Sex nýir handhafar gullmerkis Fjölnis
Aðalfundur félagsins var haldinn þriðjudaginn 8. apríl 2025 í Miðjunni í Egilshöll. Þar kom saman fjölmennur hópur félagsmanna. Á fundinum voru veitt sex ný gullmerki til félagsmanna Fjölnis.
Í reglugerð um veitingu viðurkenninga segir „Gullmerkið er viðurkenning félagsins, sem veita má þeim sem starfað hafa í stjórnum í 10 ár eða lengur, eða hafa með öðrum hætti unnið vel og dyggilega fyrir félagið. Merkið er einnig veitt fyrir sérstök íþróttaafrek.“
Ungmennafélagið Fjölnir óskar öllum gullmerkishöfum innilega til hamingju!
Gullmerki nr. 42 hlýtur María Baldursdóttir (karatedeild)
María Baldursdóttir er fyrrverandi formaður Karatedeildar Fjölnis og hóf fyrst þátttöku í starfi deildarinnar, eins og svo mörg önnur, með því að fylgja börnunum sínum á æfingar. Fljótlega tók hún virkari þátt með því að setjast í stjórn deildarinnar og gegndi formennsku um árabil.
Þegar drengurinn hennar lét af iðkun íþróttarinnar var María þó ekki af baki dottin heldur tók að sér nýtt hlutverk. Fyrir hönd Karatedeildar Fjölnis settist hún í stjórn Karatesambands Íslands og tók þar að sér eitt streitufyllsta og vanþakklátasta hlutverk hreyfingarinnar – formennsku í mótanefnd. Í því hlutverki stýrði hún mótahaldi í níu ár og bar ábyrgð á öllum mótum, bæði smærri mótum Karatesambandsins og á stærri alþjóðlegum mótum eins og Norðurlandameistaramótum og Smáþjóðaleikum.
Íþróttahreyfingin byggist á sjálfboðaliðum, og þar er Karatedeild Fjölnis engin undantekning. Okkar heppni hefur verið að eiga einstaklinga eins og Maríu, sem með óeigingjörnu starfi sínu hefur lagt grunn að öflugri og sjálfbærri starfsemi. #TakkMæja
María hlaut silfurmerki félagsins nr. 151 árið 2017 og hlýtur nú gullmerki nr. 42.
Gullmerki nr. 43 hlýtur Snæbjörn Willemsson Verheul (karatedeild)
Snæbjörn byrjaði að æfa karate í janúar 2004 og hefur því verið viðloðandi Karatedeild Fjölnis í 21 ár. Hann hóf fljótlega að keppa fyrir hönd deildarinnar og náði fljótlega góðum árangri. Hann var alltaf í verðlaunasætum í bæði kata og kumite þangað til að hann hætti keppnisþátttöku árið 2011. En á þeim tíma tók hann, meðal annars, þátt í tveimur heimsmeistaramótum sem haldin voru á vegum Kobe Osaka International sambandsins.
Hann hóf fljótt að aðstoða við þjálfun og starfar í dag sem aðstoðaryfirþjálfari deildarinnar. Hann menntaði sig sem styrktarþjálfari og býður framhaldshópum og afrekshópum sérsniðina styrktarþjálfun.
Snæbjörn hefur verið dómari fyrir hönd Fjölnis á mótum innanlands og erlendis og sat á tímabili í stjórn deildarinnar sem fulltrúi yngri iðkenda.
Snæbjörn hlaut silfurmerki félagsins nr. 168 árið 2019 og hlýtur nú gullmerki nr. 43.
Gullmerki nr. 44 hlýtur Ágúst Jónsson (frjálsíþróttadeild)
Ágúst kom inn í starf frjálsíþróttadeildarinnar fyrst fyrir um það bil 13 árum síðan, fyrst sem sjálfboðaliði og síðar sem stjórnarmaður. Hann hefur frá fyrsta degi verið mjög virkur, sá um tímatökur fyrir deildina frá fyrsta degi og allt þangað til tímataka.is tók við allri tímatöku fyrir 4-5 árum síðan. Fljótlega eftir að Ágúst kom að starfi deildarinnar tók hann að sér að halda utan um teppalagnir í Laugardagshöllinni fyrir deildina og hefur stýrt því með miklum sóma.
Ágúst var forsprakki hópsins „fullorðins frjálsar“ sem fór í gang ca. 2017-18, og hefur verið okkar fremsti maður í öldungaflokki síðustu ár. Enn fremur hefur Ágúst verið einn ötulasti maður deildarinnar við að halda Fjölnishlaupinu gangandi í áraraðir og lagt mikla vinnu í það starf. Þá hefur Ágúst einnig unnið mikið fyrir FRÍ á vegum frjálsíþróttadeildarinnar.
Ágúst hefur verið sérlega ósérhlífinn og duglegur við öll störf sem koma að rekstri frjálsíþróttadeildar Fjölnis og mótahaldi á umliðnum árum. Hann lét af störfum í stjórn frjálsíþróttadeildar nú á dögunum en við vonumst nú til að hafa hann á hliðarlínunni áfram.
Ágúst hlaut silfurmerki félagsins nr. 196 árið 2022 og hlýtur nú gullmerki nr. 44.
Gullmerki nr. 45 hlýtur Guðlaug Björk Karlsdóttir (aðalstjórn)
Guðlaug gekk til liðs við stjórn Körfuknattleiksdeildar Fjölnis árið 2013 og gegndi þar lykilhlutverki í áratug. Hún var formaður deildarinnar á árunum 2016–2020 og sinnti á þeim tíma fjölbreyttum verkefnum af miklum metnaði og drifkrafti.
Guðlaug var óþreytandi við að efla starf deildarinnar, virkja fólk í kringum sig og hvetja til þátttöku og umræðu innan stjórnar.
Í hennar formannstíð voru m.a. haldin dómaranámskeið fyrir iðkendur og foreldra, komið á styrktarþjálfun fyrir stúlkur í körfubolta og boðið upp á morgunæfingar fyrir yngri iðkendur. Hún stóð einnig fyrir sumarnámskeiðum með landsliðsfólki, svokölluðum Körfuboltabúðum Fjölnis, sem Ægir Þór Steinarsson og Heiðrún Kristmundsdóttir stýrðu. Guðlaug hafði jafnframt frumkvæði að því að ráða Heiðrúnu í markaðsstarf með það að markmiði að fjölga iðkendum.
Þó Guðlaug hafi látið af formennsku deildarinnar árið 2020 hélt hún áfram að styðja stjórnina af miklum krafti og var í raun burðarás í fjármálum deildarinnar í heilan áratug. Hún lagði ríka áherslu á traust fjármál og sýndi það í verki. Þá stjórnaði hún Fjölnismótunum af mikilli prýði og fagmennsku.
Árið 2020 var Guðlaug kjörin í aðalstjórn félagsins þar sem hún hefur átt sæti síðan en nú hefur hún ákveðið að láta staðar numið og snúa sér að öðrum hugðarefnum.
Starf Guðlaugar er einstakt dæmi um elju, metnað og ómetanlegt sjálfboðastarf í þágu íþróttastarfs – og fyrir það viljum við þakka henni af heilum hug.
Guðlaug hlaut silfurmerki félagsins nr. 181 árið 2019 og hlýtur nú gullmerki nr. 45.
Gullmerki nr. 46 hlýtur Guðmundur Lúðvík Gunnarsson (aðalstjórn)
Guðmundur Lúðvík, eða Gummi eins og við flest þekkjum hann settist fyrst í aðalstjórn Fjölnis árið 2008 en var síðar ráðinn framkvæmdastjóri félagsins og gengdi því hlutverki í rúm 13 ár eða þar til hann lét af störfum undir lok síðasta árs.
Það er ærið verkefni að stýra einu stærsta íþróttafélagi landsins og hefur félagið gengið í gegnum gríðarlegar breytingar frá þeim tíma þegar hann tók við stjórnartaumunum. Eitt það stærsta er eflaust að árið 2007 var ákveðið að fara í þá vegferð að færa alla daglega fjársýslu deilda af deildarstjórnum (sjálfboðaliðum) og létta þar með ábyrgðinni af þeim inn á miðlæga skrifstofu þar sem daglegum rekstri er stýrt í dag. Árið 2011 þegar Gummi tók við sem framkvæmdastjóri bretti hann upp ermarnar ásamt aðalstjórn félagsins með
formanninn Jón Karl í broddi fylkingar og keyrði þessar breytingar í gegn sem voru komnar af stað en félaginu vantaði kraft til að klára.
Auk þess hefur félagið stækkað mikið á þessum tíma, bæði hefur deildum fjölgað en ekki hvað síst hefur iðkendum fjölgað mikið með sífellt betri aðstöðu.
Það lýsir Gumma líklega best að hann er ófeiminn við að takast á við verkefni bæði stór sem smá, engin verkefni of lítil eða ómerkileg til að skella sér í þau. Hann er afar bóngóður til allskyns verkefna og hefur hann alla tíð sinnt félaginu einnig sem sjálfboðaliði því að börn þeirra hjónanna hafa í gegnum tíðina verið iðkendur hjá félaginu og sjálfboðaliðavinnunni í kringum það hefur Gummi einnig viljað sinna.
Fjölnir á Gumma gríðarlega mikið að þakka, hann hefur unnið ófáar klukkustundirnar, jafnt um kvöld sem og um helgar til að sinna því sem sinna þarf hjá stóru félagið. Takk fyrir allt Gummi.
Guðmundur hlaut silfurmerki félagsins nr. 134 árið 2015 og hlýtur nú gullmerki nr. 46.

Gullmerki nr. 47 hlýtur Málfríður Sigurhansdóttir (aðalstjórn)
Allir sem á einhverjum tímapunkti síðustu 20 ár hafa komið að einhverju sjálfboðaliðastarfi fyrir Fjölni vita hver Fríða er auk alls þess aragrúa iðkenda, foreldra og annarra forráðamanna sem hafa kynnst henni í gegnum árin.
Það má segja að Fríða sé eiginlega búin að vera hjartað í félaginu mörg undanfarin ár. Hún hóf sinn „feril“ sem sjálfboðaliði fyrir Fjölni á síðustu öld, já líklega einhvern tímann í kringum 1997 var hún byrjuð að koma að starfi félagsins og átti síðar eftir að sitja í deildarstjórnum og um tíma sem formaður sunddeildarinnar. Árið 2007 varð félagið svo þeirrar gæfu aðnjótandi að ráða hana til starfa hjá félaginu þar sem hún hefur starfað óslitið síðan eða í rúm 17 ár.
Það er eiginlega þannig að ef Fríða veit það ekki þá veit það enginn ef spurt er um hvernig hlutirnir eru gerðir eða hafa verið gerðir á umliðnum árum hjá félaginu. Fríða er með eindæmum bóngóð, alltaf svo yfirveguð og jákvæð að unun er með að fylgjast. Hvort sem beiðnirnar eru stórar eða smáar þá má alltaf redda því, ég held hreinlega að annað sé ekki til í orðabók Fríðu.
Fríða hefur eins og gefur að skilja á þessum langa tíma fylgt félaginu í gegnum gríðarmiklar breytingar og ávallt hefur hún tekist á við ný verkefni, nýja tækni, nýjar nálganir með bjartsýni og vilja til að læra og takast á við nýja hluti.
Það kemur því ekkert á óvart að hún sé enn tilbúin að takast á við nýja hluti en svo háttar til að hún mun á næstu vikum hverfa frá störfum á skrifstofu Fjölnis og takast á við ný og spennandi verkefni.
Það verður risaskarð að fylla í sporin hennar Fríðu en hún býr nú ennþá hérna hinum megin við götuna og ég hef fulla trú á að hún verði okkar áfram innan handar svona óbeint í það minnsta því Fjölniskona er hún eins og þær gerast bestar.
Málfríður hlaut silfurmerki félagsins nr. 43 árið 2004, var valin Fjölnismaður ársins 2010 og hlýtur nú gullmerki nr. 47.