Júlía Sylvía valin í landsliðsverkefni

Júlía Sylvía Gunnarsdóttir hefur verið valin til að keppa fyrir Íslands hönd á Junior Grand Prix mótaröðinni í ár. Hún mun keppa í Ljubljana í Slóveníu 22. – 25. september næstkomandi.

Mótaröðin samanstendur af sjö mótum og einu úrslitamóti. Á mótaröðinni keppa skautarar í junior flokki sem eru á hraðri uppleið í skautaheiminum og gefur skauturum sem eru á aldrinum 13 til 19 ára tækifæri til þess að keppa á háu getustigi alþjóðlega.

Júlía er 16 ára og hefur æft hjá félaginu frá unga aldri. Hún hefur átt gott tímabil í ár og verður svo sannarlega spennandi að fylgjast með henni í vetur. Félagið er mjög stolt af því að eiga fulltrúa á sterku móti eins og JGP. Við óskum Júlíu góðs gengis með undirbúning og þátttöku á mótinu.


Fréttir af Vormóti ÍSS og Kristalsmóti

Það er heldur betur viðburðarík helgi hjá okkur á skautasvellinu um helgina. Um 110 keppendur voru skráðir til leiks á Kristalsmóti og Vormóti ÍSS og fór fyrri hluti mótanna fram í dag.

Keppni á Kristalsmótinu hófst kl. 08:00 í morgun og voru það keppendur í 6 ára og yngri og 8 ára og yngri sem fóru fyrstir inn á ísinn. Fjórir keppendur tóku þátt í flokki 6 ára og yngri. Í flokki 8 ára og yngri voru 10 keppendur, Perla Gabriela Giraldo Ægisdóttir var okkar fulltrúi í þeim hópi og stóð sig með prýði. Næst tók við keppni í flokki 10 ára og yngri voru 14 keppendur skráðir til leiks og áttum við þar 4 keppendur, Örnu Dís Gísladóttur, Margréti Ástrósu Magnúsdóttur, Selmu Kristínu S. Blandon og Unu Lind Otterstedt, sýndu þær æfingar sýnar af miklu öryggi og stóðu sig vel. Keppendur í flokkum 6, 8 og 10 ára og yngri fengu viðurkenningar fyrir þátttöku en ekki er raðað í verðlaunasæti í þeim flokkum. Því næst tók við keppni í flokki 12 ára og yngri og voru þar skráðar til leiks 11 stúlkur og 1 drengur, Líva Lapa og Ísabella Jóna Sigurðardóttir úr Fjölni kepptu í þeim flokki og stóðu sig mjög vel og hreppti Ísabella Jóna fyrsta sætið. Að lokum tók við keppni í SO flokkum og voru þar skráðar til leiks 12 stúlkur og 1 drengur. Eftir það var gert hlé á Kristalsmóti þangað til í fyrramálið.

Eftir hádegi var komið að keppni á Vormóti ÍSS. Keppni hófst á skylduæfingum hjá Advanced Novice, þar voru aðeins þrír skautarar. Tanja Rut Guðmundsdóttir úr Fjölni var önnur á ísinn og gekk ágætlega, hún endaði í þriðja sæti eftir fyrri daginn með 21,45 stig. Næst tóku við skylduæfingar hjá Junior Ladies þar sem voru einnig aðeins þrír skautarar. Þar áttum við tvo fulltrúa, þær Júlíu Sylvíu Gunnarsdóttur og Lenu Rut Ásgeirsdóttur. Lena var fyrst á ísinn og skautaði gott prógram náði nýju persónulegu meti í stuttu prógrammi með 27,76 stig. Júlía Sylvía var næst á ísinn og gekk ágætlega og endaði með 32,88 stig eftir fyrri daginn. Eru þær í öðru og þriðja sæti eftir fyrri keppnisdag. Næst á ísinn komu Senior Ladies með skylduæfingar og voru þar tveir skautarar skráðir til leiks, Herdís Birna Hjaltalín tók þátt á sínu fyrsta móti sem Senior skautari. Herdísi gekk nokkuð vel og endaði með 31,35 stig og í fyrsta sæti eftir stutt prógram.

Næst tók við keppni í Basic Novice, þar voru 13 keppendur og áttum við tvær Fjölnisstelpur í þeim flokki, þær Elvu Íseyju Hlynsdóttur og Írisi Maríu Ragnarsdóttur. Stelpurnar stóðu sig nokkuð vel en ansi mjótt var á milli stiga hjá keppendum í flokknum. Endaði Íris María í 8. sæti með 19,34 stig og Elva Ísey í 3. sæti með 24,10 stig. Næst stigu á ísinn keppendur í Intermediate Novice þar sem 5 skautarar tóku þátt, þar áttum við þrjá keppendur þær, Rakel Söru Kristinsdóttur, Andreu Marín Einarsdóttur og Söndru Hlín Björnsdóttur, stóðu stelpurnar sig vel og lenti Rakel Sara í öðru sæti með 24,04 stig. Sandra Hlín og Andrea Marín áttu ekki jafn góðan dag, en eiga nóg inni fyrir okkur næst. Að lokum var keppni í Intermediate Ladies og tók þar 1 skautari þátt. Eftir það var gert hlé á keppni þangað til í fyrramálið.

Á sunnudeginum hélt Kristalsmótið áfram og byrjaði á keppni í flokki 14 ára og yngri þar sem voru 7 keppendur, þar áttum við tvo skautara, Ástu Lovísu Vilhjálmsdóttur og Kaylu Amy Eleanor Harðardóttur. Stóðu þær sig vel og lenti Ásta Lovísa í fyrsta sæti í flokknum. Næst var keppni í flokkum 15 ára og eldri og 25 ára og eldri, en þar voru tveir keppendur í sitthvorum flokknum. Alrún María Skarphéðinsdóttir keppti í flokki 25 ára og eldri og skautaði gott prógram og var hún í fyrsta sæti. Þar með var keppni á Kristalsmótinu 2021 lokið.

Þá var komið að seinnihluta Vormóts ÍSS. Fyrst var keppni í yngri flokkunum Chicks og Cubs, en ekki eru veitt verðlaun eða birt úrslit í þeim flokkum. Í flokki Chicks voru 5 skautarar, þar á meðal okkar Ermenga Sunna Víkingsdóttir sem stóð sig vel. Gaman var að sjá fjölgun í flokknum milli móta. Næsti var keppni í Cubs flokkum, þar voru 7 skautarar, 6 stúlkur og 1 drengur. Okkar skautarar, Arína Ásta og Elín Katla stóðu sig vel. Að því loknu var komið að keppni í frjálsu prógrammi hjá Advanced Novice, Junior og Senior sem skautuðu stutta prógrammið með skylduæfingunum á laugardeginum. Tönju Rut skautaði gott prógram með minniháttar mistökum í Advanced Novice og fékk hún 36,85 stig fyrir frjálsa prógramið og endaði hún með 58,30 í heildarstig fyrir bæði prógröm og í þriðja sæti í flokknum. Lena Rut var aftur fyrst á ísinn í Junior Ladies og gekk ágætlega og endaði hún með 41.65 stig fyrir frjálsa prógramið og endaði hún með 69,41 í heildarstig fyrir bæði prógröm og í þriðja sæti í flokknum. Júlía Sylvía var önnur á ísinn og og gekk ágætlega, átti m.a. góða tilraun í þrefalt salchow og endaði hún með 55,37 stig fyrir frjálsa prógramið og endaði hún með 88,25 í heildarstig fyrir bæði prógröm og í öðru sæti í flokknum. Að lokum var keppni í Senior Ladies og var Herdís Birna önnur á ísinn, gekk henni vel þó stökkin hafi aðeins verið að stríða henni. Fékk hún 66,40 stig fyrir frjálsa prógramið og fékk hún samanlagt 97,75 fyrir bæði prógröm og endaði í 2. sæti á mótinu.

Yfir heildina gekk Fjölnisskauturum mjög vel og mátti sjá miklar framfarir frá seinasta móti, þá sérstaklega í Félagalínunni þar sem ekki hefur verið mót síðan í september. Við þökkum kærlega fyrir samveruna á mótinu, þá keppendum, þjálfurum, foreldrum, sjálfboðaliðum og starfsfólki.

 

Myndir frá mótinu má nálgast hér


Vormót ÍSS og Kristalsmót

Framundan er viðburðarík helgi hjá okkur á skautasvellinu í Egilshöll. En dagana 12. – 14. mars fara fram tvö listskautamót, annars vegar Kristalsmótið og hins vegar Vormót ÍSS. Vormótið er síðasta mótið í Bikarmótaröð ÍSS og verða Bikarmeistarar þessa tímabils krýndir í lok mótsins.

Vormót ÍSS

Dagskrá Vormóts má finna hér.

Keppnisröð og úrslit má finna hér.

Facebook viðburð mótsins má finna hér.

Kristalsmót

Skráningu á Kristalsmótið lýkur föstudaginn 5. mars en allar upplýsingar um mótið má finna í mótstilkynningunni.

Dagskrá Kristalsmótsins má finna hér.

Keppnisröð Kristalsmótsins má finna hér.

Facebook viðburð mótsins má finna hér.

Mikilvægar upplýsingar

Sóttvarnarreglur

  • Allir gestir þurfa að finna sér sæti og mega ekki vera andspænis hver öðrum
  • Gestir mega ekki fara í búningsklefana
  • Allir gestir þurfa að nota andlitsgrímu
  • Tryggja þarf að fjarlægð milli ótengdra gesta sé a.m.k. 1 metri
  • Gestir mega ekki hópast saman við verðlaunaafhendingu
  • Allir gestir þurfa að forskrá sig og tilkynna sig í móttöku við komu

Mikilvægt er að allir áhorfendur sem eru 16 ára og eldri forskrái sig á mótið í gegnum þennan tengil

*Forskráningu lýkur fimmtudaginn 11. mars


Listhlaup á skautum á Reykjavíkurleikunum

Um helgina var keppt í listhlaupi á skautum á Reykjavíkurleikunum. Keppnin fór fram á skautasvellinu í Laugardal. Tíu Fjölnisstúlkur tóku þátt á mótinu í 6 keppnisflokkum.

Á laugardeginum hófst keppni í Advanced Novice þar sem keppendur sýndu stutta prógramið sitt. Tanja Rut Guðmundsdóttir fór fyrst á ísinn, fékk 17,01 stig og var hún í 3. sæti eftir daginn. Næst hófst keppni í Junior en í þeim flokki keppa tvær stúlkur úr Fjölni, Júlía Sylvía Gunnarsdóttir og Lena Rut Ásgeirsdóttir. Júlía Sylvía hóf keppni, fékk 34,35 stig og var í 2. sæti eftir daginn og Lena Rut sem var þriðja á ísinn, fékk 22,32 stig og var í 4. sæti.

Í flokki Basic Novice keppti Elva Ísey Hlynsdóttir en hún var tíunda í röðinni á ísinn. Hún bætti sitt persónulega stigamet, fékk 26,17 stig og var hún í 2. sæti. Síðasti flokkurinn sem Fjölnir átti keppendur í á laugardeginum var Intermediate Novice en í þeim flokki kepptu 3 stúlkur úr Fjölni; Andrea Marín Einarsdóttir, Rakel Sara Kristinsdóttir og Sandra Hlín Björnsdóttir. Rakel Sara hóf keppni, sló sitt persónulega stigamet, fékk 24,65 stig og lenti hún í 1. sæti. Sandra Hlín fékk 21,87 stig og var í 4. sæti og Andrea Marín sem bætti sitt persónulega stigamet, fékk 18,40 stig og var í 5. sæti.

Á sunnudeginum hófst keppni í yngstu keppnisflokkunum, Chicks og Cubs. Ermenga Sunna Víkingsdóttir keppti í Chicks og Elín Katla Sveinbjörnsdóttir og Arína Ásta Ingibjargardóttir kepptu í Cubs. Ekki eru veitt verðlaun fyrir þessa flokka en þær stóðu sig allar með mikilli prýði.

Keppni á Reykjavíkurleikunum lauk svo á frjálsa prógrami í flokkum Advanced Novice, Junior og Senior. Tanja Rut fékk 36,12 stig fyrir frjálsa prógramið og samanlagt 53,13 stig og var hún í 3. sæti samanlagt í flokki Advanced Novice. Lena Rut fékk 41,97 stig og samanlagt 64,29 stig og var hún í 4. sæti í flokki Junior. Júlía Sylvía fékk 68,30 stig og samanlagt 102,65 stig og var hún í 2. sæti í flokki Junior.

Eftir mótið er Fjölnir í 2. sæti í bikarmótaröðinni á eftir Skautafélagi Akureyrar sem er í 1. sæti.


Ný námskeið í boði í listhlaupadeild

Í vikunni fara af stað æfingar unglinga og fullorðinna og hefjast námskeið fyrir unglinga- og fullorðinshópa á miðvikudaginn 13. janúar. Námskeiðin eru fyrir byrjendur í íþróttinni og þá sem eru styttra komnir. Hægt er að skrá á ýmist heila eða hálfa önn.

Hópur fyrir 3-5 ára byrjendur hófst laugardaginn 9. janúar og gekk vel. Æfingar munu vera í hádeginu á laugardögum. Æfingin byrjar á dans/leikfimi 11:30-12:05 og 12:20-13:00 er æft á svellinu. Hægt er að skrá á ýmist heila eða hálfa önn.

Mohawks er nýr hópur fyrir lengra komna iðkendur sem hafa náð ákveðinni færni í íþróttinni en eru ekki að stefna að því að keppa. Iðkendur þurfa að hafa góð tök á öllum einföldum stökkum og eru að vinna í Axel og tvöföldum stökkum. Iðkendur þurfa að hafa lokið öllum stigum í Skautum Regnbogann og hafa lokið ákveðnum grunnprófum. Markmið þessa hóps er að viðhalda kunnáttu sinni ásamt því að halda áfram að æfa nýjar æfingar. Hægt er að velja um að æfa 2x, 3x, eða 4x sinnum í viku. Hópurinn er fyrir skautara 12 ára og eldri (nóg er að verða 12 ára á árinu þ.e. fædd 2009 eða fyrr).

Allir velkomnir að prófa! Þeir sem eru óvissir með hóp mega senda póst á eva@fjolnir.is


Skautanámskeið dagana 28., 29. og 30. desember

Listhlaupadeildin verður með Jólaskautaskólann dagana 28., 29. og 30. desember kl. 9:00-12:45. Börnin mega mæta kl. 8:15 og verða rólegheit milli kl. 8:15-9:00 t.d. hægt að borða morgunmatinn sinn á staðnum. Í búðunum verður ýmislegt brallað, það verður farið á svellið, á afís, í leiki og að lokum teygt vel. Búið er að opna fyrir skráningu á fjolnir.felog.is og er verðið 8.000 kr. Einnig er boðið upp á námskeið fyrir framhaldshópana sömu daga.

Dagskráin er eftirfarandi

08:15-09:00 Mæting/morgunmatur
09:00-09:45 Afís
10:00-10:30 Svell
10:40-11:00 Nesti
11:00-11:30 Leikir
11:45-12:15 Svell
12:25-12:45 Teygjur

Vinsamlegast athugið að skráningu lýkur á miðnætti mánudaginn 21. desember.


Jólasýning Listhlaupadeildar

Listhlaupadeildin hefur undanfarið unnið að því að setja upp sína árlegu Jólasýningu. Þegar líða fór á haustið var nokkuð ljóst að hún gæti ekki orðið með hefðbundnu sniði í ár og fóru þjálfarar að huga að öðrum lausnum til að gera sýninguna að veruleika í ár. Á endanum var ákveðið að gera Jólasýningu í formi stuttmyndar og er hún nú tilbúin og verður hægt að kaupa aðgang að sýningunni allan desember!

Miðaverð: 2000 kr. – miðast við fyrir hverja fjölskyldu

Hægt er að horfa á sýninguna eins oft og vilji er fyrir.

Til að kaupa aðgang þarf að leggja 2.000 kr inn á reikning Listhlaupadeildar

Reikningsnúmer: 0114-26-7013

Kennitala: 631288-7589

Senda þarf kvittun á listritari@fjolnir.is (skýring: nafn iðkanda eða netfang)

Þegar búið er að ganga frá greiðslu og senda kvittun, færð þú lykilorð sent í tölvupósti.

Sýninguna er svo hægt að nálgast hér

Sýnishorn af sýningunni má sjá í spilaranum hér að neðan


Hópefliskvöld hjá Listhlaupadeild

Þar sem yfirvöld hvatt fólk til að halda sig heima við í vetrarfríinu, ætlar Listhlaupadeildin að halda Spurningakeppni fyrir alla iðkendur og fjölskyldur núna í kvöld kl. 20:00. Við hvetjum alla skautara til að fá foreldra og systkini með sér í lið og taka þátt. Spurt verður um hin ýmsu málefni en einnig um íþróttina okkar og því um að gera að fara að lesa sig aðeins til!

Glæsilegir vinningar í boði!

Einkatími á skautum
Gjafabréf frá Subway
Gjafabréf frá Ísbúð Huppu

Nánari upplýsingar um viðburðinn má finna hér

Skautastjóri listhlaupadeildar

Búið er að ráða Evu Björgu Bjarnadóttur til starfa á skrifstofu Fjölnis. Þar mun hún sinna ýmsum verkefnum en einnig mun hún sinna stöðu skautastjóra hjá listhlaupadeild. Eva Björg er okkur mörgum vel kunn en hún æfði með deildinni og starfaði síðar sem þjálfari og var yfirþjálfari Skautaskólans um árabil. Við erum mjög ánægð að fá hana Evu Björgu aftur til okkar og bjóðum hana velkomna til starfa.

 


Skautamót á Akureyri

Flottur hópur Fjölnisstúlkna hélt norður á Akureyri um helgina til að keppa á Haustmóti ÍSS og Frostmótinu. Langt er síðan síðasta mót var haldið þar sem öll mót féllu niður á vormánuðum vegna Covid. Stúlkurnar mættu því spenntar til Akureyrar.

Frostmót
Sex Fjölnisstúlkur tóku þátt í 4 keppnisflokkum á Frostmótinu sem haldið var á laugardeginum. Perla Gabríela Ægisdóttir keppti í 8 ára og yngri, Arna Dís Gísladóttir, Selma Kristín S. Blandon og Una Lind Otterstedt í 10 ára og yngri, Líva Lapa í 12 ára og yngri, og Kayla Amy Eleanor Harðardóttir í hóp 14 ára og yngri. Ekki voru veitt verðlaun fyrir 8 og 10 ára og yngri. Stelpunum gekk mjög vel og voru ánægðar með sitt framlag eftir daginn. Kayla skautaði gott prógram og sigraði í flokknum 14 ára og yngri.

Haustmót ÍSS
Á Haustmóti ÍSS voru 9 Fjölnisstúlkur í 6 keppnisflokkum. Allar voru þær að skipta um keppnisflokk eða koma nýjar inn á ÍSS mót. Á laugardeginum hófst keppni í Basic Novice sem var stærsti flokkur mótsins. Þar keppti ein Fjölnisstúlka, Elva Ísey Hlynsdóttir. Hún skautaði prógramið sitt af nokkru öryggi, fékk 24,18 í einkun og hreppti hún 4. sætið aðeins 0,42 stigum á eftir næsta keppanda. Því næst hófst keppni í Advanced Novice og Junior þar sem keppendur skautuðu stutta prógramið sitt. Tanja Rut Guðmundsdóttir í Advanced Novice var önnur á ísinn, skautaði fínt prógram og fékk 22,12 stig og var í 2. sæti eftir fyrri daginn. Júlía Sylvía Gunnarsdóttir og Lena Rut Ásgeirsdóttir kepptu síðan í flokki Junior. Júlía Sylvía fékk 35,51 stig og var í 3. sæti eftir fyrri daginn en Lena Rut fékk 24,00 stig og var í 5. sæti.

Á sunnudeginum hófst keppni í Chicks þar sem Ermenga Sunna Víkingsdóttir skautaði vel í frumraun sinni á ÍSS móti. Þær Arína Ásta Ingibjargardóttir og Elín Katla Sveinbjörnsdóttir kepptu síðan í Cubs. Ekki voru veitt verðlaun fyrir keppendur í Chicks og Cubs en allir keppendur fengu þátttökuviðurkenningar og voru þær mjög ánægðar með daginn.

Því næst var keppt í flokki Intermediate Novice og þar kepptu Sandra Hlín Björnsdóttir og Andrea Marín Einarsdóttir. Sandra Hlín fór fyrst á ísinn og nældi hún sér í 22,63 stig og hafnaði í 2. sæti. Andreu Marín gekk nokkuð vel með sitt prógram, fékk 17,02 stig og lenti í 4. sæti.

Að lokum var keppt í frjálsa prógraminu í Advanced Novice og Junior. Tanja Rut fékk 36,81 stig fyrir frjálsa prógramið og var samanlagt með 58,93 stig og endaði í 2. sæti í Advanced Novice. Lena Rut fór fyrst á ísinn í flokki Junior, skautaði ágætis prógram sem hún fékk 47,04 stig fyrir, var samanlagt með 71,04 stig og var í 5. sæti. Júlía Sylvía reyndi í fyrsta skipti á móti við þrefalt Salchow sem henni tókst því miður ekki að lenda í þetta sinn, en skautaði svo fínt frjálst prógram sem hún fékk 68,82 stig fyrir, var samanlagt með 104,33 stig og var í 3. sæti í flokki Junior.

Eftir fínt gengi stúlknanna er Fjölnir í 2. sæti í Bikarmótaröðinni eftir fyrsta mót vetrarins.