Upphitun: Stjarnan - Fjölnir

Pepsi Max deild karla
11. umferð
Stjarnan – Fjölnir
Sunnudaginn 4. október kl. 17:00 á Samsungvellinum, Garðabæ.

Nú þegar fimm leikir eru eftir af keppnistímabilinu er Fjölnir tíu stigum frá Víkingi R. sem situr í næsta sæti fyrir ofan fallsvæðið. Í síðasta leik laut Fjölnir í lægra haldi í Kaplakrika, 1-0. Andstæðingur Fjölnis á næstkomandi sunnudag gerði 1-1 jaftefli við FH síðastliðið fimmtudagskvöld. Fjölnir og Stjarnan mættust í 2. umferð á Extra vellinum og vann Garðabæjarliðið 1-4 sigur. Stjarnan situr í fjórða sæti deildarinnar með 28 stig en hefur leikið leik færra en öll önnur lið deildarinnar að KR frátöldu. Stjarnan er því í harðri baráttu um Evrópusæti.

Fjölnir á ansi veika von um að halda sæti sínu í deildinni. Vinni Víkingur leik sinn á sunnudag gegn KA og tapi Fjölnir gegn Stjörnunni verður tölfræðilegur möguleiki Fjölnis á að halda sæti sínu í deildinni ekki lengur til staðar.

Leikurinn í Garðabæ verður sá síðasti fyrir landsleikjahlé. Ekki verður leikið aftur í efstu deild fyrr en 15. október. Um er að ræða frestaðan leik frá 11. umferð. Sigurpáll Melberg Pálsson verður í leikbanni í leiknum á sunnudag vegna uppsafnaðra gulra spjalda. Stjörnumennirnir Halldór Orri Björnsson og Brynjar Gauti Guðjónsson verða fjarverandi af sömu ástæðu.

Sjáumst á vellinum. Áfram Fjölnir!

#FélagiðOkkar

Grétar Atli Davíðsson


Upphitun: FH - Fjölnir

Pepsi Max deild karla
18. umferð
FH - Fjölnir
Sunnudaginn 27. september kl. 14:00 í Kaplakrika

Næst liggur leið okkar Fjölnismanna í Kaplakrika. Fjölnir situr á botni deildarinnar með sex stig, níu stigum frá Víkingi sem er í næsta örugga sæti. Sex leikir eru eftir af mótinu. Vonin um að Fjölnir haldi sæti sínu í deild þeirra bestu veikist með hverjum leik sem ekki vinnst. Veika vonin lifir á meðan enn er tölfræðilegur möguleiki á að lifa af. Fyrst og síðast þarf Fjölnir að spila upp á stoltið í þeim leikjum sem eftir eru. Aðeins einu sinni áður hefur lið lokið tímabili með innan við tíu stig í tólf liða A-deild, það var lið Keflavíkur sem féll fyrir tveimur árum síðan með fjögur stig.

FH er í öðru sæti deildarinnar. Bæði lið töpuðu á heimavelli í síðustu umferð, Fjölnir fyrir ÍA, 1-3, og FH fyrir Val, 1-4. Fyrri leik FH og Fjölnis í sumar lauk með 0-3 sigri Hafnfirðinga. Nánar er vikið að fyrri viðureignum liðanna í upphitunarpislti fyrir leik liðanna í ár. Enginn leikmanna Fjölnis verður í leikbanni á sunnudag. FH-ingurinn Guðmann Þórisson verður hins vegar í leikbanni eftir að hafa fengið rautt spjald í síðasta leik.

Sjáumst á vellinum. Áfram Fjölnir!

#FélagiðOkkar

Grétar Atli Davíðsson


Upphitun: Fjölnir - ÍA

Pepsi Max deild karla
10. umferð
Fjölnir - ÍA
Fimmtudaginn 24. september kl. 16:15 Extra vellinum

Á fimmtudag Fjölnir og ÍA í Pepsi Max deild karla. Enn leita Fjölnismenn að fyrsta sigrinum í ár. Fjölnir situr á botni deildarinnar með sex stig, níu stigum frá öruggu sæti í deildinni. Skagamenn sitja í áttunda sæti með sautján stig. Um er að ræða frestaðan leik. Leikurinn átti að fara fram í 10. umferð. Bæði lið hafa leikið fimmtán leiki. Fjölnir gerði 1-1- jaftefli við KA um helgina og ÍA lagði Gróttu 3-0 á mánudag.

Félögin hafa mæst átta sinnum í A-deild. Fjölnir hefur unnið helming viðureignanna. Skagamenn hafa unnið tvo leiki og tveir hafa endað með jafntefli. Búast má við markaleik. Í viðureignum Fjölnis og ÍA í efstu deild hafa verið skoruð 3,5 mörk að meðaltali í leik.

Engin lið hafa fengið á sig fleiri mörk í sumar en Fjölnir og ÍA. Skagamenn hafa skorað næst flest mörk í deildinni í ár. Því miður hafa aðeins tvö lið skorað færri mörk en Fjölnir í sumar. Viktor Jónsson, Tryggvi Hrafn Haraldsson og Stefán Teitur Þórðarson hafa að mestu séð um markaskorun Skagamanna. Markahæsti leikmaður Fjölnis í sumar er Jóhann Árni Gunnarsson með fjögur mörk. Þjálfari Skagamanna er Jóhannes Karl Guðjónsson.

Leikið er á einkennilegum tíma vegna birtuskilyrða. Stuðnignsmönnum er heimilt að mæta a völlinn. Fjöldatakmarkanir miðast við 200 einstaklinga í hverju sóttvarnarhólfi. Fjölnir býður upp á tvo hólf. Áfram Fjölnir!

#FélagiðOkkar

Grétar Atli Davíðsson

Leikmannahópur Fjölnis

1 – Steinar Örn Gunnarsson (m)

4 – Sigurpáll Melberg Pálsson

5 – Torfi Tímoteus Gunnarsson

6 – Grétar Snær Gunnarsson

7 – Ingibergur Kort Sigurðsson

8 – Arnór Breki Ásþórsson

9 – Jón Gísli Ström

10 – Viktor Andri Hafþórsson

11 – Hallvarður Óskar Sigurðarson

12 – Atli Gunnar Guðmundsson (m)

14 – Lúkas Logi Heimisson

16 – Orri Þórhallsson

17 – Valdimar Ingi Jónsson

19 – Daníel Smári Sigurðsson

20 – Péter Zachán

21 – Jeffery Monakana

23 – Örvar Eggertsson

25 – Sigurjón Daði Harðarson (m)

28 – Hans Viktor Guðmundsson, fyrirliði

29 – Guðmundur Karl Guðmundsson, varafyrirliði

31 – Jóhann Árni Gunnarsson

32 – Kristófer Óskar Óskarsson

42 – Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson

80 - Nicklas Halse

Þjálfari: Ásmundur Arnarsson
Aðstoðarþjálfarar: Gunnar Már Guðmundsson og Gunnar Sigurðsson


Upphitun: Fjölnir - KA

Pepsi Max deild karla
17. umferð
Fjölnir – KA
Laugardaginn 19. september kl. 14:00 á Extra vellinum

Leiðin var löng frá Seltjarnarnesi í Grafarvog eftir 2-2 jafntefli Fjölnis og Gróttu síðastliðið mánudagskvöld. Fjölnir er með fimm stig á botni deildairnnar, níu stigum frá þeim þremur liðum sem eru í næstu sætum fyrir ofan fallsvæðið. KA situr í níunda sæti deildarinnar, með betri markatölu en ÍA en lakari en Víkingur. Leik Fjölnis og KA í fyrri umferðinni lauk með 1-1 jafntefli. Báðar fyrri viðureignir liðanna í efstu deild í Grafarvogi hafa endað með jafntefli. Nánar er vikið að fyrri viðureignum liðanna og tengingum á milli félaganna í upphitunarpistli fyrir leik liðanna í sumar.

KA er það lið í deildinni sem hefur náð í fæst stig á útivelli í sumar. Aftur á móti er Fjölnir með lakasta heimavallarárangur A-deildarliða það sem af er móti. Ekkert lið hefur skorað færri mörk í sumar en KA og ekkert fengið lið fengið á sig fleiri mörk en Fjölnir. Ekkert annað lið en FH og Stjarnan hefur fengið á sig færri mörk en KA í sumar. Af fjórtán stigum KA í sumar hafa átta þeirra komið með jafnteflum. Öll fimm stig Fjölnis í sumar hafa fengist með jafnteflum.

Guðmundur Karl Guðmundsson afplánaði leikbann í síðasta leik og reikna má með því að hann komi aftur inn í liðið. Nicklas Halse lék sinn fyrsta leik fyrir Fjölni gegn Gróttu. Jeffery Monakana gæti leikið sinn fyrsta leik fyrir Fjölni á laugardag.

Útlitið er ekki bjart sem stendur en á meðan möguleiki er fyrri hendi á að halda sætinu í deildinni má ekki leggja árar í bát.

Áfram Fjölnir!

#FélagiðOkkar

 

Grétar Atli Davíðsson


Upphitun: Grótta - Fjölnir

Pepsi Max deild karla
16. umferð
Grótta – Fjölnir
Mánudaginn 14. september kl. 19:15 á Vivaldivellinum

Fjölnir fer á Seltjarnarnes í næstu umferð og etur kappi við Gróttu. Fyrri leik liðanna í sumar lauk með 0-3 sigri Gróttu. Fjölnir situr á botni deildarinnar með fjögur stig eftir þrettán leiki. Grótta er í næstneðsta sæti deildarinnar, hefur leikið jafn marga leiki og Fjölnir en fengið tveimur stigum meira en Fjölnir. Með sigri fer Fjölnir úr botnsæti deildarinnar. Fjölnir er sjö stigum á eftir KA sem situr í næsta sæti fyrir ofan fallsætin tvö. Allir aðrir leikir 16. umferðar fara fram á sunnudag og mun staða liða því eitthvað breytast áður en flautað verður til leiks á Seltjarnarnesi.

Nú er að duga eða drepast fyrir Fjölni. Á eftir leiknum við Gróttu kemur KA í Grafarvog. Það er því gott tækifæri til þess að snúa við gengi liðsins í þessum tveimur sex stiga leikjum sem framundan eru.

Guðmundur Karl Guðmundsson verður í leikbanni gegn Gróttu vegna uppsafnaðra gulra spjalda. Búast má við því að Jón Gísli Ström komi aftur inn í leikmannahóp Fjölnis eftir að hafa tekið út leikbann í síðustu umferð í tapinu gegn Breiðabliki. Enginn leikmanna Gróttu verður í leikbanni á mánudag. Grótta lék síðast í deildinni í lok ágúst er liðið tapaði 0-2 fyrir Fylki.

Tveir leikmenn fengu félagaskipti í Fjölni áður en félagaskiptaglugganum lokaði í byrjun september. Reikna má með því að hinn danski Nicklas Halse verði í liðinu gegn Gróttu. Nicklas er 23 ára léttleikandi miðjumaður sem kemur frá Roskilde. Englendingurinn Jeffery Monakana verður ekki með Fjölni gegn Gróttu. Jeffery er nýkominn til lansins og er í sóttkví.

Áhorfendatakmarkanir miðast nú við hámark 200 einstaklinga fædda fyrir árið 2005 og er hólfaskipting heimiluð. Undirrituðum er ekki kunnugt um hversu mörg sótttvarnarhólf Seltirningar bjóða upp á. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Áfram Fjölnir!

#FélagiðOkkar

 

Grétar Atli Davíðsson


Upphitun. Fjölnir - Breiðablik

Pepsi Max deild karla
15. umferð
Fjölnir – Breiðablik
Laugardaginn 5. september kl. 13:00 á Extra vellinum

Aðeins fer einn leikur fram í Pepsi Max deild karla um helgina. Fjórir af sex leikjum 15. umferðar fóru fram síðustu helgi. Leik Fjölnis og Breiðabliks var frestað vegna sóttkvíar sem lið Breiðbliks fór í eftir leik gegn Rosenborg í Evrópudeildinni. Raunar hefðu Blikar geta farið fram á að leikurinn við Fjölni færi fram á öðrum tíma vegna þátttöku tveggja leikmanna liðsins í U-21 árs landsliðsverkefni. Leikmennirnir sem um ræðir eru Róbert Orri Þorkelsson og Brynjólfur Andersen Willumsson. Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, hefur lýst því yfir að hann telji Brynjólf besta leikmann deildarinnar. Blikar mæta því ekki með sitt sterkasta lið í Grafarvog á laugardag.

Fyrri leik liðanna í sumar lauk með 3-1 sigri Blika. Fjölnir tapaði síðasta leik sínum í deildinni 2-0 gegn Fylki. Síðasta leik Breiðabliks í deildarkeppni lauk með 0-1 sigri á Gróttu. Fjölnir situr áfram á botni deildarinnar með fjögur stig, sjö stigum frá KA sem situr í næsta örugga sæti. Með sigri á laugardag kemst Fjölnir úr botnsæti deildarinnar. Breiðablik situr í fjórða sæti deildarinnar með tuttugu stig en hefur leikið leik færra en mörg lið deildarinnar.

Grétar Snær Gunnarsson mun snúa til baka úr leikbanni á laugardag. Jón Gísli Ström er aftur á móti kominn í leikbann vegna uppsafnaðra gulra spjalda. Hinn danski Nicklas Halse sem samdi við Fjölni á dögunum verður ekki með Fjölni á laugardag vegna sóttkvíar.

Áhorfendabanni hefur verið aflétt en fjöldatakmörkun áhorfenda miðast við 100 einstaklinga fædda fyrir árið 2005.  Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Áfram Fjölnir!

#FélagiðOkkar

Grétar Atli Davíðsson

 

Leikmannahópur Fjölnis

1 – Steinar Örn Gunnarsson (m)

4 – Sigurpáll Melberg Pálsson

5 – Torfi Tímoteus Gunnarsson

6 – Grétar Snær Gunnarsson

7 – Ingibergur Kort Sigurðsson

8 – Arnór Breki Ásþórsson

9 – Jón Gísli Ström

10 – Viktor Andri Hafþórsson

11 – Hallvarður Óskar Sigurðarson

12 – Atli Gunnar Guðmundsson (m)

14 – Lúkas Logi Heimisson

16 – Orri Þórhallsson

17 – Valdimar Ingi Jónsson

19 – Daníel Smári Sigurðsson

20 – Péter Zachán

23 – Örvar Eggertsson

25 – Sigurjón Daði Harðarson (m)

28 – Hans Viktor Guðmundsson, fyrirliði

29 – Guðmundur Karl Guðmundsson, varafyrirliði

31 – Jóhann Árni Gunnarsson

32 – Kristófer Óskar Óskarsson

42 – Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson

Þjálfari: Ásmundur Arnarsson
Aðstoðarþjálfarar: Gunnar Már Guðmundsson og Gunnar Sigurðsson


Upphitun. Fylkir - Fjölnir

Pepsi Max deild karla
14. umferð
Fylkir – Fjölnir
Þriðjudaginn 25. ágúst kl. 19:15 í Árbæ

Á þriðjudag mætast Fjölnir og Fylkir í Pepsi Max deild karla. Bæði lið gerðu 1-1 janftefli í síðustu umferð. Fjölnir við Víking og Fylkir við Stjörnuna. Staðan á milli umferða breyttist lítið í botnbaráttunni. KA, sem situr í næsta örugga sæti fyrir ofan Fjölni, gerði einnig jafntefli og áfram er fjögurra stiga munur á milli liðanna. HK og Grótta töpuðu sínum leikjum. Úrslit síðustu umferðar þýða að með sigri Fjölnis í næstu umferð fer liðið úr botnsæti deildarinnar, a.m.k. um stundarsakir. Grótta leikur við HK á miðvikudag.

Hallvarður Óskar Sigurðarson skoraði sitt fyrsta mark í meistaraflokki í jafnteflinu við Víking. Hallvarður er loksins farinn að geta spilað heila leiki eftir baráttu við meiðsli. Grétar Snær Gunnarsson tekur út eins leiks bann á þriðjudag vegna uppsafnaðra gulra spjalda. Örvar Eggertsson var ekki með í síðasta leik en búast má við því að hann komi aftur í liðið gegn Fylki. Sóknarmaðurinn Viktor Andri Hafþórsson leysti Örvar af í stöðu vængbakvarðar gegn Víkingi. Valdimar Ingi Jónsson sem einnig hefur leikið sem vængbakvörður í sumar er enn meiddur. Sigurpáll Melberg Pálsson fór meiddur af velli í háfleik í síðasta leik. Í hans stað kom Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson. Þetta var fyrsti leikur Vilhjálms í efstu deild þar sem hann fær að spreyta sig af einhverju ráði. Vilhjálmur hafði áður komið inná sem varamaður í uppbótartíma í 1. umferð. Guðmundur Karl Guðmundsson lék sinn 250. leik á ferlinum gegn Víkingi, þar af eru 228 leikir fyrir Fjölni.

Fjölnir situr í tólfta sæti deildarinnar og Fylkir í því sjötta. Fylkir hefur unnið fimm leiki og tapað jafn mörgum, eina jafntefli Fylkis í sumar kom í síðustu umferð. Öll stig Fjölnis í sumar hafa komið með jafnteflum. Fjölnir og Fylkir hafa mæst þrettán sinnum í efstu deild. Fimm viðureignum hefur lokið með jafntefli og hafa liðin unnið sitt hvorar fjórar viðureignirnar. Fylkir hafði betur í leik liðanna í 4. umferð, 1-2. Nánar var vikið að fyrri viðureignum liðanna í pistli fyrir fyrri leik félaganna í sumar.

Áfram verður leikið án áhorfenda en leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Þar sem um útileik er að ræða hafa miðakaup engan styrk til Fjölnis í för með sér. Fyrir þau sem vilja styrkja félagið er bent á reikningsnúmer knattspyrnudeildar hér að neðan. Áfram Fjölnir!

#FélagiðOkkar

Grétar Atli Davíðsson

Knattspyrnudeild Fjölnis
0114-05-060968
Kt. 6312887589

Leikmannahópur Fjölnis

1 – Steinar Örn Gunnarsson (m)

4 – Sigurpáll Melberg Pálsson

5 – Torfi Tímoteus Gunnarsson

6 – Grétar Snær Gunnarsson

7 – Ingibergur Kort Sigurðsson

8 – Arnór Breki Ásþórsson

9 – Jón Gísli Ström

10 – Viktor Andri Hafþórsson

11 – Hallvarður Óskar Sigurðarson

12 – Atli Gunnar Guðmundsson (m)

14 – Lúkas Logi Heimisson

16 – Orri Þórhallsson

17 – Valdimar Ingi Jónsson

19 – Daníel Smári Sigurðsson

20 – Péter Zachán

23 – Örvar Eggertsson

25 – Sigurjón Daði Harðarson (m)

28 – Hans Viktor Guðmundsson, fyrirliði

29 – Guðmundur Karl Guðmundsson, varafyrirliði

31 – Jóhann Árni Gunnarsson

32 – Kristófer Óskar Óskarsson

42 – Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson

Þjálfari: Ásmundur Arnarsson
Aðstoðarþjálfarar: Gunnar Már Guðmundsson og Gunnar Sigurðsson


Upphitun. Fjölnir - Víkingur R

Pepsi Max deild karla
13. umferð
Fjölnir – Víkingur R.
Fimmtudaginn 20. ágúst kl. 18:00 á Extra vellinum.

Næstkomandi fimmtudag mætast Fjölnir og Víkingur í 13. umferð Pepsi Max deildar karla. Eins og kom fram í síðasta pistli hefur leikjum Fjölnis gegn ÍA og Stjörnunni í 9. og 10. umferð verið frestað um óákveðinn tíma. Í síðustu umferð lutu Fjölnir og Víkingur í lægra haldi gegn fyrir hvoru Kópavogsliðinu. Fjölnir tapaði 3-1 gegn HK og Víkingur 2-4 gegn Breiðabliki.

Þjálfari Víkings, Arnar Gunnlaugsson, fékk að líta rauða spjaldið í síðasta leik Víkings og verður því í leikbanni á fimmtudag. Grétar Snær Gunnarsson fékk sitt fjórða gula spjald í sumar í tapinu gegn HK. Leikbann Grétars vegna uppsafnaðra gulra spjalda tekur ekki gildi fyrr en eftir leikinn gegn Víkingi. Ingibergur Kort Sigurðsson gæti komið aftur inn í lið Fjölnis eftir að hafa verið í leikbanni gegn HK. Daninn Christian Sivebæk er farinn aftur til Danmerkur eftir að hafa meiðst stuttu eftir komuna til Íslands. Torfi Tímoteus Gunnarsson og Valdimar Ingi Jónsson hafa báðir verið að glíma við meiðsli.

Viktor Andri Hafþórsson skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild í tapinu gegn HK á nitján ára afmælisdegi sínum. Fjölnir situr enn á botni deildarinnar með þrjú stig eftir tíu leiki. Fimm stig eru á milli Fjölnis og KA sem situr í næsta örugga sæti. Með sigri jafnar Fjölnir Gróttu að stigum. Víkingur er í áttunda sæti með þrettán stig. Fjölnir og Víkingur mætast nú í annað sinn í sumar. Leik liðanna í fyrstu umferð lauk 1-1. Félögin hafa mæst ellefu sinnum í efstu deild. Fjölnir hefur unnið sex viðureignir, Víkingur þrjár og tvær hafa endað með jafntefli. Nánar var fjallað um fyrri viðureignir liðanna í upphitunarpistli 1. umferðar.

Áfram verður leikið án áhorenda. Stuðningsmenn geta samt sem áður keypt miða á leikinn og styrkt félagið. Einnig er hægt að styrkja með millifærslu (reikningsupplýsingar neðanmáls). Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Áfram Fjölnir!

 

#FélagiðOkkar

 

Grétar Atli Davíðsson

Knattspyrnudeild Fjölnis
0114-05-060968
Kt. 6312887589

Leikmannahópur Fjölnis

1 – Steinar Örn Gunnarsson (m)

4 – Sigurpáll Melberg Pálsson

5 – Torfi Tímoteus Gunnarsson

6 – Grétar Snær Gunnarsson

7 – Ingibergur Kort Sigurðsson

8 – Arnór Breki Ásþórsson

9 – Jón Gísli Ström

10 – Viktor Andri Hafþórsson

11 – Hallvarður Óskar Sigurðarson

12 – Atli Gunnar Guðmundsson (m)

14 – Lúkas Logi Heimisson

16 – Orri Þórhallsson

17 – Valdimar Ingi Jónsson

19 – Daníel Smári Sigurðsson

20 – Péter Zachán

23 – Örvar Eggertsson

25 – Sigurjón Daði Harðarson (m)

28 – Hans Viktor Guðmundsson, fyrirliði

29 – Guðmundur Karl Guðmundsson, varafyrirliði

31 – Jóhann Árni Gunnarsson

32 – Kristófer Óskar Óskarsson

42 – Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson

Þjálfari: Ásmundur Arnarsson
Aðstoðarþjálfarar: Gunnar Már Guðmundsson og Gunnar Sigurðsson

 


Upphitun. HK - Fjölnir

Pepsi Max deild karla

12. umferð

HK – Fjölnir

Sunnudaginn 16. ágúst kl. 17:00 í Kórnum

Pepsi Max deild karla er farin aftur af stað eftir tæplega þriggja vikna hlé. Á sunnudag fer Fjölnir í Kórinn og leikur við HK í 12. umferð deildarinnar. Leikjum Fjölnis gegn ÍA og Stjörnunni í 10. og 11. umferð hefur ferið frestað um óákveðinn tíma. Síðasti leikur Fjölnis í deildinni fór fram 27. júlí, lokatölur 1-3 fyrir Val. Ingibergur Kort Sigurðsson fékk rautt spjald í þeim leik og verður hann í leikbanni gegn HK. Degi áður en hlé var gert á íþróttaiðkun með snertingum féll Fjölnir úr leik í 16-liða úrslitum bikarkeppninnar með 2-0 tapi gegn KR. Leikið var fyrir luktum dyrum og verður það sama uppi á teningnum á sunnudag.

Staðan í botnbaráttunni breyttist lítið á milli umferða. Fjölnir, Grótta og HK töpuðu öll sínum leikjum í síðustu umferð sem leikin var. Grótta lék sinn leik í 12. umferð í gærkvöldi og gerði 1-1- jafntefli við Stjörnuna. Enn er Fjölnir fimm stigum frá öruggu sæti. Ekki þarf að eyða mörgum orðum í mikilvægi leiksins á sunnudag. Fjölnir situr á botni deildarinnar með þrjú stig, fimm stigum á eftir HK sem er í næsta sæti fyrir ofan fallsvæðið með jafn mörg stig og KA sem leikur í dag, laugardag, gegn Val. Að leik loknum í Kórnum verður Fjölnir tveimur, fimm eða átta stigum frá HK.

HK hefur unnið tvo leiki í sumar, gert tvö jafntefli og tapað fimm leikjum. Sigurleikir HK komu gegn KR og Breiðabliki. Í síðasta deildarleik HK tapaði liðið 3-2 fyrir Fylki. Í millitíðinni lagði liðið Aftureldingu í 16-liða úrslitum bikarkeppninnar. Á milli leikja hafa orðið mannabreytingar hjá HK. Bakvörðurinn Birkir Valur Jónsson hefur verið lánaður til Slóvakíu og til félagsins er kominn miðvörðurinn Martin Rauschenberg frá Stjörnunni.

Fjölnismenn ættu að þekkja ágætlega til nokkurra leikmanna HK liðsins. Þeir Birnir Snær Ingason, Arnar Freyr Ólafsson, Bjarni Gunnarsson og Guðmundur Þór Júlíusson leika í dag með HK en ólust allir upp í Fjölni. Sá síðastnefndi mun ekki spila á sunnudag vegna leikbanns. Einnig má nefna Pétur Guðmundsson þegar kemur að leikmönnum sem leikið hafa bæði fyrir HK og Fjölni. Pétur er í dag dómari í efstu deild karla. Þjálfari HK er Brynjar Björn Gunnarsson.

Fjölnir og HK hafa einungis tvisvar sinnum mæst áður í A-deild. Viðureignirnar fóru fram sumarið 2008 og hafði Fjölnir betur í þeim báðum. Leikur félaganna á Kópavogsvelli það sumar er merkilegur fyrir þær sakir að um er að ræða stærsta sigur Fjölnis í efstu deild, lokatölur 1-6. Gunnar Már Guðmundsson, Magnús Ingi Einarsson, Ólafur Páll Johnson, Ólafur Páll Snorrason og Pétur Georg Markan (2) skoruðu mörk Fjölnis í leiknum.

Leikurinn gegn HK verður 200. leikur Ásmundar Arnarssonar sem þjálfari Fjölnis. Ásmundur var fyrst ráðinn til Fjölnis fyrir tímabilið 2005 og stýrði hann Fjölni út keppnistímabilið 2011. Ási er nú á sínu öðru tímabili eftir endurkomu í Grafarvog. Það má þó færa fyrir því góð rök að 200. leikurinn hafi verið fyrir tveimur leikjum síðan. Einhverra hluta vegna var Ásmundur skráður aðstoðarþjálfari í leik Fjölnis á Seltjarnarnesi sumarið 2011 og vegna marmarkmannsvandræða var hann skráður sem varamarkvörður í útileik Fjölnis gegn KA árið 2005. Skráður þjálfari í leiknum á Akureyri var fyrrverandi markvörðurinn Jón Þorbjörnsson. Í tveimur leikjum hefur Ási verið fjarverandi vegna leikbanns.

Eins og áður segir verður leikið án áhordenda. Það dugir því lítið annað fyrir okkur stuðningsmenn en að senda leikmönnum og starfsliði hugheilar baráttukveðjur. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Áfram Fjölnir!

 

#FélagiðOkkar

 

Grétar Atli Davíðsson

Leikmannahópur Fjölnis

1 – Steinar Örn Gunnarsson (m)

4 – Sigurpáll Melberg Pálsson

5 – Torfi Tímoteus Gunnarsson

6 – Grétar Snær Gunnarsson

7 – Ingibergur Kort Sigurðsson

8 – Arnór Breki Ásþórsson

9 – Jón Gísli Ström

10 – Viktor Andri Hafþórsson

11 – Hallvarður Óskar Sigurðarson

12 – Atli Gunnar Guðmundsson (m)

14 – Lúkas Logi Heimisson

16 – Orri Þórhallsson

17 – Valdimar Ingi Jónsson

19 – Daníel Smári Sigurðsson

20 – Péter Zachán

21 – Christian Sivebæk

23 – Örvar Eggertsson

25 – Sigurjón Daði Harðarson (m)

28 – Hans Viktor Guðmundsson, fyrirliði

29 – Guðmundur Karl Guðmundsson, varafyrirliði

31 – Jóhann Árni Gunnarsson

32 – Kristófer Óskar Óskarsson

42 – Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson

Þjálfari: Ásmundur Arnarsson
Aðstoðarþjálfarar: Gunnar Már Guðmundsson og Gunnar Sigurðsson


Upphitun - 16-liða úrslit: KR - Fjölnir

Mjólkurbikar karla

16-liða úrslit

KR - Fjölnir

Fimmtudaginn 30. júlí kl. 19:15 á Meistaravöllum

Nú tökum við hlé frá deildarkeppninni til að etja kappi við KR í 16-liða úrslitum Mjólkurbikars karla. Fjölnir hefur ekki komist í gegnum þetta þrep keppninnar síðan árið 2015. Líkt og önnur úrvalsdeildarlið kom Fjölnir inn í bikarkeppnina í síðustu umferð. Þar vann Fjölnir Selfoss með þremur mörkum gegn tveimur. KR-ingar lögðu annað Grafarvogslið, Vængi Júpíters, 1-8 í Egilshöll í 32-liða úrslitum keppninnar. Um er að ræða annan leik Fjölnis gegn KR í Vesturbænum á rúmri viku. Viðureign liðanna í Pepsi Max deildinni í síðustu viku lauk með 2-2 jafntefli í fjörugum leik. Þar voru KR-ingar meira með knöttinn en Fjölnisliðið fékk hættulegri færi til að bæta við mörkum. Síðustu fjórar viðureignir liðanna hafa endað með jafntefli. Verði jafnt að loknum venjulegum leiktíma í Frostaskjóli á fimmtudag verður leikið til þrautar. Ef eitthvað mark má taka af síðustu leikjum liðanna má búast við hnífjöfnum leik.

Christian Sivebæk var frá vegna meiðsla í 1-3 tapinu gegn Val á mánudag. Ingibergur Kort Sigurðsson fékk að líta rauða spjaldið í þeim leik. Rétt er að taka fram að eins leiks bann Ingibergs telur ekki í bikarkeppninni. Jóhann Árni Gunnarsson er markahæstur Fjölnismanna á tímabilinu með þrjú mörk. Jóhann hefur í tveimur síðustu leikjum Fjölnis gert sitt hvort markið. KR-ingar gerðu 0-0 jafntefli við KA í síðasta deildarleik sínum.

Fjölnir og KR hafa þrisvar sinnum mæst í bikarkeppni KSÍ. Öllum viðureignunum hefur lokið með svarthvítum sigri. KR telst óneitanlega líklegra til að komast áfram í næstu umferð en Fjölnir hefur áður komið á óvart á móti KR. Líkt og komið var inná í upphitunarpistlinum fyrir deildarleik KR og Fjölnis í síðustu viku vann Fjölnir einn sinn merkilegasta sigur þegar liðið vann KR í fyrsta heimaleik Fjölnis í efstu deild. Eftirminnilegasti bikarleikur Fjölnis og KR er án nokkurs vafa bikarúrslitaleikurinn árið 2008. Fjölnir var þá nýliði í efstu deild og á leið í sinn annan bikarúrslitaleik á jafn mörgum árum. Grátlegt tap var niðurstaðan þar sem Fjölnismenn skoruðu eina mark leiksins í eigið net þegar 89 mínútur voru liðnar af leiknum. Stoltir en sárir Fjölnismenn gengu af velli eftir svekkjandi tap í bikarúrslitum annað árið í röð.

KR hefur unnið bikarkeppnina fjórtán sinnum, oftar en nokkuð annað lið á Íslandi. Síðast varð KR bikarmeistari árið 2014. Á síðasta tímabili féll KR úr leik í undanúrslitum keppninnar. Í fyrra datt Fjölnir út í 16-liða úrslitum eftir tap í Vestmannaeyjum. Fjölmennum í Vesturbæinn og hjálpum okkar strákum að komast áfram í næstu umferð.

Áfram Fjölnir!

#FélagiðOkkar

Grétar Atli Davíðsson

Leikmannahópur Fjölnis

1 – Steinar Örn Gunnarsson (m)

4 – Sigurpáll Melberg Pálsson

5 – Torfi Tímoteus Gunnarsson

6 – Grétar Snær Gunnarsson

7 – Ingibergur Kort Sigurðsson

8 – Arnór Breki Ásþórsson

9 – Jón Gísli Ström

10 – Viktor Andri Hafþórsson

11 – Hallvarður Óskar Sigurðarson

12 – Atli Gunnar Guðmundsson (m)

14 – Lúkas Logi Heimisson

16 – Orri Þórhallsson

17 – Valdimar Ingi Jónsson

19 – Daníel Smári Sigurðsson

20 – Péter Zachán

21 – Christian Sivebæk

23 – Örvar Eggertsson

25 – Sigurjón Daði Harðarson (m)

28 – Hans Viktor Guðmundsson, fyrirliði

29 – Guðmundur Karl Guðmundsson, varafyrirliði

31 – Jóhann Árni Gunnarsson

32 – Kristófer Óskar Óskarsson

42 – Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson

Þjálfari: Ásmundur Arnarsson
Aðstoðarþjálfarar: Gunnar Már Guðmundsson og Gunnar Sigurðsson