Dómaranámskeið KKÍ

Ert þú næsti FIBA dómari?

Laugardaginn 17. október mun körfuknattleikssambandið halda dómaranámskeið.

Áætlað er að það standi yfir milli kl. 09:30 og 16:00. Um er að ræða námskeið sem fer einungis fram á netinu.

Það er hagur hreyfingarinnar að fjölga góðum og efnilegum dómurum og því hvetjum við alla félagsmenn til að skrá sig.

Skráning fer fram með því að smella HÉR!

#FélagiðOkkar


Fáðu sent heim!

Kæra Fjölnisfólk – sláum tvær flugur í einu höggi og borðum fyrir #FélagiðOkkar!

Matseðilinn hjá Barion má finna hér: https://barion.is.

  • ATH – Munið að panta frá Barion í Mosfellsbæ
  • Leikmenn knattspyrnudeildar Fjölnis keyra matinn með bros á vör upp að dyrum 🙂
  • Fyllstu varúðar í sóttvörnum að sjálfsögðu gætt
  • Pantað á netinu – einfalt og þægilegt!

Það er ekki eftir neinu að bíða. Barion sér um kvöldmatinn fyrir þig í kvöld og út alla vikuna!

#FélagiðOkkar


Lúkas Logi skrifar undir þriggja ára samning

Það er ánægjulegt að tilkynna í dag gekk knattspyrnudeildin frá þriggja ára samningi við Lúkas Loga Heimisson (f. 2003).

Lúkas er einn af okkar efnilegustu leikmönnum sem kemur upp úr yngri flokka starfi Fjölnis. Hann hefur spilað 7 leiki með meistaraflokki karla í deild og bikar á þessari leiktíð auk þess hefur hann spilað 3 leiki fyrir U-16 ára landslið Íslands. Þá hefur hann skorað 15 mörk með 2. flokki á Íslandsmótinu.

Við óskum Lúkasi til hamingju og hlökkum til að fylgjast með honum í framtíðinni.

#FélagiðOkkar


Hans Viktor framlengir

Hans Viktor Guðmundsson er búinn að framlengja núgildandi samning sinn og gildir framlengingin út tímabilið 2022.

Hans er 24 ára og getur bæði leikið á miðjunni sem og í miðverði. Í sumar hefur Hans tekið þátt í öllum átján leikjum Fjölnis.

Á sínum tíma lék Hans tólf U21 landsleiki og skoraði hann eitt mark.

Þetta eru frábærar fréttir!

#FélagiðOkkar


Emil og Andri ætla að lyfta íshokkídeildinni upp á næsta stig

Þeir Emil Alengård og Andri Freyr Magnússon ætla að lyfta íshokkídeild Fjölnis upp á næsta stig.

Emil Alengård, fyrrverandi landsliðsmaður Íslands í íshokkí var ráðinn til starfa í sumar sem nýr yfirþjálfari Fjölnis í íshokkí en hann var áður aðstoðarþjálfari sænska úrvalsdeildarfélagsins AIK. Emil á leiki með A-landsliði og yngri landsliðum Íslands en skautarnir eru farnir upp í hillu. Hann er talinn vera einn af bestu leikmönnum íslenska landsliðsins frá upphafi. Emil er 32 ára gamall og á íslenska móður en sænskan föður.

Andri Freyr Magnússon mun sjá um þjálfun yngri flokka og koma að ýmsum verkefnum fyrir íshokkídeildina. Hann hefur einnig umsjón yfir skautaskólanum. Andri hefur áralanga reynslu af þjálfun barna og aðkomu að skipulagi barnastarfs.

Með tilkomu þeirra er framtíðin björt. Ný og fersk sýn í uppbyggingu íshokkídeildar Fjölnis.

Í grein sem birtist á Vísi fara þeir félagar yfir íshokkísamfélagið á Íslandi og þar segir Emil meðal annars: „Íshokkísamfélagið þarf að vera sýnilegra svo fólk þekki íþróttina. Fyrir tíu árum voru um 800 manns að spila íshokkí á Íslandi en nú eru það í kringum 500. Við þurfum að fá fleiri inn í íshokkíið, halda vel utan um leikmenn og byggja upp. Hjá Fjölni leggjum við mikla áherslu á barnastarfið því grunnurinn er mikilvægur.“ (heimild, visir.is).

#FélagiðOkkar


Hlé gert á æfingum og keppni

Sóttvarnarlæknir og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hafa sent tilmæli til íþróttahreyfingarinnar á höfuðborgarsvæðinu.

Íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu eru þar beðin um að gera hlé á æfingum og keppni í öllum íþróttum frá deginum í dag til 19. október.

Þau tilmæli sem eiga sérstaklega við um íþróttafélög eru:

  • Íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu geri hlé á æfingum og keppni í öllum íþróttum.
  • Íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu fresti keppnisferðum út á land.

Æfinga- og félagssvæði Fjölnis er lokað frá og með 8. október og til og með 19. október. 

Þetta nær yfir:

  • Æfinga- og keppnissvæði í og við Dalhús og Egilshöll
  • Æfinga- og keppnissvæði sund-, tennis-, skák- og frjálsíþróttadeildar.
  • Skrifstofu
  • Fundasvæði

Við beinum því til þjálfara félagsins að hvetja iðkendur til að sinna æfingum heima, halda fjaræfingar og leggja fyrir verkefni til að stytta biðina.

Fréttatilkynning frá almannavarnadeild höfuðborgarsvæðisins.

Allar nánari upplýsingar veitir Arnór Ásgeirsson á arnor@fjolnir.is.

#FélagiðOkkar


Frábær árangur í tennis

Íslandsmót í liðakeppni fór fram í byrjun júlí og gekk okkur mjög vel í mótinu.

Fjölnir var með lið í U14, U16, U18, 40+, 50+ og meistaraflokk karla.

Fjölnir varð Íslandsmeistari í U14 með Eygló Dís Ármannsdóttur, Maríu Hrafnsdóttur og Saule Zukauskaite.

Fjölnir varð líka Íslandsmeistari U16 með Eygló Dís Ármannsdóttur og Evu Diljá Arnþórsdóttur. Þær stöllur enduðu svo í 3. sæti í U18.

Í 40+: Hrafn Hauksson og Joaquin Armesto Nuevo í 2. sæti.
Í 50+: Reynir Eyvindsson og Ólafur Helgi Jónsson í 2. sæti

Í meistaraflokki karla spiluðu bræðurnir Kjartan Pálsson og Hjalti Pálsson og voru þeir í 2. sæti eftir spennandi tvíliðaleik sem endaði 9-8.

Við óskum öllum til hamingju með árangurinn.

#FélagiðOkkar


Æfingar 8. flokks í knattspyrnu

ÆFINGAR FRÁ OG MEÐ 7. OKTÓBER:

Í ljósi breyttra aðstæðna í samfélaginu þurfum við að breyta aðkomu foreldra að æfingum barna í 8. flokki sem hér segir:
• Foreldrar mega ekki vera með barni sínu á æfingunni.
• Velkomið að eldri systkini/skyldmenni (14 – 16 ára/8. – 10. bekkur) mæti og fylgi barninu eftir á æfingunni.
• Þjálfarar verða við inngang á Egilshöll og taka á móti börnunum áður en æfing hefst.
• Gætið þess að mæta hvorki of snemma né of seint (sjá tímasetningar að neðan).
• Engir klefar verða í notkun fyrir æfingar og þarf barnið því að vera alveg tilbúið og með reimaða skó þegar það mætir.
• Enginn aukabúnaður og/eða skór eiga að fylgja barninu.
• Að æfingu lokinni fylgja þjálfarar börnum í anddyri og gæta þeirra þar til þau verða sótt.
• Vinsamlegast hugið að sóttvörnum fyrir og eftir æfingu – handþvottur, spritt o.s.frv.
• Ef barnið finnur fyrir einkennum þá á að halda sig heima.
• Vinsamlegast virðið þessi tilmæli.

Æfingatímar:

8. flokkur kvenna (2015-2016)
Miðvikudagur kl. 17:30-18:30 – Egilshöll
Laugardagur kl. 09:00-10:00 – Egilshöll

8. flokkur karla yngri (2016)
Miðvikudagur kl. 17:30 Egilshöll
Laugardagur kl. 10:00 Egilshöll

8.flokkur karla eldri (2015)
Miðvikudagur kl. 16:30 Egilshöll
Laugardagur kl. 09:00 Egilshöll


Áhrif hertra sóttvarnaraðgerða á starf Fjölnis

Heilbrigðisráðherra kynnti í gær hertar sóttvarnaraðgerðir á höfuðborgarsvæðinu sem taka gildi frá og með 7. október og til og með 19. október.

Áhrif þeirra á starf Fjölnis:

Íþróttir utandyra

  • Íþróttir utandyra þ.m.t. æfingar og keppnir eru heimilar en áhorfendur á íþróttaviðburðum utandyra skulu ekki vera fleiri en 20 í hverju rými. Áhorfendur skulu bera grímu.
  • Nánari útlistun fyrir börn fædd 2005 og síðar er neðar í fréttinni.

Íþróttir innandyra

  • Íþróttastarf og sambærileg starfsemi sem krefst snertingar eða hætta er á snertingu milli fólks eða mikilli nálægð, eða þar sem notkun á sameiginlegum búnaði getur haft smithættu í för með sér er óheimil innandyra.
  • Nánari útlistun fyrir börn fædd 2005 og síðar er neðar í fréttinni.

Börn fædd 2005 og síðar

  • Æfingar eru heimilar, utan- og innandyra.
  • Keppnisviðburðir eru óheimilir, utan- og innandyra.
  • Líkt og áður gilda nálægðar- og fjöldatakmörk ekki við um þennan hóp.

Svæði Fjölnis

  • Skrifstofa: hefðbundinn opnunartími en við beinum því til fólks að hafa samband á skrifstofa@fjolnir.is eða á símatíma á þriðjudögum milli kl. 9 og 12.
  • Egilshöll: æfingar samkvæmt ofangreindum reglum.
  • Dalhús: æfingar samkvæmt ofangreindum reglum.
  • Fundabókanirbóka þarf sérstaklega í gegnum arnor@fjolnir.is.

 

Æfingatafla – Dalhús

Æfingatafla – Egilshöll

 

Við minnum á almennar sóttvarnir. Gerum þetta vel og þá sjáum við vonandi starfið fara aftur á fullt innan skamms.

Nánari upplýsingar veitir Arnór Ásgeirsson á arnor@fjolnir.is.

#FélagiðOkkar


Opnunartími á styrktarsalnum í Dalhúsum

Í ljósi núverandi aðstæðna munu eftirfarandi reglur gilda um opnunartíma á styrktarsalnum í Dalhúsum:

*Þessar reglur gilda frá og með 6. október og þar til frekari upplýsingar berast frá skrifstofu.

  • Opnunartími er mánudaga til föstudaga frá kl. 08:00-22:00 og laugardaga frá kl. 09:00-14:15.
  • Aðeins er opnað fyrir bókaða tíma.
  • Húsvörður sér um að opna salinn og læsa að æfingu lokinni.
  • Arnór tekur við tímabókunum á arnor@fjolnir.is, sjá töflu hér: Æfingatafla – Dalhús.

#FélagiðOkkar