Dagur Ragnarsson valinn í landsliðshópinn

Skákmaðurinn efnilegi, Dagur Ragnarsson (2388)  Fjölni fær eldskírn sína með landsliði Íslands á komandi Evrópumóti landsliða í skák sem fram fer í Batuni í Georgíu nú í október. Dagur er einn fjölmargra afreksnemenda Rimaskóla í gengum árin en áður höfðu þau Hjörvar Steinn Grétarsson stigahæsti skákmaður Íslands, Hrund Hauksdóttir og  Nansý Davíðsdóttir fv. nemendur Rimaskóla teflt með landsliði Íslands. Dagur Ragnarsson hefur verið afar virkur við skákborðið undanfarin tvö ár og siglt hratt upp ELO stigalistann. Hann vakti mikla athygli í fyrra þegar hann sigraði á aljóðlega skákmótinu í Västerås í Sviþjóð ásamt stórmeistaranum Yuri Solodovini (2554) og síðar á Reykjavík Open 2019 þegar hann sigraði m.a. stórmeistarann Matthien Cornette. Frammistaða og árangur Dags og nú val í landsliðið er enn ein skrautfjöðrin í skákstarfi Fjölnis í Grafarvogi.  (HÁ)


Skákæfingar Fjölnis hefjast 26. september

Hinar vinsælu skákæfingar Skákdeildar Fjölnis hefjast að nýju fimmtudaginn 26. september. Æfingarnar eru ókeypis og fara fram í Rimaskóla þar sem gengið er inn um íþróttahús skólans. Skákæfingarnar hefjast kl. 16:30 og standa yfir til kl. 18:00. Allir áhugasamir skákkrakkar í Grafarvogi eru hvattir til að mæta, æfa sig í skáklistinni og njóta skemmtilegra æfinga sem enda á verðlaunahátíð. Boðið er upp á veitingar í skákhléi. Skákdeildin vill taka fram að skákæfingarnar eru fyrir þá grunnskólanemendur sem hafa náð tökum á skákíþróttinni og geta teflt sér til ánægju. Skákkennsla er í boði í flestum grunnskólum Grafarvogs og þar fá börnin kennslu í grunnatriðum skákarinnar. Umsjón með skákæfingum í vetur hefur sem fyrr Helgi Árnason formaður skákdeildar Fjölnis (skak@fjolnir.is). Honum til aðstoðar verða ungir skáksnillingar sem æft hafa með Fjölni í langan tíma. Skák er skemmtileg verður áfram kjörorð Skákdeildar Fjölnis.


Tvöfaldir Reykjavíkurmeistarar

Í gær lauk Reykjavíkurmóti karla í meistaraflokki og á sama tíma flottu undirbúningstímabili karla og kvennaliðana okkar.

Stelpurnar höfðu tryggt sér sigur á Reykjavíkurmótinu og strákarnir fylgdu því glæsilega eftir með góðum sigri á Víkingi. Þess má geta að Fjölnir U tók þátt í tveimur leikjum og fengu því góða æfingu fyrir Grill 66 deildina.

Við óskum meistaraflokkunum okkar innilega til hamingju með þennan árangur og hvetjum Fjölnisfólk til að fjölmenna á leiki í Olís deild karla, Grill 66 deild karla og kvenna.

Áfram Fjölnir!

#FélagiðOkkar