Knattspyrnudeild Fjölnis er stærsta deild félagsins. Deildin er ein af stofndeildum félagsins frá árinu 1988. Um þrjú hundruð börn skráðu sig á stofnárinu 1988 og hófust æfingar á malbiksvelli við Foldaskóla. Í dag eru rúmlega 700 iðkendur hjá deildinni og er keppt í öllum flokkum karla og kvenna. Deildin leggur mikinn metnað í starfsemina og hefur verið mikill uppgangur í afreksstarfinu og að veita öllum iðkendum verkefni við hæfi. Aðstaða deildarinnar er í Egilshöll sem er æfinga- og heimavöllur okkar yngri flokka og svo er aðalvöllurinn í Dalhúsum ásamt grasæfingasvæði og Gryfjunni (neðsta gras) sem er frábært vallarstæði en þar leika 2. og 3. flokkar félagsins.