Landsátak í sundi 1.-28. nóvember
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands í samstarfi við Sundsamband Íslands stendur fyrir landsátaki í sundi frá 1. – 28. nóvember 2023. Syndum er heilsu- og hvatningarátak sem höfðar til allra landsmanna.
Nú stinga landsmenn sér til sunds og safna sundmetrum.
Taktu þátt í að synda hringinn í kringum landið.
Skráðu þig inn og skráðu þína sundvegalengd.
Ef þú átt notendanafn úr Lífshlaupinu eða Hjólað í vinnunni getur þú notað það.
Allir þátttakendur fara í pott og geta unnið vegleg verðlaun.
Nánari upplýsingar er að finna inni á https://www.syndum.is/
María Sól með U16!
Þórður Þórðarson, landsliðsþjálfari U16 kvenna, hefur valið hóp fyrir æfingar dagana 6.-8. nóvember 2023. Æfingarnar fara fram í Miðgarði, knattspyrnuhúsi í Garðabæ.
María Sól Magnúsdóttir, leikmaður 2. og meistaraflokks kvenna hefur verið valin í hópinn!
Knattspyrnudeild Fjölnis óskar Maríu Sól góðs gengis á æfingunum!
#FélagiðOkkar
Fjölnisungmenni í Úrvalshóp Frjálsíþróttasambandsins
Þrjú ungmenni úr frjálsíþróttadeild Fjölnis hafa verið valin í Úrvalshóp Frjálsíþróttasambands Íslands 15-19 ára. Þangað eru valin þau ungmenni sem hafa náð tilskyldum lágmörkum en að þessu sinni voru valin 44 ungmenni af öllu landinu.
Það verður spennandi að fylgjast með þessum efnilegu ungmennum og félögum þeirra í framhaldinu.
Fjölnir óskar þeim innilega til hamingju með árangurinn.
Samstarfssamningur gerður milli Dynjanda og handknattleiksdeildar Fjölnis
Það gleður okkur að kynna nýjan samstarfsaðila handknattleiksdeildar Fjölnis, Dynjanda, en merki þeirra verður á öxlum allra búninga handknattleiksdeildarinnar; meistaraflokka, yngri flokka Fjölnis og samstarfsflokka Fjölnis/Fylkis
Hér til hliðar má sjá Gunnar Val yfirþjálfara handknattleiksdeildarinnar ásamt Pétri Gísla frá Dynjanda við undirskrift samningnins.
Við þökkum Dynjanda kærlega fyrir og við hlökkum til samstarfsins!
Nýr hópleikur og Getraunakaffi Fjölnis
Nýr 10 vikna hópleikur hefst næstkomandi laugardag, 30. september (30. sept-9. des)
Þetta er 10 vikna hópleikur þar sem 7 bestu vikurnar gilda. Þátttökugjald er 6.900 kr. per hóp eða 3.450 kr. á mann og greiðist beint inn á reikning félagsins: 0114-05-060968 kt: 631288-7589 (senda kvittun á 1×2@fjolnir.is).
Skráning fer fram á 1×2@fjolnir.is þar sem fram koma nöfn beggja liðsmanna, kennitala, sími, netfang og nafn á liðinu.
ATH! – Tippað er rafrænt í gegnum vefsíðuna https://games.lotto.is/clubsales/#/login eða 1×2.is/felog
Félagsaðstaðan í Egilshöll (Miðjan hjá skrifstofu Fjölnis) verður opin milli kl. 10-12 á laugardögum þar sem tipparar geta hist og tippað yfir rjúkandi kaffibolla og bakkelsi frá Bakarameistaranum.
Öll lið senda inn tvo seðla sem skulu innihalda nákvæmlega 7 leiki með einu merki og 6 leiki með tvítryggingu (2 x832 kr. seðill). Betri seðillinn gildir. Með þessu móti standa allir þátttakendur jafnt.
Hér má finna reglur og frekari upplýsingar í leiknum: https://fjolnir.is/knattspyrna/getraunakaffi/
Hér er sérstakur hópur fyrir Getraunakaffið: https://www.facebook.com/groups/1299902466780921
Taktu þátt í félagsstarfinu og vertu með frá byrjun. Öll velkomin!
Frábær ferð á Granollers cup
30 stelpur úr 3. og 4. flokk Fjölnir- Fylkis í handbolta héldu til Santa susana á Spáni í byrjun júlí þar sem liðin tóku þátt í alþjóðlega handboltamótinu Granollers Cup. Stelpurnar voru með tvö lið sem kepptu í U16 og eitt lið í keppni U18. Frábær liðsandi, barátta og leikgleði skein í gegn alla ferðina og voru stelpurnar félaginu sínu til sóma.
Hér til hliðar eru nokkrar myndir frá ferðinni.
Fjórar frá Fjölni á fyrsta "Stockholms Ladies" skákmótinu
Skáksamband Stokkhólms bauð Skákdeild Fjölnis að senda þátttakendur á skákhátíðina Stockhloms Ladies Weekend sem haldin verður í fyrsta skipti nú um helgina 2. – 3. sept.
Skákdeild Fjölnis tók boðinu og sendir til leiks fjórar skákkonur sem flugu út í morgun, föstudag. Þetta eru þær Tinna Kristín Finnbogadóttir, Liss Acevedo Méndez, Sigríður Björg Helgadóttir og Sóley Kría Helgadóttir. Tefldar verða 7 umferðir á mótinu með 30 +10 sek. umhugsunartíma. Fjórar skákir á morgun laugardag og þrjár á sunnudag. Það er skáksamband Stokkhólmsborgar sem stendur fyrir þessari kvennaskákhátíð og væntir þess að viðburðurinn verði árlegur. Þau Tomas Silfver og Pía Cramling fv. heimsmeistari kvenna eru í forsvari hátíðarinnar en þau þekkja bæði vel til þeirrar breiddar stúlkna og kvenna sem tefla undir merkjum Skákdeildar Fjölnis.
Skákdeild Fjölnis hefur 20. starfsárið - Boðið upp á fimmtudagsæfingar
Skákæfingar Fjölnis fyrir grunnskólakrakka hefjast 7. september og verða framvegis hvern fimmtudag í Rimaskóla frá kl. 16.30 – 18.00. Gengið inn um íþróttahús Rimaskóla. Æfingarnar eru ókeypis en miðað er við að þátttakendur þekki mannganginn og grunnatriði skáklistarinnar.
Í skákhléi er boðið upp á veitingar og í lok hverrar æfingar eru afhent verðlaun og dregið í happadrætti.
Skákdeild Fjölnis er að hefja sitt 20. starfsár. Allt frá fyrstu tíð hafa skákæfingarnar verið mjög vinsælar bæði meðal drengja og stúlkna. Öllum áhugasömum er bent á Facebook síðu Skákdeildar Fjölnis en þar er að finna upplýsingar um skákstarfið í Grafarvogi.
Umsjón með fimmtudagsæfingunum hefur Helgi Árnason formaður Skákdeildar Fjölnis og hefur hann sér góða leiðbeinendur og aðstoðarmenn
Skák er skemmtileg.
Breyttur símatími
Nú er símatími skrifstofunnar alla virka daga frá kl. 10:00-12:00 - 578-2700. Síðan er alltaf hægt að senda okkur tölvupóst á skrifstofa@fjolnir.is.
Minnum á að engin fylgd verður í haust
Við vildum minna á það að engin fylgd verður á æfingar núna í haust. Sú ákvörðun var tekin að hætta með fylgd á æfingar en það voru margir þættir sem spiluðu þar inn í. Þar með talið hafði ekki tekist að tryggja nægt fjármagn. Verkefnið hafði aldrei verið gallalaust en síðastliðinn vetur komu upp nokkur mál sem vöktu okkur alvarlega til umhugsunar um öryggi barna sem eru í fylgdinni og teljum við það óásættanlegt að geta ekki tryggt öryggi þeirra í okkar umsjá.
Við viljum þakka Strætó, frístundaheimilunum hverfisins og annarra samstarfsaðila fyrir gott samstarf síðustu ár og við kveðjum þetta verkefni með miklum trega því upphaflega var markmiðið að stytta vinnudag barnanna og auka samverustundir fjölskyldunnar. Fylgdin kenndi iðkendum okkar að taka strætó á æfingar sem er gott veganesti inn í framtíðina og vonandi jók sjálfstæði þeirra.