Mjólkurbikar karla

16-liða úrslit

KR – Fjölnir

Fimmtudaginn 30. júlí kl. 19:15 á Meistaravöllum

Nú tökum við hlé frá deildarkeppninni til að etja kappi við KR í 16-liða úrslitum Mjólkurbikars karla. Fjölnir hefur ekki komist í gegnum þetta þrep keppninnar síðan árið 2015. Líkt og önnur úrvalsdeildarlið kom Fjölnir inn í bikarkeppnina í síðustu umferð. Þar vann Fjölnir Selfoss með þremur mörkum gegn tveimur. KR-ingar lögðu annað Grafarvogslið, Vængi Júpíters, 1-8 í Egilshöll í 32-liða úrslitum keppninnar. Um er að ræða annan leik Fjölnis gegn KR í Vesturbænum á rúmri viku. Viðureign liðanna í Pepsi Max deildinni í síðustu viku lauk með 2-2 jafntefli í fjörugum leik. Þar voru KR-ingar meira með knöttinn en Fjölnisliðið fékk hættulegri færi til að bæta við mörkum. Síðustu fjórar viðureignir liðanna hafa endað með jafntefli. Verði jafnt að loknum venjulegum leiktíma í Frostaskjóli á fimmtudag verður leikið til þrautar. Ef eitthvað mark má taka af síðustu leikjum liðanna má búast við hnífjöfnum leik.

Christian Sivebæk var frá vegna meiðsla í 1-3 tapinu gegn Val á mánudag. Ingibergur Kort Sigurðsson fékk að líta rauða spjaldið í þeim leik. Rétt er að taka fram að eins leiks bann Ingibergs telur ekki í bikarkeppninni. Jóhann Árni Gunnarsson er markahæstur Fjölnismanna á tímabilinu með þrjú mörk. Jóhann hefur í tveimur síðustu leikjum Fjölnis gert sitt hvort markið. KR-ingar gerðu 0-0 jafntefli við KA í síðasta deildarleik sínum.

Fjölnir og KR hafa þrisvar sinnum mæst í bikarkeppni KSÍ. Öllum viðureignunum hefur lokið með svarthvítum sigri. KR telst óneitanlega líklegra til að komast áfram í næstu umferð en Fjölnir hefur áður komið á óvart á móti KR. Líkt og komið var inná í upphitunarpistlinum fyrir deildarleik KR og Fjölnis í síðustu viku vann Fjölnir einn sinn merkilegasta sigur þegar liðið vann KR í fyrsta heimaleik Fjölnis í efstu deild. Eftirminnilegasti bikarleikur Fjölnis og KR er án nokkurs vafa bikarúrslitaleikurinn árið 2008. Fjölnir var þá nýliði í efstu deild og á leið í sinn annan bikarúrslitaleik á jafn mörgum árum. Grátlegt tap var niðurstaðan þar sem Fjölnismenn skoruðu eina mark leiksins í eigið net þegar 89 mínútur voru liðnar af leiknum. Stoltir en sárir Fjölnismenn gengu af velli eftir svekkjandi tap í bikarúrslitum annað árið í röð.

KR hefur unnið bikarkeppnina fjórtán sinnum, oftar en nokkuð annað lið á Íslandi. Síðast varð KR bikarmeistari árið 2014. Á síðasta tímabili féll KR úr leik í undanúrslitum keppninnar. Í fyrra datt Fjölnir út í 16-liða úrslitum eftir tap í Vestmannaeyjum. Fjölmennum í Vesturbæinn og hjálpum okkar strákum að komast áfram í næstu umferð.

Áfram Fjölnir!

#FélagiðOkkar

Grétar Atli Davíðsson

Leikmannahópur Fjölnis

1 – Steinar Örn Gunnarsson (m)

4 – Sigurpáll Melberg Pálsson

5 – Torfi Tímoteus Gunnarsson

6 – Grétar Snær Gunnarsson

7 – Ingibergur Kort Sigurðsson

8 – Arnór Breki Ásþórsson

9 – Jón Gísli Ström

10 – Viktor Andri Hafþórsson

11 – Hallvarður Óskar Sigurðarson

12 – Atli Gunnar Guðmundsson (m)

14 – Lúkas Logi Heimisson

16 – Orri Þórhallsson

17 – Valdimar Ingi Jónsson

19 – Daníel Smári Sigurðsson

20 – Péter Zachán

21 – Christian Sivebæk

23 – Örvar Eggertsson

25 – Sigurjón Daði Harðarson (m)

28 – Hans Viktor Guðmundsson, fyrirliði

29 – Guðmundur Karl Guðmundsson, varafyrirliði

31 – Jóhann Árni Gunnarsson

32 – Kristófer Óskar Óskarsson

42 – Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson

Þjálfari: Ásmundur Arnarsson
Aðstoðarþjálfarar: Gunnar Már Guðmundsson og Gunnar Sigurðsson