Góður árangur Fjölnisfólks í Gamlárshlaupinu
Hið árlega Gamlárshlaup ÍR fór fram á gamlársdag kl 12. Hlaupið var ræst við Hörpuna í frekar blautu veðri. Fjölnisfólk fjölmennti í hlaupið og stóð sig frábærlega.
Ingvar Hjartarson varð í öðru sæti í karlaflokki á tímanum 34:45.
Arndís Ýr Hafþórsdóttir varð í þriðja sæti í kvennaflokki á tímanum 37:55.
Helga Guðný Elíasdóttir varð í fjórða sæti í kvennaflokki á tímanum 39:26.
Guðrún Axelsdóttir varð í öðru sæti í aldursflokknum 55-59 ára á tímanum 52:16.
Rósa Friðriksdóttir sigraði aldursflokkinn 60-64 ára á tímanum 52:19.
Signý Einarsdóttir sigraði aldursflokkinn 65-69 ára á tímanum 54:34.
Lilja Björk Ólafsdóttir varð í öðru sæti í aldursflokknum 65-69 ára á tímanum 01:01:06.
Öll úrslit hlaupsins eru hér.
Myndirnar eru fengnar af facebooksíðu Gamlárshlaups ÍR.
Áramót Fjölnis 2019
Frjálsíþróttadeild Fjölnis hélt sitt árlega Áramót í frjálsíþróttahöllinni í Laugardal mánudaginn 30. desember. Mótið tókst vel í alla staði og ber að þakka fyrir framlag allra þeirra sjálfboðaliða sem lögðu hönd á plóginn.
Fjölnir átti 12 keppendur á mótinu sem stóðu sig mjög vel.
Kjartan Óli Ágústsson sigraði í 800 m hlaupi á tímanum 2:05,15.
Katrín Tinna Pétursdóttir sigraði í hástökki kvenna með stökk yfir 1,68 m sem er persónuleg bæting hjá henni. Hún varð í þriðja sæti í langstökki kvenna þegar hún stökk 4,92 m.
Vilhelmína Þór Óskarsdóttir varð í öðru sæti í 200 m hlaupi kvenna á tímanum 27,04 sek.
Bjarni Anton Theódórsson varð í öðru sæti í 200 m hlaupi á tímanum 23,11 sek.
Helga Þóra Sigurjónsdóttir varð í öðru sæti í hástökki kvenna með stökk yfir 1,60 m.
Hildur Hrönn Sigmarsdóttir varð í öðru sæti í kúluvarpi 15 ára stúlkna (3 kg) með kast uppá 8,69 m sem er persónuleg bæting hjá henni.
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir ÍR átti besta afrek mótsins þegar hún hljóp 60 m á tímanum 7,54 sek sem gefur 1039 IAAF stig sem er stórglæsilegur árangur. Fær hún til varðveislu farandbikar mótsins sem er ávallt veittur þeim íþróttamanni sem á besta afrek mótsins skv. stigatöflu IAAF.
Öll úrslit mótsins eru hér.
Minna og Daði íþróttafólk frjálsíþróttadeildarinnar 2019
Íþróttafólk Fjölnis 2019 var heiðrað við hátíðlega athöfn föstudaginn 27. desember. Íþróttafólk frjálsíþróttadeildarinnar voru Vilhelmína Þór Óskarsdóttir og Daði Arnarson.
Vilhelmína er 21 árs gömul frjálsíþróttakona sem hefur æft frjálsar íþróttir frá unga aldri og hefur síðustu ár einbeitt sér að keppni í hlaupum. Hefur hún náð mjög góðum árangri í 60, 100, 200 og 400m hlaupum. Á árinu 2019 hljóp hún 400m á 57,29sek sem gefur 965 IAAF stig sem er frábær árangur. Þessi árangur setur hana í 4. sæti á listanum yfir bestu tíma í 400m hlaupi innanhúss árið 2019. Vilhelmína eða Minna eins og hún er alltaf kölluð er í landsliði Íslands í hópi 4x400m boðhlaupskvenna. Hún var líka kjörin íþróttakona deildarinnar í fyrra.
Daði er tvítugur og hefur æft frjálsar íþróttir frá unga aldri. Hann hefur aðallega einbeitt sér að 800m hlaupi undanfarin ár en líka náð góðum árangri í 600m og 1500m hlaupum. Á þessu ári hljóp hann 600m á tímanum 1:22,18 sem gefur 929 IAAF stig sem er frábær árangur. Þessi árangur setur hann í annað sæti á listann yfir bestu afrek í 600m hlaupi innanhúss á þessu ári. Þess má geta að Daði tekur þátt í þjálfun yngri iðkenda deildarinnar og nýtur mikilla vinsælda hjá þeim og er góð fyrirmynd.
Fjölnismaður ársins var að þessu sinni hjónin Lilja Björk Ólafsdóttir og Guðmundur Magni Þorsteinsson sem eru öflugir hlauparar í hlaupahópi Fjölnis. Þessi dugnaðarhjón tilheyra hópi fárra í heiminum sem klárað hafa sex stærstu marþon í heimi. Þau eru elst íslenskra hjóna sem það hafa afrekað. Hjónin, sem eru á sjötugsaldri, byrjuðu að hlaupa um fertugt og eru hvergi nærri hætt. Í Grafarvogi ólu þau upp börn sín fjögur og þegar þau voru að nálgast fertugt gafst loks tími fyrir áhugamál. Um leið og ungarnir voru flognir úr hreiðrinu reimuðu þau á sig hlaupaskóna og héldu af stað. Þau höfðu þá aldrei stundað hlaup en byrjuðu strax í hlaupahópi Grafarvogs, sem heitir nú hlaupahópur Fjölnis. Það var árið 1995 og hafa þau hlaupið meira og minna síðan.
Þau fundu sig vel í hlaupunum og áður en varði lá leiðin í maraþon. Það átti eftir að vinda upp á sig svo um munar. Sex stærstu hlaup heims eru í London, New York, Boston, Berlín, Tokýó og Chicago og hafa þau hjón klárað þau öll. Þessi hlaup eru fjölmennustu maraþonin og það var búinn til klúbbur fyrir fólk sem hefur klárað öll þessi hlaup, en klúbburinn heitir Abbott World Marathon Majors og má finna þar rúmlega þrjátíu Íslendinga. Aðeins sex þúsund manns í heiminum geta státað af að hafa klárað öll þessi stærstu hlaup heims. Líklega eru fá hjón á sjötugsaldri í þeim hópi og eru þau Lilja og Guðmundur elst íslenskra hjóna sem það hafa afrekað.
Frjálsíþróttadeildin óskar þeim til hamingju með valið.
Fjölnir stofnar þríþrautarhóp
Hjólreiðafélag Reykjavíkur, sunddeild Fjölnis og frjálsíþróttadeild Fjölnis hafa tekið höndum saman og sett upp æfingaplan fyrir þá sem hafa áhuga á því að stunda þessar þrjár íþróttir samhliða.
Hvort heldur sem þig langar að koma þér í gott form, vera hluti af skemmtilegum æfingahópi, taka þátt í Landvættum eða einhvers konar þríþraut þá er þetta eitthvað fyrir þig!
Þaulreyndir þjálfarar taka á móti þér í hverri grein fyrir sig og við setjum okkur markmið saman. Skref fyrir skref náum við svo markmiðunum. Sendu okkur línu á trihfrogfjolnis@gmail.com eða skráðu þig bara og mættu!
Við byrjum á 4 vikna sundnámskeiði mánudaginn 6.janúar 2020. Námskeiðið kostar 15.000 kr, en ef þú heldur áfram í þríþrautarhópnum, þá ganga 10.000 kr upp í félagsgjaldið. Námskeiðið fer fram á ensku.
Athugið að sundnámskeiðið er kennt á mánudögum og föstudögum kl. 19-20 í Grafarvogslaug.
Verð fyrir janúar til júní 2020 er 30.000 kr. Skráningar opna 1.janúar á https://fjolnir.felog.is/ og mættu í fyrsta tímann mánudaginn 6.janúar.
Hlökkum til að sjá þig!
Jólamót Fjölnis
Frjálsíþróttadeild Fjölnis hélt sitt árlega jólamót fyrir yngstu iðkendurna sunnudaginn 8. desember. Mótið var haldið í frjálsíþróttahöllinni í Laugardal. Keppt var í 60 m spretthlaupi, langstökki, skutlukasti og 200m hlaupi. Mótið gekk mjög vel og virtust keppendur vera mjög ánægðir. Mótið var styrkt af Krumma leikföngum og Íslandsbanka. Að móti loknu fengu allir glaðning frá Krumma leikföngum og viðurkenningarskjal.
Fjölnisjaxlinn 2019
Það var mögnuð stemning um helgina þegar fyrsti „FJÖLNISJAXLINN“ fór fram. Um hundrað íþróttaiðkendur, foreldrar, þjálfarar, leikmenn og aðrir áhugasamir tóku þátt í að gera þessa íþróttaþrekraun að veruleika. Boðið var upp á tvær útfærslur fyrir íþróttaiðkendur krakka og foreldra þ.e. synt 200 metra, hjólað 3km og hlaupið 1km. Fyrir íþróttaiðkendur unglinga, foreldra, þjálfara, leikmenn og þá sem æfa þríþraut var synt 400 metra, hjólað 10km og hlaupið 3km. Það var tvöfalt meiri þátttaka en gert hafði verið ráð fyrir, mögnuð stemning allan tímann og gríðarlega mikil ánæga með fyrsta jaxlinn. Áfram Fjölnir og áfram Fjölnisjaxlinn - Allir með á næsta ári!!!
Aðalstyrktaraðili Fjölnisjaxlins er eitt nýjasta og besta fyrirtækið í hverfinu Fanntófell og myndir er hægt að skoða hjá besta hverfisfjölmiðlinum okkar “Grafarvogsbúar”
https://www.facebook.com/Grafarvogsb%C3%BAar-111119802396520/
Knattspyrnudeild, Frjálsíþróttadeild og Sunddeild Fjölnis vilja sérstaklega þakka öllum fyrir sitt framtak til að gera Fjölnisjaxlinn að veruleika þ.e. þátttakendum/keppendum, starfsmönnum/sjálfboðaliðum, ÍTR og Grafarvogssundlaug, starfsmönnum Grafarvogslaugar, áhorfendum, öllum styrktaraðilum og hverfisfjölmiðlinum Grafarvogsbúar fyrir ljósmyndatöku.
Myndir frá jaxlinum má sjá hér.
Fjölnisjaxlinn 2019
Ert þú það öflugur íþróttamaður/íþróttakona að þú getir klárað Fjölnisjaxlinn?
Knattspyrnudeild Fjölnis í samstarfi við frjálsíþróttadeild og sunddeild félagsins ætla að keyra í gang fyrsta „Fjölnisjaxlinn“ og skora á alla íþróttaiðkendur að skrá sig til leiks.
Skráning í einstaklingsáskorun: https://docs.google.com/forms/d/e/1FAIpQLScq1bDFYzjUxJd5EwS6y_VOunOejZbvZWymLUc-1Dp2KniUAw/viewform?usp=sf_link
Skráning í liðaáskorun: https://docs.google.com/forms/d/e/1FAIpQLSfLWikt_hqZVGXX-MMf1WUEqNiIK_BdzgsyaPeFQkJ69cSV_g/viewform?usp=sf_link
#FélagiðOkkar
Fjölnisfólkið stóð sig vel í Reykjavíkurmaraþoninu
Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fór fram laugardaginn 24. ágúst í ágætu hlaupaveðri. Margir hlauparar frá Fjölni tóku þátt í hlaupinu og stóðu sig vel. Arndís Ýr Hafþórsdóttir varð önnur íslenska konan í mark í 10 km hlaupinu á tímanum 37:19.
Í hálfu maraþoni var Rósa Friðriksdóttir fyrsta íslenska konan í aldursflokknum 60-69 ára á tímanum 1:52:26. Lilja Ágústa Guðmundsdóttir og Ingibjörg Hjaltalín Jónsdóttir urðu fyrstu konur í mark í aldursflokknum 70-79 ára á tímanum 2:09:04. Aldeilis glæsilegur árangur hjá þessum konum sem láta aldurinn ekki stoppa sig!
Öll úrslit úr hlaupinu eru hér.
Á myndinni er Arndís Ýr.
Æfingatafla, þjálfarar og æfingagjöld í frjálsum haustið 2019
Æfingar í frjálsum hefjast 3. sept. hjá 6-9 ára og 10-14 ára hópunum. Upplýsingar um æfingar hjá öðrum hópum eru birtar á facebooksíðum hópanna.
Fjölnir frjálsar 6-9 ára
Fjölnir Frjálsar 11-14 ára
Fjölnir frjálsar
Fjölnir frjálsar fullorðnir
Skokkhópur Fjölnis
6-9 ára (árg. 2010-2013) 1.-4. bekkur:
Þriðjudagar í Fjölnishöll salur 2 kl 15:30-16:30
Fimmtudagar í Fjölnishöll salur 1 kl 16:15-17:15
Laugardagar í Laugardalshöll kl 10-11
Þjálfarar: Hafdís Rós Jóhannesdóttir sími: 6595032 netfang: hafdis2105@gmail.com (þri og fim)
Daði Arnarson (fim og lau)
Signý Hjartardóttir (þri)
Æfingagjöld haustönn (sept.-des.):
29.000 3 æfingar á viku.
22.000 1-2 æfingar á viku.
10-14 ára (árg. 2006-2009) 5. – 8. bekkur:
Þriðjudagar í Fjölnishöll salur 2 kl 14:40-15:30
Fimmtudagar í Laugardalshöll kl 16:00-17:30
Laugardagar í Laugardalshöll kl 10-11:30
Þjálfarar: Matthías Már Heiðarson sími: 8450542 netfang: mattimar95@gmail.com (þri, fim og lau)
Hafdís Rós Jóhannesdóttir sími: 6595032 netfang: hafdis2105@gmail.com (þri)
Elísa Sverrisdóttir (fim og lau)
Signý Hjartardóttir (lau)
Æfingagjöld haustönn (sept.-des.):
35.000 3 æfingar á viku.
25.000 1-2 æfingar á viku.
15 ára og eldri (árg. 2005 og eldri):
Mánudagar í Laugardalshöll kl 17-19
Þriðjudagar í Laugardalshöll kl 17:30-19:30
Miðvikudagar í Laugardalshöll kl 17-19
Fimmtudagar í Laugardalshöll kl 17:30-19:30
Föstudagar í Laugardalshöll kl 17-19
Laugardagar í Laugardalshöll kl 11-13
Þjálfari: Óskar Hlynsson, sími 6933026, netfang: oskarhlyns@simnet.is
Tækniþjálfari: Theodór Karlsson (fim.)
Aðstoðarþjálfari: Matthías Már Heiðarson (þri)
Æfingagjöld haustönn (sept.-des.):
41.000 6 æfingar á viku.
27.000 1-2 æfingar á viku.
Fullorðnir:
Þriðjudagar í Laugardalshöll kl 18:30-20
Fimmtudagar í Laugardalshöll kl 18:30-20
Laugardagar í Laugardalshöll 10-12
Þjálfari: Óskar Hlynsson, sími 6933026, netfang: oskarhlyns@simnet.is
Æfingagjöld haustönn (sept.-des.) 15.000kr
Hlaupahópur:
Mánudagar og miðvikudagar við Foldaskóla kl 17:30-19
Fimmtudagar í Laugardalshöll á veturnar en úti á sumrin – breytilegur tími
Laugardagar – langt hlaup – breytilegur tími og staðsetning
Þjálfarar: Ingvar Hjartarson og Gyða Þórdís Þórarinsdóttir
Æfingagjöld:
Ársgjald er 25.000kr
Líka hægt að greiða eina önn í einu þá er gjaldið 10.000 kr (3 annir á ári)
Allar upplýsingar um æfingar eru settar inná Facebooksíður æfingahópa:
Fjölnir frjálsar 6-9 ára
Fjölnir Frjálsar 11-14 ára
Fjölnir frjálsar
Fjölnir frjálsar fullorðnir
Skokkhópur Fjölnis
Helga Guðný í landsliðinu á Evrópubikar
Helga Guðný Elíasdóttir Fjölniskona var valin í landslið Íslands til að keppa í 3000 m hindrunarhlaupi á Evrópubikar. Um er að ræða keppni í 3. deild í Evrópubikarkeppni landsliða. Keppnin fór fram í Skopje í Norður Madedóníu. Liðið náði þeim frábæra árangri vinna til gullverðlauna á mótinu og komast þannig upp í 2. deild.
Helga Guðný stóð sig vel í hindrunarhlaupinu og lenti í 7. sæti á tímanum 12:21,11. Hér er linkur á frétt FRÍ um mótið og hér er linkur á öll úrslit mótsins.