Mót
Að keppa
Að keppa á skautamóti stendur þeim iðkendum til boða sem hafa náð tilskilinni getu sem þarf, og er það þjálfari sem metur hvort skautari sé tilbúinn. Hér á Íslandi er einungis keppt í einstaklingsflokkum eins og er. Það er stórt skref fyrir skautara að undirbúa sig að fyrir keppni og þegar að því er komið getur það ferli tekið mánuði, jafnvel ár og krefst mikillar vinnu. Á Íslandi skiptist keppniskerfi Skautasambands Íslands í tvo flokka. Skautari getur færst á milli Félagalínu og ÍSS keppnisflokka. Fyrirspurnum varðandi keppnir eða keppnisdansa skal beina til Yfirþjálfara eða Skautastjóra.
- Keppniskerfi Félagalínu
- Keppniskerfi ÍSS
Í Félagalínu eru keppnisflokkar fyrir allan aldur, og eru mismunandi kröfur á hvern flokk. Krafa er um að hafa lokið ákveðinni getu í Skautum Regnbogann til að keppa í Félagalínu. Einnig eru skylduæfingar sem þarf að sýna í hverjum og einum flokki og er það miðað við lágmarksgetu skautarans. Allir keppendur fá þátttökuviðurkenningar en tilkynnt er um sæti hjá eldri flokkunum. Keppendur í Félagalínu taka þátt á innanhúsmótum og millifélagamótum og á hverju móti eru þrír dómarar. Allir keppendur fá í hendurnar einkunnablað (e. protocol) sem sýnir frammistöðu þeirra að keppni lokinni.
Hér má nálgast keppnisreglur Félagalínu
Hér má finna nánari útskýringar á keppnisreglum Félagalínu
Í Keppniskerfi ÍSS eru einnig keppnisflokkar fyrir allan aldur, og eru mismunandi kröfur á hvern flokk. Krafa er um að hafa lokið öllum stigum Skautum Regnbogann, ásamt því að hafa staðist þau grunnpróf sem þarf fyrir sinn keppnisflokk. Grunnprófin skiptast í tvo hluta – spor/mynstur og skylduæfingar/element. Ljúka þarf báðum hlutum grunnprófs til að öðlast keppnisrétt í flokknum. Ákvörðun hvort skautari sé tilbúinn að taka grunnpróf er í höndum þjálfara. ISU flokkar (Keppnisflokkar Alþjóðaskautasambandsins) tilheyra undir Keppniskerfi ÍSS. Keppendur í keppnisflokkum Skautasambandsins taka þátt á innanhúsmótum, millifélagamótum og Skautasambandsmótum. Einnig taka þeir þátt á Reykjavíkurleikunum (Reykjavík International Games). Dæmt er eftir alþjóðlegu dómarakerfi (IJS) og á hverju móti eru 3-5 dómarar og 3 tæknidómarar. Yngri iðkendur fá allir þátttökuviðurkenningu en tilkynnt er um sæti hjá eldri flokkunum. Einkunnablað (e. protocol) keppenda í eldri flokkunum er birt á vefsíðu mótshaldara en keppendur yngri flokkanna fá þau afhent.
Hér má nálgast grunnprófskröfur fyrir keppnisflokka ÍSS – er á bls. 10
Hér má nálgast keppnisreglur ÍSS
Keppnisreglur Novice flokka – Basic Novice, Intermediate Novice og Advanced Novice
Keppnisreglur Junior og Senior flokka – SP bls. 105 og 106, FP bls. 108 – 109.
Program Components 2020-2021 – Keppniskerfi ÍSS
Keppnisdans (Prógram)
Til að geta tekið þátt á mótum þarf iðkandi að hafa keppnisdans. Við gerð á nýjum keppnisdansi þurfa iðkendur að hafa tónlist. Þjálfarar geta valið lag úr lagamöppu deildarinnar eða valið er lag sem þarf að klippa þannig að það passi fyrir viðkomandi keppnishóp. Kennsla á dansinum fer fram í þrem einkatímum (eða fleiri ef þörf er á). Iðkandi getur valið hjá hvaða þjálfara hann leitar til vegna gerð dansins, svo lengi sem viðkomandi þjálfari er á svæðinu. Vinsamlegast athugið að keppnisdans og klipping á lagi er ekki innifalið í æfingjagjöldum (sjá gjaldskrá).
Á keppnisdag – hlutverk skautara
- Passa að vera vel úthvíldur og nærður
- Mæta tímanlega (amk. 45 mín fyrr) – þetta er vegna þess að mótið getur orðið á undan áætlun
- Hita vel upp á gólfi
- Vera með á hreinu klukkan hvað keppnin fer fram
- Mæta í keppnisfatnaði og greiddur
- Koma með allan búnað sem þarf
- Horfa á og styðja liðsfélaga sína
Klæðnaður
- Stúlkur skulu vera í skautasokkabuxum og skautakjól/eða skautasamfesting
- Drengir skulu vera í snyrtilegum buxum og bol/skyrtu eða skautasamfesting
- Vera í félagspeysu (fyrir upphitun á ís)
- Leyfilegt er að vera með fingravettlinga í upphitun
- Hár skal vera tekið frá andliti, t.d. í snúð eða fléttu
Í skautatösku á að vera
- Skautarnir
- Mjúkar hlífar
- Harðar hlífar
- Tuska til að þurrka skautablöðin
- Auka sokkabuxur
- Hársprey, spennur, auka teygjur
- Plástur, hælsærisplástur
- Auka reimar
Hlutverk þjálfara á mótum
- Veita skauturum stuðning og leiðbeiningar
- Hjálpa skauturum við upphitun
- Sjá um að tónlist skautara sé í lagi
- Skila inn tónlist til mótshaldara
Hlutverk foreldra á mótum
- Sjá til þess að iðkandi mæti tímanlega
- Sjá til að iðkandi sé tilbúinn, þ.e. í tilskyldum klæðnaði og með uppsett hár
- Hvetja sitt barn og liðsfélaga þeirra
- Athugið að aðgangur að búningaaðstöðu og keppnisaðstöðu er eingöngu fyrir keppendur, þjálfara og liðsstjóra
- Foreldrar mega aldrei undir neinum kringumstæðum ræða við eða hafa samskipti við dómara mótsins á meðan mót stendur yfir