Fjölnir er Íslandsmeistari í íshokkí kvenna annað árið í röð! 🏆

Fjölnir er Íslandsmeistari í íshokkí kvenna annað árið í röð! 🏆

Leikur 4 – Skautafélag Akureyrar vs. Fjölnir, þriðjudagur 19. mars kl. 19:30

Lokastaða: Fjölnir 2 – 1 Skautafélag Akureyrar

Fjölnir tryggði sér í gærkvöldi Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí kvenna annað árið í röð með frábærum 2-1 sigri á Skautafélagi Akureyrar á útivelli. Liðið vann úrslitaeinvígið 3-1 og fagnaði innilega eftir erfiða og spennandi rimmu.

Frá upphafi var ljóst að SA ætlaði sér sigur og settu þær mikla pressu á vörn Fjölnis. Sóknaraðgerðir heimaliðsins voru beittar, en Fjölnir sýndi styrk sinn í varnarleiknum. Hvort sem það voru skot sem leikmenn blokkuðu eða stórkostlegar markvörslur Karítasar Halldórsdóttur, tókst Fjölni að halda markinu hreinu í fyrsta leikhluta.

Þrátt fyrir yfirburði SA í upphafi var það Fjölnir sem náði að opna leikinn á 18. mínútu. Hilma Bergsdóttir vann pökkinn af varnarmanni SA og skoraði án stoðsendingar, nokkuð gegn gangi leiksins. Fjölnir fór því með 1-0 forystu inn í fyrsta leikhlé.

Í öðrum leikhluta jafnaðist leikurinn nokkuð og bæði lið fengu góð færi. Á 37. mínútu jók Fjölnir forskot sitt þegar Flosrún Vaka Jóhannesdóttir skoraði eftir mikið kapphlaup fyrir framan mark SA. Laura Ann Murphy og Elín Darkoh lögðu upp markið og Fjölnir var komið í vænlega stöðu, 2-0.

Þriðji leikhluti hófst með mikilli ákefð frá SA, og sex mínútum inn í lotuna tókst Önnu Sonju Ágústsdóttur að koma heimaliðinu inn í leikinn með marki. SA setti allt í sölurnar í lokin og sótti af krafti, en Fjölnir hélt út með sterkan varnarleik og kláraði leikinn með 2-1 sigri.

Með þessum sigri vann Fjölnir úrslitaeinvígið 3-1 og fagnaði Íslandsmeistaratitlinum annað árið í röð. Frábær liðsheild, skipulagður varnarleikur og öflug frammistaða í lykilaugnablikum tryggðu titilinn.

Skot á mark í leik #4
Fjölnir: 25
SA: 21

Ungmennafélagið Fjölnir óskar ykkur innilega til hamingju með vel verðskuldaðan titil! Þið eruð snillingar!! 💕


Sumarstörf Fjölnis fyrir 17-25 ára

Við höfum opnað fyrir umsóknir í sumarstörf Fjölnis 2025 fyrir 17-25 ára!

Við bjóðum upp á fjölbreytt störf fyrir 17-25 ára. Í boði er að vinna á íþróttasvæðinu í Dalhúsum, á sumarnámskeiðum deilda ásamt fjölgreinanámskeiði félagsins. Umsækjendur geta hakað við það starf sem þeir óska eftir, það er í boði að velja fleiri en eitt starf, t.d. að starfa á knattspyrnu- og listskautanámskeiðum.

Vinnutímabil fyrir 17-25 ára fer eftir nánara samkomulagi þegar ráðning liggur fyrir.

Sækja þarf um hér: https://forms.office.com/e/xQW1FM2gv5

Umsækjendur þurfa einnig að sækja um hjá Hinu Húsinu hér: https://jobs.50skills.com/reykjavik/is/34337

Laun eru greidd út samkvæmt kjarasamningum Reykjavíkurborgar.

Allar nánari upplýsingar veitir skrifstofa Fjölnis á sumarnamskeid@fjolnir.is.

Umsóknarfrestur er til 18. apríl

Öllum umsóknum verður svarað.

*Umsóknir fyrir sumarstörf fyrir unglinga hjá Vinnuskólanum opna á næstu dögum!

 

#FélagiðOkkar