Gunnar Steinn Jónsson ráðinn þjálfari Olísdeildarliðs Fjölnis í handbolta!
Gunnar Steinn Jónsson snýr aftur heim – ráðinn þjálfari Olísdeildarliðs Fjölnis í handbolta
Gunnar Steinn Jónsson hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks karla í handbolta. Gunni er Grafaravogsbúum kunnur enda uppalinn í félaginu þar sem hann spilaði með yngri flokkum í handbolta og fótbolta við góðan orðstýr. Frá Fjölni lá leiðin til HK og þaðan í atvinnumennsku í Svíþjóð, Frakklandi, Þýskalandi og Danmörku þar sem hann spilaði samhliða því að leika fyrir Íslands hönd og var þar með fyrsti Fjölnismaðurinn til að spila á stórmóti í handbolta. Eftir glæsilegan feril erlendis lá leið hans heim til Íslands þar sem hann lék og var aðstoðarþjálfari með Stjörnunni við hlið Patreks Jóhannessonar.
Gunnar tekur við stjórn liðsins sem vann sér inn sæti í úrvalsdeild í vor í eftirminnilegu einvígi í oddaleik í fullri Fjölnishöll. Meistaraflokksráð lýsir mikilli ánægju með ráðninguna sem endurspeglar stefnu félagsins vel að byggja á Fjölnismönnum og metnað félagsins til að vera með lið í efstu deild í handbolta.
Gunnar Steinn er spenntur fyrir komandi áskorun í Olís deildinni:
,,Það er frábær tilfinning að snúa aftur heim í Grafarvoginn og loka þannig þessum hring eftir góðan Evróputúr með fjölskyldunni. Sætið í Olísdeildinni gefur tækifæri á að byggja upp öflugt lið með mörgum Fjölnismönnum. Ég hlakka mikið til að leggja mitt að mörkum og byrja að vinna með strákunum. Ég hvet alla Grafarvogsbúa, fyrrverandi og núverandi, til að mæta á völlinn á næsta tímabili og styðja okkur, flaggskip Fjölnis í efstu deild.”
Það eru spennandi tímar fram undan í Grafarvoginum og handboltadeildin ætlar að leggja allt kapp á að skapa góða stemningu og gleði í kringum starfið í vetur. Við skorum á sem flesta á að vera með okkur í liði og taka þátt!
Meistaraflokksráð handboltadeildar Fjölnis