U18 ára landsliðið í 2.sæti

U18 landsliðið lenti í 2. sæti eftir frábæran leik gegn Mexíkó þar sem Ísland vann með fimm mörkum gegn engu og átti Viggó Hlynsson stoðsendingu í tveimur af mörkunum.
Á myndinni má sjá fulltrúa Fjölnis með silfrið um hálsinn og verðlaunagripinn.

Séð frá vinstri til hægri:
Viggó Hlynsson
Hermann Haukur Aspar
Stígur Hermannson Aspar
Alexander Medvedev
Mikael Skúli Atlason
Orri Grétar Valgeirsson

Flottir fulltrúar sem við eigum og eru hluti af landsliði sem við getum öll verið stolt af.

Áfram Ísland ...
... og auðvitað, áfram Fjölnir!


Fjölnir fagnar lengri helgaropnun

Það er ánægjulegt fyrir íþróttaiðkendur félagsins og alla íbúa Grafarvogs að nú verður helgaropnunartími Grafarvogslaugar lengdur og opið verður til 22.00 föstudaga, laugardaga og sunnudaga. Lengdur opnunartími í Grafarvogslaug byrjar í dag, föstudag og hvetjum við alla til að nýta sér strax þennan lengda helgaropnuartíma og skella sér í sund um helgina.

 

Til viðbótar við það að sundlaugin er heimæfingar og keppnislaug Sunddeildar Fjölnis þá skiptir sundlaugin allar deildir félagsins miklu máli enda fátt betra en það fyrir alla okkar íþróttaiðkendur og íþróttalið að skella sér í sund, heitan pott eða gufu að lokinni góðri æfingu eða leik. Hvetjum við Fjölnisfólk til að nýta þennan lengri opnunartíma vel og mikið.

 

Sjáumst í Grafarvogslaug!


Nýtt námskeið - Ungbarnasund

Ný námskeið í ungbarnasundi hefjast í Grafarvogslaug. Námskeiðin hefjast 6. apríl og eru til 8. júní. 

Ungabarnasund er skemmtileg stund fyrir foreldra og börn þar sem lítið annað þarf til en sundfatnað og góða skapið.
Kennari er Fabio La Marca, íþrótta- og heilsufræðingur og grunnskólakennari.
Kennt er á laugardögum og hefjast næstu námskeið þann 6.apríl og þeim lýkur 8. Júní(ekki verður kennt 13 og 20 Apríl)

 

3 - 7 mánaða  klukkan 10:00 - 10:40 á laugardögum.

5 - 12 mánaða klukkan 10:50 - 11:30 á laugardögum.

Verð 17:500 kr. (8 skipti)

Nokkrir ávinningar ungbarnasunds:
• Eykur öryggi og sjálfstraust barnsins í vatni og viðheldur köfunarviðbragði þess
• Eykur líkamlegan og andlegan þroska barnsins
• Gefur foreldrum og börnum einstaka samverustund án truflunar
• Eykur styrk, samhæfingu og hreyfifærni barnsins
• Stuðlar að vellíðan barnsins
• Það er heldur betur gaman!

“Áhugi á ungbarnasundi byrjaði þegar ég fylgdist með nokkrum tímum í Háskólanum. Það var eftir að hafa farið í ungbarnasund með dóttur mína sem ég áttaði mig á hversu einstakt það er og að þetta vildi ég gera! Barnið fær tilfinningu fyrir vatninu en þar að auki er þetta dýrmæt og náin stund á milli foreldra og barns þar sem engin truflun á sér stað. Kennarinn fær að mynda sérstakt samband við börn og foreldra og sér þau þroskast á ferli námskeiðsins.”

Skráningar hér,

Þjálfarinn er Fabio og gefur hann frekari upplýsingar, ungbarnasundhjafabio@gmail.com og á skrifstofu félagsins skrifstofa@fjolnir.is sími 578-2700


Ókeypis páskanámskeið

Handboltadeildin ætlar að standa fyrir glæsilegu námskeiði fyrir iðkendur og byrjendur í handboltaíþróttinni í dymbilvikunni. Námskeiðið verður alveg ÓKEYPIS og verður það haldið dagana 15. - 17.apríl.

SKRÁNING: https://forms.gle/dMofDDFgQDyn2NP78

#FélagiðOkkar


Tvíhöfði í Dalhúsum

Fimmtudagurinn 28.mars!

Stuðningur áhorfenda hefur sjaldan skipt okkur jafn miklu máli og nú. Með sigrum ná bæði karla- og kvennalið að spila hreina úrslitaleiki um sæti í Dominos deildinni að ári.
Koma nú Fjölnisfólk úr öllum íþróttadeildum og hvetjum okkar lið.

kl. 18:00 Fjölnir - Vestri í karla

kl. 20:15 Fjölnir - Njarðvík í kvenna

#FélagiðOkkar


Páskamót Fjölnis

Frjálsíþróttadeild Fjölnis hélt sitt árlega Páskamót fyrir 6-10 ára iðkendur deildarinnar í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal sunnudaginn 24. mars. Var iðkendum frá Aftureldingu einnig boðið að taka þátt í mótinu. Keppt var í 60m spretthlaupi, langstökki, skutlukasti og 200m hlaupi. Alls tóku um 20 krakkar þátt í mótinu og heppnaðist það mjög vel. Góð stemning var á mótinu og greinilegt að mikið er af efnilegu íþróttafólki hjá þessum félögum. Að mótinu loknu fengu krakkarnir viðurkenningaskjal með upplýsingum um árangur sinn á mótinu og páskaegg frá Freyju. Mótið var styrkt af Landsbankanum.

Á myndinni er hópurinn ásamt þjálfurum.


Frestun á framhaldsaðalfundi

Framhaldsaðalfundur handknattleiksdeildar Fjölnis frestast um hálfan mánuð  og verður sem hér segir.

Miðvikudagurinn 9. apríl kl. 20:00 

 

Fundurinn fer fram í félagsrýminu okkar í Egilshöll.

Dagskrá framhaldsaðalfundar :

c)      Kjör formanns

 

Lög Fjölnis

Minnum á að framboðsfrestur um tillögur að formönnum og stjórnarmönnum er 5 dögum fyrir boðaðan aðalfund.

 

#FélagiðOkkar

Skrifstofa Fjölnis


ÍSLANDSMEISTARAR Í 1. ÞREPI

Íslandsmót í áhaldafimleikum fór fram um helgina í Ármannsheimilinu að Laugarbóli. Keppendur frá Fjölni voru þau Katrín S. Vilhjálmsdóttir, Leóna Sara Pálsdóttir og Sigurður Ari Stefánsson. Þau kepptu öll í 1.þrepi íslenska fimleikastigans. Leóna Sara og Sigurður Ari gerðu sér lítið fyrir og sigruðu í fjölþraut og urðu þar með Íslandsmeistarar í 1.þrepi í kvk og kk flokki.

Við óskum þeim og þjálfurum þeirra innilega til hamingju með frábæran árangur og erum við afar stolt af þeim.

#FélagiðOkkar


Yfirlýsing HDF

Í ljósi úrskurðar aganefndar HSÍ þess efnis að rautt spjald sem dæmt var á leikmann Fjölnis undir lok leiks Fjölnis og Vals í undanúrslitum bikarkeppni HSÍ hefur verið dregið tilbaka hefur stjórn handknattleiksdeildar Fjölnis kært framkvæmd leiksins til dómstóla HSÍ.


Fjölnismenn í 3.sæti

Skákdeild Fjölnis virðist föst í viðjum vanans og sogast að bronsinu þegar dregur að lokum 1. deildar undanfarin ár. Fjórða árið í röð náði skáksveitin 3. sæti sem gefur rétt á þátttöku á EM skákfélaga í Svartfjallalandi í haust.

A sveitin var í baráttu um Íslandsméistaratitilinn allt Íslandsmótið. Vermdi 1. sætið eftir fyrri hlutann og endaði í því þriðja með 50 vinninga af 72 mögulegum, 3 vinningum minna en sigurliðið.

Sem fyrr býr liðstjórinn við þau forréttindi að geta stólað á sömu átta skákmennina á að tefla allar skákirnar. Þetta gagnast okkar ágætu mótherjum líka. Þeir geta þá stúderað andstæðinginn þegar komið er að því að mæta Fjölni. Ekkert pukur eða óþolandi óvissa þar að hálfu Fjölnis. Eins og áður sagði hefur A sveitin aldrei náð eins góðum árangri og einmitt núna. Eftirspurnin er meiri en framboðið á að tefla í A sveitinni. Þetta á ekki síst við okkar ágætu erlendu félaga sem óðir og uppvægir vilja eyða helgi í hópi Fjölnismanna. Þeir sýna það og sanna með góðri og árangursríkri taflmennsku þegar tækifærið býðst þeim. Vinningshlutfall 70 % er hærra en hægt var að búast við í upphafi móts. Samstaða og liðsandi er hins vegar 100 % frá fyrsta borði til þess áttunda.

Það var ánægjulegur bónus fyrir okkar sveit að Davíð Kjartansson, einn af okkar lykilmönnum, skyldi ná lokaáfanga að IM titli.

Dagur Ragnarsson (21) heldur áfram að sýna gífurlegar framfarir líkt og á öllum mótum vetrarins, framtíðarmaður í hugum okkar íslenskra skákáhugamanna. Svíinn Pontus Carlsson tefldi með Fjölni í öllum umferðum og skilaði 7 vinningum í hús sem er frábær árangur á 2. borði. Davíð, Dagur og Sigurbjörn náðu allir 6,5 vinningum og sá síðastnefndi með 87,5 % árangur í síðari lotunni gegn erfiðari andstæðingum en í þeirri fyrri.

Árangur A sveitar Fjölnis í 1. deildinni og draumsýn okkar um Íslandsbikarinn í Grafarvoginn í nánustu framtíð gæti orðið að veruleika.

B sveit Fjölnis skráði árangur sinn einnig á spjöld Fjölnis "sögunnar". B sveitin hélt sæti sínu í 2. deild í fyrsta sinn og teflir á næstu leiktíð í þriðja skipti á fjórum árum í deildinni. Með þá Tómas Björnsson, Jón Árna Halldórsson (3/3) og Erling Þorsteinsson á efstu borðum fá uppalin Fjölnisungmenni tækifæri á að tefla við sterka andstæðinga í hverri umferð og kunna eflaust gott að meta. Jóhann Arnar Finnsson yngsti liðsmaður sveitarinnar kom taplaus frá mótinu og fékk 5 vinninga af 7 sem er mjög góður árangur.

C- og ungmennasveit Fjölnis tefldu í 4. deild. Þær eru að mestu skipaðar áhugasömum grunnskólakrökkum úr Grafarvogi. Arnór Gunnlaugsson í 8. bekk Rimaskóla stóð sig adeilis vel. Hann tefldi 6 skákir með C sveit og vann þær allar.

Síðast en ekki síst ber að nefna árangur hinnar 6 ára gömlu Emilíu Emblu B. Berglindardóttur sem tefldi sínar tvær fyrstu skákir á Íslandsmóti skákfélaga og stimplaði sig rækilega inn með öruggum sigri í báðum skákunum. Þessi kornunga Rimaskólastúlka hefur vakið athygli á grunnskólamótum vetrarins fyrir þroskaða taflmennsku og kemur sér upp stöðu "sem hver stórmeistari gæti verið stoltur af" eins og einn af framámönnum í skáklífinu orðaði það eftir að hafa fylgst með stúlkunni ungu.