Frábær árangur hjá frjálsíþróttakrökkunum í Fjölni

Frjálsíþróttastarfið í sumar hefur verið með nokkuð öðru sniði vegna Covid-19. Þó hafa verið haldin ýmis mót og iðkendur frá Fjölni staðið sig mjög vel. Einn Íslandsmeistaratitill er í höfn, en boðhlaupssveit Fjölnis sigraði í 4x400 m boðhlaupi á MÍ á tímanum 3:28,95. Í sveitinni voru Bjarni Anton Theódórsson, Einar Már Óskarsson, Daði Arnarson og Kjartan Óli Ágústsson. Á Íslandsmeistaramótinu unnust einnig 4 silfur og 2 brons.

Á unglingameistaramótinu náðist frábær árangur en þar uppskáru unglingarnir 5 gull, 8 silfur og 7 brons. Þau sem sigruðu sínar greinar voru Daði Arnarson í 800m hlaupi 20-22 ára, Kjartan Óli Ágústsson í 800m hlaupi 18-19 ára, Sara Gunnlaugsdóttir 600m hlaup og 80m grind í flokki 15 ára og Helga Þóra Sigurjónsdóttir í hástökki 20-22 ára.

Íslandsmeistaramót í fjölþrautum var haldið í Kaplakrika í ágúst og þar sigraði Katrín Tinna Pétursdóttir í  sjöþraut stúlkna í 16-17 ára flokki með 2960 stig.

Nú er vetrarstarfið að fara í gang og æfingar í öllum flokkum hefjast 1. september. Æfingatöflur deildarinnar eru á heimasíðu Fjölnis. Vegna mikillar aðsóknar er búið að skipta upp yngsta hópnum þ.a. 1.-2. bekkur æfir saman og 3.-4. bekkur æfir saman. Rétt er að vekja athygli á að einnig býður deildin uppá æfingar fyrir fullorðna þrisvar í viku. Æfingar deildarinnar fara ýmist fram í nýja frjálsíþróttasalnum í Egilshöll eða í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal. Þjálfarar deildarinnar er þaulvant frjálsíþróttafólk og sumir að auki í íþróttafræðinámi. Skráning í flokkana er á heimasíðu Fjölnis. Öllum er velkomið að prófa að mæta á æfingar.

Hlaupahópur deildarinnar hleypur saman 4 sinnum í viku og eru meðlimir á ýmsum getustigum. Í september hefst nýtt byrjendanámskeið hjá hópnum sem stendur yfir í 6 vikur og þátttakendur hlaupa svo með hópnum frítt fram að áramótum. Skráning á námskeiðið og í hlaupahópinn er á heimasíðu Fjölnis.

Æfingatöflur eru eftirfarandi:

6-7 ára (árg. 2013-2014) 1.-2. bekkur
Þriðjudagar í Egilshöll kl 16:15-17:15
Fimmtudagar í Egilshöll kl 16:15-17:15
Laugardagar í Egilshöll kl 10:00-11:00

Æfingagjöld haust 2020(sept. – des.): 1-2 æfingar á viku: 22.000 kr 3 æfingar á viku: 29.000 kr

8-9 ára (árg. 2011-2012) 3.-4. bekkur
Mánudaga í Egilshöll kl 16:15-17:15
Miðvikudaga í Egilshöll kl 16:15-17:15
Föstudaga í Egilshöll kl 16:15-17:15
Æfingagjöld haust 2020 (sept. – des.):1-2 æfingar á viku: 22.000 kr 3 æfingar á viku: 29.000 kr

10-14 ára (árg. 2007-2010) 5.-8. bekkur
Mánudaga í Egilshöll kl 15:15-16:15
Miðvikudaga í Egilshöll Kl 15:15-16:15
Föstudaga í Egilshöll kl 15:15-16:15
Laugardagar í Laugardalshöll kl 10:00-11:30

Æfingagjöld haust (sept.- des.): 1-2 æfingar á viku: 25.000 kr 3-4 æfingar á viku: 39.000 kr

15 ára og eldri (2006 og fyrr)
Mánudaga í Laugardalshöll kl 17-19
Þriðjudaga í Laugardalshöll kl 17:30-10:30
Miðvikudaga í Laugardalshöll kl 17-19
Fimmtudaga í Laugardalshöll kl 17:30-19:30
Föstudaga í Laugardalshöll kl 17-19
Laugardaga í Laugardalshöll kl 11-13
Æfingastaðsetningar geta verið öðruvísi í september.

Fullorðnir:
Þriðjudaga í Laugardalshöll kl 18:30-20
Fimmtudaga í Laugardalshöll kl 18:30-20
Laugardaga í Laugardalshöll kl 10-12

Hlaupahópurinn hleypur saman 4 sinnum í viku.

Upplýsingar um æfingatíma, æfingagjöld og skráning er á fjolnir.is.

Eitthvað fyrir alla!


Skákæfingar Fjölnis alla fimmtudaga kl. 16:30 í Rimaskóla

Skákæfingar Fjölnis hefjast að nýju fimmtudaginn 10. september í Rimaskóla kl. 16.30 – 18.00. Gengið inn um íþróttahús. Skákæfingar Fjölnis eru ókeypis fyrir alla áhugasama grunnskólakrakka í Grafarvogi, Grafarholti og Úlfarsárdal. Ætlast er til að þátttakendur kunni að tefla, þ.e. undirstöðuatriðin í skák. Á hverri skákæfingu er efnt til skákmóts og boðið upp á veitingar í skákhléi. Í lok hverrar æfingar fer fram verðlaunaathöfn og dregið er í happadrætti. Á skákæfingum Fjölnis er krökkunum skipt upp í 2 – 3 hópa eftir getu, aldri eða jafnvel kyni. Umsjón með skákæfingum Fjölnis á fimmtudögum hefur Helgi Árnason formaður Skákdeildar Fjölni og honum til aðstoðar eru efnilegir skákmenn úr hópi skákdeildarinnar. Séð verður til þess að nóg af spritti sé til staðar og skákkrakkarnir minntir á að spritta sig og eða þvo sér um hendur. skak@fjolnir.is. Skráið ykkur á Facebook síðu Skákdeildar Fjölnis og missið ekki af neinu.

Skák er skemmtileg.

Í vetur stendur til að bjóða skákkrökkunum upp á skákbúðir yfir tvo daga og eina nótt og miðað við fyrri reynslu eru skákbúðir Fjölnis mikið og skemmtilegt ævintýri auk þess sem hæfustu skákkennarar landsins sjá um skákkennslu. Skellum okkur í skákbúðir þegar tækifæri gefst og losnar um COVID takmarkanir.