Hið árlega Fjölnishlaup Olís verður ræst í 35. sinn við Grafarvogslaug í Dalhúsum á uppstigningardag, þann 18. maí kl. 11:00.

Fjölnishlaupið er einn elsti viðburður opinn almenningi á vegum Fjölnis. Í boði verða þrjár vegalengdir, 1,4 km skemmtiskokk, 5 km hlaup og 10 km hlaup. Margir fremstu hlauparar landsins hverju sinni hafa tekið þátt í fyrri hlaupum og metin bætt ár frá ári. Hlaupin hafa verið hvatning fyrir margra til að hefja hlaupaferilinn sinn, bæði fyrir unga sem og eldri hlaupara.

Vegalengdin 1,4 km er kjörin fyrir yngstu hlauparana og oft hafa foreldrar hlaupið við hlið unganna sinna og með því móti átt sameiginlega reynslu á hlaupabrautinni og búið til góðar minningar.

Áhugasamir hafa enn góðan tíma til undirbúnings ef hlaupaformið er ekki til staðar og er öllum velkomið að koma og taka þátt. Fjölnir rekur öflugt starf í frjálsíþróttadeild, þar sem allir aldurshópar geta fundið æfingar við sitt hæfi. Langhlaup eru góð líkamsrækt og í góðum félagsskap ræktar maður heilbrigða sál í hraustum líkama. Fyrsta skrefið er að taka þátt og síðari skrefin eru að ná framförum.

Allar upplýsingar um hlaupið í ár og skráningu má finna á www.sumarhlaupin.is

Hér til hliðar má sjá myndir frá Fjölnishlaupum fyrri ára