Anna Karen Jónsdóttir kemur frá Noregi

Anna Karen Jónsdóttir kemur til félagsins frá Noregi

Meistaraflokksráð kvenna í Fjölni/Fylki heldur áfram að styrkja liðið. Anna Karen Jónsdóttir hefur skrifað undir samning við félagið. Hún kemur frá norska liðinu Fjellhammer IL.

Anna Karen er gríðarlega öflug skytta sem kemur til með að styrkja liðið í vörn og sókn. Hún er er hluti af mjög sterkum 2001 árgangi í Fjellhammer IL sem hefur spilað í Lerøy landskeppninni fyrir U18 ára ásamt því að spila með varaliði meistaraflokks.

Þetta hafði hún að segja við undirskrift: „Ég ákvað að stökkva á tækifærið að koma til Íslands af því að það var spennandi. Fjölnir/Fylkir er áhugavert lið og mér leist strax vel á þjálfarateymið og umgjörðina í kringum liðið“.

Við bjóðum Önnu Karen hjartanlega velkomna í #FélagiðOkkar og hlökkum til að sjá þig á vellinum.


Oddný Björg Stefánsdóttir kemur til félagsins

Oddný Björg Stefánsdóttir skrifar undir samning við félagið

Meistaraflokksráð Fjölnis/Fylkis situr ekki auðum höndum. Oddný Björg Stefánsdóttir hefur skrifað undir samning við félagið. Hún er tvítugur markmaður sem kemur frá ÍR. Oddný er öflugur leikmaður og mikil styrking fyrir liðið. Hún á að baki leiki fyrir ÍR og HK.

Það eru bjartir tímar framundan hjá meistaraflokki kvenna í handbolta. Á dögunum skrifaði deildin undir samstarfssamning við Fylki um sameiginlegan meistaraflokk kvenna. Þar segir meðal annars að „markmið samstarfsins er að bæta umgjörð meistaraflokks og styðja enn frekar við uppbyggingu kvennastarfs í félögunum“.

Frekari frétta af leikmannamálum er að vænta á næstunni.

#FélagiðOkkar


Upplýsingar til forráðamanna og iðkenda

Kæru forráðamenn og iðkendur,

Við gleðjumst yfir því að á morgun geta börnin okkar hafið hefðbundið íþróttastarf. Seinustu daga hafa stjórnendur félagsins í samvinnu við fulltrúa allra deilda unnið hörðum höndum að góðu skipulagi fyrir forráðamenn, iðkendur og þjálfara félagsins. Egilshöllin er sem fyrr hjarta Fjölnis og þar er langstærsti hluti starfsemi okkar. Við bendum á að íþróttasalurinn í Dalhúsum er lokaður vegna viðgerða á gólfi, þá er styrktarsalurinn einnig lokaður. Fundabókanir fara fram á vefnum okkar https://fjolnir.is/felagid-okkar/fundabokanir/.

Hér eru nokkrir mikilvægir punktar:

  • Vegna tilslakana á samkomubanni má barnastarf íþróttafélaga hefjast aftur með hefðbundnum hætti mánudaginn 4.maí.
  • Vegna fjöldatakmarkana hjá fullorðnum er mikilvægt að ef það þarf að fylgja barni á æfingar að aðeins eitt foreldri mæti með barnið á æfingasvæðið. Óheimilt er að vera inn á æfingasvæði meðan á æfingu stendur. Athugið að foreldrum iðkenda sunddeildar er óheimilt að fylgja börnunum í klefana og ofan í laugina. Sundsambandið er í viðræðum við Reykjavíkurborg um þetta mál.
  • Það er mikilvægt að huga að almennu hreinlæti, iðkendur skulu þvo hendur með sápu og spritta áður en æfing hefst.
  • Við sem erum 16 ára og eldri þurfum ennþá að halda tveggja metra fjarlægð og huga að almennu hreinlæti.
  • Við reynum að koma sem minnst við öll áhöld (bæði þjálfarar og foreldrar).
  • Klefar eru lokaðir fyrst um sinn. Við brýnum fyrir iðkendum að vera klædd í æfingafatnað undir öðrum fatnað. Við brýnum fyrir þjálfurum að skipuleggja svæði á æfingasvæði fyrir útifatnað og skó.
  • Frístundafylgdin fer ekki af stað. Við bíðum eftir frekari upplýsingum frá Strætó. Við vonumst eftir því að geta hafið fylgdina á ný sem allra fyrst.
  • Upplýsingar um inn- og útgang í Egilshöll er að finna á meðfylgjandi skýringarmynd.
  • Við bendum forráðamönnum og iðkendum á að hafa samband við þjálfara og yfirþjálfara fyrir nánari upplýsingar varðandi æfingar og keppni.

Ef það eru einhverjar spurningar þá hikið þið ekki við að hafa samband við okkur. Þetta er allt mjög nýtt fyrir okkur öllum. Við erum #FélagiðOkkar! Stöndum þétt saman.


Elvar Otri og Þorleifur Rafn framlengja við Fjölni

Elvar Otri og Þorleifur Rafn framlengja við Fjölni

Það er ljóst að mikið mun mæða á ungum og uppöldum Fjölnismönnum í meistaraflokki karla á næsta keppnistímabili. Tveir leikmenn sem munu spila lykilhlutverk í liðinu á næstu árum hafa nú framlengt samninga sína við félagið og fögnum við því.

Elvar Otri Hjálmarsson er öflugur leikstjórnandi með mikinn leikskilning og tækni í sínum leik.

Þorleifur Rafn Aðalsteinsson er rétthentur hornamaður sem er þekktur fyrir sinn ótrúlega hraða, áræðni og sprengikraft.

Báðir hafa þeir, þrátt fyrir ungan aldur, átt fast sæti í meistaraflokksliði Fjölnis undanfarin ár.

#FélagiðOkkar


Tilkynning frá skrifstofu

Kæru forráðamenn og iðkendur Fjölnis,

Tekin hefur verið ákvörðun af stjórnendum félagsins á þessum fordæmalausu tímum að lengja æfingatímabil félagsins í barna- og unglingastarfi til að mæta þeim æfingum sem fallið hafa niður til viðbótar þeirri fjarþjálfun sem farið hefur fram. Unnið verður með hverri deild að útfærslu á viðbótarvikum. Komið verður til móts við iðkendur í júní eða júlí.

Stjórnendur félagsins vilja koma á framfæri miklu þakklæti til þjálfara og stjórnarfólks í félaginu á þessum fordæmalausu tímum.

#FélagiðOkkar


Gísli og Gunnar taka við meistaraflokki kvenna

Fréttatilkynning frá hkd. Fjölnis og Fylkis

28.apríl 2020

Gísli Steinar Jónsson og Gunnar Valur Arason taka við þjálfun Fjölnis/Fylkis í meistaraflokki kvenna. Félögin kynntu samstarfið á fundi fyrr í dag. Þeir taka við góðu búi af þeim Sigurjóni Friðbirni hjá Fjölni og Ómari Erni hjá Fylki. Markmið samstarfsins er að bæta umgjörð meistaraflokks og styðja enn frekar við uppbyggingu kvennastarfs í félögunum. Félögin vilja byggja upp samkeppnishæfan meistaraflokk sem mun með tímanum festa sig í sessi í efstu deild. Samningur félaganna nær til næstu þriggja ára.

Gísli Steinar Jónsson er fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum. Hann hefur undanfarin tvö ár þjálfað yngri flokka kvenna hjá Fjölni ásamt því að sinna hlutverki aðstoðarþjálfara meistaraflokks kvenna á liðnu tímabili. Fyrir þann tíma bjó hann í Noregi og þjálfaði yngri flokka hjá Fet IL í sex ár. Gísli hlakkar til að takast á við krefjandi og skemmtileg verkefni sem tengjast samstarfi félaganna og að fylgja áfram öllum þeim efnilegu stelpum sem hann hefur þjálfað síðustu tvö ár og auk þess kynnast nýjum leikmönnum sem eru að bætast í hópinn fyrir næsta tímabil.

Gunnar Valur Arason er uppalinn ÍR-ingur þar sem hann spilaði í yngri flokkunum og loks í meistaraflokki. Hann á einnig að baki leiki í meistaraflokki fyrir lið Víkings, Fylkis og Kríu. Gunnar byrjaði ungur að þjálfa hjá ÍR og þjálfaði yngri flokka hjá félaginu í fjölmörg ár. Hann var einnig þjálfari yngri flokka Víkings í rúm tvö ár. Það var svo á tímabilinu 2014-2015 sem hann snéri aftur til ÍR, þá hjá 3. flokki, 4. flokki og sem aðstoðarþjálfari í meistaraflokki kvenna. Vorið 2015 tók Gunnar svo tímabundið við sem aðalþjálfari meistaraflokks kvenna hjá ÍR og svo aftur sem aðstoðarþjálfari meistaraflokksins árið 2017. Gunnar hefur þjálfað 3. og 4. flokk kvenna hjá ÍR frá 2014-2020. Loks má nefna að Gunnar hefur einnig komið að þjálfun afrekshóps hjá HSÍ.

 

Virðingafyllst,

Stjórn hkd. Fjölnis og Fylkis

Meistaraflokksráð Fjölnis/Fylkis

 

Myndir: Þorgils G.


Nýr rekstrarstjóri fimleikadeildar

Íris Svavarsdóttir hefur verið ráðinn rekstrarstjóri fimleikadeildar Fjölnis.

Íris er fimleikum vel kunn en hún hefur verið iðkandi og þjálfari, auk þess að vera með alþjóðleg dómararéttindi í hópfimleikum. Íris starfaði áður hjá Fimleikasambandi Íslands en þar starfaði hún í hátt í 7  ár.

Íris er íþróttafræðingur að mennt og með meistaragráðu í verkefnastjórnun.

Nýr rekstrarstjóri tekur formlega til starfa 1.maí og bjóðum við nýjan rekstrarstjóra hjartanlega velkominn til starfa hjá Fjölni.

#FélagiðOkkar


Páskaopnun

Opnunartími skrifstofu:

*LOKAÐ frá og með mánudeginum 6.apríl til og með mánudagsins 13.apríl sem og á sumardaginn fyrsta

*Hægt að senda fyrirspurn á netfangið skrifstofa@fjolnir.is 

Kær kveðja,

Starfsfólk skrifstofu


Tilkynning frá skrifstofu

Skrifstofa Fjölnis vill koma eftirfarandi atriðum á framfæri til allra félagsmanna:

  1. Allar hugsanlegar útfærslur í tengslum við æfingagjöld verða teknar þegar að skýrari mynd kemur á hvernig staðan verður ásamt mögulegri aðstoð frá hinu opinbera. Við kappkostum að halda æfingum og þjónustu gangandi í gegnum fjarþjálfun og okkur sýnist það hafa gengið vel.
  2. Við hvetjum iðkendur til að viðhalda hreyfingu og æfingum eins vel og hægt er, með fjarþjálfun frá þjálfara eða annars konar hreyfingu með fjölskyldunni. Ef einhver telur sig ekki hafa fengið leiðbeiningar eða æfingar til að gera heima þá er honum velkomið að hafa samband við Arnór markaðsfulltrúa á netfangið arnor@fjolnir.is. Við bendum til dæmis á hreyfibingó Fjölnis.
  3. Við viljum koma á framfæri þakklæti til þjálfara, stjórnarmanna og annarra sem tengjast félaginu fyrir góð viðbrögð og hjálpsemi á erfiðum tímum. Við stöndum saman, öll sem eitt, fyrir #FélagiðOkkar.


Fjölnir efnir til nafnasamkeppni

Ungmennafélagið Fjölnir hefur tekið í notkun glæsilega aðstöðu í austurenda Egilshallar, til að mynda fyrir frjálsar íþróttir og þrekæfingar. Þessi aðstaða mun sérstaklega auka gæði og bæta starfsemi frjálsíþróttadeildarinnar. Aðrar deildir munu njóta góðs af flottri aðstöðu fyrir styrktar- og þrekæfingar.

Við óskum eftir tillögum að nafni á þessari glæsilegu nýju aðstöðu í austurenda Egilshallar.

Aðalstjórn félagsins ásamt formönnum velur 2-4 tillögur úr þeim sem berast og efnir til kosninga í framhaldi.

Allir félagsmenn fá þá tækifæri til að kjósa um nýtt nafn á aðstöðunni í austurendanum.

Ath! Tillögur þurfa að berast fyrir fimmtudaginn 9.apríl.

Hægt er að senda inn tillögur í keppnina hér: https://tinyurl.com/r7ughfe.

#FélagiðOkkar