Dagskrá og keppnisröð Kristalsmóts

Kristalsmótið verður haldið á skautasvellinu í Egilshöll laugardaginn 19. október frá kl. 7:20-13:40.

Hér má sjá dagskrá og keppnisröð mótsins.


Skráning á Kristalsmótið

Kristalsmótið verður haldið á skautasvellinu í Egilshöll helgina 19. - 20. október. Skráningu á mótið lýkur þann 11. október en allar upplýsingar um mótið má finna í mótstilkynningunni.


Ráðning skautaþjálfara

Svetlana Akhmerova hefur verið ráðin til að þjálfa framhaldshópa listhlaupadeildar Fjölnis. Hún kemur frá Rússlandi, er 42 ára og hefur 18 ára reynslu sem skautaþjálfari. Svetlana hefur starfað sem skautaþjálfari og yfirþjálfari og unnið með skauturum á ýmsu getustigi, allt frá byrjendum að lengra komnum skauturum. Hún hefur víðtæka reynslu sem skautaþjálfari og hefur starfað í Svíþjóð, Rússlandi, Suður Afríku, Indlandi og Íslandi. Svetlana er með skautaþjálfaramenntun frá Rússlandi. Hún tók þátt á ýmsum innlendum og alþjóðlegum mótum, var í landsliði Rússlands frá 1994-1996 og var nokkrum sinnum St. Petersburg meistari. Eftir að hún hætti keppni þá tók hún þátt í íssýningum í fjögur ár áður en hún snéri sér alfarið að skautaþjálfun.

Einnig er deildin búin að ráða Sif Stefánsdóttur sem yfirþjálfara Skautaskólans. Hún er 24 ára og var skautaþjálfari hjá Öspinni síðastliðinn vetur og í sumar var hún að þjálfa í sumarbúðum Skautaskóla Fjölnis. Sif æfði skauta þegar hún var yngri og um tvítugt byrjaði hún aftur að æfa skauta eftir hlé. Hún hefur lokið almennu þjálfaranámskeiði hjá ÍSÍ, skyndihjálparnámskeiði Rauða Krossins og stundar jógakennaranám hjá Eden Yoga ásamt því að stunda nám við Myndlistaskólann í Reykjavík.


Vormót 2019

Síðasta mót ÍSS á þessu keppnistímabili stendur nú yfir í Laugardalnum. Allir keppendur Fjölnis á mótinu hafa nú lokið keppni. Sunneva Daníelsdóttir kom fyrst keppenda í flokki Chicks inn á ísinn og í fyrsta upphitunarflokki Cubs voru þær Brynja Árnadóttir, Elva Ísey Hlynsdóttir, Emelíana Ósk Smáradóttir og Weronika Komendera. Ekki voru veitt verðlaun í flokkum Chicks og Cubs en allar fengu þær viðurkenningu fyrir þátttöku á mótinu. Þess ber að geta að þessar stelpur hafa tekið miklum framförum í vetur. Því næst var keppt í flokki Basic Novice en þar voru þær Tanja Rut Guðmundsdóttir í 5. sæti með 24,00 stig og Sara Kristín Pedersen í 6. sæti með 23,25 stig sem eru persónuleg stigamet hjá þeim báðum. Frábær árangur hjá þessum ungu stelpum.