Kvennalið Fjölnis í íshokkí heiðrað fyrir framúrskarandi árangur

Kvennalið Fjölnis í íshokkí heiðrað fyrir framúrskarandi árangur

Nú á dögunum veitti Íþróttabandalag Reykjavíkur viðurkenningar til íþróttafélaga og einstaklinga í borginni fyrir framúrskarandi árangur á árinu. Fjölnir átti þar flotta fulltrúa, en meistaraflokkur kvenna í íshokkí hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur eftir að liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn síðasta vor.

Kvennalið Fjölnis varð Íslandsmeistari í íshokkí annað árið í röð eftir sigur í úrslitaeinvígi mótsins og hefur með því fest sig í sessi sem eitt sterkasta lið landsins. Viðurkenningin er verðskuldaður heiður fyrir öflugt starf, samheldinn hóp og stöðugan árangur.


Oscar kveður Fjölni

Oscar kveður Fjölni

Oscar og Fjölnir hafa komist að samkomulagi um að rifta samningi hans, en Oscar stefnir að því að flytja aftur heim til Danmerkur. Félagið vill koma á framfæri þökkum fyrir framlag hans og jákvætt viðmót á meðan á dvöl hans stóð og óskar honum velfarnaðar í næstu skrefum á ferlinum, bæði innan sem utan vallar.


Bjarni Þór Hafstein framlengir við Fjölnir

Bjarni Þór Hafstein framlengir við Fjölnir

Bjarni Þór Hafsteinn hefur framlengt samning sinn við Fjölni

Bjarni Þór, sem er uppalinn hjá Breiðablik, kom til liðsins frá Víkingi Ólafsvík vorið 2022. Í sumar lék hann 22 leiki með Fjölni og skoraði í þeim 5 mörk. Bjarni Þór er tæknilega sterkur leikmaður sem getur bæði spilað sem bakvörður og kantmaður, en í sumar lék hann helst sem kantmaður.

Það er mikil ánægja að sjá Bjarna Þór framlengja við Fjölni og hafði Birgir Birgison, rekstarstjóri knattspyrnudeildar þetta að segja um málið: “Bjarni er einfaldlega frábær leikmaður og gefur liðinu okkar einstök gæði. Hann er sterkur í klefanum og mikilvægur hlekkur innan innan liðsins. Þetta eru frábærar fréttir að sjá hann framlengja við liðið”.

Við hlökkum til að sjá meira af Bjarna Þór á vellinum næsta sumar! Áfram Fjölnir!


Kristófer Dagur í Val

Kristófer Dagur í Val

Kristófer Dagur hefur kvatt Fjölni en hann samdi í dag við Knattspyrnufélagið Val.

Kristófer Dagur, sem er uppalin Fjölnismaður, spilaði 18 leiki og skoraði í þeim fimm mörk síðasta sumar. Auk þess að hafa spilað fyrir Fjölni síðustu ár spilaði hann einnig með venslafélagi liðsins, Vængjum Júpíters, þar sem hann steig sín fyrstu skref í meistaraflokki.

Við þökkum Kristófer Degi kærlega fyrir hans framlag til félagsins og óskum honum góðs gengis á nýjum vettvangi.


Fréttir af meistaraflokki karla

Fréttir af meistaraflokki karla

Á laugardaginn lék liðið æfingaleik í Kórnum gegn HK þar sem Fjölnir vann öruggan 3–1 sigur. Viktor Andri skoraði tvö marka okkar og Einar Örn bætti við því þriðja.

Á sunnudeginum tók liðið svo þátt í seinni umferð Íslandsmótsins í futsal. Liðið vann alla leiki í fyrri umferðinni og bætti við tveimur sigrum og einu tapi núna um helgina. Með þeim árangri tryggði Fjölnir sér efsta sæti riðilsins og þar með sæti í undanúrslitum í janúar. Í riðlinum voru Ísbjörninn, Afríka og sameiginlegt lið Skallagríms og Kára.

Næsti leikur strákanna er í Reykjavíkurmótinu og fer fram í Egilshöll næstkomandi mánudag gegn Fram. Leikurinn hefst kl. 19:45 og verður auglýstur nánar þegar nær dregur.


Elín Katla og Arna Dís valdar til þáttöku á Norðurlandamótið í janúar

Elín Katla og Arna Dís valdar til þáttöku á Norðurlandamótið í janúar

Elín Katla Sveinbjörnsdóttir og Arna Dís Gísladóttir frá Fjölni hafa verið valdar af Stjórn ÍSS, í samvinnu við Afreksnefnd, til þátttöku á Norðurlandamótið í listskautum fer fram í Hvidøvre í Danmörku 28. janúar – 1. febrúar 2026.
Við óskum okkar stelpum til hamingju með valið!


Skötuveisla knattspyrnudeildar

Skötuveisla knattspyrnudeildar fer fram 22. desember

Sunnudaginn 22. desember blæs knattspyrnudeild Fjölnis til heljarinnar skötuveislu frá klukkan 18:00 til 20:00 í skrifstofuhúsnæði gömlu áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi, Gufunesvegi 17. Boðið verður upp á skötu og saltfisk með öllu tilheyrandi.

Miðaverð er 5990 krónur fyrir fullorðna og 3990 krónur fyrir 16 ára og yngri.

Við hvetjum alla til að kíkja á þennan viðburð!

Kaupa miða

Sigurjón Daði og Árni Elvar yfirgefa Fjölni

Sigurjón Daði og Árni Elvar yfirgefa Fjölni

Nú á dögum héldu þeir Sigurjón Daði og Árni Elvar á ný mið.

Árni Elvar kom til liðsins fyrir síðasta tímabil frá Þór og spilaði 12 leiki fyrir liðið í deild og bikar síðasta sumar. Sigurjón Daði, sem er uppalinn í Fjölni, spilaði 13 leiki í Lengjudeildinni síðasta sumar. Hann hefur verið hluti af meistaraflokki félagsins síðustu ár og á þeim tíma spilað 88 leiki í deild og bikar.

Við þökkum báðum leikmönnum fyrir þeirra framlag til félagsins og óskum þeim góðs gengis á nýjum vettvangi.


Fréttir af Íslandsmóti og Íslandsmeistaramóti Skautasambandsins

Fréttir af Íslandsmóti og Íslandsmeistaramóti Skautasambandsins

Íslandsmót og Íslandsmeistaramót Skautasambandsins fór fram í skautahöllinni í Laugardal helgina 28. til 30.nóvember. Á þessu móti voru 11 keppendur frá Fjölni sem tóku þátt.

Í Basic Novice keppti Ermenga Sunna, Elsa Kristín og Maxime og gerðu vel þar. Ermenga Sunna setti persónulegt stigamet með 39,72 stigum og tryggði sér þar með gullið, Maxime fékk silfrið með 33,12 stigum og Elsa Kristín níunda sætið með 21,5 stigum.

Í Advanced Novice kepptu Elín Katla og Arna Dís. Eftir fyrri daginn og stutta prógrammið var Arna Dís með 24,46 stig og Elín Katla með 39,46. Með þessu náði Arna að fara í seinni daginn í öðru sæti og Elín í því fyrsta. Síðust á ísinn voru svo Júlía og Manuel en þau fengu 51,59 stig fyrir stutta prógrammið sitt.

Seinni daginn voru Cubs fyrstar á ísinn en Elisabeth Rós og Karlína kepptu fyrir okkar hönd í þeim flokki. Þær stóðu sig með prýði en ekki eru veitt verðlaun í þessum flokki. Í frjálsa prógramminu fékk Arna Dís 46,38 stig og 70,84 heildarstig sem skilaði henni á verðlaunapall í annað sætið. Fyrir sitt prógram í frjálsa fékk Elín Katla 67,07 stig og sigraði í Advanced Novice flokkinn með 106,53 heildarstig og er því Íslandsmeistari aftur í þessum flokki annað árið í röð!

Svo var röðin komin að Júlíu Sylvíu og Manuel í Senior Pairs en þau uppskáru 99,23 stig fyrir frjálsa prógrammið sitt. Samanlagt fengu þau 150,82 stig, Íslandsmeistarar í Senior Pairs en þau fengu einnig viðurkenningu frá Skautasambandinu sem skautateymi ársins.

Einnig fór fram Íslandsmeistaramót í Short Track 2025. Þetta er í annað sinn sem Íslandsmeistaramót er haldið í þessari grein á Íslandi. Keppt var í Senior og Junior bæði kvenna og karla í þremur vegalengdum; 222m, 500m og 1000m. Einnig var keppt í liðakeppni í tveimur vegalengdum; 500m og 1000m. Fjölnismenn voru með gull og silfur en Thamar Melanie Heijstra sigraði í Senior konur 222 og 500m og Ylse Anna De Vries í öðru sæti. Þá sigraði Ylse í 1000m hlaupi og í liðahlaupi 500. Í 1000m fékk Tamar silfur ástand liðsfélaga sínum Þorsteinni Hjaltasyni.

Við óskum öllum okkar keppendum til hamingju með sinn árangur og hlökkum til að sjá ykkur á næsta móti.


Viktor Andri Hafþórsson semur við Fjölni

Viktor Andri Hafþórsson semur við Fjölni

Viktor Andri, sem er uppalin Fjölnismaður, hefur samið við Fjölni en hann kemur til félagsins frá Þrótti Reykjavík.

Viktor Andri er 24 ára sóknarmaður sem hefur spilað 152 leiki í meistaraflokki og skorað í þeim 27 mörk. Viktor Andri spilaði upp alla yngri flokka Fjölnis og spilaði með meistaraflokki félagsins til ársins 2022 þegar hann gekk til liðs við Keflavík. Síðustu tvö tímabil hefur hann spilað með Þrótti Reykjavík.

Viktor Andri kemur með mikla reynslu inn í lið Fjölnis, en hefur hann til að mynda spilað 37 leiki í efstu deild, þar af 19 með Fjölni.

Beint úr Rima

Fjölnir er og verður alltaf minn klúbbur

Aðspurður um félagsskiptin og ástæðuna fyrir heimkomu hafði Viktor Andri þetta að segja: “Ég er gríðarlega ánægður með að vera kominn aftur heim í Fjölni. Ég valdi Fjölni vegna þess að það er minn klúbbur og verður alltaf minn klúbbur. Ég var farinn að sakna þess að klæðast gulu treyjunni og mig langar að taka þátt í þessu verkefni sem framundan er og hjálpa liðinu að komast aftur á þann stað sem það á heima.”

Það er mikil ánægja að sjá fleiri uppalda Fjölnisstráka koma heim og vinna að því að koma Fjölni aftur á þann stað sem það á að vera. Birgir Birgison, rekstarstjóri knattspyrnudeildar hafði þetta að segja: “Fyrir Fjölni þá er það meiriháttar viðurkenning að fá drenginn heim og til þess að taka þátt í þessu verkefni með okkur. Viktor er magnaður leikmaður og góður drengur sem gefur liðinu feykilega mikið.”

Þá bætti Gunnar Mári, þjálfari Fjölnis við: “Við höfum haft augastað á Viktori í lengri tíma og er það frábært að hann velji okkur á þessum tímapunkti og komi heim í Fjölni að taka þátt í uppbyggingunni aftur. Viktor er mjög góður leikmaður sem ég bind miklar vonir við. Það verður gaman að sjá hann aftur í Fjölnistreyjunni að skora mörk fyrir okkur”

Allir hjá Fjölni bjóða Viktor Andra velkominn heim og hlakka til að sjá hann spila í gulu næsta sumar.
#112innaðbeini


UNGMENNAFÉLAGIÐ FJÖLNIR

Egilshöll | Fossaleyni 1 | 112 Reykjavík | Kt. 631288-7589

Opnunartími skrifstofu

Mánudaga – fimmtudaga
09:00-12:00 og 13:00-16:00

Föstudaga
09:00-12:00

Símatími skrifstofu

Mánudaga – fimmtudaga
10:00-11:30

Sími: 578-2700

Hafðu samband

skrifstofa@fjolnir.is

Translate »