Tilkynning um barnamótið sem á að fara fram 2.-4. október.

Tilkynning frá Skautafélgai Akureyrar um barnamótið sem á að vera helgina 2.-4. október.
"Í kvöld fundaði hokkístjórn SA, stjórn foreldrafélags SA og sóttvarnarnefnd félagsins. Niðurstaða fundarins var sú að þau sjá sér ekki fært að uppfylla allar sóttvarnarreglur sem þarf á svona stóru móti. Búið var að útbúa leikjaplan og við frekari skoðun með tilliti til ramma, (uppsetningar og niðurtöku) starfsfólks, (sótthreinsun milli leikja og eftirlit meðsóttvörnum) aðgengi liða að keppnissvæði og fjölda þeirra sem koma að mótinu, (keppendur og fylgdarlið) þá treysta þau sér ekki í þetta mót eins og staðan er í dag. Við erum að skoða framhaldið ásamt stjórnum hinna félagana og látum vita þegar nýjar upplýsingar berast."
Til athugunar er þó að spilað verði U12 mót fyrir norðan. En að svo stöddu mun U8 og U10 ekki fara norður til keppni um helgina. 
Þessi grein verðu uppfærð jafnt og fréttir berast!
Kveðja, stjórn íshokkídeildar Fjölnis.

Skautamót á Akureyri

Flottur hópur Fjölnisstúlkna hélt norður á Akureyri um helgina til að keppa á Haustmóti ÍSS og Frostmótinu. Langt er síðan síðasta mót var haldið þar sem öll mót féllu niður á vormánuðum vegna Covid. Stúlkurnar mættu því spenntar til Akureyrar.

Frostmót
Sex Fjölnisstúlkur tóku þátt í 4 keppnisflokkum á Frostmótinu sem haldið var á laugardeginum. Perla Gabríela Ægisdóttir keppti í 8 ára og yngri, Arna Dís Gísladóttir, Selma Kristín S. Blandon og Una Lind Otterstedt í 10 ára og yngri, Líva Lapa í 12 ára og yngri, og Kayla Amy Eleanor Harðardóttir í hóp 14 ára og yngri. Ekki voru veitt verðlaun fyrir 8 og 10 ára og yngri. Stelpunum gekk mjög vel og voru ánægðar með sitt framlag eftir daginn. Kayla skautaði gott prógram og sigraði í flokknum 14 ára og yngri.

Haustmót ÍSS
Á Haustmóti ÍSS voru 9 Fjölnisstúlkur í 6 keppnisflokkum. Allar voru þær að skipta um keppnisflokk eða koma nýjar inn á ÍSS mót. Á laugardeginum hófst keppni í Basic Novice sem var stærsti flokkur mótsins. Þar keppti ein Fjölnisstúlka, Elva Ísey Hlynsdóttir. Hún skautaði prógramið sitt af nokkru öryggi, fékk 24,18 í einkun og hreppti hún 4. sætið aðeins 0,42 stigum á eftir næsta keppanda. Því næst hófst keppni í Advanced Novice og Junior þar sem keppendur skautuðu stutta prógramið sitt. Tanja Rut Guðmundsdóttir í Advanced Novice var önnur á ísinn, skautaði fínt prógram og fékk 22,12 stig og var í 2. sæti eftir fyrri daginn. Júlía Sylvía Gunnarsdóttir og Lena Rut Ásgeirsdóttir kepptu síðan í flokki Junior. Júlía Sylvía fékk 35,51 stig og var í 3. sæti eftir fyrri daginn en Lena Rut fékk 24,00 stig og var í 5. sæti.

Á sunnudeginum hófst keppni í Chicks þar sem Ermenga Sunna Víkingsdóttir skautaði vel í frumraun sinni á ÍSS móti. Þær Arína Ásta Ingibjargardóttir og Elín Katla Sveinbjörnsdóttir kepptu síðan í Cubs. Ekki voru veitt verðlaun fyrir keppendur í Chicks og Cubs en allir keppendur fengu þátttökuviðurkenningar og voru þær mjög ánægðar með daginn.

Því næst var keppt í flokki Intermediate Novice og þar kepptu Sandra Hlín Björnsdóttir og Andrea Marín Einarsdóttir. Sandra Hlín fór fyrst á ísinn og nældi hún sér í 22,63 stig og hafnaði í 2. sæti. Andreu Marín gekk nokkuð vel með sitt prógram, fékk 17,02 stig og lenti í 4. sæti.

Að lokum var keppt í frjálsa prógraminu í Advanced Novice og Junior. Tanja Rut fékk 36,81 stig fyrir frjálsa prógramið og var samanlagt með 58,93 stig og endaði í 2. sæti í Advanced Novice. Lena Rut fór fyrst á ísinn í flokki Junior, skautaði ágætis prógram sem hún fékk 47,04 stig fyrir, var samanlagt með 71,04 stig og var í 5. sæti. Júlía Sylvía reyndi í fyrsta skipti á móti við þrefalt Salchow sem henni tókst því miður ekki að lenda í þetta sinn, en skautaði svo fínt frjálst prógram sem hún fékk 68,82 stig fyrir, var samanlagt með 104,33 stig og var í 3. sæti í flokki Junior.

Eftir fínt gengi stúlknanna er Fjölnir í 2. sæti í Bikarmótaröðinni eftir fyrsta mót vetrarins.