Tillaga borgarstjóra um bætta aðstöðu knattspyrnumála í Grafarvogi

16. nóvember lagði borgarstjóri fram tillögu varðandi bætta aðstöðu vegna knattspyrnumála í Grafarvogi. Tillagan var samþykkt en hana má sjá hér:

„Lagt er til að skoðaðir verði, með Fjölni o.fl., valkostir varðandi bætta aðstöðu vegna knattspyrnumála í Grafarvogi.“

 

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

„Knattspyrnuaðstaða í Grafarvogi er eitt þeirra verkefna sem raðaðist hæst í forgangsröðun íþróttamannvirkja. Í þessari tillögu er samþykkt að skoðaðir verði, með Fjölni og fleiri aðilum valkostir varðandi bætta aðstöðu vegna knattspyrnumála í Grafarvogi. Fyrir liggja hugmyndir félagsins um bætta aðstöðu við Dalhús eða Egilshöll sem nauðsynlegt er að rýna áður en ákvörðun um framhald verður tekin.“


Jóladagatal KND Fjölnis 2020

Jóladagatal KND Fjölnis 2020

Knattspyrnudeild Fjölnis er komin í jólaskap og hefur sölu á „rafrænum“ jóladagatölum í dag til að telja saman niður í jólin!

Jóladagatalið virkar einfaldlega eins og happdrætti en fólk fær úthlutað númeri fyrir 1. des í tölvupósti við kaup. Það eru 24 flottir vinningar í boði að heildarverðmæti 326.860 kr. Vinningar eru dregnir út sunnudagana 6., 13. og 20. desember og keyrðir heim að dyrum til vinningshafa.

Hægt er að styrkja deildina með kaupum á rafrænu jóladagatali með því að smella hér

Greiðsluupplýsingar eru eftirfarandi: (Þessar upplýsingar koma einnig fram í sölulinknum)

Rkn: 0114-05-060968
Kt: 631288-7589
Senda kvittun á 1×2@fjolnir.is 

Við hvetjum alla til að styðja við öflugt starf deildarinnar með kaupum á jóladagatali. Þinn stuðningur skiptir máli.

Áfram Fjölnir!  #FélagiðOkkar


Hugleiðingar markaðsfulltrúa

Höfundur starfar sem markaðsfulltrúi Fjölnis.

Kæru Grafarvogsbúar,

Mig langar að segja ykkur frá frábærum viðburði sem við munum standa fyrir laugardaginn 28. nóvember. Fyrst ætla ég aðeins að þræða söguna.

Það er eflaust sagan endalausa að íþróttafélög þurfi að leita til fólksins í hverfinu. Starfið stendur og fellur með dulegum sjálfboðaliðum hvort sem er í stjórnar- og/eða nefndarstörfum eða þjálfun barnanna okkar. Foreldrar eru svo annar angi en öflugt foreldrastarf skilar sér beint til iðkenda. En í þessu starfi myndast einnig mikil vinátta, alveg eins og gerist í skóla eða vinnu. Það er því gríðarlega dýrmætt að gefa af sér til hverfisfélagsins.

Ég er uppalinn Grafarvogsbúi og Fjölnismaður, í húð og hár og geri mér grein fyrir að það eru ekki allir sem dýrka og dá hverfisfélagið eða hafa áhuga á að koma að starfinu öðruvísi en að vera foreldri eða einfaldlega íbúi í hverfinu. Enn fremur reyni ég eftir fremsta megni að virða afstöðu þeirra sem hafa engan áhuga á starfi hverfisfélagsins en það er oft erfitt að hugsa út fyrir íþróttabúbbluna 😅😅

Nú sjáum við vonandi fyrir endann á veirunni og það er mjög gleðilegt að starfið sé farið af stað, þó ekki að fullu. Það skiptir bara öllu máli að sjá líf og fjör í Egilshöll og Dalhúsum og þannig viljum við hafa það.

———————

Ef við komum okkur svo að tilgangi og markmiði færslunnar þá höfum við seinustu 2 ár lagt mikið upp úr því að nýta tæknina, kynna félagið vel á miðlunum okkar og láta hverfið vita hvað sé á döfinni. Við erum stórt og flott hverfi sem hefur allar burði til að vera hverfi sem styður óendanlega vel við hverfisfélagið sitt, hvort sem er í formi sjálboðaliða, foreldra, iðkenda eða áhorfenda á leikjum, mótum og viðburðum.

Þorrablótið hefur fest sig rækilega í sessi og við getum hreinlega ekki beðið eftir því að hitta ykkur í troðfullum sal í stanslausu stuði. Í framhaldi af árangri þorrablótsins höfum við verið að byggja upp októberfest sem annan af stóru viðburðum félagsins ár hvert. Við gerum okkur grein fyrir því að það mun taka tíma og í ár erum við að standa frammi fyrir stærstu mögulegu hindrun, þ.e við getum ekki haldið fisískan viðburð. Það tókst mjög vel til í fyrra, sem var fyrsta útgáfan af svokölluðu októberfesti. Þetta er viðburður sem hefur alla möguleika til að sameina hverfið, sannkallaður hverfisviðburður. Frábær matur, góð tónlist og stanslaust stuð! Við getum ekki beðið um meira, eða hvað?

Ég vil með þessari færslu hvetja ykkur, kæru Grafarvogsbúar, til að kaupa miða á rafræna októberfestið okkar og styðja við áframhaldandi öflugt starf hverfisfélagsins.

Innifalið í 5.000 kr miðaverði á mann er:

  • Matur heim að dyrum frá Múlakaffi
  • Beint streymi frá frábærum tónleikum með Magna í Á móti sól og fleiri frábærum tónlistarmönnum

Allt fyrir #FélagiðOkkar 💛
Arnór Ásgeirsson


Handboltinn aftur af stað !

Samkvæmt reglugerð heilbrigðisráðherra frá því á föstudaginn mun handboltastarf Fjölnis hjá krökkum og unglingum fæddum 2005 og síðar hefjast á miðvikudaginn. Það eru mikil gleðitíðindi !

Allir iðkendur í 4. - 8.flokki karla og kvenna geta því mætt aftur á æfingar. Allir þjálfarar hafa sett inn færslur inn í facebook-hópa hjá flokkunum sínum um æfingabyrjunina en einnig kemur nákvæm dagskrá inn í XPS.

Við vonum að allir krakkarnir sem æfðu hjá okkur fyrir æfingabannið mæti til baka og fleiri til enda frábært starf sem unnið er hjá deildinni. Allar upplýsingar um starfið er hægt að finna á heimasíðu Fjölnis, fjolnir.is en einnig er hægt að senda tölvupóst á handbolti@fjolnir.is ef frekari upplýsinga er þörf.

Engir klefar verða í boði, þannig að iðkendur geta geymt fötin sín við veggina í íþróttahúsunum. Inngangurinn inn í Fjölnishöllina er að aftan (austanmegin).

Sjáumst í handbolta, áfram Fjölnir !


Aftur út á völl

Það hefur heldur betur reynt á þolrif okkar í kjölfar Covid-19 og óhætt að segja að flest erum við orðin langþreytt á þeim hömlum sem hafa verið í samfélaginu í kjölfar þess. Öll erum við sammála um mikilvægi sóttvarnareglna og tilskipana, og við skulum fylgja þeim í einu og öllu, en mikið verður það gott þegar daglegt líf verður aftur sem líkast því sem gerðist á Covid lausum tímum hér áður.

Knattspyrnudeild Fjölnis ákvað fyrr á árinu að blása enn frekari vind í seglin með endurskipulagningu starfsins sem fól meðal annars í sér að fjölga yfirþjálfurum úr einum í tvo sem og að bæta og styrkja innviði starfsins. Því miður hefur skráður iðkendafjöldi fallið umtalsvert frá fyrri árum í kjölfar Covid-19 og það ekki bara í fótboltanum heldur einnig öðrum greinum. Það er ekkert launungamál að slík fækkun er heilmikið högg fyrir deildina og áhyggjuefni útaf fyrir sig en mestar áhyggjur höfum við af krökkunum sjálfum.

Mikilvægi íþrótta er óumdeilt bæði fyrir líkamlega-, andlega- og félagslega vellíðan svo ekki sé minnst á forvarnargildið. Mikilvægt er að við sem foreldrar, forráðamenn og samfélag missum ekki þessa krakka alfarið úr íþróttum.

Þeir krakkar sem eru að æfa hafa fengið heimaæfingar frá sínum þjálfurum og haldnir hafa verið viðburðir á netinu t.d. Kahoot spurningakeppni og fyrirlestrar svo eitthvað sé nefnt. Þjálfarar og starfsfólk Fjölnis hefur gert sitt best og reynt að halda uppi starfinu þrátt fyrir takmarkanir og hafa ýmsar nýjungar og skemmtilegar hugmyndir litið dagsins ljós.

Hvet alla krakka til að vera dugleg að fara út og hreyfa sig, hvet foreldra og forráðamenn að reima á sig skóna og taka þátt í æfingum og endilega skrá iðkendur til leiks svo þeir geti fengið sent heimaæfingar og tekið þátt í þeim viðburðum sem haldnir eru á vegum flokkana í netheimum.

Um leið og gefið er grænt ljós á að æfa aftur í hópum þá getum við ekki beðið eftir að komast aftur út á völl en þangað til munum við áfram nýta við öll þau tæki og tól sem við höfum í þágu iðkenda félagsins okkar.

#FélagiðOkkar

Sævar Reykjalín
Formaður Barna- og unglingaráðs knattspyrnudeildar Fjölnis


Leiðbeiningar vegna tilslakana á samkomutakmörkunum

Uppfært 16.11.2020 kl. 16:00:

Samkvæmt nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra sem tekur gildi frá og með miðvikudeginum 18. nóvember er íþróttastarf barna fædd 2005 og síðar (15 ára og yngri) heimilað.

Við beinum því til allra deilda að setja starfið á fullt aftur samkvæmt æfingatöflu.

Strætófylgdin fer af stað með hefbundnum hætti samhliða æfingum.

Hér má finna nánari útlistun á reglugerðinni

Ný reglugerð er í gildi frá og með 18. nóvember til og með 1. desember.

Hvaða áhrif hefur þetta á okkur?

  • Æfingar heimilar hjá iðkendum fædd 2005 og síðar (15 ára og eldri)
  • Æfingar óheimilar hjá iðkendum fædd 2004 og fyrr (16 ára og eldri)
  • Starfsfólk skrifstofu er ýmist að vinna í Egilshöll eða að heiman. Vinsamlega hafið beint samband við viðkomandi starfsmann ef þið þurfið að mæla ykkur mót.
    o Netföng starfsfólks: https://fjolnir.is/felagid-okkar/skrifstofa/
  • Þær deildir sem óska eftir fundaraðstöðu eru beðnar að hafa samband við Arnór á arnor@fjolnir.is.
  • Gengið inn í Egilshöll:
    • Handbolti og karfa inn austan megin
    • Aðrar deildir notast við aðalinngang

Við erum #FélagiðOkkar


Fjölnir semur við efnilega leikmenn fyrir framtíðina

Fjórir ungir og efnilegir knattspyrnumenn skrifuðu undir samning við knattspyrnudeild Fjölnis á dögunum. Þetta eru þeir Baldvin Þór Berndsen, Alexander Aron Tómasson, Kristófer Dagur Arnarsson og Júlíus Mar Júlíusson. Allir þessir drengir koma úr sterkum 2004 árgangi Fjölnis sem náði eftirtektar verðum árangri með 3.fl karla á liðnu keppnistímabili, liðið varð bikarmeistari og enduðu í 2. sæti á Íslandsmóti. Fjölnir bindur miklar vonir við að þessir leikmenn taki skrefið uppí meistaraflokk félagsins á komandi árum og eigi bjarta framtíð hjá félaginu.

Ljósmynd / Baldvin Berndsen: frá hægri Baldvin Þór, Alexander Aron, Kristófer Dagur og Júlíus Mar, ásamt Gunnari Má yfirþjálfara yngri flokka karla.


Ekki missa af Októberfest Grafarvogs í beinni til þín

Kæru Grafarvogsbúar,

Nú er kominn tími til að lyfta sér upp með öruggum hætti. Við höfum tekið höndum saman í samvinnu með Sonik, Keiluhöllinni Egilshöll, Ölgerðinni og Múlakaffi.

Við ætlum að halda Októberfest Grafarvogs laugardaginn 28. nóvember á milli klukkan 20 og 23. Við byrjum á skemmtilegri Kahoot! spurningakeppni þar sem öll fjölskyldan getur tekið þátt. Síðan á milli klukkan 21 og 23 verður brjálað partý með Magna í Á móti sól og hans vinum. Þetta verður allt gagnvirkt þannig að þið getið sent inn og fengið ykkar óskalög. Kaupendur fá aðgang að læstri vefslóð.

Boðið verður upp á stórglæsilegan partýmat frá Múlakaffi sem verður keyrður heim til ykkar á milli klukkan 19 og 20. Valin partý verða heimsótt og sendum við beint út þaðan. Þú getur nálgast matseðilinn HÉR.

Þessu verður öllu streymt beint frá Shake & Pizza heim í stofu til ykkar – Óvænt skemmtiatriði verða í boði.

Miðaverð er aðeins 5.000 kr. á mann og er allt að ofan innifalið.

Miðasala á vidburdir@fjolnir.is

Nú er um að gera fyrir fjölskylduna eða vinahópana að sameinast með okkur með öruggum hætti þetta kvöld og gera þetta að ógleymanlegu kvöldi. Já og auðvitað þurfa allir að muna eftir að fara í októberfest fötin ef við skyldum kíkja í heimsókn til ykkar.

Nánari upplýsingar veitir Arnór Ásgeirsson á arnor@fjolnir.is.

#FélagiðOkkar


Baldur Sigurðsson í Fjölni

Knatt­spyrnumaður­inn Bald­ur Sig­urðsson er orðinn leikmaður Fjölnis og hef­ur skrifað und­ir samn­ing við fé­lagið. Hann mun gegna hlutverki spilandi aðstoðarþjálfara og tekur þar við hlutverki Gunnars Más sem er hér með þakkað kærlega fyrir allt sitt góða starf í þágu meistaraflokks karla undanfarin ár – en Gunni heldur vitanlega áfram störfum hjá félaginu sem yfirþjálfari yngri flokka karla.

Bald­ur, sem er 35 ára, er Mý­vetn­ing­ur að upp­lagi og lék fyrstu ár sín í meist­ara­flokki með Völsungi á Húsa­vík. Hann kem­ur til okkar frá FH en þar áður hafði hann m.a. spilað með Stjörnunni, KR, Keflavík, í Danmörku og í Noregi. Bald­ur hefur orðið 2x Íslandsmeistari, 5x bikarmeistari og leikið 3 A-lands­leiki.

Bald­ur hef­ur alls leikið yfir 430 KSÍ leiki og skorað í þeim 100 mörk. Hann er jafnframt einn leikja­hæsti leikmaður efstu deild­ar­ frá upp­hafi.

Á einni af myndunum má sjá þjálfarateymi meistaraflokks karla á komandi tímabili – þ.e. reynsluboltarnir Ásmundur Arnarsson og Gunnar Sigurðsson auk Baldurs.

Knattspyrnudeild Fjölnis býður Baldur hjartanlega velkominn í #FélagiðOkkar