Fimm nýir heiðursfélagar Fjölnis

Aðalfundur félagsins var haldinn þriðjudaginn 8. apríl 2025 í Miðjunni í Egilshöll. Þar kom saman fjölmennur hópur félagsmanna. Á fundinum bættust fimm einstaklingar í hóp þeirra heiðursfélaga sem fyrir eru.

Í reglugerð um veitingu viðurkenninga segir um heiðursfélaga: „Heiðursfélagi er næst æðsta viðurkenning sem veitt er til almennra félagsmanna. Hana má veita til þeirra, sem starfað hafa vel og dyggilega fyrir félagið í 20 ár eða lengur. Tilnefningar um heiðursfélaga þurfa að hafa stuðning a.m.k. 3 einstaklinga frá aðalstjórn og hið minnsta 2 deildum félagsins. Tilnefningar skulu berast skriflega til aðalstjórnar eigi síðar en 4 vikum fyrir aðalfund. Tilnefningar skal bera undir sameiginlegan fund aðalstjórnar og formanna deilda félagsins og eru aðeins samþykktar ef a.m.k. 4/5 hluti þeirra sem mæta á fundinn eru sammála niðurstöðunni.”

Fundur fulltrúa aðalstjórnar með fulltrúum deilda var haldinn þann 2. apríl sl. þar sem farið var yfir framkomnar tilnefningar og þær allar samþykktar samhljóða.

Ungmennafélagið Fjölnir óskar nýjum heiðurfélögum innilega til hamingju!

 

Heiðursfélagi nr. 5 – Helgi Árnason

Árið 2004 stofnaði Helgi skákdeild Fjölnis og var jafnframt fyrsti formaður deildarinnar og er það enn. Auk þess að vera formaður deildarinnar í þessi 21 ár sem deildin hefur starfað hefur hann jafnframt verið þjálfari. Raunar hóf hann skákkennslu í Grafarvogi árið 1993 þegar Rimaskóli var stofnaður en Helgi var skólastjóri Rimaskóla frá stofnun skólans 1993 til ársins 2019 og hefur skákin verið eitt af flaggskipum skólans.

Helgi hefur sýnt skákinni og skákdeildinni endalausa virðingu og elju. Deildin hefur alið ófáa afreksmennina í gegnum árin og vakið mikla athygli sem samtenging milli skólaskákar og keppnisskákar. Þess má geta að síðustu tvö árin hefur deildin orðið Íslandsmeistari skákfélaga í úrvalsdeild með fullu húsi stiga bæði árin.

Það hafa aldrei verið æfingagjöld hjá deildinni heldur hefur Helgi verið afskaplega duglegur að sækja styrki til að reka deildina. Hann hefur einnig lagt mikla áherslu á að skákin sé fyrir alla og að öll kyn séu jafn velkomin í skák. Þá hefur Helgi skipulagt og stýrt fjölmörgum skákmótum sem félaginu hefur verið falið að halda á þessum árum.

Frá upphafi skákdeildarinnar hefur deildin alla tíð haft aðstöðu í Rimaskóla fyrir æfingar og sem skólastjóri var Helgi alltaf tilbúinn að greiða götu félagsins og deilda þess með aðstöðu ef þess var nokkur kostur.

Helgi hlaut silfurmerki nr. 63 árið 2005 og gullmerki nr. 23 árið 2018. Þá var Helgi valinn Fjölnismaður ársins árið 2011 og er nú hér með heiðursfélagi Fjölnis nr. 5.

Kærar þakkir fyrir öll þín mikilvægu störf fyrir félagið Helgi og við hlökkum til að starfa með þér áfram.

 

Heiðursfélagi nr. 6 – Hreinn Ólafsson

Hreinn er líklega einn af lengst starfandi sjálfboðaliðum félagsins en hann hóf störf fyrir frjálsíþróttadeildina á fimmta aldursári félagsins, eða árið 1993 – fyrir 32 árum.

Í deildinni starfaði hann samfleytt í stjórn eða varastjórn í 30 ár og sinnti þar margvíslegum hlutverkum og alls konar verkefnum. Árið 1998 þegar 3. unglingalandsmót UMFÍ var haldið í Grafarvogi var Hreinn sem dæmi formaður unglingalandsmótsnefndar. Hreinn er afskaplega yfirvegaður maður, viljugur og lausnamiðaður sem oft hefur komið sér vel í störfum félagsins. Hann er ætíð boðinn og búinn að aðstoða við mótahald og annað það sem til fellur í störfum félagsins og er hann einn af þeim frábæru sjálfboðaliðum sem halda áfram að starfa fyrir félagið þrátt fyrir að börn hans séu vaxin úr grasi og ekki lengur iðkendur hjá félaginu. Auk þess að sinna frjálsíþróttadeildinni í öll þessi ár átti Hreinn einnig sæti í aðalstjórn Fjölnis á árunum 2018-2024 og reyndist hann þar líkt og í öðrum störfum fyrir félagið ráðagóður félagi sem þekkir starf félagsins afskaplega vel.

Hreinn hlaut silfurmerki nr. 8 árið 2000 og gullmerki nr. 18 árið 2015 og er nú hér með heiðursfélagi Fjölnis nr. 6.

 

Heiðursfélagi nr. 7 – Kári Arnórsson

Kári byrjaði eins og flestir sjálfboðaliðar á því að fylgja drengjunum sínum eftir í íþróttunum. Á meðan þeir voru í knattspyrnu sat Kári í flestum foreldraráðum, var liðstjóri og kom að öllu sem sneri að utanumhaldi við rekstur viðkomandi flokka. Þá hefur Kári setið árum saman í stjórn knattspyrnudeildar og hefur gengt þar ýmsum hlutverkum.

Kári hefur jafnframt verið liðstjóri meistaraflokks karla samfleytt frá árinu 2009 og hefur því verið fleygt að líklega er hann „leikjahæstur“ þ.e. skráður á flestar leikskýrslur í mfl. karla í knattspyrnu hjá Fjölni en hann hefur nánast verið á öllum leikjum liðsins allt frá árinu 2009, auk þess að hafa farið flestar æfingaferðir með liðinu.

Það er ekki nóg með að vera sjálfboðaliði í stjórn og liðstjórn heldur hefur Kári verið algjör lykilmaður í öllum framkvæmdum er varða aðalvöll Fjölnis í Dalhúsum, hvort sem um er að ræða byggingu varamannaskýla, aðstöðu fyrir fjölmiðla, byggingu á palli fyrir veitingarekstur, uppsetningu á skiltum og o.s.frv. Einnig stýrði hann framkvæmdum við gerð glæsilegra búningsklefa fyrir meistaraflokk kvenna og karla í Egilshöll. Það liggja því eftir hann ófá handtökin fyrir félagið en fyrir utan allan þann tíma sem hann hefur gefið félaginu í formi vinnu sinnar, sem og sinna starfsmanna, hefur hann einnig útvegað félaginu allskyns efni sem notað hefur verið í framkvæmdir.

Þessu til viðbótar sá Kári um getraunastarf félagsins í fjölda ára og er enn einn þeirra sem alltaf mætir og tekur þátt. Það er því óhætt að segja að Kári sé alltaf boðinn og búinn að koma að öllu því sem viðkemur sjálfboðaliðastarfi Fjölnis.

Kári hlaut silfurmerki nr. 58 árið 2005 og gullmerki nr. 16 árið 2012. Þá var Kári valinn Fjölnismaður ársins árið 2006 og er nú hér með heiðursfélagi Fjölnis nr. 7.

Kærar þakkir fyrir öll þín mikilvægu störf fyrir félagið Kári og við hlökkum til að starfa með þér áfram.

 

Heiðursfélagi nr. 8 – Valborg Guðrún Guðjónsdóttir og heiðursfélagi nr. 9 – Willem Cornelius Verheul

Það er vart hægt að tala um annað þeirra hjóna án þess að nefna hitt – enda hafa þau verið óaðskiljanleg í starfi Karatedeildar Fjölnis í á þriðja áratug. Af þeirri ástæðu er okkur sannur heiður að gera þau að heiðursfélögum Fjölnis fyrir ómetanlegt og óeigingjarnt framlag sitt til íþróttarinnar, deildarinnar og félagsins.

Það er oft talað um að ein krafan til þeirra sem sækjast eftir Dan gráðun (svarta beltið) í karate sé að þau verði að gefa til baka til íþróttarinnar. Fá hafa lagt sig jafn mikið fram um að gera slíkt eins og þau Valborg og Willem.

Án þeirra, ræki Karatedeild Fjölnis einfaldlega ekki þá öflugu starfsemi sem raun ber vitni. Þau hafa lagt ómælda vinnu í uppbyggingu deildarinnar, hvort sem það er í þjálfun, stjórnarsetu, liðsstjórn eða dómgæslu. Öll þeirra börn hafa stundað karate, og sjálf hafa þau gengið í öll möguleg ábyrgðarhlutverk – jafnan oftar en einu sinni.

Það er erfitt fyrir utanaðkomandi að átta sig á því hversu dýrmæt þau eru fyrir starfsemina, en fyrir okkur sem höfum notið eljusemi þeirra og eldmóðs er það augljóst. Kærar þakkir Willem og Valborg fyrir ykkar mikla og óeigingjarna starf í þágu félagsins í áraraðir – við hlökkum til að starfa með ykkur áfram.

Valborg hlaut silfurmerki nr. 123 árið 2014 og gullmerki nr. 27 árið 2018 og er nú eins og áður sagði hér með heiðursfélagi Fjölnis nr. 8.

Willem hlaut silfurmerki nr. 101 árið 2010 og gullmerki nr. 26 árið 2018 og er hér með heiðursfélagi Fjölnis nr.9.