Ársskýrsla Fjölnis 2024
Á aðalfundi Fjölnis sem haldinn var þann 8. apríl sl. var samkvæmt venju kynnt skýrsla stjórnar ásamt ársreikningi félagsins. Í ársreikningnum sem finna má í nýútkominni ársskýrslu félagsins má sjá að gríðarlegur viðsnúningur varð á rekstri félagsins á milli áranna 2023 og 2024. Árið 2023 var félagið í heild rekið með tæplega 88 m.kr. tapi sem helst skýrðist af rekstri meistaraflokka félagsins í boltagreinum auk reksturs skautadeildanna tveggja. Eftir að hafa gripið til ýmissa aðgerða til að snúa rekstrinum við varð niðurstaðan sú að félagið var árið 2024 rekið með rúmlega 6 m.kr. afgangi sem gerir viðsnúning upp á um 94 m.kr. á milli ára.
Ljóst er að slíkur árangur næst ekki nema með því að allir lögðust á eitt með að finna nýjar leiðir í öflun fjár sem og að skera niður kostnað eins og hægt var. Er þar fjölmörgum sjálfboðaliðum félagsins ásamt starfsfólki þess fyrir að þakka.
Aðalstjórn Fjölnis vill þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóg ásamt þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem styrktu félagið með ýmsum hætti fyrir þeirra framlag. Það er hins vegar ljóst að verkefninu er ekki lokið, það tekur tíma að vinna sig að fullu til baka eftir taprekstur og því verður haldið áfram á sömu braut þ.e. að hafa allar klær úti við að ná í fjármagn til rekstursins ásamt því að halda kostnaði niðri eins og kostur er.
Starfsemi Fjölnis er samfélagslega mikilvægt verkefni í Grafarvogi og nágrenni enda býður félagið upp á afar fjölbreytt íþróttastarf fyrir íbúa hverfisins á öllum aldri. Iðkendur félagsins í dag eru um 3.500 talsins og fer fjölgandi.
Félagið biðlar því áfram til íbúa hverfisins og annarra velunnara félagsins að taka vel á móti hinum ýmsu fjáröflunum sem iðkendur standa fyrir sem og er fólk hvatt til að mæta á viðburði félagsins hvort sem eru íþróttaleikir, sýningar, mót eða viðburðir eins og þorrablót, herra- og konukvöld, skötuveisla o.s.frv. Allt eru þetta mikilvægar tekjulindir fyrir félagið auk þess að vera hinar bestu skemmtanir.
Þá skorar aðalstjórn félagsins á fyrirtæki í Grafarvogi og nágrenni að standa við bakið félaginu og fjölbreyttu starfi þess.
Stöndum saman og eflum blómlegt íþróttalíf í hverfinu okkar.
Áfram Fjölnir – #félagiðokkar
Ársskýrslu félagsins fyrir árið 2024 er hægt að lesa hér: