Snæbjörn Willemsson Verhaul útnefndur gullmerkishafi Fjölnis
Snæbjörn byrjaði að æfa karate janúar 2004 og hefur því verið viðloðandi Karatedeild Fjölnis í 21 ár. Lengst allra þeirra sem henni tengjast.
Hann hóf fljótlega að keppa fyrir hönd deildarinnar og náði fljótlega góðum árangri. Hann var alltaf í verðlaunasætum í bæði kata og kumite þangað til að hann hætti keppnisþátttöku árið 2011. Á ferlinum tók hann, meðal annars, þátt í tveimur heimsmeistaramótum sem haldin voru á vegum Kobe Osaka International sambandinu.
Hann hóf fljótt að aðstoða við þjálfun og starfar í dag sem aðstoðaryfirþjálfari deildarinnar. Hann menntaði sig sem styrktarþjálfari og býður framhaldshópum, afrekshópum sérsniðina styrktarþjálfun.
Hann hefur einnig verið dómari fyrir hönd Fjölnis á mótum innanlands og erlendis og sat á tímabili í stjórn deildarinnar sem fulltrúi yngri iðkenda.

Takk Snæbjörn
Karate: María Baldursdóttir nýr handhafi gullmerkis Fjölnis
María Baldursdóttir er fyrrverandi formaður Karatedeildar Fjölnis og hóf fyrst þátttöku í starfi deildarinnar, eins og svo mörg önnur, með því að fylgja börnunum sínum á æfingar. Fljótlega tók hún virkari þátt með því að setjast í stjórn deildarinnar og gegndi formennsku um árabil.
Þegar drengurinn hennar lét af iðkun íþróttarinnar var María þó ekki af baki dottin heldur tók að sér nýtt hlutverk. Fyrir hönd Karatedeildar Fjölnis settist hún í stjórn Karatesambands Íslands og tók þar að sér eitt streitufyllsta og vanþakklátasta hlutverk hreyfingarinnar – formennsku í mótanefnd. Í því hlutverki stýrði hún mótahaldi í níu ár og bar ábyrgð á öllum mótum, bæði smærri mótum Karatesambandsins og á stærri alþjóðlegum mótum eins og Norðurlandameistaramótum og Smáþjóðaleikum.
Íþróttahreyfingin byggist á sjálfboðaliðum, og þar er Karatedeild Fjölnis engin undantekning. Okkar heppni hefur verið að eiga einstaklinga eins og Maríu, sem með óeigingjörnu starfi sínu hefur lagt grunn að öflugri og sjálfbærri starfsemi.
María var sæmd gullmerki Fjölnis númer 42.
#TakkMæja

Heiðursfélagar Fjölnis: Willem Verhaul og Valborg Guðjónsdóttir Karatedeild
Það er vart hægt að tala um annað þeirra heiðurshjóna án þess að nefna hitt í sömu andrá – enda hafa þau verið óaðskiljanleg í starfi Karatedeildar Fjölnis í á þriðja áratug. Af þeirri ástæðu er okkur sannur heiður að tilnefna þau sem Heiðursfélaga Fjölnis fyrir ómetanlegt og óeigingjarnt framlag sitt til íþróttarinnar, félagsins og deildarinnar.
Ein krafan til þeirra sem sækjast eftir Dan gráðun (svarta beltið) í karate sé að þau verði að gefa til baka til íþróttarinnar. Fá hafa lagt sig jafn mikið fram um að gera það eins og þau Willem og Valborg. Án þeirra, ræki Karatedeild Fjölnis einfaldlega ekki þá öflugu starfsemi sem raun ber vitni. Þau hafa lagt ómælda vinnu í uppbyggingu deildarinnar, hvort sem það er í þjálfun,

stjórnarsetu, liðsstjórn eða dómgæslu. Öll þeirra börn hafa stundað karate, og sjálf hafa þau gengið í öll möguleg ábyrgðarhlutverk – jafnan oftar en einu sinni.
Það er erfitt fyrir utanaðkomandi að átta sig á því hversu dýrmæt þau eru fyrir starfsemina, en fyrir okkur sem höfum notið eljusemi þeirra og eldmóðs er það augljóst. Það er því með djúpu þakklæti sem við tilnefnum þau til þessarar viðurkenningar.
Sumarstörf Fjölnis 2024
Við bjóðum upp á fjölbreytt störf fyrir 15-25 ára. Í boði er að vinna á íþróttasvæðinu í Dalhúsum, á sumarnámskeiðum deilda ásamt fjölgreinanámskeiði félagsins. Umsækjendur geta hakað við það starf sem þeir óska eftir, það er í boði að velja fleiri en eitt starf, t.d. að starfa á knattspyrnu- og listskautanámskeiðum.
Vinnutímabil fyrir 15-16 ára er samtals 105 tímar. Samið er um vinnutíma þegar ráðning liggur fyrir. Umsækjendur þurfa einnig að sækja um hjá Vinnuskólanum.Vinnutímabil fyrir 17-25 ára fer eftir nánara samkomulagi þegar ráðning liggur fyrir. Umsækjendur þurfa einnig að sækja um hjá Hinu Húsinu.
Laun eru greidd út samkvæmt kjarasamningum Reykjavíkurborgar.
Allar nánari upplýsingar veitir skrifstofa Fjölnis á sumarnamskeid@fjolnir.is.
https://forms.office.com/pages/responsepage.aspx?id=tQYbx3SIz0emX0cicrdwf9xPGYOlIM5Fo5kx7iGGC7RUN1pFRlBEM1dJS0NIM1BMTllKTU9JU0NZTS4u
#FélagiðOkkar
Nýr handhafi Silfurmerkis Fjölnis: Sunna Rut Guðlaugardóttir
Sunna Rut er einn þeirra sem halda alltaf áfram í sportinu. Hún byrjaði sem agnarlítið spons fyrir um 12 árum, rétt 7 ára gömul að mæta á æfingar. Vann ötullega að því að bæta sig. Tók þátt í mótum og dró heim fullt af verðlaunapeningum. Vann sér inn Íslandsmeistaratitla, klifraði upp á verðlaunapall á RIG mótum að ótöldum auðvitað öllum hinum mótunum þar sem hún tók þátt og þurfti að klifra upp á verðlaunapall.
Því má ekki gleyma að hún hefur auðvitað líka verið valin karatekona ársins hjá Fjölni.
Í gegnum tíma sinn hjá Fjölni hefur hún aukið við þekkingu sína jafnt og þétt með því að ljúka hverri beltagráðuninni á fætur annari, nú síðast þegar hún lauk gráðun til 2. dans svartbeltisgráðun (Nidan) með miklum sóma.
Partur af því að æfa Karate er að gefa til baka til íþróttarinnar og félagsins sín. Þar lætur Sunna ekki sitt eftir liggja. Því hún er einnig vinsæll og óþreytandi þjálfari þeirra sem á eftir henni hafa komið. Auk þess að taka að sér liðsstjórastörf á mótum.
Sunnu var afhent Silfurmerki Fjölnis númer 215.
Mynd: Kristján U Kristjánsson
Karatekarl Fjölnis 2023: Gabríel Sigurður Pálmason
Gabríel er einbeittur karatemaður og fyrirmyndariðkandi. Þessvegna var hann tilnefndur núna og hlaut titilinn Karatekarl Fjölnis í fjórða sinn!
Í ár hefur hann dregið heim gullpeninga fyrir frammistöðu sína í kata 15 ára pilta á Íslandsmeistaramóti unglinga í Kata. Það sama á við um Kata 16-17 ára pilta á GrandPrix mótaröð Karatesambands Íslands, en þaðan kom hann með tvenn gullverðlaun og ein silfurverðlaun. Auk þess náði hann sér í bronsverðlaun á Reykjavík International Games í flokki ungmenna. Á Kobe Osaka International mótinu í Skotlandi í haust gerði hann sér lítið fyrir og tók heim gull í kata bæði í aldursflokki 14-15 ára og 16 ára. Auk þess sem hann hlaut gull fyrir keppni í kumite 14-15 ára.
Í salnum er hann óþreytandi, mætir hann á allar æfingar og afreksæfingar auk styrktaræfinga og hann gefur sig allan á hverri æfingu.
Gabríel er fyrirmyndar afreksíþróttamaður sem sannar að sjálfsagi og einbeiting skilar árangri.
Metnaður og Heilbrigði eru þau Fjölnisgildi sem Gabríel hefur staðið fyrir í starfi sínu innan karatedeildarinnar.
Ungmennafélagið Fjölnir sá líka ástæðu til að verðlauna Gabríel sérstaklega með því að útnefna hann Íþróttakarl Fjölnis 2023!
Mynd: Kristján U. Kristjánsson
Karatekona Fjölnis 2023: Klara Ólöf Kristjánsdóttir
Klara Ólöf hóf nýverið að keppa fyrir alvöru og hefur fyrst og fremst einbeitt sér að keppni í kumite hluta karate. Í ár náði hún tvisvar á verðlaunapall á Íslandi. Fékk brons á Íslandsmeistaramóti unglinga í kumite í flokki 14-15 ára stúlkna og fékk einnig bronsverðlaun á 3. GrandPrix móti Karatesambands Íslands í sama flokki.
Klara keppti jafnframt á Kobe Osaka International í Skotlandi í haust og hlaut þar 3. sæti í kata 14-15 ára, 2. sæti í kumite 12-13 ára og sigraði Gladiator 14-15 ára!
Klara er meðlimur í Afrekshópi karatedeildarinnar. Metnaður er það gildi Fjölnis sem Klara hefur lifað í starfi sínu innan deildarinnar.
Mynd: Kristján U Kristjánsson
Íþróttakarl Fjölnis 2023 - Gabríel Sigurður Pálmason
Uppskeruhátið Fjölnis fór fram þann 13. desember að viðstöddum stórum hópi íþrótta- og stuðningfólks. Stóru fréttirnar voru þar að okkar maður, Gabríel Sigurður Pálmason afreksmaður hjá Karatedeild Fjölnis var valinn íþróttakarl ársins. Það var sérlega ánægjulegt að sjá Gabríel hljóta þessa viðurkenningu fyrir þá miklu vinnu sem hann hefur lagt í undanfarin ár. En á meðal sigra hans árið 2023 voru Íslandsmeistaratitill í kata, ásamt fjölda verðlauna sem hann hlaut á hinum ýmsu mótum innanlands og utan.
Við óskum Gabríel innilega til hamingju með þennan frábæra árangur.
Mynd: Kristján U Kristjánsson.
Sumarstörf 2023 fyrir 15-25 ára
Líkt og fyrri ár munum við hjá Fjölni bjóða upp á fjölbreytt sumarstörf í tengslum við vinæslu sumarnámskeiðin okkar.
HÉR er umsóknareyðublað sem allir þurfa að fylla út til þess að sækja um starf.
ATH! 17-25 ára þurfa líka að fylla út umsókn í gegnum Hitt húsið. HÉR er hlekkur á þá slóð.
Umsóknarfrestur hjá Hinu húsinu er til 15. apríl.
Við hvetjum öll áhugasöm til þess að sækja um!

Æfingatafla Karatedeildar
Opnað hefur verið fyrir skráningar fyrir vorönn 2023.
Æfingar byrjenda hefjast 4. janúar og býðst áhugasömum að sækja 2-3 tíma sér að kostnaðarlausu til að fá tilfinningu fyrir íþróttinni. Æfingar framhaldsiðkenda hefjast svo fimmtudaginn 5. janúar.
Meðfylgjandi er æfingatafla okkar fyrir vorið 2023.
- Byrjendur yngri: 5-9 ára (á 6. ári)
- Byrendur eldri: 9 ára og upp
- Hópur 1 -börn yngri: 5 – 7 ára
- Hópur 2 – börn eldri: 8 – 11 ára
- Hópur 3 – unglinga: 12 – 15 ára
- Hópur 4 – fullorðnir: 16 ára+
