Við sjáum um jólatréð!

Körfuknattleiksdeildin stendur að fjáröflun um helgina, 8. og 9. janúar þar sem iðkendur sækja jólatré heim að dyrum gegn 2.500 kr. gjaldi.

Fyllið út í skjalið viðeigandi upplýsingar, greiða þarf fyrir 7. janúar.

https://forms.gle/BnskedZTMahEjNWP8


Aukinn símatími í janúar

Ákveðið hefur verið að fjölga símatímum í janúar. Opið verður í símatíma mánudaga – fimmtudaga kl. 09:00-11:30.

Hægt er að ná í okkur í síma 578-2700.


Frítt skautanámskeið fyrir stráka

Í janúar verður í boði frítt skautanámskeið fyrir stráka á öllum aldri. Umsjón námskeiðsins verður í höndum Lars Davíðs Gunnarssonar, þjálfara listskautadeildarinnar. Lars æfði sjálfur skauta hjá okkur í mörg ár og hefur verið að þjálfa undanfarið.

Æfingar verða á miðvikudögum kl. 16:20-17:00. Fyrsta æfingin er 12. janúar og er námskeiðið 7 skipti og lýkur 23. febrúar.

Skráning á námskeiðið er hafin á fjolnir.felog.is

Æfingarnar fara fram á Skautasvellinu í Egilshöll sem er á annarri hæð hússins. Hægt er að fá lánaða skauta og hjálma í höllinni fyrir þá sem ekki eiga. Gott er að koma í hlýjum og teygjanlegum fötum, t.d. flísbuxum, flíspeysu, húfu/eyrnaband, koma skal með fingravettlinga. Best er að vera kominn um 15 mínútum fyrr til að hafa tíma til að klæða sig í skautana áður en tíminn hefst.


Skráning á vorönn hefst 1. janúar

Skráning á vortímabil hefst þann 1. janúar á fjolnir.felog.is og verður þá hægt að ráðstafa frístundastyrk fyrir árið 2022.

Þeir sem eiga eftir að klára að ganga frá skráningu og gjöldum á haustmisseri eru hvattir til að ganga frá því sem fyrst. Seinasti dagur til að ráðstafa frístundastyrk fyrir árið 2021 er 31. desember.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofa@fjolnir.is til að fá aðstoð við skráningu eða til að fá svör við fyrirspurnum.

Símatími í janúar verður mánudaga – fimmtudaga kl. 09:00-11:30.


Hlaupahópur Fjölnis óskar eftir þjálfara

Hlaupahópur Fjölnis í Grafarvogi hefur starfað í nær 30 ár. Hópurinn er öllum opinn og eru meðlimir hans á öllum aldri og á getustigi sem spannar allt frá frístundaskokkurum til afrekshlaupara. Hlaupahópurinn starfar innan frjálsíþróttadeildar Fjölnis.

Nú leitar frjálsíþróttadeildin að nýjum þjálfara (eða þjálfurum) sem er tilbúinn að leiða áframhaldandi starf hópsins og hefur metnað til frekari uppbyggingar og nýliðun hjá hópnum. Æskilegt er að viðkomandi hafi reynslu af þjálfun í langhlaupum auk þess að eiga auðvelt með mannleg samskipti. Kostur er að viðkomandi hafi menntun í íþrótta- og þjálfunarfræðum. Möguleiki er að tveir þjálfarar skipti með sér verkum. Gert er ráð fyrir þremur föstum æfingum á viku sem fela í sér hlaupaþjálfun auk styrktarþjálfunar. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.
Áhugasamir eru hvattir til að skila inn umsókn til formanns frjálsíþróttadeildar Fjölnis á netfangið: toggi@vov.is, sem fyrst. Ráðið verður í stöðuna eins fljótt og kostur er.

Nánari upplýsingar veita formaður frjálsíþróttadeildar Fjölnis; Þorgrímur Guðmundsson í síma 861 6131 eða í pósti toggi@vov.is og hjá meðlimi hlaupahópsins Bragi Birgisson sími 669-0888 (bragi.birgisson@gmail.com).


Jólavörur Fjölnis

Pöntunarblöð má finna hér

https://forms.office.com/r/1zVQ6rgin1

 

Pöntunarblað fyrir Fjölniskúluna má finna hér

https://forms.office.com/r/HW0Si4ZcbY


Uppskeruhátíð Fjölnis

Hin árlega Uppskeruhátíð Fjölnis fór fram þann 16. desember síðastliðinn þar sem afreksfólk deilda var heiðrað og jafnframt tilkynnt um val á Íþróttakonu- og karli ársins, sem og Fjölnismanni ársins. Athöfnin fór fram í Keiluhöllinni í Egilshöll og var einnig beint streymi fyrir þá sem heima sátu af Facebook síðu Fjölnis. Jón Karl, formaður félagsins setti athöfnina og fluttu systurnar og Fjölniskonurnar Auður og Hrafnhildur Árnadætur tónlistaratriði. Við þökkum Gunnari Jónatanssyni sérstaklega fyrir aðstoð sína við viðburðinn sem og ljósmyndurum Baldvini Erni Berndsen og Þorgils G.

Íþróttakona Fjölnis árið 2021 er Emma Sóldís Svan Hjördísardóttir
Íþróttakarl Fjölnis árið 2021 er Ólafur Ingi Styrmisson
Fjölnismaður ársins 2021 er Sarah Buckley

 

Við óskum afreksfólkinu okkar til hamingju með árangurinn og hlökkum til að fylgjast með þeim vaxa í nýjum verkefnum á komandi árum!

Í spilaranum hér fyrir ofan má sjá yfirferð ársins og viðtöl við íþróttafólkið okkar.

Fimleikadeild
Fimleikakona ársins: Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Lilja Katrín er ung fimleikakona í Fjölni. Lilja er okkar fremsta áhaldafimleikakona sem var að hefja keppni í frjálsum æfingum. Í ár var hún valin í úrvalshóp unglinga hjá Fimleikasambandi Íslands. Lilja var einnig valin í æfingahóp fyrir Norðurlandamót unglinga. Á Íslandsmóti unglinga varð Lilja Íslandsmeistari í 1. þrepi stúlkna 13 ára og yngri. Lilja á framtíðina fyrir sér og má búast við miklu af henni í framtíðinni.
Fimleikakarl ársins: Sigurður Ari Stefánsson
Sigurður Ari hefur verið einn af efnilegustu fimleikamönnum landsins í sínum aldursflokki í árabil. Nú í ár var Sigurður Ari valinn í tvö landsliðsverkefni á vegum Fimleikasambands Ísland. Berlin Cup og Norðurlandamót unglinga. Sigurður stóð sig vel í báðum verkefnunum. Á Norðurlandamótinu varð hann í öðru sæti með liði Íslands auk þess að hreppa brons verðlaun á bæði gólfi og stökki. Á Íslandsmótinu í áhaldafimleikum hafnaði Sigurður í öðru sæti í fjölþraut í unglingaflokki. Sigurður Ari er vaxandi fimleikamaður sem á framtíðina fyrir sér í áhaldafimleikum karla.

Frjálsíþróttadeild
Frjálsíþróttakona ársins: Helga Þóra Sigurjónsdóttir
Helga Þóra Sigurjónsdóttir hefur náð mjög góðum árangri í hástökki á árinu. Hún er 21 árs gömul og hefur æft frjálsar íþróttir frá 9 ára aldri. Hún er nú með bestu hástökkvurum á landinu í kvennaflokki. Hennar besta afrek 2021 er stökk yfir 1,71m á Meistaramóti Íslands 15-22 ára utanhúss, en sá árangur skilaði henni Íslandsmeistaratitli í aldursflokknum 20-22 ára og er annar besti árangur konu utanhúss á árinu. Sá árangur gefur 936 IAAF stig sem er frábær árangur. Hún stóð sig líka vel á Meistaramóti Íslands og á Stórmóti ÍR þar sem hún stökk 1,70. Þess má geta að Helga Þóra er líka góð í hlaupi en hún var í boðhlaupssveit Fjölnis í 4×400 m boðhlaupi á Meistaramóti Íslands og vann Íslandsmeistaratitil með sigri sveitarinnar. Helga Þóra er aðstoðarþjálfari yngstu iðkenda deildarinnar og hefur þjálfað í nokkur ár.
Frjálsíþróttakarl ársins: Bjarni Anton Theódórsson
Bjarni Anton er 23 ára gamall og hefur æft frjálsar íþróttir í fjöldamörg ár. Hann hefur einbeitt sér að styttri hlaupum og keppir aðallega í 200 og 400 m hlaupum og náð mjög góðum árangri. Á þessu ári hljóp hann best 400m á tímanum 49,83 sek á Meistaramóti Íslands. Sá árangur gefur 928 IAAF stig sem er frábær árangur. Þessi árangur setur hann í annað sæti á listann yfir bestu afrek í 400m hlaupi innanhúss á þessu ári. Hann hljóp einnig á mjög góðum tímum á Stórmóti ÍR og á Reykjavík International Games. Bjarni Anton var í boðhlaupssveit Fjölnis á Meistaramóti Íslands í 4×400 m boðhlaupi og vann Íslandsmeistaratitil með sigri sveitarinnar. Hann var valinn í landslið Íslands á Evrópubikar landsliða og keppti þar í 400 m hlaupi og 4×400 m boðhlaupi. Bjarni Anton starfar sem þjálfari yngri iðkenda deildarinnar.

Handknattleiksdeild
Handboltakona ársins: Kolbrún Arna Garðarsdóttir
Kolbrún Arna Garðarsdóttir er frábær leikmaður og flott fyrirmynd. Hún er uppalin hjá HK en kemur til Fjölnis haustið 2019 og er einn reynslumesti leikmaðurinn okkar. Kolbrún getur spilað flestar stöður á vellinum þar á meðal miðju og horn og er góður leikstjórnandi. Kolbrún er líka öflugur skotmaður með mikið keppnisskap og er markahæsti leikmaður liðsins. Hún hefur gert margt til þess að hjálpa félaginu og þjálfar meðal annars yngri flokka við mjög góðan orðstýr.
Handboltakarl ársins: Elvar Otri Hjálmarsson
Elvar Otri er lykilmaður í meistaraflokki karla og á afstöðu tímabili var hann leikstjórnandi í liði sem hafði tekið miklum leikmannabreytingum frá tímabilinu á undan. Elvar hefur farið í gegnum alla yngri flokka félagsins og unnið allt sem hægt er að vinna þar. Hans stóra tækifæri í meistaraflokki kom í fyrra og með hverjum leiknum varð ljósara að þarna er á ferðinni framtíðarleikmaður með mikinn metnað og gæði. Elvar Otri spilaði alla leikina á tímabilinu eða 18 talsins og skoraði þar 86 mörk og var markahæsti leikmaður liðsins.

Íshokkídeild
Íshokkíkona ársins: Harpa Dögg Kjartansdóttir
Á stuttum tíma í félaginu hefur Harpa sett svip sinn á kvennahokkíið. Hún smitar út frá sér jákvæðni og vinnusemi og er alltaf tilbúin að gefa allt sem hún á inn á svellinu. Hún hefur náð miklum framförum frá því að hún kom til Fjölnis að spila íshokkí.
Íshokkíkarl ársins: Steindór Ingason
Steindór er metnaðarfullur leikmaður og hefur mikla ástríðu fyrir íshokkí í Fjölni. Hann gerir liðsfélaga sína betri og leiðir þá áfram jafnt innan sem utan svellsins. Hann er mikil fyrirmynd, sérstaklega þegar kemur að því að leggja hart að sér og gefast ekki upp. Hann bjó og lék íshokkí í Kanada í fjögur ár og hefur einnig spilað fyrir öll landslið Íslands. Hann á 33 leiki að baki með U18 og U20 og 12 leiki með A landsliði Íslands.

Karatedeild
Karatekona ársins: Eydís Magnea Friðriksdóttir
Sem afrekskona átti Eydís gott ár. Oftar en ekki kom hún heim með ekki einn, heldur tvo verðlaunapeninga eftir mót. Hún náði þannig Bronsverðlaunum bæði í flokkum fullorðinna og unglina í kata á Íslandsmeistaramótinu. Gulli á RIG, í flokkum fullorðinna sem og ungmenna á Reykjavík International Games. Gull bæði í opnum Kvennaflokki sem og flokki 16 til 17 ára stúlkna á 1. bikarmóti Karatesambands Íslands. Auk þessa fékk hún svo silfurverðlaun fyrir frammistöðu sína í kata á GrandPrix móti og á 2. Bikarmóti Karatesambandins. Eydís starfar sem aðstoðarþjálfari hjá karatedeildinni og er meðlimur í Afrekshópi hennar. Hún er jafnframt fastur meðlimur karatelandsliðsins og var valin til að taka þátt fyrir hönd Íslands á þeim mótum sem landsliðið hefur farið á erlendis þetta árið. Metnaður og Virðing eru þau gildi Fjölnis sem Eydís hefur lifað í starfi sínu innan deildarinnar.
Karatekarl ársins: Gabriel Sigurður Pálmason
Gabríel er einbeittur og duglegur iðkandi. Þrátt fyrir að tækifærin til að keppa hafi verið færri undanfarin 2 ár en við gjarnan vildum þá hefur hann einbeittur afreksmaður. Á árinu hefur hann nú þegar náð silfurverðlaunum bæði á Íslandsmeistaramótinu í kata sem og á GrandPrix móti, auk þess sem hann náði bronsi á Reykjavik International Games. Gabríel er fyrirmyndar íþróttamaður sem sannar að sjálfsagi og einbeiting skilar árangri. Metnaður og Heilbrigði eru þau Fjölnisgildi sem Gabríel hefur staðið fyrir í starfi sínu innan karatedeildarinnar.

Knattspyrnudeild
Knattspyrnukona ársins: Sara Montoro
Sara Montoro er 18 ára uppalin Fjölniskona sem er að hefja sitt fimmta tímabil í meistaraflokki. Þrátt fyrir ungan aldur er hún komin með tæplega 70 leiki í meistaraflokki og hvorki meira né minna en 43 mörk.
Á nýafstöðnu tímabili lék Sara 15 leiki og skoraði í þeim 15 mörk, þar sem SJÖ mörk(!) komu í einum og sama leiknum. Óhætt er að segja að Sara hafi verið ein lykilleikmanna síðustu ár og þá sérstaklega í sumar þegar liðið afrekaði að fara upp í 1.deild. Á árinu var Sara valin tvisvar sinnum í æfingahóp U19 ára landsliðsins sem er mikil viðurkenning fyrir bæði Söru og kvennaknattspyrnuna í Fjölni. Áður hefur hún leikið þrjá leiki fyrir Íslands hönd með U16 ára landsliðinu og skorað í þeim 1 mark. Sara Montoro er frábær leikmaður og mikil Fjölniskona sem spennandi verður að fylgjast áfram með í framtíðinni. Hún er vel að þessari tilnefningu komin.
Knattspyrnukarl ársins: Jóhann Árni Gunnarsson
Jóhann Árni Gunnarsson er tvítugur fjölhæfur leikmaður sem spilar aðallega á miðjum vellinum og kemur úr hinum firnasterka 2001 árgangi Fjölnis. Í gegnum tíðina hefur Jóhann leikið tæplega 20 landsleiki með yngri landsliðum Íslands. Jóhann Árni spilaði samtals 23 leiki fyrir Fjölni í deild og bikar á síðasta leiktímabili og var algjör lykilmaður í liðinu. Frábær frammistaða Jóhanns á vellinum skilaði honum nafnbótinni „efnilegasti leikmaður Lengjudeildar 2021“ sem valið var af hinum virta fjölmiðli Fotbolti.net. Eitt helsta afrek Jóhanns á tímabilinu kom í 17. umferð mótsins eða þann 20. ágúst í Ólafsvík þegar leikmaðurinn skoraði hvorki meira né minna en FIMM mörk – hvert öðru fallegra – í öruggum 7-0 sigri gegn Víkingi Ólafsvík. Jóhann Árni er flottur karakter, mikill Fjölnismaður og er vel að þessari tilnefningu kominn.

Körfuknattleiksdeild
Körfuboltakona ársins: Emma Sóldís Svan Hjördísardóttir
Emma Sóldís er lykilleikmaður í meistaraflokki kvenna en Fjölnisstúlkur hafa sýnt í vetur að þær eru til alls líklegar í Subway deildinni en Emma hefur spilað stórt hlutverk í árangri liðsins, bæði í vörn og sókn. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Emma náð miklum árangri í körfubolta. Hún hefur leikið stórt hlutverk með yngri landsliðum Íslands hingað til. Á Norðurlandamótinu í sumar var hún byrjunarliðsmaður í U18 ára liði Íslands þrátt fyrir að hafa verið á yngra ári. Þar var hún stigahæst íslensku leikmannanna og næst stigahæst á mótinu. Emma Sóldís var í fyrsta sinn núna í haust valin í A-landslið Íslands, aðeins 17 ára gömul. Emma lék sinn fyrsta A-landsleik í nóvember þar sem hún skoraði sín fyrstu stig fyrir landslið Íslands. Emma hefur ávallt verið meðal fremstu leikmanna í sínum árangi enda setur hún frábært fordæmi með eigin dugnaði bæði á æfingum sem og í leikjum. Hún lætur aldrei neitt eftir sig liggja. Emma Sóldís er samviskusöm og virkilega dugleg að æfa og vinna í sínum leik. Emma er virkilega góður karakter með góða nærveru sem t.d. endurspeglaðist í þjálfun hennar á sumarnámskeiðum Fjölnis þar sem hún náði mjög vel til krakkanna. Klárt er að það verður spennandi að fylgjast með henni í framtíðinni.
Körfuboltakarl ársins: Ólafur Ingi Styrmisson
Ólafur Ingi hefur verið burðarás upp alla yngri flokka hjá Fjölni síðustu ár og hefur í vetur sýnt að hann er einn af bestu leikmönnum 1. deildar karla. Ólafur, sem er fyrirliði meistaraflokks karla, er mikill leiðtogi, innan vallar sem utan og setur hag liðsins ávallt í fyrsta sæti. Hann hefur verið framúrskarandi með yngri landsliðum Íslands síðustu ár auk þess að vera á meðal fremstu leikmanna í sínum árgangi. Hann stefnir hátt í körfubolta. Ólafur hefur tvívegis orðið Íslandsmeistari með liðum sínum í Fjölni og í bæði skiptin verið valinn mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar, síðast núna í vor þegar drengjaflokkur varð Íslandsmeistari. Meistaraflokkslið Fjölnis hefur sýnt undanfarið að það á góða möguleika á að ná inn í úrslitakeppni í vor og valda usla þar, þó ungir séu, jafnvel komast upp í Subway deildina ef heppni og elja blandast vel saman á réttum tíma. Ljóst er að Ólafur mun leika lykilhlutverk í þeirri vegferð og verður spennandi að fylgjast með honum og liðinu næstu mánuði. Ólafur er framúrskarandi íþróttamaður og mikil fyrirmynd.

Listskautadeild
Skautakona ársins: Júlía Sylvía Gunnarsdóttir
Júlía Sylvía hefur sýnt og sannað á árinu hversu öflug skautakona hún er. Í upphafi árs tók hún þátt á Reykjavíkurleikunum, en samhliða mótinu fór fram Íslandsmeistaramót og hafnaði hún í öðru sæti á mótinu með 102.65 stig. Júlía hefur keppt á mótum Skautasambandsins á árinu, nú seinast á Íslandsmeistaramóti í nóvember þar sem hún endaði í öðru sæti. Hún var einnig valin sem fulltrúi Íslands á Junior Grand Prix, heimsmótaröð unglinga, sem er hennar stærsta mót hingað til, og stóð hún sig afar vel á mótinu. Í október lenti hún þrefalt stökk í fyrsta sinn á móti, þar að auki var stökkið í samsetningu, sem er erfiðara í framkvæmd. Við erum stolt af Júlíu okkar og erum spennt að fylgjast með næstu verkefnum hjá henni á svellinu.
Skautakarl ársins: Marinó Máni Þorsteinsson
Marinó kom nýr inn í deildina í mars á þessu ári og kemur hann okkur sífellt á óvart hversu hæfileikaríkur hann er. Hann hefur náð ótrúlegum framförum á svellinu og hefur m.a. lokið fimm af sjö mögulegum stigsprófum í samræmdu kennslukerfi Skautasambandsins, Skautum Regnbogann, á aðeins fáeinum mánuðum. Þess má geta að flesta tekur nokkur ár að klára öll stigin. Marinó hefur ekki einungis hæfileika á svellinu heldur er hann samviskusamur, leggur sig fram á æfingum og sýnir mikinn áhuga á að læra meira og bæta sig. Hann er frábær fyrirmynd fyrir yngri iðkendur félagsins og erum við heppin að hafa hann með okkur.

Skákeild
Skákkona ársins: Sigrún Tara Sigurðardóttir
Hin 9 ára og nýkrýndi Íslandsmeistari stúlkna í skák í flokki U10, Sigríður Tara er nemandi í 4. bekk Rimaskóla en þar í bekk hefur náðst sterkur vinkonuhópur sem hefur sýnt mikinn áhuga og færni í skáklistinni. Sigrún Tara kom, sá og sigraði á Íslandsmóti ungmenna sem haldið var á Akureyri 30. október sl. í flokki stúlkna undir 10 ára aldri. Hún var í skáksveit Rimaskóla sem sigraði á Íslandsmóti grunnskóla 1. – 3. bekkur í febrúar sl. og er því tvöfaldur Íslandsmeistari í ár. Á Reykjavíkurmóti grunnskóla 11. okt. sl gerðist það í fyrsta sinn að stúlknasveit sigraði í opnum flokki í 4. – 7. bekk, þ.e. stúlknasveit Rimaskóla A. Í þessari vösku sveit var Sigrún Tara í fararbroddi ásamt fjórum öðrum skólasystrum sínum. Flestar eru þær á yngsta ári í þessum keppnisflokki. Sigrún Tara fer vel með hrósið og viðurkenningarnar sem hún hefur hlotið á þessu ári. Skák er skemmtileg og æfingin skapar meistarann.
Skákkarl ársins: Tristan Fannar Jónsson
Þessi 8 ára gamli efnispiltur er annar tveggja af sterkustu skákmönnum landsins fæddir árið 2013. Hann var á 1. borði í sveit Rimaskóla sem varð Íslandsmeistari grunnskóla 1. – 3. bekkur í febrúar sl. Hann leiddi einnig sigursveit Rimaskóla á Reykjavíkurmóti grunnskóla 1. – 3. bekkur nú í haust. Á Íslandsmóti Ungmenna á Akureyri þann 30. okt. endaði kappinn í 2. sæti í yngsta aldursflokki mótsins þrátt fyrir að hafa lent í ælupest og vökunótt fyrir mótið. Skákmótinu ætlaði hann ekki sleppa enda þótt hann væri dálítið gugginn. Hann varð einnig skákmeistari Miðgarðs í einstaklingskeppni stráka en keppnin var haldin á Grafarvogsdeginum. Tristan Fannar er ábyggilega einn af efnilegustu skákkrökkum landsins og það verður ábyggilega fylgst með honum í framtíðinni með afreksþjálfun í huga. Í huga Tristans Fannars er skák skemmtileg og hann er alveg með það á hreinu að æfingin skapar meistarann.

Sunddeild
Sundkona ársins: Ingunn Jónsdóttir
Ingunn Jónsdóttir er sundkona Fjölnis árið 2021. Ingunn hefur náð flestum stigum samkvæmt FINA stigatöflunni þetta árið og er stigahæsta sundið hennar 200 metra bringusund en hún fékk 605 stig fyrir það (1000 stig er heimsmet). Ingunn er með fremstu bringusunds- og fjórsundskonum landsins og hefur verið í framför á þessu ári þó svo að covid hafi sett strik í reikninginn hjá flestum. Á nýliðnu Íslandsmeistaramóti í 25m laug vann Ingunn til bronsverðlauna í 50m bringusundi og var að bæta sinn árangur í þeirri grein um rúma sekúndu sem er frábær árangur.
Sundkarl ársins: Kristinn Þórarinsson
Kristinn Þórarinsson er sundkarl Fjölnis árið 2021. Kristinn hefur til margra ára verið einn besti baksunds- og fjórsundsmaður landsins. Þrátt fyrir erfiðleika við sundiðkun á þeim tímum sem við lifum núna náði Kristinn lágmörkum inn á Evrópumeistaramótið í 50m laug sem haldið var í Ungverjalandi í maí. Kristinn vann til fjölda verðlauna á árinu hér innanlands bæði á Íslandsmeistara- og Reykjavíkurmeistaramótum auk annarra móta sem hann tók þátt í. Stigahæsta sundið hans á árinu var 50 metra baksund sem hann synti á Íslandsmeistaramótinu í 50m laug í apríl en hann fékk 742 stig samkvæmt stigatöflu FINA (1000 stig er heimsmet). Kristinn ákvað eftir tímabilið að leggja sundskýluna á ofninn eftir 22 ár við iðkun á afreksstigi og láta gott heita í lauginni að sinni. Hann fór hins vegar ekki langt því hann hefur nú snúið sér að þjálfun hjá félaginu við góðan orðstír.

Tennisdeild
Tenniskona ársins: Eva Diljá Arnþórsdóttir
Eva Diljá hefur átt einstaklega gott ár, en hún vann þrjá Íslandsmeistaratitla; í meistaraflokki kvenna í tvíliðaleik, innanhúss og utanhúss, sem og í U18 einliðaleik innanhúss. Þá lenti hún í 3. sæti á Íslandsmóti innanhúss í meistaraflokki kvenna í einliðaleik og í 2. sæti á Íslandsmóti utanhúss í liðakeppni. Á Reykjavíkurmeistaramóti liðakeppni vann Eva Diljá til tvennra gullverðlauna, í meistaraflokki kvenna og í flokki U18.
Tenniskarl ársins: Hjalti Pálsson
Hjalti hefur átt gott ár á tennismótum á árinu. Hann er Íslandsmeistari innanhúss í meistaraflokki karla í tvíliðaleik og vann til bronsverðlauna í einliðaleik á sama móti. Þá keppti Hjalti einnig á Íslandsmóti utanhúss á árinu og vann til tvennra silfurverðlauna, í karlaflokki 30 + í einliðaleik og meistaraflokki karla í liðakeppni.


Jólaskautaskóli Fjölnis

🎄⛸️ Jólaskautaskóli Fjölnis 🏒🎅

Listskauta- og íshokkídeild Fjölnis verða með Jólaskautaskóla fyrir börn á aldrinum 6-12 ára dagana 27.-30. desember. Námskeiðið er á milli kl. 8:30-13:00. Kennd verða undirstöðuatriði skautaíþrótta á námskeiðinu ásamt því að spila íshokkí og læra listskautaæfingar.

Verð námskeiðs: 9.500
Skráning er hafin á https://fjolnir.felog.is/

Skráningu lýkur þriðjudaginn 21. desember.


Skattaafsláttur af styrkjum til íþróttastarfsemi

Desember 2021 

Ný lög hafa verið samþykkt og tóku gildi þann 1. nóvember þar sem Íþróttafélög geta skráð sig á lista yfir félög sem starfa að almannaheill og njóta aukins skattahagræðingar. Fjölnir hefur fengið staðfestingu á þessari skráningu hjá RSK. Sjá hér. 

Í lögunum er ákvæði fyrir fyrirtæki sem vilja styrkja félög á Almannaheillaskrá, og er þeim heimilt að draga frá skattstofni allt að 1,5% af rekstrartekjum og láta renna til félaga á almannaheillaskrá. Einstaklingar hafa heimild til að gefa 350.000 kr. og draga það frá tekjuskattsstofni og erfðafjárskattur er felldur niður ef arfurinn rennur til félaga á almannaheillaskrá. 

sjá nánar: 

https://www.umfi.is/utgafa/frettasafn/muna-ad-skra-ithrottafelagid-a-almannaheillaskra 

https://www.skatturinn.is/atvinnurekstur/skattskylda/almannaheillaskra-skattfradrattur 

Við viljum hvetja fyrirtæki og samstarfsaðila til að styrkja íþróttastarfið með myndarlegum hætti. Tekið er fram í lögunum að skattafrádrátturinn á eingöngu við um gjafir en ekki auglýsingasamninga.  Fjölnir og deildir félagsins munu heyra í fyrirtækjum og velunnurum  og  kanna með vilja þeirra til að taka þátt í þessu verkefni á þessu ári. Til að geta nýtt heimildina á þessu ári, þarf að greiða gjafaupphæðina á eftirfarandi reikning fyrir 30. desember nk. til að nýta heimildina fyrir þetta ár. 

 Kennitala: 631288-7589 

Bankaupplýsingar: 0114-26-155 

Við hvetjum fyrirtæki sem vilja láta gott af sér leiða að nýta þennan skattafrádrátt og athugið að Fjölnir þarf að veita formlega staðfestingu á gjöfinni til RSK. 

Ungmennafélagið Fjölnir þakkar allan þann stuðning sem fyrirtæki og einstaklingar hafa veitt félaginu undanfarin ár og öllum þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem hafa stutt við félagið í gegnum árin. 

 


Íslandsmót barna- og unglingasveita í skák 2021

B sveit Fjölnis – Íslandsmeistari í B flokki

Fjölnissveitir fjölmenntu á Íslandsmótið með alls 5 skáksveitir af 22 sveitum sem skráðar voru til leiks. Aðeins Skákdeild Breiðabliks sendi fleiri skáksveitir á mótið. Fjölniskrakkarnir eru á aldrinum 8 – 14 ára gömul, 12 drengir og 11 stúlkur.

Eldri liðin tefldu í A flokki. Yngri og óreyndari liðin í B flokki. Tveir riðlar í B flokki. Í B riðli náði B sveitin einstökum árangri, hlaut 19,5 vinninga af 20 mögulegum. Sveitin tefldi síðan til úrslita við sigurvegara í A riðli, skáksveit TR, og vann einvígið örugglega 6-2.

Stelpusveitirnar komu sterkar til leiks og urðu í 2. og 3. sæti A riðils.

Fjölnir með bestan árangur meðal yngri sveita. Svakalegur áhugi og góð mæting á Fjölnisæfingar sl. vetur að skila sér.

Í sigursveitinni Fjölnir B voru þeir: Tristan Fannar, Emil Kári, Theodór, Ómar Jón og Sindri Snær.

Til hamingju Fjölniskrakkar!

#FélagiðOkkar

Íslandsmeistarar B liða – B sveit Fjölnis. fv. Theodór Helgi, Emil Kári, Tristan Fannar, Ómar Jón og Sindri Snær

Reykjavíkurmeistarar stúlkna – D sveit Fjölnis, stóð sig frábærlega og nálægt því að komast í úrslitakeppnina.
Emilía Embla, Sigrún Tara, Tara Líf og Silja Rún

Bronssveitin, stúlkurnar í Fjölni. Heiðdís Diljá , Hrafndís Karen, María Lena og Nikola

Úrslitaeinvígi í B deild. Skákdeild Fjölnis með örugga sigra í tveimur umferðum, 3- 1 og 3-1

A sveit Fjölnisteflir við Íslandsmeistarasveit Breiðabliks.
Eiríkur Emil (fremst til hægri) á 1. borði tefldi einstaklega vel á mótinu