Ný námskeið í boði í listhlaupadeild
Í vikunni fara af stað æfingar unglinga og fullorðinna og hefjast námskeið fyrir unglinga- og fullorðinshópa á miðvikudaginn 13. janúar. Námskeiðin eru fyrir byrjendur í íþróttinni og þá sem eru styttra komnir. Hægt er að skrá á ýmist heila eða hálfa önn.
Hópur fyrir 3-5 ára byrjendur hófst laugardaginn 9. janúar og gekk vel. Æfingar munu vera í hádeginu á laugardögum. Æfingin byrjar á dans/leikfimi 11:30-12:05 og 12:20-13:00 er æft á svellinu. Hægt er að skrá á ýmist heila eða hálfa önn.
Mohawks er nýr hópur fyrir lengra komna iðkendur sem hafa náð ákveðinni færni í íþróttinni en eru ekki að stefna að því að keppa. Iðkendur þurfa að hafa góð tök á öllum einföldum stökkum og eru að vinna í Axel og tvöföldum stökkum. Iðkendur þurfa að hafa lokið öllum stigum í Skautum Regnbogann og hafa lokið ákveðnum grunnprófum. Markmið þessa hóps er að viðhalda kunnáttu sinni ásamt því að halda áfram að æfa nýjar æfingar. Hægt er að velja um að æfa 2x, 3x, eða 4x sinnum í viku. Hópurinn er fyrir skautara 12 ára og eldri (nóg er að verða 12 ára á árinu þ.e. fædd 2009 eða fyrr).
Allir velkomnir að prófa! Þeir sem eru óvissir með hóp mega senda póst á eva@fjolnir.is
Skautanámskeið dagana 28., 29. og 30. desember
Listhlaupadeildin verður með Jólaskautaskólann dagana 28., 29. og 30. desember kl. 9:00-12:45. Börnin mega mæta kl. 8:15 og verða rólegheit milli kl. 8:15-9:00 t.d. hægt að borða morgunmatinn sinn á staðnum. Í búðunum verður ýmislegt brallað, það verður farið á svellið, á afís, í leiki og að lokum teygt vel. Búið er að opna fyrir skráningu á fjolnir.felog.is og er verðið 8.000 kr. Einnig er boðið upp á námskeið fyrir framhaldshópana sömu daga.
Dagskráin er eftirfarandi
08:15-09:00 | Mæting/morgunmatur |
09:00-09:45 | Afís |
10:00-10:30 | Svell |
10:40-11:00 | Nesti |
11:00-11:30 | Leikir |
11:45-12:15 | Svell |
12:25-12:45 | Teygjur |
Vinsamlegast athugið að skráningu lýkur á miðnætti mánudaginn 21. desember.
Jólasýning Listhlaupadeildar
Listhlaupadeildin hefur undanfarið unnið að því að setja upp sína árlegu Jólasýningu. Þegar líða fór á haustið var nokkuð ljóst að hún gæti ekki orðið með hefðbundnu sniði í ár og fóru þjálfarar að huga að öðrum lausnum til að gera sýninguna að veruleika í ár. Á endanum var ákveðið að gera Jólasýningu í formi stuttmyndar og er hún nú tilbúin og verður hægt að kaupa aðgang að sýningunni allan desember!
Miðaverð: 2000 kr. – miðast við fyrir hverja fjölskyldu
Hægt er að horfa á sýninguna eins oft og vilji er fyrir.
Til að kaupa aðgang þarf að leggja 2.000 kr inn á reikning Listhlaupadeildar
Reikningsnúmer: 0114-26-7013
Kennitala: 631288-7589
Senda þarf kvittun á listritari@fjolnir.is (skýring: nafn iðkanda eða netfang)
Þegar búið er að ganga frá greiðslu og senda kvittun, færð þú lykilorð sent í tölvupósti.
Sýninguna er svo hægt að nálgast hér
Sýnishorn af sýningunni má sjá í spilaranum hér að neðan
Hópefliskvöld hjá Listhlaupadeild
Glæsilegir vinningar í boði!
Einkatími á skautum
Gjafabréf frá Subway
Gjafabréf frá Ísbúð Huppu
Skautastjóri listhlaupadeildar
Búið er að ráða Evu Björgu Bjarnadóttur til starfa á skrifstofu Fjölnis. Þar mun hún sinna ýmsum verkefnum en einnig mun hún sinna stöðu skautastjóra hjá listhlaupadeild. Eva Björg er okkur mörgum vel kunn en hún æfði með deildinni og starfaði síðar sem þjálfari og var yfirþjálfari Skautaskólans um árabil. Við erum mjög ánægð að fá hana Evu Björgu aftur til okkar og bjóðum hana velkomna til starfa.
Skautamót á Akureyri
Flottur hópur Fjölnisstúlkna hélt norður á Akureyri um helgina til að keppa á Haustmóti ÍSS og Frostmótinu. Langt er síðan síðasta mót var haldið þar sem öll mót féllu niður á vormánuðum vegna Covid. Stúlkurnar mættu því spenntar til Akureyrar.
Frostmót
Sex Fjölnisstúlkur tóku þátt í 4 keppnisflokkum á Frostmótinu sem haldið var á laugardeginum. Perla Gabríela Ægisdóttir keppti í 8 ára og yngri, Arna Dís Gísladóttir, Selma Kristín S. Blandon og Una Lind Otterstedt í 10 ára og yngri, Líva Lapa í 12 ára og yngri, og Kayla Amy Eleanor Harðardóttir í hóp 14 ára og yngri. Ekki voru veitt verðlaun fyrir 8 og 10 ára og yngri. Stelpunum gekk mjög vel og voru ánægðar með sitt framlag eftir daginn. Kayla skautaði gott prógram og sigraði í flokknum 14 ára og yngri.
Haustmót ÍSS
Á Haustmóti ÍSS voru 9 Fjölnisstúlkur í 6 keppnisflokkum. Allar voru þær að skipta um keppnisflokk eða koma nýjar inn á ÍSS mót. Á laugardeginum hófst keppni í Basic Novice sem var stærsti flokkur mótsins. Þar keppti ein Fjölnisstúlka, Elva Ísey Hlynsdóttir. Hún skautaði prógramið sitt af nokkru öryggi, fékk 24,18 í einkun og hreppti hún 4. sætið aðeins 0,42 stigum á eftir næsta keppanda. Því næst hófst keppni í Advanced Novice og Junior þar sem keppendur skautuðu stutta prógramið sitt. Tanja Rut Guðmundsdóttir í Advanced Novice var önnur á ísinn, skautaði fínt prógram og fékk 22,12 stig og var í 2. sæti eftir fyrri daginn. Júlía Sylvía Gunnarsdóttir og Lena Rut Ásgeirsdóttir kepptu síðan í flokki Junior. Júlía Sylvía fékk 35,51 stig og var í 3. sæti eftir fyrri daginn en Lena Rut fékk 24,00 stig og var í 5. sæti.
Á sunnudeginum hófst keppni í Chicks þar sem Ermenga Sunna Víkingsdóttir skautaði vel í frumraun sinni á ÍSS móti. Þær Arína Ásta Ingibjargardóttir og Elín Katla Sveinbjörnsdóttir kepptu síðan í Cubs. Ekki voru veitt verðlaun fyrir keppendur í Chicks og Cubs en allir keppendur fengu þátttökuviðurkenningar og voru þær mjög ánægðar með daginn.
Því næst var keppt í flokki Intermediate Novice og þar kepptu Sandra Hlín Björnsdóttir og Andrea Marín Einarsdóttir. Sandra Hlín fór fyrst á ísinn og nældi hún sér í 22,63 stig og hafnaði í 2. sæti. Andreu Marín gekk nokkuð vel með sitt prógram, fékk 17,02 stig og lenti í 4. sæti.
Að lokum var keppt í frjálsa prógraminu í Advanced Novice og Junior. Tanja Rut fékk 36,81 stig fyrir frjálsa prógramið og var samanlagt með 58,93 stig og endaði í 2. sæti í Advanced Novice. Lena Rut fór fyrst á ísinn í flokki Junior, skautaði ágætis prógram sem hún fékk 47,04 stig fyrir, var samanlagt með 71,04 stig og var í 5. sæti. Júlía Sylvía reyndi í fyrsta skipti á móti við þrefalt Salchow sem henni tókst því miður ekki að lenda í þetta sinn, en skautaði svo fínt frjálst prógram sem hún fékk 68,82 stig fyrir, var samanlagt með 104,33 stig og var í 3. sæti í flokki Junior.
Eftir fínt gengi stúlknanna er Fjölnir í 2. sæti í Bikarmótaröðinni eftir fyrsta mót vetrarins.
Búið er að opna fyrir skráningar á haustönn 2020
Í dag 15. júlí var opnað fyrir skráningar í flest allar greinar hjá félaginu fyrir haustönn 2020.
Allar skráningar fara fram í Nora skráningakerfi félagsins https://fjolnir.felog.is/
Við hvetjum foreldra til að skoða fjölbreytt úrval íþrótta í Fjölni!
Nýr yfirþjálfari keppnishópa
Í byrjun ágúst mun Lorelei Murphy taka við stöðu yfirþjálfara keppnisflokkanna okkar. Lorelei kemur frá Kanada. Hún hefur langa og víðtæka reynslu sem þjálfari og hefur þjálfað skautara á öllum aldri og öllum getustigum. Hún hefur þjálfað skautara í Kanada, Svíþjóð, Danmörku, Nýja Sjálandi, Írlandi, Hong Kong og Singapore. Lorelei er nokkrum iðkendum okkar kunn en hún hefur þjálfað hjá listhlaupadeildinni áður, bæði var hún hjá okkur veturinn 2009/2010 en einnig hefur hún komið hingað sem gestaþjálfari, síðast vorið 2018. Við bjóðum Lorelei velkomna til starfa hjá okkur.
Frábær árangur skautastúlkna Fjölnis á Reykjavíkurleikunum
Reykjavíkurleikarnir hófust á föstudaginn en þá kepptu Fjölnisstúlkur í flokkum Chicks, Cubs, Intermediate Novice og Advanced Novice. Þetta er eina mót ársins hér á landi þar sem þær keppa við iðkendur frá öðrum löndum og er þetta mjög góð reynsla fyrir þær.
Ungu stúlkurnar okkar í Chicks og Cubs hófu mótið og stóðu sig mjög vel. Sumar eru farnir að reyna við tvöföld stökk og eru að bæta erfiðleikastigum á pírúettana sína. Það hafa verið stöðugar framfarir hjá þessum ungu stúlkum í vetur.
Rakel, Tanja og Lena kepptu allar í Intermediate Novice. Tönju hefur gengið vel í allan vetur en á þessu móti voru smá erfiðleikar með tvöföldu stökkin og endaði hún í 6. sæti á mótinu. Rakel bætti sitt persónulega stigamet og var í 5. sæti. Lena var með 26.87 stig sem skilaði henni 3. sæti í flokknum. Aldeilis frábær árangur hjá þeim stelpum.
Júlía Sylvía var í 8. sæti eftir stutta prógrammið á föstudeginum. Á laugardeginum skautaði hún mjög vel og bætti persónulegt met í langa prógramminu og endaði í 6. sæti í flokknum Advanced Novice.
Á laugardeginum kepptu Junior stelpur svo í stutta prógramminu. Hildur var fyrst af Fjölnisstelpunum, skautaði vel og bætti sitt persónulega stigamet í stutta prógramminu. Herdís var næst, lenti öllum stökkunum og var mjög nálægt sínum besta árangri í vetur. Helga átti líka fínan dag og lenti hún flottri stökksamsetningu strax í byrjun prógrammsins. Þær kepptu síðan í frjálsa prógramminu á sunnudeginum. Hildur lenti í smá erfiðleikum með nokkur stökk í frjálsa prógramminu en samanlögð stig henni þau næsthæstu í vetur. Helga átti annan fínan dag og hóf prógrammið sitt á tvöföldum axel og flottri tvöfaldri stökksamsetningu. Herdís var síðust þeirra og átti hún frábæran dag þar sem hún bætti persónulegt stigamet í frjálsu prógrammi og samanlögð stig hennar voru 95.79. Með þessum árangri náði hún viðmiðum afrekshóps og keppir því á Norðurlandamótinu eftir 2 vikur. Til hamingju með frábæran árangur á Reykjavíkurleikunum 2020!
Nýr yfirþjálfari Skautaskólans
Listhlaupadeildin hefur ráðið Sólbrúnu Ernu Víkingsdóttur sem yfirþjálfara Skautaskólans. Sólbrún hefur æft skauta hjá deildinni í 15 ár, tekið þátt á mótum og æfingabúðum hér heima og erlendis. Hún var íþróttakona deildarinnar árið 2018. Sólbrún hefur þjálfararéttindi 1 og 1A í sérgreinahluta. Hún hefur þjálfað í Skautaskólanum og yngri iðkendum í framhaldshópum deildarinnar í nokkur ár samhliða háskólanámi og æfingum.