Fjölnir semur við Sæþór Elmar Kristjánsson

Sæþór Elmar Kristjánsson hefur skrifað undir samning við Fjölni um að leika með liðinu í 1. deild á komandi leiktíð.

Sæþór Elmar lék á síðasta tímibili með Hetti Egilsstöðum.  Sæþór er uppalinn í ÍR þar sem hann hefur leikið lengst af sínum ferli.

„Það er mikill heiður að fá Sæþór til okkar,“ sagði Borche Ilievski þjálfari Fjölnis. „Hann er reynslumikill leikmaður sem er þekktur fyrir frábæra skothæfileika sína og við erum spenntir að fá hann í okkar leikmannahóp.“

Fjölnir býður Sæþór kærlega velkominn í Grafarvoginn!

 


Meistaraflokkur kvenna í fótbolta - samantekt

Meistaraflokkur kvenna hóf úrslitakeppnina í 2. deild með leikjum gegn Augnabliki 10. ágúst og Sindra 17. ágúst.

Þrátt fyrir brotthvarf sjö leikmanna og þjálfarans sýndi liðið góðan metnað og hvatningu og byrjaði úrslitakeppnina með tveimur sigrum og heilum tíu mörkum.

Augnablik - Fjölnir 0:6

Stelpurnar okkar voru með fulla stjórn á leiknum og unnu þægilegan sigur.

Okkar ungi og efnilegi markvörður, Sara Sif Builinh Jónsdóttir (2006) lék sinn fyrsta opinbera leik fyrir Fjölni.

Mörk skoruð:

María Sól Magnúsdóttir skoraði 4 mörk

Ester Lilja Harðardóttir skoraði 1 mark

Kristín Gyða Davíðsdóttir skoraði 1 mark

 

Fjölnir - Sindri 4:2

Mjög opinn og aðlaðandi leikur með mörgum tækifærum fyrir framan bæði mörkin.

Fjölniskonur réðu boltanum en Sindrakonur voru hættulegar í skyndisóknum.

Verðskuldaður sigur fyrir okkur.

 

Í þessum leik léku tvær af okkar ungu og efnilegu leikmönnum sinn fyrsta leik fyrir Fjölni:

Sunna Gló Helgadóttir (2005)

Kristjana Rut Davíðsdóttir (2009)

Mörk skoruð:

María Sól Magnúsdóttir skoraði 2 mörk

Ester Lilja Harðardóttir  skoraði 1 mark

Hrafnhildur Árnadóttir skoraði 1 mark

 

Næsti leikur okkar í úrslitakeppninni er næstkomandi föstudag 23. ágúst frá kl. 20:00 gegn KH á N1-vellinum Hlíðarenda.


Arnþór Freyr og Gunnar komnir aftur heim!

Körfuknattleiksdeild Fjölnis hefur gert samninga við tvo uppaldna Fjölnismenn, Arnþór Freyr Guðmundsson (Addú) og Gunnar Ólafsson, sem munu leika með liðinu í 1. deild karla á komandi tímabili.  Báðir leikmenn skrifuðu undir samninga við félagið í dag.
Gunnar Ólafsson kemur til liðsins frá Fryshuset Basket í Svíþjóð þar sem hann hefur leikið síðustu tvö ár. Fyrir þá tíma lék Gunnar með Stjörnunni á tímabilinu 2019-2022, ásamt því að spila fyrir LEB Oro clun Oviedo CB á Spáni. Hann hefur einnig leikið tvö tímabil fyrir Keflavík, það fyrra 2013-2014 áður en hann hélt í bandaríska háskólaboltann þegar hann lék með St. Francis College í fjögur ár, og það síðara að námi loknu tímabilið 2019-2020.  Gunnar spilaði fyrir íslenska landsliðið á árunum 2017 til 2019.
Addú, sem einnig er uppalinn í Fjölni, lék með Stjörnunni frá árinu 2015 eftir að hafa leikið fyrir Tindastól sama ár.  Addú lék einnig á árum áður í EBA deildinni á Spáni þegar hann spilaði bæði með Albacete og Alcázar þar í landi áður en hann snéri aftur til Fjölnis tímabilið 2014-2015.
Báðir leikmenn eru vel stemmdir fyrir komandi tímabili. “Ég er virkilega ánægður að vera kominn heim í Grafarvoginn.  Mér líst vel á hópinn og er spenntur fyrir komandi tímabili og hlakka til að taka þátt í því verkefni að koma Fjölni upp í efstu deild, þá sérstaklega fyrir hann Matta heitinn,” sagði Addú.  Gunnar var því sammála og sagðist spenntur fyrir tímabilinu:  “Ég er mjög ánægður að vera kominn heim í uppeldisfélagið.”

Borche Ilievski þjálfari liðsins var að vonum ánægður með fréttir dagsins og sagði þá Addú og Gunnar styrkja liðið til muna. “Strákarnir eru frábær viðbót fyrir Fjölni. Addú er mikill leiðtogi innan sem utan vallar og munum við stóla á hann til að móta andrúmsloftið á vellinum og vera yngri og eldri leikmönnum innan handar.  Hann er einnig mikill "playmaker" og góður varnarmaður auk þess sem hann getur skotið vel utan af velli.  Gunnar er frábær varnarmaður og gríðarlega mikilvæg viðbót í liðið okkar því hann getur auk þess skotið vel að utan sem og keyrt á körfuna.  Hann hefur verið einn af betri varnarmönnum landsins í efstu deild og hæfni hans til að  verjast í mörgum stöðum og vinna úr ógnunum verður ómetanlegt fyrir okkur.”
Fjölnir býður þá Gunnar og Arnþór velkomna aftur í Grafarvoginn!

#FélagiðOkkar


Framkvæmdastjóri óskast

Ungmennafélagið Fjölnir, Grafarvogi auglýsir til umsóknar spennandi og krefjandi starf framkvæmdastjóra félagsins.

Fjölnir er fjölgreina íþróttafélag með 13 deildum og er félagið fjölmennasta íþróttafélag landsins.

Við leitum að aðila með framúrskarandi samskiptahæfni, leiðtogafærni og óbilandi áhuga á að byggja upp rótgróið félag með ungmennafélagsandann að leiðarljósi.

 

Helstu verkefni og ábyrgð: 

  • Yfirumsjón og ábyrgð á daglegum rekstri félagsins
  • Stýring fjármála, áætlanagerðar og kostnaðareftirlit
  • Launavinnsla
  • Tekjuöflun og markaðssetning félagsins
  • Framkvæmd framtíðarsýnar og stefnu félagsins í samvinnu við aðalstjórn
  • Mannauðsmál
  • Samskipti við deildarstjórnir félagsins
  • Samskipti við stjórnvöld, sveitarfélög, íþróttasambönd, sérsambönd, styrktaraðila og aðra hagsmunaaðila
  • Yfirumsjón með undirbúningi og framkvæmd verkefna

 

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Háskólamenntun og/eða reynsla sem nýtist í starfi
  • Framúrskarandi samskipta- og samstarfshæfni
  • Frumkvæði og leiðtogafærni
  • Þekking og reynsla á sviði fjármála æskileg
  • Reynsla í stjórnun og samningagerð kostur
  • Geta til að vinna undir álagi

 

Nánari upplýsingar veitir Jarþrúður Hanna Jóhannsdóttir, formaður félagsins í netfanginu formadur@fjolnir.is

Umsóknir berist í gegnum alfred.is. Óskað er eftir að feriskrá og kynningarbréf fylgi umsókn.

Farið verður með allar umsóknir sem trúnaðarmál.

Umsóknarfrestur er til 26. ágúst 2024.


Íslenskur stórmeistari til liðs við Íslandsmeistara Fjölnis

Grafarvogsbúinn og stórmeistarinn Bragi Þorfinnsson hefur gengið til liðs við Skákdeild Fjölnis og mun tefla með skáksveit Íslandsmeistaranna á komandi keppnisvetri.

Bragi býr ásamt fjölskyldu sinni í hjarta Grafarvogs og okkur Fjölnismönnum er mikill akkur í að fá frábæran liðsstyrk og góðan félaga.

Velkominn Bragi í Skáksveit Fjölnis, Íslandsmeistara 2024.


Sigurvegarar í 6. flokki kvenna á Símamótinu 2024

Símamótið var haldið núna um helgina, 11.-14. júlí. Mótið er fyrir 5., 6. og 7. flokk kvenna og í fyrsta skipti 2021 var Litla Símamótið haldið fyrir 8.flokk. Keppendur voru um 3.000 og því stærsta knattspyrnumót á landinu.
Fjölnisstelpur gerðu sér lítið fyrir og lentu í fyrsta sæti í 6. flokki! 🥳🏆
Við erum ótrúlega stolt af þeim og öllum okkar keppendum á mótinu. Framtíðin er svo sannarlega björt í kvennaboltanum ⚽️
Áfram stelpur! 🩷


Meistaramót Íslands 15-22 ára 

Helgina 21-23. júní fór fram Meistaramót Íslands 15-22 ára í frjálsum íþróttum.

Fjölnir sendi nítján keppendur á mótið, sem fram fór á Selfossi.

Fjölniskeppendur hömpuðu sextán Íslandsmeistratitlum, auk þess að fá sjö silfurverðlaun og níu bronsverðlaun. Þá ber einnig að nefna að um þrjátíu persónuleg met voru sett.

Fjölnir var stigahæsta liðið í flokkum 18-19 ára stúlkna og 20-22 ára stúlkna og í 3ja sæti í heildarstigakeppninni mótsins, sem er frábær árangur!

Íslandsmeistaratitli náðu:

🏅Christina Alba Marcus Hafliðadóttir – langstökk og þrístökk 16-17 ára

🏅Kjartan Óli Bjarnason – 400 m hlaup og 400 m grindahlaup 16-17 ára

🏅Pétur Óli Ágústsson – 200 m hlaup 16-17 ára

🏅Arna Rut Arnarsdóttir – kringlukast og sleggjukast 18-19 ára

🏅Boðhlaupssveit 4x100m hlaup stúlkna 18-19 ára

🏅Grétar Björn Unnsteinsson – stangarstökk 18-19 ára

🏅Guðný Lára Bjarnadóttir – 800 m og 1500 m hlaup 20-22 ára

🏅Katrín Tinna Pétursdóttir – stangarstökk 20-22 ára

🏅Kjartan Óli Ágústsson – 400 m hlaup, 400 m grindahlaup og 800 m hlaup 20-22 ára

🏅Boðhlaupssveit 4x400m blönduð sveit 20-22 ára

Við óskum öllum keppendum Fjölnis innilega til hamingju með árangurinn!

Myndirnar tók Hlín Guðmundsdóttir, verkefnastjóri miðlunar hjá FRÍ 📸


Vormót Fjölnis í frjálsum 2024

Vormót Fjölnis í frjálsum íþróttum var haldið þriðjudaginn 4. júní á frjálsíþróttavellinum í Mjódd.
Frjálsíþróttafólk á aldrinum 11-15 ára lét gula viðvörun ekki hafa áhrif á sig og mættu um 120 keppendur til leiks í 60m/100m hlaupi, langstökki, kúluvarpi og 600m/800m hlaupi.

Aðstæður voru ekki vænlegar til bætinga þetta árið en Fjölnisfólk kom með fern verðlaun heim í Grafarvoginn. Unnur Birna Unnsteinsdóttir (15 ára) náði í gullverðlaun fyrir kúluvarp, silfurverðlaun fyrir 800m hlaup og bronsverðlaun fyrir langstökk. Aron Magnússon (14 ára) nældi sér í bronsverðlaun fyrir langstökk.

Mót sem þetta krefst fjölda sjálfboðaliða til að allt gangi upp og tímasetningar standist. Þar stöndum við Fjölnisfólk einstaklega vel bæði hvað varðar þátttöku iðkenda og foreldra sem iðulega mæta og sinna verkefnum með jákvæðni og gleði að leiðarljósi.  Við getum verið stolt af okkar fólki.

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir af sjálfboðaliðum að sinna hinum ýmsu störfum á vellinum.  Áfram Fjölnir!


Gunnar Steinn Jónsson ráðinn þjálfari Olísdeildarliðs Fjölnis í handbolta!

Gunnar Steinn Jónsson snýr aftur heim - ráðinn þjálfari Olísdeildarliðs Fjölnis í handbolta

Gunnar Steinn Jónsson hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks karla í handbolta. Gunni er Grafaravogsbúum kunnur enda uppalinn í félaginu þar sem hann spilaði með yngri flokkum í handbolta og fótbolta við góðan orðstýr. Frá Fjölni lá leiðin til HK og þaðan í atvinnumennsku í Svíþjóð, Frakklandi, Þýskalandi og Danmörku þar sem hann spilaði samhliða því að leika fyrir Íslands hönd og var þar með fyrsti Fjölnismaðurinn til að spila á stórmóti í handbolta. Eftir glæsilegan feril erlendis lá leið hans heim til Íslands þar sem hann lék og var aðstoðarþjálfari með Stjörnunni við hlið Patreks Jóhannessonar.

Á myndinni eru frá vinstri, Goði Ingvar Sveinsson, Sveinn Þorgeirsson, Gunnar Steinn þjálfari við undirritun og Daníel Freyr Rúnarsson meistaraflokksráði.

Gunnar tekur við stjórn liðsins sem vann sér inn sæti í úrvalsdeild í vor í eftirminnilegu einvígi í oddaleik í fullri Fjölnishöll. Meistaraflokksráð lýsir mikilli ánægju með ráðninguna sem endurspeglar stefnu félagsins vel að byggja á Fjölnismönnum og metnað félagsins til að vera með lið í efstu deild í handbolta.

Gunnar Steinn er spenntur fyrir komandi áskorun í Olís deildinni:

,,Það er frábær tilfinning að snúa aftur heim í Grafarvoginn og loka þannig þessum hring eftir góðan Evróputúr með fjölskyldunni. Sætið í Olísdeildinni gefur tækifæri á að byggja upp öflugt lið með mörgum Fjölnismönnum. Ég hlakka mikið til að leggja mitt að mörkum og byrja að vinna með strákunum. Ég hvet alla Grafarvogsbúa, fyrrverandi og núverandi, til að mæta á völlinn á næsta tímabili og styðja okkur, flaggskip Fjölnis í efstu deild.”

Það eru spennandi tímar fram undan í Grafarvoginum og handboltadeildin ætlar að leggja allt kapp á að skapa góða stemningu og gleði í kringum starfið í vetur. Við skorum á sem flesta á að vera með okkur í liði og taka þátt!

Meistaraflokksráð handboltadeildar Fjölnis


Fréttabréf listskautadeildar

Vorsýning

Sunnudaginn 26. maí héldum við hina árlegu vorsýningu listskautadeildar. Við viljum þakka öllum sem mættu og styrktu deildina með kaupum á miðum sem og í sjoppunni okkar. Einnig þökkum við öllum sjálfboðaliðum sem hjálpuðu til við undirbúning á sýningunni sem og að vera innan handa á sýningunni sjálfri. Án ykkar væri ekki hægt að gera þessar sýningar eða aðra viðburði.

Þema sýningarinnar að þessu sinni var hinn bleiki heimur Barbie. Um 122 iðkendur tóku þátt í sýningunni frá öllum getustigum – allt frá skautaskólakrökkum til afrekshóps og svo einnig þjálfarar deildarinnar. Var svellið fyllt af allskyns útgáfum af Barbie og Ken sem sýndu flotta takta í takt við tónlist úr nýlegri kvikmynd um Barbie.

Alls voru um 400 sem lögðu leið sína á báðar sýningarnar og var stemmingin mjög góð á þeim báðum. Við þökkum öllum þeim sem mættu á sýningarnar til að fylgjast með og styðja við iðkendur og deildina.

Kökubasar var á staðnum og gekk það mjög vel og þökkum við öllum þeim sem bökuðu fyrir basarinn ásamt þeim sem keyptu köku til stuðnings Listskautadeildarinnar. Frábært að sjá hvað var tekið vel í þennan kökubasar.

Í sjoppunni var í boði að kaupa sér vöfflur, popp og bleikt candyfloss sem sló heldur betur í gegn hjá börnunum sem og þeim fullorðnu.

Við viljum þakka styrktaraðilum sýningarinnar fyrir að hjálpa okkur í þessu ferli. Hafið Fiskverslun, Kids Coolshop, Myllan, Orkan, Rent-A-Party, World Class og Ölgerðin.

Eldri fréttir

Á föstudeginum fyrir sýninguna var hópur 1 boðið að koma fram á opnunarhátíð Ice Cup í tengslum við Special Olympics. Tóku þær því boði og sýndu atriðið úr vorsýningunni og stóðu sig mjög vel. Einnig voru iðkendur frá okkur fánaberar við inngöngu á hátíðinni. Var þetta skemmtileg reynsla fyrir hópinn sem fékk svo að hitta Guðna Th. Jóhannesson forseta.

Þann 20. apríl héldum við fjölskyldudag skautaskólans og heppnaðist hann mjög vel. Er þetta eitthvað sem við munum klárlega stefna á að gera aftur og sjáum fyrir okkur að þetta geti heppnast líka vel hjá öðrum hópum hjá okkur.

Fyrstu helgina í maí fór hópur frá okkur í keppnisferð til Riga í Lettlandi til að taka þátt í Volvo Open Cup. Mikil og góð reynsla sem keppendur fengu í þessari ferð og mun klárlega nýtast hópnum í framtíðarverkefnum.

Sumarbúðir

Deildin verður með sumarbúðir í júní og er skráning í gangi inn á XPS og eru hægt að nálgast upplýsingar HÉR og HÉR.

Boðið er upp á 3 vikur af námskeiðum og er skráð í hverja viku fyrir sig. Í annarri vikunni kemur Matteo Rizzo sem gestaþjálfari til okkar og erum við mjög spennt fyrir komu hans til okkar.

Svo munu nokkrir iðkendur fara erlendis í æfingabúðir erlendis í júlí og verður gaman að sjá hvað þau fá út úr þeirri ferð sem verður vonandi góð og skemmtileg ferð.

Næsta tímabil

Áætlað er að byrja æfingar á næstu önn fyrr heldur en venjan hefur verið. Nákvæm útfærsla er ekki komin en hún verður send út með eins miklum fyrirvara og við getum og reynum við að hafa það tilbúið sem allra fyrst.

Á næsta tímabili mun vera nýtt alþjóðlegt mót haldið hjá okkur í Egilshöllinni helgina 25.-27. október og verður mjög gaman að sjá það verða að veruleika hjá okkur.

Íslandsmót verður svo haldið í Egilshöllinni 29. nóvember til 1. desember og verður gaman að takast á við það verkefni og sjá hvar okkar skautarar standa miða við aðra iðkendur á Íslandi.

Sjálfboðaliðar

Við viljum byrja á því að þakka aftur kærlega fyrir þá sjálfboðaliða sem hjálpuðu til við að gera vorsýninguna að því sem hún varð. Takk kærlega fyrir.

Nú á næstunni er slatti sem að við þurfum aftur hjálp við frá ykkur frábæru sjálfboðaliðum. Tölvupóstar hafa verið sendir út á forráðamenn varðandi það að hjálpa til í kringum útihlaup á vegum m.a. ÍBR og þökkum við þeim sem hafa skráð sig nú þegar kærlega fyrir en ef það eru ennþá einhverjir sem vilja og hafa ekki skráð sig þá sláum við hendinni ekki á móti því.

Svo eins og komið var inn á fyrir ofan erum við að halda tvö stór mót með frekar stuttu millibili í Egilshöllinni og mun okkur vanta sjálfboðaliða á það. Það væri því frábært ef þið gætuð haft það bakvið eyrun þegar að því kemur að skrá sig sem sjálfboðaliða á þessi mót að við þurfum mjög margar hendur til að geta haldið þetta á þeim standardi sem þarf í svona mótum.

Þakkir fyrir tímabilið

Að lokum viljum við þakka kærlega fyrir tímabilið og sjáumst hress og kát í sumar og/eða í haust!