Baldur Már Stefánsson tekur við meistaraflokki karla í körfubolta

Risafréttir úr Grafarvoginum!
Baldur Már Stefánsson tekur við meistaraflokki karla Fjölnis í körfubolta.
Fjölnir Karfa hefur ráðið Baldur Má Stefánsson sem þjálfara meistaraflokks karla út tímabilið.  Baldur Már hefur síðustu tvö tímabil verið aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla hjá ÍR ásamt því að hafa stýrt drengja- og unglingaflokki ÍR.
Áður en Baldur gekk til liðs við ÍR starfaði hann hjá okkur í Fjölni sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla í tvö ár sem og stýra drengja- og unglingaflokki okkar með góðum árangri.
Að auki hefur Baldur komið víða við í þjálfun, þar á meðal hjá Stjörnunni og Breiðablik síðustu ár, sem og starfað sem aðstoðarþjálfari hjá yngri landsliðum Íslands á síðustu árum og unnið með ungum og efnilegum leikmannahópum.
,,Ég er gríðarlega spenntur fyrir verkefninu, ég átti tvö frábær ár hérna í Grafarvoginum og líður mjög vel að koma aftur inn í Dalhús. Þetta er skemmtilegur leikmannahópur og ég hlakka mikið til að hefjast handa og byrja að vinna með þessum strákum," sagði Baldur við tilefnið.
Við bjóðum Baldur Má velkominn á ný í Grafarvoginn!
KKD Fjölnis

Ásgeir Frank Ásgeirsson ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla í knattspyrnu

Ásgeir Frank Ásgeirsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla hjá Fjölni til næstu tveggja ára. Ásgeir, sem er alinn upp í Fossvoginum, lék upp yngri flokkana hjá Víkingum í Reykjavík ogi lék með þeim 2 leiki í Bestu deildinni með uppeldisfélaginu.

Þess utan lék Ásgeir í 3 ár með liði Aftureldingar sem fór upp í efstu deild nú í haust auk þess sem hann þjálfaði lið Hvíta Riddarans í fyrra. Ásgeir á að baki 5 leiki fyrir U-19 ára landslið karla.

Er þetta mikill fengur fyrir Fjölni að fá svona sterkan einstakling og karakter í Grafarvoginn enda mun Ásgeir einnig vinna þvert á flokka og verða leiðandi í afreksstarfi Fjölnis í samstarfi við yfirþjálfara félagsins og þjálfara 2. og 3. flokks karla.

Vill félagið á sama tíma þakka fráfarandi aðstoðarþjálfara félagsins, Einari Jóhannesi Finnbogasyni, fyrir samstarfið undanfarin ár. Einar hefur verið afar vinsæll meðal Fjölnismanna eftir að hafa verið hægri hönd Úlla bæði í 2. flokki karla og í meistaraflokki sl 7 ár.