Heiðursfélagar Fjölnis: Willem Verhaul og Valborg Guðjónsdóttir Karatedeild
Það er vart hægt að tala um annað þeirra heiðurshjóna án þess að nefna hitt í sömu andrá – enda hafa þau verið óaðskiljanleg í starfi Karatedeildar Fjölnis í á þriðja áratug. Af þeirri ástæðu er okkur sannur heiður að tilnefna þau sem Heiðursfélaga Fjölnis fyrir ómetanlegt og óeigingjarnt framlag sitt til íþróttarinnar, félagsins og deildarinnar.
Ein krafan til þeirra sem sækjast eftir Dan gráðun (svarta beltið) í karate sé að þau verði að gefa til baka til íþróttarinnar. Fá hafa lagt sig jafn mikið fram um að gera það eins og þau Willem og Valborg. Án þeirra, ræki Karatedeild Fjölnis einfaldlega ekki þá öflugu starfsemi sem raun ber vitni. Þau hafa lagt ómælda vinnu í uppbyggingu deildarinnar, hvort sem það er í þjálfun,

stjórnarsetu, liðsstjórn eða dómgæslu. Öll þeirra börn hafa stundað karate, og sjálf hafa þau gengið í öll möguleg ábyrgðarhlutverk – jafnan oftar en einu sinni.
Það er erfitt fyrir utanaðkomandi að átta sig á því hversu dýrmæt þau eru fyrir starfsemina, en fyrir okkur sem höfum notið eljusemi þeirra og eldmóðs er það augljóst. Það er því með djúpu þakklæti sem við tilnefnum þau til þessarar viðurkenningar.