæði innan vallar og utan í Bandaríkjunum. 🌟


Fjölnir og Ármann - sundæfingar og námskeið fyrir yngstu iðkendurna

Samstarf Ármanns og Fjölnis – Sundæfingar og námskeið fyrir yngstu iðkendurna! 🏊‍♀️✨

Ármann og Fjölnir hafa tekið höndum saman og bjóða nú upp á sundæfingar og sundnámskeið fyrir börn í Grafarvogslaug. Sunddeild Ármanns sér um skipulag og þjálfun í samstarfi við Fjölni.

📅 Æfingar og námskeið:

  • Buslarar (6–9 ára)
    Mánudaga og fimmtudaga kl. 16:45–17:25
    Tímabil: 4. september – 18. desember

  • Sundskóli 2 (5–7 ára)
    Fimmtudaga kl. 17:30–18:00
    8 vikna námskeið, byrjar fimmtudaginn 4. september

  • Sundskóli 1 (3–4 ára)FULLT!
    Mánudaga kl. 17:30–18:00
    8 vikna námskeið, byrjar mánudaginn 8. september

👉 Skráning fer fram á abler.io/shop/armann/sund

Við hlökkum til að sjá ykkur í sundi! 🌊💛💙


Ísarr og Baldur Már á Evrópumótinu

U-16 ára drengjalið Íslands í 10. sæti á Evrópumótinu

U-16 ára drengjalið Íslands hefur lokið leik á Evrópumótinu í körfubolta, Division B, sem fram fór í Skopje í Norður-Makedóníu dagana 5.-18. ágúst.

Liðið átti gott mót, vann fjóra leiki af níu og hafnaði að lokum í 10. sæti af 22 liðum. Það er sterkur árangur í stórri og krefjandi keppni þar sem framtíðarleikmenn Evrópu mætast.

Fjölnir átti tvo fulltrúa í hópnum:

  • Ísarr Logi Arnarsson

  • Baldur Már Stefánsson, þjálfari

Við hjá Fjölni erum afar stolt af þeim og sendum bæði Ísari Loga og Baldri Má innilegar hamingjuóskir fyrir glæsilega frammistöðu á stóru sviði.

📺 Allar útsendingar frá mótinu má finna á heimasíðu FIBA: fiba.basketball

Áfram Ísland – og áfram Fjölnir!


Viðburðarík sumarbyrjun í frjálsum

Það hefur verið nóg um að vera hjá frjálsíþróttadeild Fjölnis síðustu vikurnar.

FJÖLNISHLAUPIÐ

Á Uppstigningardag, 29.maí, fór Fjölnishlaupið fram í 37. sinn en að vanda var keppt í 10 km, 5 km auk 1,4 km skemmtiskokki. 85 manns skiluðu sér í mark í 10 km hlaupinu, 97 í 5 km hlaupinu og hvorki fleiri né færri en 183 í skemmtiskokkinu.

VORMÓT FJÖLNIS

Þann 3.júní hélt deildin sitt árlega Vormót Fjölnis, fyrir 11-15 ára iðkendur. Hvorki mótshaldarar né íþróttafólk létu gula viðvörun fyrri hluta dags hafa áhrif á sig og mættu yfir 100 keppendur til leiks og kepptu í spretthlaupi, langstökki, kúluvarpi og 600/800m hlaupi. Þrátt fyrir að veður hafi ekki verið upp á sitt besta voru samt sem áður sett tæplega 100 persónuleg met á mótinu. Fjölnisstúlkurnar Margrét Einarsdóttir og Eva Unnsteinsdóttir lönduðu báðar gulli í kúluvarpi auk þess sem Eva nældi í silfur í 100 m hlaupi og brons í langstökki. Agnes Ingunn Steinsdóttir náði einnig í bronsverðlaun í 800 m hlaupi.

MEISTARAMÓT ÍSLANDS

Helgina 14.-15.júní fór svo fram Meistaramót Íslands 11-14 ára. Iðkendur Fjölnis settu 17 persónuleg met á mótinu og komu heim með 5 gullverðlaun, 2 silfur og 6 brons. Eva Unnsteinsdóttir var Íslandsmeistari í kringlukasti, kúluvarpi, spjótkasti og þrístökki. Aðrir verðlaunahafar Fjölnis voru þau Arnþór Ísar Leifsson, Agnes Ingunn Steinsdóttir og Viktorija Sudrabina Anisimova.

13 ára stúlkur unnu svo Íslandsmeistartitilinn í 4×100 m boðhlaupi og urðu einnig Íslandsmeistarar í liðakeppni 13 ára stúlkna með miklum yfirburðum. Frábær árangur hjá stúlkunum.

Viku síðar, helgina 20.-22.júní fór svo fram Meistaramót Íslands 15-22 ára. Þar átti Fjölnir 17 keppendur og kom heim með 16 Íslandsmeistaratitla, 9 silfurverðlaun og 5 bronsverðlaun. Íslandsmeistaratitli náðu:

Kjartan Óli Bjarnason – 200 m og 400 m hlaup 18-19 ára pilta

Pétur Óli Ágústsson – 110 m grindahlaup og 400 m grindahlaup 18-19 ára pilta

Grétar Björn Unnsteinsson – stangarstökk 18-19 ára pilta

Kristjana Lind Emilsdóttir – 100 m og 200 m hlaup 20-22 ára stúlkna

Christina Alba Marcus Hafliðadóttir – 200 m hlaup og langstökk 18-19 ára stúlkna

Sara Gunnlaugsdóttir – 400 m hlaup og 400 m grindahlaup 20-22 ára stúlkna

Hanna María Petersdóttir – stangarstökk 20- 22 ára stúlkna

Arna Rut Arnarsdóttir – 100 m grindahlaup og kringlukast 20-22 ára stúlkna

Boðhlaussveitir Fjölnis – 4×100 m boðhlaup 18-19 ára pilta og 4×400 m blandað boðhlaup 20-22 ára.

20-22 ára stúlkur vörðu svo Íslandsmeistaratitill sinn í liðakeppni.

BIKARKEPPNIR FRÍ

Fyrstu helgina í júli fóru svo fram Bikarkeppnir Frjálsíþróttasambandsins, sem er stigakeppni liða. Einn keppandi er frá hverju lið í hverri grein og safnar hver keppandi stigum fyrir lið sitt í samræmi við það sæti sem hann lendir í. Fjölnir sendi sameiginlegt lið með UMSS í flokkum fullorðinna auk stúlknaliðs í undir 15 ára flokki. Karlaliðið endað í 2.sæti, einungis 2 stigum á eftir sigurliðinu, kvennaliðið var í 3.sæti og í heildar stigakeppni endaði liðið í 3.sæti.

EVRÓPUBIKAR LANDSLIÐA

Að auki átti Fjölnir tvo keppendur í 3.deild Evrópubikars landsliða í Maribor í Slóveníu 24.-25.júní, sem er sambærilegt Bikarkeppni FRÍ, þar sem einn keppandi kemur frá hverju landi og safnar stigum fyrir liðið. Guðjón Dunbar D. Þorsteinsson keppti í þrístökki og Daði Arnarson keppti í 800 m hlaupi en hann bætti sinn persónulega árangur utanhúss í hlaupinu. Ísland gerði sér lítið fyrir og sigraði keppnina með yfirburðum og mun því keppa 2.deildinni eftir 2 ár.

Frábærar vikur að baki og enn fullt spennandi framundan það sem eftir lifir sumri.


Fjölnisfólk á Norðurlandamótinu í U16 körfubolta

U16 landslið Íslands í körfubolta – bæði drengja og stúlkna – eru nú stödd í Finnlandi, þar sem Norðurlandamótið fer fram dagana 1.–6. júlí

Við hjá Fjölni erum stoltust af okkar fólki sem tekið hefur sæti í hópunum:

Frá Fjölni eru:

U16 stúlknalið

Arna Rún Eyþórsdóttir

Elín Heiða Hermannsdóttir

Helga Björk Davíðsdóttir

Aðstoðaþjálfari: Stefanía Ósk Ólafsdóttir

U16 drengjalið

Ísarr Logi Arnarsson

Þjálfari: Baldur Már Stefánsson

🎥 Streymisaðgangur

Til að fylgjast með leikjunum í beinni eða í endursýningu, er hægt að kaupa aðgang að streymi á Start | koristv.fi

🌐 Upplýsingasíður mótsins
Stelpurnar –  https://tulospalvelu.basket.fi/category/44060!kvkp2526/group/302254

Drengirnir –  https://tulospalvelu.basket.fi/category/42633!kvkp2526/tables

💪 Gleðilegar hamingjuóskir og góðs gengis
Við óskum ykkur öllum til hamingju með frábæran árangur. Það er ómetanlegt að sjá okkar fólk taka þátt í alþjóðlegum keppnum — Áfram Fjölnir!


Benedikt Rúnar Guðmundsson ráðinn í starf þjálfara yngri flokka

Gengið hefur verið frá ráðningu Benedikts Rúnars Guðmundssonar í starf þjálfara yngri flokka hjá Körfuknattleiksdeild Fjölnis.

Benedikt þarf vart að kynna fyrir körfuboltaunnendum, enda hefur hann vakið mikla athygli undanfarin misseri fyrir þjálfarastörf sín. Hann á langan og farsælan feril að baki, hefur unnið með fjölmörgum félagsliðum og oft hlotið Íslands- og bikarmeistaratitla með bæði unglinga- og meistaraflokki. Síðastliðinn vetur þjálfaði hann lið Tindastóls í Bónusdeild karla, sem háði úrslitaeinvígi við Stjörnuna á dögunum. Benedikt hefur jafnframt þjálfað marga yngri flokka og verið þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í körfubolta. Nú tekur hann við yngri flokkum Fjölnis og er væntanlegur til að styrkja og efla starf deildarinnar enn frekar.

Arnar B. Sigurðsson, formaður Körfuknattleiksdeildar Fjölnis: „Ráðning Benedikts er stórt skref í okkar stefnu um að hækka prófíl og styrkja stöðu Fjölnis í íslenskum körfuknattleik. Með reynslu og þekkingu mun Benedikt leiða yngri flokkana áfram á vegi framfara og þróunar. Við í stjórninni erum sannfærð um að með ráðningu hans styrkjum við enn frekar þá öru uppbyggingu sem átt hefur sér stað í yngriflokkastarfi félagsins á síðustu árum.“

Benedikt Rúnar Guðmundsson: „Ég er mjög spenntur fyrir nýju verkefni hjá Fjölni. Þessi hópur er áhugaverður og metnaðarfullur, og ég hlakka til að vinna með stjórn, iðkendum og öðrum þjálfurum, mörgum þeirra hef ég unnið með áður. Síðan ég var hjá Fjölni tímabilið 2020–2021 hefur alltaf verið planið að koma aftur, því hér leið mér mjög vel. Ég er því hæstánægður að vera kominn aftur og vera partur af frábæru ungliðastarfi.“


Baldur Már framlengir hjá Fjölni

Baldur Már framlengir hjá Fjölni

Körfuknattleiksdeild Fjölnis hefur framlengt samning við Baldur Má Stefánsson sem þjálfara meistaraflokks karla. Baldur tók við liðinu í nóvember síðastliðnum og leiddi það úr neðri hluta deildarinnar í sæti í undanúrslitum – árangur sem sýnir bæði styrk og stefnu í þjálfun Baldurs.

Baldur er vel þekktur innan félagsins, en á árum áður starfaði hann sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla hjá Fjölni í tvö ár, ásamt því að þjálfa drengja- og unglingaflokka félagsins með góðum árangri. Hann hefur einnig komið víða við í þjálfun, meðal annars hjá Stjörnunni, Álftanes, Breiðabliki og yngri landsliðum Íslands. Áður en Baldur snéri aftur í Grafarvoginn starfaði hann sem aðstoðarþjálfari ÍR í Bónusdeildinni.

Baldur segir sjálfur um framhaldið: „Ég er gríðarlega spenntur fyrir uppbyggingunni hjá okkur í Fjölni bæði innan og utan vallar. Við erum með sterkt lið og efnilega yngri flokka. Markmiðið er að stækka körfuboltasamfélagið í Grafarvoginum og koma liðinu á hærri stall.“

Stjórn körfuknattleiksdeildar Fjölnis fagnar áframhaldandi samstarfi við Baldur: „Það er okkur mikilvægt að halda áfram með Baldur við stjórnvölinn. Hann hefur skýra sýn á framhaldið, þar sem byggt er á sterkum kjarna heimamanna og áframhaldandi þróun yngri leikmanna félagsins. Við erum spennt fyrir framtíðinni og þeirri vegferð sem við höfum hafið saman.“

Við óskum Baldri áframhaldandi góðs gengis í Grafarvogi – framtíðin er björt!


UNGMENNAFÉLAGIÐ FJÖLNIR

Egilshöll | Fossaleyni 1 | 112 Reykjavík | Kt. 631288-7589

Opnunartími skrifstofu

Mánudaga – fimmtudaga
09:00-12:00 og 13:00-16:00

Föstudaga
09:00-12:00

Símatími skrifstofu

Mánudaga – fimmtudaga
10:00-11:30

Sími: 578-2700

Hafðu samband

skrifstofa@fjolnir.is

Translate »