Skráning er hafin
Haustönn deildanna hefst í næstu viku. Skráning er hafin og fer fram hér á síðunni undir skrá í Fjölni hnappinn eða á https://fjolnir.felog.is/.
Boðið verður upp á fjölbreytt starf í 11 deildum þar sem iðkendur geta valið það sem hentar þeirra áhugasviði.
Allar nánar upplýsingar er að finna hér á heimasíðunni eða á skrifstofa@fjolnir.is
Starfsmenn veita allar upplýsingar á opnunartíma í síma 578-2700. Mikið álag er þessa dagana vegna skipulagningar á vetrarstarfi. Við gerum okkar besta til þess að svara öllum fyrirspurnum eins fljótt og auðið er.
#FélagiðOkkar
Handboltaskóli Fjölnis að hefjast
Á þriðjudaginn hefst Handboltaskóli Fjölnis 2019. Skólinn er ætlaður strákum og stelpum sem eru að fara í 1. - 6.bekk næsta vetur. Boðið er upp á tvær vikur, 6. - 9.ágúst og 12. - 16.ágúst.
Handboltaskóli Fjölnis er frábær undirbúningur fyrir vetrarstarf Fjölni en í honum er fléttað saman skemmtilegum handboltaæfingum í bland við leiki og skemmtun. Byrjendur eru sérstaklega velkomnir.
Handboltaskólinn stendur yfir frá kl. 09:00 til 12:00 með stuttri nestispásu.
Skólastjóri og aðalleiðbeinandi er Andri Sigfússon yfirþjálfari yngri flokka en auk hans verða þjálfarar hjá deildinni auk leikmanna sem munu aðstoða.
Verð:
6. - 9.ágúst / 5900 kr
12. - 16.ágúst / 6900 kr
Ef báðar vikurnar eru teknar kostar skólinn 9900 kr.
Skráning fer fram í Nóra, skráningarkerfi Fjölnis (http://fjolnir.felog.is)
Stelpurnar í körfunni styðja Bleiku slaufuna
Meistaraflokkur kvenna hélt vöfflukaffi fyrr á þessu ári til styrktar Bleiku slaufunni.
Þetta hafði Bleika slaufan að segja um framtakið:
"Þær eru aldeilis öflugar stelpurnar í meistaraflokki Fjölnis í körfubolta. Elísa Birgisdóttir kom færandi hendi eftir bleikt vöfflukaffi þar sem þær söfnuðu fyrir Bleiku slaufunni. Þúsund þakkir 🙏 ... og áfram Fjölnir Karfa! 😀"
Við hvetjum alla til að kynna sér Bleiku slaufuna á https://www.bleikaslaufan.is/
Happdrætti knattspyrnudeildar
Nú fer hver að verða síðastur til að sækja vinninga í happdrætti knattspyrnudeildar.
Dregið var út þann 30.apríl eins og sjá má hér: https://fjolnir.is/2019/04/30/vinningaskra-happdraettis/.
Vinninga ber að vitja í seinasta lagi föstudaginn 2.ágúst kl. 16:00 á skrifstofu Fjölnis í Egilshöll.
Alana Elín æfir með bandaríska landsliðinu
Alana Elín Steinarsdóttir leikmaður meistaraflokks kvenna í handbolta var í leikmannahópi bandaríska landsliðsins í svokölluðu „try-out“ í Þýskalandi á dögunum en liðið undirbýr sig fyrir Pan American leikana sem fara fram mánaðarmótin júlí/ágúst.
Við fengum smá ferðasögu senda frá Alönu:
„Þar sem ég er fædd í Opelika, Alabama þá var ég valin í yngra landslið Bandaríkjana árið 2012 og spilaði með þeim í Mexico á IHF Trophy mótinu og fórum heim með brons þaðan. Þar sem ég ákvað nýlega að taka skóna af hillunni var mér boðið að koma í “try-out” eða reynslu með A-landsliði Bandaríkjana hérna í Þýskalandi, þar sem þær eru að undirbúa sig fyrir Pan American leikana í Perú í lok júlí-byrjun ágúst. Það er mikill munur á bandaríska liðinu síðan ég spilaði með þeim síðast en það vantar ennþá margt upp á (tækni, leikskilningur, hraði o.s.f.v.). Þetta sport er ennþá í þróun í Bandaríkjunum en það verður gaman að fylgjast með þeim þróast áfram. En þar sem Fjölnir og Grill 66 er númer 1, 2 og 3 hjá mér (og þar sem ég mun ekki fara með til Perú) þá tek ég ekki 100% þátt í öllu með liðinu, heldur er ég aðallega að æfa með þeim og þær sem eru að fara til Perú spila mest alla leikina. Við erum að æfa meira og minna tvisvar á dag svo eru nokkrir leikir á móti þýskum félagsliðum. Stelpurnar gista í íþróttaskóla í Hassloch en leikirnir eru nær Frankfurt“.
Áfram lestur
Sumarlestrarátak Fjölnis og Borgarbókasafnins í Spöng er hafið, annað árið í röð.
Við viljum hvetja öll börn til að vera dugleg að lesa í sumarfríinu.
Á meðfylgjandi mynd má sjá hvaða bækur eru í uppáhaldi hjá afreksfólkinu okkar.
Gríptu með þér eina eða tvær á Fjölnisstandinum í Borgarbókasafninu í Spöng.
Myndir af leikmönnum: Fótbolti.net og úr einkasafni
#FélagiðOkkar
Ferðasaga frá Partille Cup
4.flokkur karla og kvenna í Fjölni/Fylki fór á stærsta og flottasta handboltamót í heimi, Partille Cup í Gautaborg dagana 29.júní til 7.júlí. Á mótinu léku rúmlega 25 þúsund keppendur frá öllum heimshornum.
Hópurinn taldi 40 manns og tefldum við fram þremur liðum. Liðin léku í riðlakeppni fyrstu keppnisdagana þar sem okkar lið mættu fimm andstæðingum frá fjölmörgum löndum. Á föstudeginum og laugardeginum léku liðin síðan í útsláttarkeppninni þar sem liðin komust mislangt. Fyrir utan keppnina sjálfa var dagskráin þétt setin. Krakkarnir fóru í vatnsrennibrautargarðinn Skara Sommarland, sáu íslenska U17 ára landslið karla vinna bronsverðlaun á European Open þegar það vann frábæran sigur á Hvít-Rússum í skemmtilegum handboltaleik. Krakkarnir fóru í Liseberg, glæsilegan skemmtigarð í miðbæ Gautaborgar, þeir kíktu í verslunarleiðangur, horfðu á ótal handboltaleiki, léku sér við að hoppa í Kåsjön-vatnið og margt fleira.
Segja má að vikan hafi verið viðburðarík og skilur eftir ótal minningar hjá okkar krökkum.
Fjölnir Open 2019
Opna golfmót knattspyrnudeildar Fjölnis verður haldið laugardaginn 24. ágúst n.k. og hefst kl. 10:00. Mótið fer fram á golfvellinum í Þorlákshöfn annað árið í röð.
Mæting í skála er í síðasta lagi kl. 9:15. Ræst verður af af öllum teigum kl. 10:00.
Leikið verður með Texas scramble fyrirkomulagi og verðlaun verða sem hér segir:
Texas scramble - verðlaun fyrir 3 efstu liðin.
Nándarverðlaun - á öllum par 3 holum.
Teiggjöf - fyrir alla.
Dregið úr skorkortum.
Hámarksforgjöf í karlaflokki er 24 og hámarksforgjöf í kvennaflokki er 28. Dæmi: Ef aðili er ekki með forgjöf þá er skráð 24 í karlaflokki en 28 í kvennaflokki.
Verðlaunaafhending fer fram að móti loknu,í golfskálanum.
Þátttökugjald:
5.490.-
6.490.- með grilluðum hamborgara og drykk.
Skráning er hafin og er tekið á móti skráningum á netfangið leifur33@gmail.com
Rita skal ,,Fjölnir Open 2019” í ,,efni/subject" og í póstinum þarf að koma fram nafn þátttakanda ásamt símanúmeri og netfangi. Ennfremur skal taka fram ef fólk óskar eftir skráningum saman í holl.
Mótið er öllum opið og við lofum góðri skemmtun og blíðskaparveðri.
Hér má sjá Facebook viðburðinn:
https://www.facebook.com/events/206987890225962/
Takið daginn frá!
#FélagiðOkkar
Peter Bronson tekur við Reykjavíkurliðinu
Í gær var tilkynnt um ráðningu Peter Bronson í starf þjálfara Reykjavíkur, sameinaðs kvennaliðs Skautafélags Reykjavíkur og Fjölnis.
Peter er 47 ára Bandaríkjamaður sem hefur búið og starfað hér á landi sem golfþjálfari hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar síðan 2017. Samhliða ferli í golfþjálfun hefur hann spilað íshokkí í Póllandi, Þýskalandi og heimalandi sínu Bandaríkjunum ásamt því að hafa þjálfað þar. Peter er vottaður þjálfari (fyrsta stigs) frá bandaríska íshokkísambandinu.
Af sama tilefni var nýtt einkennismerki, litur og búningar Reykjavíkur afhjúpaðir en það er hluti af átaki sem nú er í gangi til að stórefla kvennaíshokkí á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum.
Á myndinni má sjá frá vinstri: Kjartan (formaður íshokkídeildar SR), Peter Bronson (þjálfari) og Guðmund L Gunnarsson (framkvæmdastjóri Fjölnis)
Meira hér: https://www.mbl.is/sport/frettir/2019/07/10/fjolhaefur_thjalfari_tekur_vid_reykjavikurlidinu/
Fjölnisvörur á frábæru verði
Við höfum til sölu flottar Fjölnisvörur á frábæru verði.
Vörurnar eru afhentar á skrifstofu Fjölnis í Egilshöll.
ATH! Takmarkað magn.
Tryggðu þér flottar vörur á https://fjolnir.felog.is/verslun/flokkur/1