Skákhátíð í höllinni

Það fór vel um 350 skákmenn og skákkonur í Fjölnishöll í Egilshöllinni á Íslandsmóti skákfélaga, fyrri hluta, sem fram fór um helgina í Úrvalsdeild og í 1. – 4. deild.
Skákdeild Fjölnis hefur í 15 ár skaffað þessu fjölmennasta skákmóti heppilegt húsnæði og þar með keppnisskilyrði, fyrst í Rimaskóla og nú annað árið í röð í Fjölnishöll.

Það sem einkennir mótið er óvenju breið aldursdreifing keppenda. Þeir eru á aldursbilinu frá yngstu bekkjum barnaskóla og allt upp i 90 ára öldunga. Þarna eru mættir íslensku stórmeistararnir, erlendir stórmeistarar sem styrkja skáksveitir úrvals-og 1. deildar svo og þekktir íslenskir einstaklingar sem kunna ýmislegt fyrir sér í skáklistinni.
Skákmenn kunna vel við sig í rúmgóðri Fjölnishöll og njóta veitingasölunnar sem efnilegar skákstúlkur Fjölnis sinna og safna fyrir þátttöku á skákmóti erlendis næsta ár.
Skákdeild Fjölnis sendi 3 skáksveitir til leiks á Íslandsmótið og eru flestir skákmenn Fjölnis uppaldir Grafarvogsbúar og íbúar í hverfinu.

A sveitin teflir i 6 liða efstu deild og á þar í harðri baráttu um að halda sæti sínu. Með A sveitinni tefldi tvítugur stórmeistari, Litháinn Valery Kazakouski sem náði 80% vinningshlutfalli og vakti taflmennska hans athygli og aðdáun.

Síðari hluti Íslandsmótsins verður tefldur í Fjölnishöll í Egilshöll helgina 17. – 19. mars 2023.


Daníel, Arnar og Sölvi skrifa undir!

Knattspyrnudeild Fjölnis samdi í vikunni við þrjá unga og efnilega Fjölnismenn sem eru að ganga upp úr 2. flokki félagsins.

Daníel Smári Sigurðsson (2003) er kröftugur hafsent sem síðastliðin tvö tímabil hefur verið á láni hjá Vængjum Júpíters og fengið dýrmæta reynslu í meistaraflokki þar sem hann meðal annars fór upp úr 4. deild með Vængina sumarið 2021. Ásamt því að spila með Vængjunum hefur Daníel verið lykilmaður í sterku 2. flokks liði Fjölnis sem vann Íslandsmeistaratitillinn á þessu sumri. Á lokahófi Vængja og 2. flokks var Daníel valinn Besti Leikmaðurinn í bæði Vængjum og 2. flokki.

Arnar Ragnar Guðjohnsen (2003) er vinstri bakvörður sem kom til baka í ár eftir erfið hnémeiðsli árið 2021. Arnar stimplaði sig strax inn í 2. flokkinn sem lykilleikmaður í liðinu sem landaði Íslandsmeistaratitlinum ásamt því að vera á láni hjá Vængjum Júpíters þar sem hann spilaði 8 leiki og skoraði 4 mörk!

Sölvi Sigmarsson (2003) er leikinn miðjumaður sem lenti í slæmum meiðslum í sumar en fram að því var hann lykilmaður í 2. flokks liði Fjölnis ásamt því að vera á láni hjá Vængjum Júpíters í 3. deildinni þar sem Sölvi spilaði stórt hlutverk með þeim. Sölvi er búinn að sinna endurhæfingunni vel og fagnar knattspyrnudeildin því að hann er kominn aftur á ról og byrjaður að æfa á fullu eftir meiðslin.

Knattspyrnudeild Fjölnis bindur miklar vonir við að þessir leikmenn taki skrefið upp í meistaraflokk félagsins á komandi árum og eigi bjarta framtíð hjá félaginu.

#FélagiðOkkar


Freyja Dís valin í æfingahóp U16!

Freyja Dís Hreinsdóttir valin í æfingahóp U16!

Magnús Örn Helgason, landsliðsþjálfari U16 kvenna, hefur valið æfingahóp til að taka þátt í úrtaksæfingum dagana 24. – 26. október næstkomandi. Æft verður í Miðgarði, Garðabæ. Til æfinga að þessu sinni eru valdir 32 leikmenn frá 16 félögum

Til hamingju með þetta Freyja Dís

#FélagiðOkkar!


Rótarý á Íslandi verðlaunar Skákdeild Fjölnis og skákstarf Rimaskóla

Helgi Árnason, formaður Skákdeildar Fjölnis, við viðurkenningu og veglegum styrk Verðlauna-og styrktarsjóðs Rótarý á Íslandi. Athöfnin fór fram á Umdæmisþingi Rótarý á Íslandi sem haldið var í Gullhömrum Grafraholti.

Þetta er mikill heiður og viðurkenning á líflegu starfi Skákdeildar Fjölnis sem á sér fáa líka hvað varðar fjölda þátttakenda og jafns kynjahlutfalls.

Til hamingju Fjölniskrakkar. Fram til sigurs

#FélagiðOkkar


Óliver og Sigurvin til Fjölnis

Knattspyrnudeild Fjölnis hefur gengið frá samningum við þá Óliver Dag Thorlacius og Sigurvin Reynisson til tveggja ára, út tímabilið 2024. Báðir koma þeir til félagsins frá Gróttu.

Óliver er 23 ára miðjumaður sem spilað hefur með Gróttu frá tímabilinu 2018 en þar áður var hann á mála hjá KR þar sem hann er uppalinn. Óliver á að baki 136 KSÍ leiki og hefur skorað í þeim 27 mörk. Auk þess á hann átta leiki með yngri landsliðum Íslands.

Sigurvin sem er 27 ára varnarsinnaður miðjumaður er uppalinn hjá Fylki en hefur leikið með Gróttu síðan 2016. Á síðasta tímabili var Sigurvin frá vegna anna en mun snúa aftur á völlinn með Fjölni á komandi tímabili. Hann á að baki 177 leiki í meistaraflokki, þar af 16 í efstu deild.

Það er mikið fagnaðarefni fyrir félagið að semja við þessa öflugu leikmenn sem eru frábær viðbót við hópinn. Knattspyrnudeild Fjölnis hlakkar til komandi tímabila saman og væntir mikils af samstarfinu.

#FélagiðOkkar býður þá hjartanlega velkomna í Voginn.


Icepharma veitir BUR styrk í minningu Hálfdánar Daðasonar

Í síðustu viku veitti Icepharma Barna- og unglingaráði knattspyrnudeildar Fjölnis veglegan styrk í minningu Hálfdánar Daðasonar sem starfað hafði á heilsu- og íþróttasviði fyrirtækisins.

Styrkurinn er veittur til að heiðra minningu Hálfdánar sem var sannur Fjölnismaður og virkur í foreldrafélögum knattspyrnudeildarinnar.

BUR hefur stofnað styrktarsjóð sem ætlað er að stuðla að fræðslu um geðheilbrigði og efla forvarnarstarf hjá yngri flokkum knattspyrnudeildar félagsins.

Við sendum kærar þakkir til Icepharma

Barna- og unglingaráð knattspyrnudeildar Fjölnis


FJÖLNIR X PUMA

Við kynnum stolt FJÖLNIR X PUMA!

Allar deildir í eitt merki
Vefverslunin hefur opnað og nú er hægt að versla PUMA fatnað
Hér er linkur á vefverslunina: https://teamsport.is/pages/fjolnir

Glöggir lesendur sjá líka að við höfum uppfært merkið okkar á fatnaðinum. Liturinn á merkinu er alltaf sá sami og liturinn á PUMA merkinu.

Ungmennafélagið Fjölnir er afar stolt af því að félagið í heild sinni hefur samið við Margt Smátt og mun keppa í Puma næstu 4 árin.

Við erum svo spennt að sýna glæsilega nýja PUMA fatnaðinn okkar og flottu Fjölnis-módelin sem við fengum til liðs við okkur!

#FélagiðOkkar

Myndir: Gunnar Jónatansson


Tækni/afreksæfingar með Luka Kostic!

Í september hefjast afreksæfingar fyrir iðkendur í 4. og 5. fl kvenna og karla undir handleiðslu Luka Kostic og þjálfurum félagsins.

Æfingar verða 1x á viku og fyrsta námskeið stendur yfir 17.september -17. desember.

Tækni er grundvallaratriði fótboltans og er mjög mikilvægt að læra tækni snemma á knattspyrnuferlinum. Ástæðan er sú að ungir iðkendur eru mjög móttækilegir og hafa meiri möguleika á að ná valdi á öllum einstaklings-tækniatriðum fótboltans. Samkvæmt kenningum Arséne Wenger þá hafa leikmenn eftir 14 ára aldur minni möguleika á að bæta sig í öllum tækniatriðum.

Luka hefur kennt einstaklingstækni í meira en 20 ár og mjög margir landsliðsmenn, sem hafa náð besta árangri í sögu íslenskar knattspyrnu, hafa farið í gegnum einstaklingsprógram Luka.

 

Kostnaður er 19.500 kr. fyrir haustönn, skiptist upp í 3 fyrirlestra og 13 æfingar. Skráning fer fram HÉR 

Hér fyrir neðan má sjá ummæli fyrrverandi landsliðsþjálfara, Heimi Hallgrímssonar og fyrirliða íslenska landsliðsins, Birki Bjarnasyni.

Heimir Hallgrímson:

Ég hitti Luka fyrst á einstaklings tækninámskeiði og síðan þá hef ég fengið tækifæri að kynnast prógrammi hans enn betur. Sem landsliðsþjálfari hef ég sótt mörg UEFA & FIFA ráðstefnur og get sagt að einstaklingstækniáætlun Luka er í heimsklassa. Tækniatriðin sem eru í prógrammi Luka eru atriði sem sérhver ungur knattspyrnumaður þarf að læra, en ég er líka viss um að atvinnuleikmönnum myndi finnast það gagnlegt og upplýsandi og það gæti örugglega bætt við færni þeirra.

Birkir Bjarnason

Luka var þjálfari minn fyrir U17 & U21 og hafði mikil áhrif snemma á ferli mínum. Bæði tæknilega, taktískt og andlega herti hann mig og marga aðra í íslenska landsliðinu í dag varðandi grunnatriði í fótboltanum sem við notum enn í dag.

Ég mæli eindregið með einstaklings/tækniþjálfun Luka fyrir alla, þar sem það hefur hjálpað mér að bæta mig og verða sá leikmaður sem ég er í dag.


Björt framtíð í Fjölni og tennis á Íslandi. Fyrsti alþjóðlegi sigur Íslendings í ungmennaflokk í Tennis!

Saule Zukauskaite úr Ungmennafélaginu Fjölni bar sigur úr bítum á Ten-Pro Global Tennis Junior móti í Tbilisi í Georgíu, sterku alþjóðlegu móti sem haldið var vikuna 28. ágúst – 4. september. Árangur Saule er eftirtektarverður þar sem hún keppti í flokki U16 ára en hún er nýlega orðin 14 ára.

Ten-Pro Global Junior Tour mótið hefur verið haldið árlega um allan heim síðan árið 2015. Óvenju hlýtt veður ögraði ungu tennisleikurunum  en hitinn var frá 33°c upp í 37°c á meðan á mótinu stóð. Tennisstjörnur framtíðarinnar, stúlkur og strákar frá 10 til 16 ára aldri, komu saman alls staðar af úr heiminum og kepptu í 7 aldursflokkum.

Þetta var í annað skipti sem Saule tók þátt í Ten-Pro móti eftir frumraun hennar á Global Junior Tour í Hollandi sem fór fram fyrir þremur mánuðum. Saule, sem æfir með Fjölni, eyddi sumrinu sínu í auka tennisæfingar, til að undirbúa sig betur fyrir mótin í ágúst, undir faglegri handleiðslu hjá tennisþjálfurum félagsins Carolu Frank , Alönu Elínu Steinarsdóttir og Lamar Bartley frá Bretlandi.

Saule meiddist á vinstri úlnlið á International Children Games 2022 í Coventry sem fór fram 11.-16. ágúst. Henni tókst þó að koma sér aftur í keppnisform á þessum tveimur vikum fyrir mótið í Georgíu þökk sé þjálfarateyminu og Birni Björnssyni sjúkraþjálfara.

Saule lék 8 leiki í Tbilisy, vann 12 sett af 19 (63,1%) og 99 leiki af 171 (57,9%). Saule kláraði þrjá leiki af 3 settum, sá lengsti stóð yfir í tæpar 3 klukkustundir.

Innilega til hamingju Saule fyrir þennan frábæra árangur! Áfram Fjölnir!

 

 

Hér er hægt að nálgast nánari upplýsingar um mótið:

https://www.tournamentsoftware.com/sport/tournament/draw?id=5FF7D99E-8F92-4C89-9B6D-9A82FEF2C781&draw=119

https://www.tournamentsoftware.com/sport/tournament/draw?id=5FF7D99E-8F92-4C89-9B6D-9A82FEF2C781&draw=120