Frábær árangur hjá Degi Ragnarssyni

Dagur Ragnarsson (2327) náði sínum öðrum áfanga að alþjóðlegum skákmeistaratitli með frábærri frammistöðu á alþjóðlegu skákmóti í Montreal í Kanada sem lauk í gær.  Dagur hlaut 6½ vinning í 9 skákum. Dagur byrjaði afar vel og hafði 3½ vinning eftir 4 umferðir. Jafntefli gerði hann í 5.-8. umferð þar sem hann var oft á tíðum afar nærri því að vinna skákirnar. Sigur í lokaumferðinni á móti kanadíska FIDE-meistaranum Mike Ivanov (2251) tryggði honum áfangann. Frammistaða Dags samsvaraði 2467 skákstigum og hækkar hann um 34 ELÓ stig sem er óvenju mikið miðað við aðra stigaháa skákmenn. Eins og Grafravogsbúum ætti að vera kunnugt um þá var Dagur valinn afreksmaður skákdeildar fyrir árið 2018. Þetta er annar áfangi Dags en til þess að verða útnefndur alþjóðlegur meistari þarf hann þrjá áfanga og komast í 2400 skákstig. Þeim fyrsta náði hann í á Íslandsmótinu í skák 2017 í Hafnarfirði. Skákdeild Fjölnis óskar Degi hjartanlega til hamingju með frábæran árangur og meistaraáfangann!


Fjölmennt á jólaæfingu

Jólaskákæfing Fjölnis var fjölmenn enda margt í boði fyrir utan taflmennskuna. Fjörutíu Grafravogskrakkar mættu til leiks og tefldu fimm umferða skákmót. Í skákhléi var boðið upp á góðar veitingar og ávaxtadjús. Einbeiting og virðing eru þau tvö orð sem við höfum valið skákæfingunum að undanförnu og þessi tvö orð svínvirka. Eftir jafnt og spennandi skákmót voru allir krakkarnir leystir út með jóla-nammipoka. Þau hjónin og Grafarvogsbúarnir Steini og Vala borgarfulltrúi hafa undanfarin ár séð um jólaglaðning á jólaskákæfingum og hafa sendingar þeirra fallið í kramið hjá okkar áhugasömu skákkrökkum. Glæsilegt skákár er að baki hjá Skákdeild Fjölnis, fjölmennar æfingar og fyrsta sætið á Íslandsmóti félagsliða að loknum fyrri hluta mótsins. Fyrsta skákæfingin á nýju ári verður fimmtudaginn 10. janúar kl. 16:30 í Rimaskóla.


Íslandsmót unglingasveita

Á Íslandsmóti unglingasveita í skák 2018 sem nýverið var haldið í Garðaskóla í Garðabæ kom C sveit Fjölnis skemmtilega á óvart með því að ná bestum árangri allra C sveita á mótinu. Í skáksveitinni eru mjög ungir krakkar sem eiga það sameiginlegt að mæta nær undantekningarlaust á allar skákæfingar Fjölnis á fimmtudögum. Sú yngsta í skáksveitinni heitir Emilía Embla og er aðeins 6 ára gömul. Hún hlaut 5 vinninga í 7 skákum. Í skáksveitinni eru þau Sindri Snær Rimaskóla, Eiríkur Emil Húsaskóla, Emilía Embla Rimaskóla og Jón Emil Vættaskóla.


Skákdeild Fjölnis leiðir Íslandsmótið

Skákdeild Fjölnis er í forystu á Íslandsmóti skákfélaga eftir fimm umferðir af níu. Framúrskarandi frammistaða Fjölnismanna kom mjög á á óvart enda skáksveitin í 4. sæti eftir styrkleikalista. Enginn gat séð þetta fyrir enda þótt Fjölnir hafi unnið til bronsverðlauna sl. tvö ár. Sjö af átta liðsmönnum Fjölnis hækka á stigum fyrir frammistöðuna. Sveitin er yngsta skáksveitin á mótinu með helming liðsmanna um tvítugt. Síðari hluti Íslandsmótsins fer fram helgina 28. feb - 2. mars 2019. Í þessari fræknu skáksveit eru Jesper Thybo Evrópumeistari U18, Rimaskólameistararnir Dagur Ragnarsson, Oliver Aron Jóhannesson og Jón Trausti Harðarson, sænski alþjóðlegi meistarinn Pontus Carlson, Davíð Kjartansson fv. liðsstjóri Rimaskóla í skák, Tómas Björnsson og Sigurbjörn J. Björnsson. Fjölnir vann stórsigur á Skákdeild KR 7½-½. í 5. umferð Íslandsmótsins og tyllti sér á toppinn.