Rafael Máni í ÍA
Rafael Máni í ÍA
Rafael Máni Þrastarson hefur verið seldur frá Fjölni til ÍA.
Rafael Máni er uppalinn í Fjölni og lék alls 48 leiki fyrir félagið, þar sem hann skoraði 19 mörk. Á síðasta sumri spilaði hann 12 leiki í Lengjudeildinni og skoraði 4 mörk.
Fjölnir þakkar Rafael Mána fyrir hans framlag til félagsins og óskar honum alls hins besta í næsta kafla á ferlinum.

Þorgeir Örn Tryggvason ráðinn markaðsstjóri Ungmennafélagsins Fjölnis
Þorgeir Örn Tryggvason ráðinn markaðsstjóri Ungmennafélagsins Fjölnis

Aðalstjórn Fjölnis hefur ráðið Þorgeir Örn Tryggvason í markaðstjóra félagsins. Í starfi sínu mun hann leiða markaðs-, kynningar- og fjáröflunarstarf félagsins í nánu samstarfi við skrifstofu, stjórnir deilda og sjálfboðaliða.
Þorgeir er uppalinn Fjölnismaður og hefur um árabil komið að starfi félagsins í fjölbreyttum hlutverkum. Hann hefur reynslu sem iðkandi, þjálfari, sjálfboðaliði og stjórnarmaður, auk þess að hafa sinnt markaðs- og kynningarmálum fyrir einstakar deildir innan félagsins. Sú reynsla veitir honum góða innsýn í starfsemi félagsins, menningu þess og þarfir ólíkra deilda.
Þorgeir lauk MMM-gráðu í markaðsstjórnun og MLM-gráðu í forystu og stjórnun árið 2024 frá Háskólanum á Bifröst. Hann starfaði áður hjá tryggingarfélaginu Sjóvá en hefur síðasta árið byggt upp eigið fyrirtæki á sviði markaðsmála, efnisgerðar og ljósmyndunar. Samhliða því hefur hann starfað sem aðstoðarkennari við Háskólann á Bifröst í áfanganum Stefnumótun og framtíðarsýn.
Í starfi markaðsstjóra mun Þorgeir leggja áherslu á að efla samræmda ímynd Fjölnis, styrkja upplýsingamiðlun og styðja við markaðs- og fjáröflunarstarf allra deilda félagsins. Þá verður lögð áhersla á aukinn sýnileika, faglega efnisgerð og skýrari ramma utan um samstarf við styrktaraðila og samfélagið í kringum félagið.
Aðalstjórn Fjölnis bindur vonir við að reynsla Þorgeirs, tenging hans við félagið og þekking á markaðsmálum muni styrkja starfsemi Fjölnis enn frekar á komandi árum.
Þorgeir hefur þegar hafið störf og tekur við af Örnu Guðnadóttur, sem er jafnframt þakkað fyrir hennar störf í þágu félagsins.
Fréttabréf Listskautadeildar
Fréttabréf Listskautadeildar
Skautapar ársins 2025
Stjórn Skautasambands Íslands, í samvinnu við Afreksnefnd ÍSS, hafa valið Júlíu Sylvíu Gunnarsdóttur & Manuel Piazza sem skautapar ársins 2025.
Hægt er að lesa meira um valið hér HÉR
Keppnisferðir erlendis
Eftir Íslandsmeistaramót fór fram val skautara á Norðurlandamót 2026 hjá stjórn ÍSS í samvinnu við Afreksnefnd. Mótið fer fram í Hvidovre í Danmörku þann 27. janúar til 1. febrúar. Skemmst er frá því að segja að Arna Dís Gísladóttir og Elín Katla Sveinbjörnsdóttir voru valdar frá okkur í Fjölni til að taka þátt í Advanced Novice flokki á mótinu.
Hægt er að lesa meira um valið hér HÉR
Grunnpróf
Í desember fóru fram grunnpróf ÍSS. Margir Fjölnisiðkendur þreyttu próf og gekk í heildina mjög vel. Næstu grunnpróf eru á dagskrá í apríl.
Hægt er að lesa meira um grunnpróf hér HÉR
Elín Katla valin skautakona ársins hjá Fjölni
Elín Katla hefur ár eftir ár sýnt fram á einstaka eljusemi og hollustu við listskautun. Frá unga aldri hefur hún stöðugt skilað frábærum árangri fyrir sjálfa sig, fyrir félagið okkar og fyrir Ísland. Hún er sterkur íþróttamaður og ýtir sífellt undir framfarir og ný viðmið. Hún hefur verið Íslandsmeistari í yngri flokkum og hefur nú tvö ár í röð verið Íslandsmeistari í Advanced Novice flokki. Á yfirstandandi keppnistímabili hefur Elín Katla enn á ný skarað fram úr með því að setja þrjú ný Íslandsmet í stuttu prógrammi, frjálsu prógrammi og í heildarstigum. Á alþjóðavettvangi hefur Elín Katla staðið sig með mikilli prýði og unnið til tveggja gullverðlauna á ISU alþjóðlegum mótum á þessu ári sem verður að teljast frábær árangur. Eljusemi, agi og ástríða Elínar Kötlu gera hana að framúrskarandi fyrirmynd fyrir yngri skautara og verðuga að þessari viðurkenningu. Til hamingju Elín!
Jólasýning
Sunnudaginn 21. desember fór fram hin árlega jólasýning listskautadeildarinnar. Sýningarnar voru tvær, fyrri með skautaskóla ásamt framhaldshópum (1-4) og sú seinni allir framhaldshópar (1-5). Þema sýninganna voru íslensku jólasveinarnir og stóðu allir skautarar sig með prýði og var stemmingin mjög góð og skemmtileg. Grýla, jólakötturinn, bræðurnir þrettán og margt fleira. Við vonum að allir hafi skemmt sér vel og þökkum sjálfboðaliðum fyrir þeirra ómetanlega framlag, sem og öllum þeim sem mættu á sýningarnar og studdu deildina með kaupum í sjoppunni.
Jólanámskeið
Þessa dagana fara fram jólanámskeið deildarinnar. Námskeiðin hafa verið vel sótt og gaman er að sjá áhugann fyrir því að æfa skauta. Að því sögðu viljum við minna á að alltaf er velkomið að koma prófa 1-2 æfingar ef áhugi er til staðar.
Takk fyrir önnina
Að lokum viljum við þakka öllum fyrir önnina sem er að líða og hlökkum til að sjá ykkur aftur á næstu önn. Skráning hefst 2. janúar á Abler og æfingar hefjast 5. janúar. Kærar þakkir til allra sjálfboðaliða sem hjálpuðu við alls konar tilefni hjá okkur og vonandi að enn fleiri hjálpi til á næstu önnum. Við vonum að allir hafi það gott um hátíðirnar.
Hér að neðan má svo sjá hvað er framundan á vorönn:
- Hraðasti skautarinn tímatökur, nánar um verkefnið HÉR:
- Europeans Sheffield 12.-18. janúar.
- Kristalsmót (þurftum því miður að breyta dagsetningu en líkleg dagsetning í augnablikinu er 31. janúar).
- Vormót Akureyri 27.-29. mars.
- Landsliðsferð Sonja Henie 5.-8. mars.
- Grunnpróf apríl (áætlaðar dagsetningar 20.-22. apríl).
- Skautaþing maí (áætluð dagsetning 12. maí)
- Vorsýning maí.
- Afreksbúðir sumar.







Kvennalið Fjölnis í íshokkí heiðrað fyrir framúrskarandi árangur
Kvennalið Fjölnis í íshokkí heiðrað fyrir framúrskarandi árangur
Nú á dögunum veitti Íþróttabandalag Reykjavíkur viðurkenningar til íþróttafélaga og einstaklinga í borginni fyrir framúrskarandi árangur á árinu. Fjölnir átti þar flotta fulltrúa, en meistaraflokkur kvenna í íshokkí hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur eftir að liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn síðasta vor.
Kvennalið Fjölnis varð Íslandsmeistari í íshokkí annað árið í röð eftir sigur í úrslitaeinvígi mótsins og hefur með því fest sig í sessi sem eitt sterkasta lið landsins. Viðurkenningin er verðskuldaður heiður fyrir öflugt starf, samheldinn hóp og stöðugan árangur.

Oscar kveður Fjölni
Oscar kveður Fjölni

Oscar og Fjölnir hafa komist að samkomulagi um að rifta samningi hans, en Oscar stefnir að því að flytja aftur heim til Danmerkur. Félagið vill koma á framfæri þökkum fyrir framlag hans og jákvætt viðmót á meðan á dvöl hans stóð og óskar honum velfarnaðar í næstu skrefum á ferlinum, bæði innan sem utan vallar.
Bjarni Þór Hafstein framlengir við Fjölnir
Bjarni Þór Hafstein framlengir við Fjölnir

Bjarni Þór Hafsteinn hefur framlengt samning sinn við Fjölni
Bjarni Þór, sem er uppalinn hjá Breiðablik, kom til liðsins frá Víkingi Ólafsvík vorið 2022. Í sumar lék hann 22 leiki með Fjölni og skoraði í þeim 5 mörk. Bjarni Þór er tæknilega sterkur leikmaður sem getur bæði spilað sem bakvörður og kantmaður, en í sumar lék hann helst sem kantmaður.
Það er mikil ánægja að sjá Bjarna Þór framlengja við Fjölni og hafði Birgir Birgison, rekstarstjóri knattspyrnudeildar þetta að segja um málið: “Bjarni er einfaldlega frábær leikmaður og gefur liðinu okkar einstök gæði. Hann er sterkur í klefanum og mikilvægur hlekkur innan innan liðsins. Þetta eru frábærar fréttir að sjá hann framlengja við liðið”.
Við hlökkum til að sjá meira af Bjarna Þór á vellinum næsta sumar! Áfram Fjölnir!
Kristófer Dagur í Val
Kristófer Dagur í Val
Kristófer Dagur hefur kvatt Fjölni en hann samdi í dag við Knattspyrnufélagið Val.
Kristófer Dagur, sem er uppalin Fjölnismaður, spilaði 18 leiki og skoraði í þeim fimm mörk síðasta sumar. Auk þess að hafa spilað fyrir Fjölni síðustu ár spilaði hann einnig með venslafélagi liðsins, Vængjum Júpíters, þar sem hann steig sín fyrstu skref í meistaraflokki.
Við þökkum Kristófer Degi kærlega fyrir hans framlag til félagsins og óskum honum góðs gengis á nýjum vettvangi.

Fréttir af meistaraflokki karla
Fréttir af meistaraflokki karla

Á laugardaginn lék liðið æfingaleik í Kórnum gegn HK þar sem Fjölnir vann öruggan 3–1 sigur. Viktor Andri skoraði tvö marka okkar og Einar Örn bætti við því þriðja.
Á sunnudeginum tók liðið svo þátt í seinni umferð Íslandsmótsins í futsal. Liðið vann alla leiki í fyrri umferðinni og bætti við tveimur sigrum og einu tapi núna um helgina. Með þeim árangri tryggði Fjölnir sér efsta sæti riðilsins og þar með sæti í undanúrslitum í janúar. Í riðlinum voru Ísbjörninn, Afríka og sameiginlegt lið Skallagríms og Kára.
Næsti leikur strákanna er í Reykjavíkurmótinu og fer fram í Egilshöll næstkomandi mánudag gegn Fram. Leikurinn hefst kl. 19:45 og verður auglýstur nánar þegar nær dregur.

Elín Katla og Arna Dís valdar til þáttöku á Norðurlandamótið í janúar
Elín Katla og Arna Dís valdar til þáttöku á Norðurlandamótið í janúar

Skötuveisla knattspyrnudeildar
Skötuveisla knattspyrnudeildar fer fram 22. desember

Sunnudaginn 22. desember blæs knattspyrnudeild Fjölnis til heljarinnar skötuveislu frá klukkan 18:00 til 20:00 í skrifstofuhúsnæði gömlu áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi, Gufunesvegi 17. Boðið verður upp á skötu og saltfisk með öllu tilheyrandi.
Miðaverð er 5990 krónur fyrir fullorðna og 3990 krónur fyrir 16 ára og yngri.
Við hvetjum alla til að kíkja á þennan viðburð!






