Skautamót á Akureyri

Flottur hópur Fjölnisstúlkna hélt norður á Akureyri um helgina til að keppa á Haustmóti ÍSS og Frostmótinu. Langt er síðan síðasta mót var haldið þar sem öll mót féllu niður á vormánuðum vegna Covid. Stúlkurnar mættu því spenntar til Akureyrar.

Frostmót
Sex Fjölnisstúlkur tóku þátt í 4 keppnisflokkum á Frostmótinu sem haldið var á laugardeginum. Perla Gabríela Ægisdóttir keppti í 8 ára og yngri, Arna Dís Gísladóttir, Selma Kristín S. Blandon og Una Lind Otterstedt í 10 ára og yngri, Líva Lapa í 12 ára og yngri, og Kayla Amy Eleanor Harðardóttir í hóp 14 ára og yngri. Ekki voru veitt verðlaun fyrir 8 og 10 ára og yngri. Stelpunum gekk mjög vel og voru ánægðar með sitt framlag eftir daginn. Kayla skautaði gott prógram og sigraði í flokknum 14 ára og yngri.

Haustmót ÍSS
Á Haustmóti ÍSS voru 9 Fjölnisstúlkur í 6 keppnisflokkum. Allar voru þær að skipta um keppnisflokk eða koma nýjar inn á ÍSS mót. Á laugardeginum hófst keppni í Basic Novice sem var stærsti flokkur mótsins. Þar keppti ein Fjölnisstúlka, Elva Ísey Hlynsdóttir. Hún skautaði prógramið sitt af nokkru öryggi, fékk 24,18 í einkun og hreppti hún 4. sætið aðeins 0,42 stigum á eftir næsta keppanda. Því næst hófst keppni í Advanced Novice og Junior þar sem keppendur skautuðu stutta prógramið sitt. Tanja Rut Guðmundsdóttir í Advanced Novice var önnur á ísinn, skautaði fínt prógram og fékk 22,12 stig og var í 2. sæti eftir fyrri daginn. Júlía Sylvía Gunnarsdóttir og Lena Rut Ásgeirsdóttir kepptu síðan í flokki Junior. Júlía Sylvía fékk 35,51 stig og var í 3. sæti eftir fyrri daginn en Lena Rut fékk 24,00 stig og var í 5. sæti.

Á sunnudeginum hófst keppni í Chicks þar sem Ermenga Sunna Víkingsdóttir skautaði vel í frumraun sinni á ÍSS móti. Þær Arína Ásta Ingibjargardóttir og Elín Katla Sveinbjörnsdóttir kepptu síðan í Cubs. Ekki voru veitt verðlaun fyrir keppendur í Chicks og Cubs en allir keppendur fengu þátttökuviðurkenningar og voru þær mjög ánægðar með daginn.

Því næst var keppt í flokki Intermediate Novice og þar kepptu Sandra Hlín Björnsdóttir og Andrea Marín Einarsdóttir. Sandra Hlín fór fyrst á ísinn og nældi hún sér í 22,63 stig og hafnaði í 2. sæti. Andreu Marín gekk nokkuð vel með sitt prógram, fékk 17,02 stig og lenti í 4. sæti.

Að lokum var keppt í frjálsa prógraminu í Advanced Novice og Junior. Tanja Rut fékk 36,81 stig fyrir frjálsa prógramið og var samanlagt með 58,93 stig og endaði í 2. sæti í Advanced Novice. Lena Rut fór fyrst á ísinn í flokki Junior, skautaði ágætis prógram sem hún fékk 47,04 stig fyrir, var samanlagt með 71,04 stig og var í 5. sæti. Júlía Sylvía reyndi í fyrsta skipti á móti við þrefalt Salchow sem henni tókst því miður ekki að lenda í þetta sinn, en skautaði svo fínt frjálst prógram sem hún fékk 68,82 stig fyrir, var samanlagt með 104,33 stig og var í 3. sæti í flokki Junior.

Eftir fínt gengi stúlknanna er Fjölnir í 2. sæti í Bikarmótaröðinni eftir fyrsta mót vetrarins.


Hokkí markaður fimmtudaginn 1. október

Við ætlum að hittast í Íssalnum fimmtudaginn 1. október milli 18:30 og 19:30 með gamla íshokkídótið sem við erum hætt að nota og koma því í pening eða bítta því fyrir eitthvað sem passar betur.

Þetta er markaður sem er opinn öllum sem eiga eða langar að kaupa íshokkídót.

Þjálfarar verða á svæðinu og aðstoða fólk við að finna sanngjarnann verðmiða.

Endilega takið til í skápum og geymslum og komið með allt sem þið finnið.
Einnig bendum við á að þjálfarar og stjórn taka alltaf við frjálsum framlögum á notuðu íshokkídóti ef fólk vill styrkja deildina í því formi.


Litríkur og spennandi fyrsti leikur Fjölnis kvenna

26.9 2020

Fyrsti leikur nýskipaðs liðs Bjarnarins hjá meistaraflokks kvenna í Fjölni fór fram í gær þegar þær mættu SA í Egilshöll.

Bæði lið mættu ákveðin til leiks og úr varð spennandi leikur sem hélt áhorfendum á tánum.

SA skoraði fyrsta mark leiksins þegar aðeins 1 mín og 24 sek voru búnar af leiknum. Mikil barátta var inn á svellinu en fyrsti leikhluti endaði  0-2 fyrir SA þar sem annað mark þeirra var skorað þegar 14 min og 29 sek voru búnar af leiknum.

Stelpurnar stilltu strengi sína í fyrsta leikhléi og mættu ákveðnar inn í annann leikhluta. SA náði þó að skora fyrsta mark þess leikhluta þegar 21 min og 16 sek voru búnar af leiknum.

Bjarnarstelpurnar skoruðu þó næstu tvö mörk .

Fyrra markið var skorað eftir 32 min og 30 sek, markið skoraði leikmaður nr 10, Steinunn Sigurgeirsdóttir eftir stoðsendingu frá leikmanni nr 12 Hörpu Kjartansdóttur.  

Seinna markið kom eftir 34 min og 57 sek, markið skoraði leikmaður nr 7 Sigrún Árnadóttir eftir stoðsendingu frá leikmanni nr 13 Laura Murphy.

Staðan því orðin 2-3 fyrir SA eftir æsispennandi leikhluta.

Ljóst var að í þriðja leikhluta gæti allt gerst.

Liðin tvö mættu í síðasta leikhluta og augljóst var að bæði lið ætluðu að gefa allt í þennann leik.

Fyrstu tvö mörk leikhlutans skoruðu SA, fyrra eftir 41 min og 03 sek og seinna eftir 47 min og 54 sek.

Staðan því orðin 5-2 SA í vil.

Bjarnarstelpurnar héldu baráttu sinni áfram og skoruðu þriðja mark sitt eftir 55 min og 29 sek, markið skoraði leikmaður nr 99 Maríana Birgisdóttir eftir stoðsendingu frá leikmanni nr 10 Steinunni Sigurgeirsdóttur.

Að leikslokum var staðan Björninn 3 – SA 5.

Leikurinn var litríkur og skemmtilegur og fengu áhorfendur að sjá frábæra takta inn á svellinu.

Ljóst er að framundan er spennandi leiktíð í Hertz deild kvenna þar sem gaman verður að fylgjast með þessu nýskipaða Bjarnarliði frá Fjölni.

 

hægt er að horfa á leikinn hér:
https://www.youtube.com/watch?v=K7sFNR2SRLk


Nýr yfirþjálfari keppnishópa

Í byrjun ágúst mun Lorelei Murphy taka við stöðu yfirþjálfara keppnisflokkanna okkar. Lorelei kemur frá Kanada. Hún hefur langa og víðtæka reynslu sem þjálfari og hefur þjálfað skautara á öllum aldri og öllum getustigum. Hún hefur þjálfað skautara í Kanada, Svíþjóð, Danmörku, Nýja Sjálandi, Írlandi, Hong Kong og Singapore. Lorelei er nokkrum iðkendum okkar kunn en hún hefur þjálfað hjá listhlaupadeildinni áður, bæði var hún hjá okkur veturinn 2009/2010 en einnig hefur hún komið hingað sem gestaþjálfari, síðast vorið 2018. Við bjóðum Lorelei velkomna til starfa hjá okkur.


Frábær árangur skautastúlkna Fjölnis á Reykjavíkurleikunum

Reykjavíkurleikarnir hófust á föstudaginn en þá kepptu Fjölnisstúlkur í flokkum Chicks, Cubs, Intermediate Novice og Advanced Novice. Þetta er eina mót ársins hér á landi þar sem þær keppa við iðkendur frá öðrum löndum og er þetta mjög góð reynsla fyrir þær 

Ungu stúlkurnar okkar í Chicks og Cubs hófu mótið og stóðu sig mjög vel. Sumar eru farnir að reyna við tvöföld stökk og eru að bæta erfiðleikastigum á pírúettana sína. Það hafa verið stöðugar framfarir hjá þessum ungu stúlkum í vetur. 

Rakel, Tanja og Lena kepptu allar í Intermediate Novice. Tönju hefur gengið vel í allan vetur en á þessu móti voru smá erfiðleikar með tvöföldu stökkin og endaði hún í 6. sæti á mótinu. Rakel bætti sitt persónulega stigamet og var í 5. sæti. Lena var með 26.87 stig sem skilaði henni 3. sæti í flokknum. Aldeilis frábær árangur hjá þeim stelpum. 

Júlía Sylvía var í 8. sæti eftir stutta prógramm á föstudeginum. Á laugardeginum skautaði hún mjög vel og bætti persónulegt met í langa prógramminu og endaði í 6. sæti í flokknum Advanced Novice. 

Á laugardeginum kepptu Junior stelpur svo í stutta prógramminu. Hildur var fyrst af Fjölnisstelpunum, skautaði vel og bætti sitt persónulega stigamet í stutta prógramminu. Herdís var næst, lenti öllum stökkunum og var mjög nálægt sínum besta árangri í vetur. Helga átti líka fínan dag og lenti hún flottri stökksamsetningu strax í byrjun prógrammsins. Þær kepptu síðan í frjálsa prógramminu á sunnudeginum. Hildur lenti í smá erfiðleikum með nokkur stökk í frjálsa prógramminu en samanlögð stig henni þau næsthæstu í vetur. Helga átti annan fínan dag og hóf prógrammið sitt á tvöföldum axel og flottri tvöfaldri stökksamsetningu. Herdís var síðust þeirra og átti hún frábæran dag þar sem hún bætti persónulegt stigamet í frjálsu prógrammi og samanlögð stig hennar voru 95.79. Með þessum árangri náði hún viðmiðum afrekshóps og keppir því á Norðurlandamótinu eftir 2 vikur. Til hamingju með frábæran árangur á Reykjavíkurleikunum 2020!

 

 


Nýr yfirþjálfari Skautaskólans

Listhlaupadeildin hefur ráðið Sólbrúnu Ernu Víkingsdóttur sem yfirþjálfara Skautaskólans. Sólbrún hefur æft skauta hjá deildinni í 15 ár, tekið þátt á mótum og æfingabúðum hér heima og erlendis. Hún var íþróttakona deildarinnar árið 2018. Sólbrún hefur þjálfararéttindi 1 og 1A í sérgreinahluta. Hún hefur þjálfað í Skautaskólanum og yngri iðkendum í framhaldshópum deildarinnar í nokkur ár samhliða háskólanámi og æfingum.

 


Íþróttakona listhlaupadeildar Fjölnis árið 2019

Íþróttakona listhlaupadeildar Fjölnis árið 2019 er Júlía Sylvía Gunnarsdóttir. Hún hefur tekið virkan þátt á mótum á árinu. Júlía Sylvía keppti á Reykjavíkurleikunum í janúar þar sem hún lenti í 6. sæti með 64,53 stig. Hún fór á sitt fyrsta Norðurlandamót í febrúar en þar hafnaði hún í 18. sæti með 66,50 stig. Nú í haust tók hún þátt á Haustmóti ÍSS, Vetrarmóti ÍSS og Íslandsmótinu. Hún hafnaði í 3. sæti á bæði Haustmótinu og Vetrarmótinu en á því síðara fékk hún 70,13 stig. Hún hefur því sýnt stöðugar framfarir á árinu.  

Júlía Sylvía byrjaði að æfa skauta í Skautaskóla skautafélags Bjarnarins þegar hún var 6 ára. Hún var fljótlega færð yfir í framhaldshópana. Árið 2016 flutti hún með foreldrum sínum til Kanada og þar komst hún að í góðum skautaskóla þar sem Annie Barabé var yfirþjálfari. Júlía Sylvía flutti aftur til Íslands árið 2018 og byrjaði að æfa hjá Fjölni undir stjórn Gennady Kaskov og nú Svetlönu Akhmerovu.  

Þegar hún var yngri stundaði hún fleiri áhugamál, æfði sund, leiklist, ballet og Tai Kwon Do en á síðustu árum hefur sífellt meiri tími farið í skautaiðkunina sem hún stundar af kappi. Önnur áhugamál hennar eru tónlist og Manga sögur og þættir.  

Júlía Sylvía er metnaðargjarn iðkandi, leggur hart að sér og hefur sýnt framúrskarandi ástundun. Hún er yngri iðkendum góð fyrirmynd og deildinni til mikilla sóma. Við óskum henni innilega til hamingju með þennan verðskuldaða titil. 


Íslandsmót ÍSS á listskautum

Íslandsmótið var haldið í Laugardal helgina 29.nóvember-1.desember. Fjölnir átti 13 af 39 keppendum á þessu móti. Það er ekki hægt að segja annað en að stelpurnar okkar hafi lagt mikið í undirbúning fyrir mótið því margar þeirra voru að bæta sín persónulegu stigamet bæði í yngri og eldri flokkunum. Í flokki Intermediate Novice voru Fjölnisstúlkurnar Lena Rut Ásgeirsdóttir í fyrsta sæti og Tanja Rut Guðmundsdóttir í öðru sæti.

Aldís Kara Bergsveinsdóttir úr SA var Íslandsmeistari í flokki Junior og Júlía Rós Viðarsdóttir  úr SA í flokki Advanced Novice. Úr Fjölni var Herdís Birna Hjaltalín í 3. sæti í flokki Junior.

 


Vetrarmót ÍSS

Helgina 1. - 3. nóvember var Vetrarmótið haldið á skautasvellinu í Egilshöllinni. Alls tóku 43 keppendur í 7 keppnisflokkum á mótinu, þar af átti Fjölnir 15 keppendur í 5 keppnisflokkum.

Keppendur stóðu sig vel en hæst bar að Aldís Kara Bergsdóttir bætti sitt eigið Íslandsmet í flokki Junior. Eftir Vetrarmótið er Fjölnir í öðru sæti í Bikarmótaröð ÍSS með 50 stig en SA er með 58 stig og SR með 48 stig.

Veittar voru þátttökuviðurkenningar fyrir keppnisflokka Chicks og Cubs. Úrslit í öðrum flokkum voru: 

Basic Novice: 

  1. Berglind Inga Benediktsdóttir - SA 25.27 stig
  2. Sædís Heba Guðmundsdóttir - SA 24.11 stig 
  3. Sunna María Yngvadóttir - SR 23.74 stig 

Intermediate Novice: 

  1. Lena Rut Ásgeirsdóttir - Fjölnir 26.64 stig 
  2. Tanja Rut Guðmundsdóttir - Fjölnir 24.91 stig 
  3. Rakel Sara Kristinsdóttir - Fjölnir 21.28 stig 

Intermediate Ladies: 

  1. Þórunn Lovísa Löve - SR 33.88 stig 
  2. Edda Steinþórsdóttir - SR 25.70 stig 
  3. Anna Björk Benjamínsdóttir - SR 23.97 stig 

Advanced Novice: 

  1. Júlía Rós Viðarsdó2tir - SA 79.18 stig 
  2. Rebekka Rós Ómarsdóttir - SR 74.10 stig 
  3. Júlía Sylvía Gunnarsdóttir - Fjölnir 70.13 stig 

Junior: 

  1. Aldís Kara Bergsdóttir - SA 127.69 stig 
  2. Marta María Jóhannsdóttir - SA 109.56 stig 
  3. Viktoría Lind Björnsdóttir - SR 96.52 stig 

Úrslit Kristalsmóts 2019

Síðasta laugardag var Kristalsmótið haldið á skautasvellinu í Egilshöllinni. Alls tóku 52 keppendur þátt í 12 keppnisflokkum á mótinu. Veitt voru þátttökuviðurkenningar fyrir hópa 8 og 10 ára og yngri. Úrslit í öðrum flokkum voru: 

12 ára og yngri: 

  1. Ágústa Ólafsdóttir - SR 
  2. Íris María Ragnarsdóttir - Fjölni 
  3. Arna Sigríður Gunnlaugsdóttir - SA 

 

15 ára og yngri: 

  1. Thelma Rós Gísladóttir - SR 
  2. Bryndís Bjarkadóttir - SR 
  3. Emilía Dögg Stefánsdóttir Steed - SR 

 

17 ára og yngri: 

  1. Vigdís Björg Einarsdóttir - Fjölni 
  2. Ylfa Rán Hjaltadóttir - Fjölni 

 

Level 1 11 ára og yngri: 

  1. Hulda Björk Geirdal Helgadóttir - Öspin 

 

Level 1 16-21 árs: 

  1. Gunnhildur Brynja Bergsdóttir - Öspin 
  2. Anika Rós Árnadóttir - Öspin 

 

Level 2 16-21 árs: 

  1. Nína Margrét Ingimarsdóttir - Öspin
  2. Gabríela Kamí Árnadóttir - Öspin 

 

Level 2 12-15 ára: 

  1. Sóldís Sara Haraldsdóttir - Öspin 

 

Level 2 22 ára og eldri: 

  1. Þórdís Erlingsdóttir - Öspin 

 

Par Level 1: 

  1. Gabríella Kami Árnadóttir og Nína Margrét Ingimarsdóttir - Öspin 

 

2