Upphafið


Tæplega 100 manns komu saman 11. febrúar 1988 og stofnuðu Ungmennafélag Grafarvogs.  Þannig hefst saga þessa mikla félags sem rituð er hér.

Það er með ólíkindum hvað fólk hefur fórnað í þágu Fjölnis í 26 ára sögu félagsins.  Frumherjarnir lögðu nótt við dag, lánuðu heimili sín, veittu félaginu persónulegar fjárhagslegar ábyrgðir sem þeir svo jafnvel greiddu úr eigin vasa í einhverjum tilvikum.  Fjölnismenn eiga þessum frumherjum og öllum sjálfboðaliðum félagsins mikið að þakka því fyrir þeirra tilstilli er félagið í dag stærsta íþrótta og ungmennfélag landsins sem á vonandi eftir að dafna næstu aldirnar með sama áframhaldi.

Á vormánuðum 2007 skipaði aðalstjórn Fjölnis afmælisnefnd sem fékk það hlutverk að safna saman heimildum um sögu félagsins og koma saman í rit, ásamt því að skipuleggja atburði afmælisársins og hátíðiar.  Þetta má lesa í afmælisriti sem gefið var út árið 2008 og er þessi úrdráttur tekin úr þeirri bók sem er seld á skrifstofu félagsins.

Fyrstu skrefin


Á árunum eftir 1984 reis ný íbúðabyggð í Grafarvogi.  Fljótlega kom í ljós að í þeim hópi fólks er fyrst settist þar að var mikill hguur um að standa vel að félagslegum málefnum.  Á stjórnarfundi á fyrsta starfsári skátafélagsins Vogabúa tók Stefán Már Guðmundsson upp þá tillögu Pálma Gíslasonar, þáverandi formanns Ungmennafélags Íslands, að UMFÍ hefði áhuga á að koma að stofnun Ungmennafélags í Grafarvogi.  Ljóst var að mikill áhugi var meðal barna og unglinga innan hverfisins fyrir stofnun íþróttafélags, en Vogabúar höfðu staðið fyrir knattspyrnumóti milli bekkja í Foldaskóla í september 1987.  Nokkrir drengir á aldrinum 12-13 ára höfðu sumarið það ár gengið á fund Olíuverslunar Íslands (OLÍS) og fengið styrk til kaupa á búningum til að nota í slíkum keppnum.  Var sá búningur vínrauður með gulum ermum, en ekki er mikið vitað um tildrög þessa hóps.

Það var síðan ákveðið á stjórnarfundi skátafélagsins að tilnefna þá Guðmund Kristinsson, þáverandi aðstoðarfélagsforingja, og Stefán Má Guðmundsson, deildarforingja, til að undirbúa stofnun íþróttafélags í Grafarvogi.

Þeir Guðmundur og Stefán boðuðu áhugasama aðila á fund til þessa og voru félagar úr Ungmennafélaginu Vesturhlíð og Ungmennafélagi Íslands undirbúningshópnum innan handar, þá sérstaklega Egill Heiðar, formaður Vesturhlíðar.  Hópurinn hittist regluulega og var fundartíminn á sunnudagsmorgnum.  Ákveðið var að leggja könnun fyrir skólabörnin í Foldaskóla veturinn 1987-1988 og kanna áhuga á íþróttaiðkun.  Sú könnun leiddi í  ljós mikinn áhuga á slíku starfi og þá sérstaklega á knattspyrnu annars vegar og frjálsum íþróttum hins vegar.

Þann 11. febrúar 1988 var boðað til stofnfundar á íþróttafélagi í Grafarvogi, en fundurinn var haldinn í Foldaskóla.  Um eitt hundrað manns mættu á fundinn þar sem kosið var í fyrstu stjórn félgsins sem og kosið um nafn þess, en nánar er fjallað um nafn félagsins.  Á stofnfundinn barst vegleg peningagjöf frá Ungmennafélagi Íslands.

Fyrsti formaður félagsins var kjörinn Guðmundur G. Kristinsson og gegndi hann því starfi í fimm ár.  Aðrir sem fengu kosningu í fyrstu stjórn hins nýstofnaða íþróttafélags voru Þorsteinn Þorsteinsson, Jón Eiríksson, Sigurður Þorsteinsson, Kristinn Sigurðsson, Þórhallur Þórhallsson og Jóhannes Bárðarson.  Fyrstu endurskoðendur félagsins voru þeir Eiríkur Pétursson og Sigfús Bjarnason.

Nafn félagsins


Á stofnfundi félagsins var fundarmönnum boðið að koma með tillögur um nafn fyrir hið nýja félag.  Flest atkvæði fékk tillagan Ungmennafélag Grafarvogs og bar félagið það nafn fyrst um sinn.  Ein tillaga barst þó með nafninu Fjölnir.

Svo vildi til að ung stúlka átti þá hugmynd og stakk þessu nafni í tillögukassann, en á þeim tíma var hún yfir sig ástfangin af pilt sem bar einmitt nafnið Fjölnir.  Sigurður Þorsteinsson, sem sat í fyrstu stjórn ungmennafélagsins fyrir hönd UMFÍ, tók síðar upp umræðu um að breyta nafni félagsins og benti á þessa tillögu því til stuðnings.  Á 7. stjórnarfundi Ungmennafélags Grafarvogs sem var haldinn þann 24. apríl 1988 var ákveðið að breyta nafninu.  Stjórnarmenn voru sammála um að erfitt gæti verið að hvetja Ungmennafélag Grafarvogs í kappleikjum sem og að skammstöfun félagsins þá, UMFG, væri nú þegar í notkun en Ungmennafélag Grindavíkur notar hana.

Orðið Fjölnir á sér langa og ákaflega merkilega sögu í íslenskri tungu.  Til að byrja með þá er Fjölnir eitt nafna Óðins, en hann var æðstur ása.  Óðinn var hernaðar, skáldskapar- og dauðragoð.  Óðinn var faðir annarra goð auk þess að vera goð galdra, rúnastafa og algleymis.  Hann þótti einkar margræður og var ekki við eina fjölina feldur. Hann átti sér hásæti í Valhöll og var elstur ásanna.  Hann bar mörg önnur nöfn en Óðinn og Fjölnir, þeirra á meðal eru Alfaðir, Arnhöfði, Grímnir, Hárbarður, Gangráður, Gangleri, Vegtamur og Síðskeggur, en það síðastnefnda vísar til þess síða skegg sem hann átti að bera.  Sjá má teiknaða mynd af Óðni á reiðhjólahjálmum sem gefnir voru út fyrir nokkrum árum, en hvert íþróttafélag í Reykjavík fékk sinn hjálm með táknrænni mynd og merki félagsins.

Fjölnir var hins vegar líka sænskur þjóðsagnakonungur en frá honum er sagt í Ynglingasögu, sem þykir afar gömul.  Það sést m.a. á vísu sem tengist sögunni og Snorra Sturluson vitnar til og á að vera frá 9. öld e. Kr.  Fjölnir þessi var sonur Yngva-Freys og Gerðar og gat sér það helst til frægðar að halda mikla veislu eitt sinn, þar sem boðið var upp á mjöð úr tunnum.  Fjölnir drakk töluvert það kvöld og er ljóð höfðu slökkt verið í salnum og allir gengnir til náða, þurfti hann skyndilega að létta af sér.  Hann sá því miður lítið fram fyrir sig og datt ofan í eina mjaðartunnuna og drukknaði ofan í henni.

Einna þekktasta notkunina á orðinu Fjölni má þó rekja til sjálfstæðisbaráttu okkar Íslendinga.  Sigurður Þorsteinsson var einkar hrifinn af þessari tengingu við nafn hins nýja ungmennafélags og lagði áherslu á að tæki þetta nafn, en Fjölnir var íslenskt tímarit sem kom út í Kaupmannahöfn á árunum 1835-1847, alls 9 sinnum.  Stofnendur tímaritsins Fjölnis hafa verið nefndir Fjölnismenn, líkt og iðkendur og félagsmenn Fjölnis kalla sig í dag.  Nöfn stofnenda tímaritsins voru Brynjólfur Pétursson, Jónas Hallgrímsson, Konráð Gíslason og Tómas Sæmundsson, en á þeim tíma er þeir stofnuðu tímaritið Fjölni voru þeir allir við nám í Kaupmannahöfn.  Fjölnir boðaði rómantísku stefnuna í íslenskum bókmenntum, mörg helstu kvæði Jónasar Hallrímssonar birtust fyrst í Fjölni og ar það jafnframt vakningarrit í hreintungustefnu, þjóðfrelsis- og framfaramálum.

Merki félagsins


Í ágúst 1988 var ætlunin að senda 6. flokk karla í knattspyrnu á mót á Akranesi.  Reglan þar var sú, að hvert félag mætti með sinn fána í skrúðgöngu, en þar vandaðist málið fyrir Fjölnismönnum, því þá var ekki búið að ákveða hvernig merki félagsins ætti að vera.  Eitt af foreldrunum í hópnum kom með þá uppástungu að merkið yrði fremur einfalt, skjöldur með tveimur F-um sem vísa hvort á móti öðru og nafn félagsins efst.  Þetta var samþykkt án nokkurra andmæla og var Halldór Einarsson í Henson fenginn til að útbúa fánann.  Þess ber þó að geta að þetta mál kom upp daginn fyrir brottför og var Halldór til kl. 05 um nóttina að sauma fánann.

Í dag er þetta merki Fjölnis og bera allir iðkendur á vegum félagsins það vinstra megin á sínum búningi, rétt við hjartastað.  Erling Erlingsson á heiðurinn af núverandi útliti þess.