Við eigum tvo flokka í úrslitum

Eins og körfuboltaáhugafólk veit þá er Geysis-bikarveisla í gangi þessa daganna og er að ná hámarki með úrslitaleikjum. Við eigum tvo öfluga flokka í úrslitum.

Í dag föstudaginn 15. febrúar kl. 20:15 höfum við titil að verja. A lið 10. flokks Fjölnis leikur þá til úrslita gegn Stjörnunni í Laugardalshöll.

Á sunnudaginn kemur 17.febrúar eigum við annað lið í úrslitum í Laugardalshöllinni, þegar drengjaflokkur mætir Stjörnumönnum kl. 16:50.

Fjölnismenn stöndum saman og sýnum hversu máttug við erum, mætum og hvetjum okkar menn til sigurs.

Áfram Fjölnir.


Þorrablót happdrætti

Búið er að draga í Þorrablóts happdrættinu.

Hér má sjá vinningaskránna.

Vinninga ber að vitja fyrir 30. apríl 2019.

Vinningar eru afhentir á skrifstofu Fjölnis í Egilshöll á opnunartíma skrifstofu.

Upplýsingar um opnunartíma má finna hér.

Þökkum fyrir stuðninginn, kær kveðja Þorrablótsnefndin


Fullt hús á TORG skákmóti Fjölnis

Það mættu 80 efnilegir skákkrakkar á öllum grunnskólaaldri á TORG skákmót Fjölnis í Rimaskóla á Skákdegi Íslands 2019. Tefldar voru sex umferðir og keppnin jöfn og spennandi frá upphafi til enda. Verðlaunað var í þremur flokkum; eldri flokki, yngri flokki og stúlknaflokki. Sigurvegarinn reyndist vera Kristján Dagur Jónsson TR sem hlaut 5,5 vinninga af 6 mögulegum. Sara Sólveig Lis skákdeild Fjölnis sigraði í stúlknaflokki. Meðal efstu manna á mótinu voru Fjölnis strákarnir Joshua Davíðsson, Arnór Gunnlaugsson og Anton Breki Óskarsson, bekkjarbræður í Rimaskóla, allir með 5 vinninga.

Í upphafi mótsins ávarpaði borgarfulltrúinn og Grafravogsbúinn Valgerður Sigurðardóttir keppendur og lýsti ánægju sinni með hið öfluga skákstarf Fjölnis og sagðist stolt af því að fá að leika fyrsta leikinn á þessu glæsilega skákmóti. Valgerður lék síðan fyrsta leikinn fyrir hina bráðefnilegu Emilíu Emblu Baldvins-og Berglindardóttur sem er aðeins 6 ára gömul, nemandi í Rimaskóla, og var í afrekshópi Omar Salama á Laufásborg sl. vetur.

Í skákhléi var boðið upp á góðar veitingar frá Hagkaup og Emmess ís. Gífurlegt verðlaunaflóð skall á að loknu móti, alls 43 talsins. Hagkaup, Pizzan, Emmess, Disney-klúbburinn og fyrirtækin Bókabúðin, Blómabúðin,CoCo´s og Smíðabær við Hverafold gáfu vinningana sem voru flottir og fjölbreyttir. Fjölmargir foreldrar fylgdust með af áhuga, fengu sér kaffi og kökur og gátu haft það huggulegt í félagsmiðstöðinni.


Byrjendanámskeið í Tennis

Byrjendanámskeið í Tennis fyrir börn 10-13 ára. Skráning er hafin á heimasíðu félagsins https://fjolnir.felog.is

Laugardagar, klukkan 16:30 – 17:30 – frá 26. jan til 25.


Íslandsmót 2018

Um helgina var haldið Íslandsmót barna og unglinga ásamt Íslandsmeistaramóti í Egilshöllinni. Mótið var allt hið glæsilegasta. Á laugardeginum hófst keppni hjá keppnisflokkum Chicks og Cubs. Þessir ungu og efnilegu skautarar stóðu sig mjög vel og var öllum keppendum veitt viðurkenning að keppni lokinni. Næst var keppt í flokki Basic Novice.

Mjótt var á milli tveggja efstu þar sem Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir úr SA vann með 26.71 stig, í öðru sæti var Kristín Jökulsdóttir frá SR með 26.43 stig og í þriðja sæti var Rakel Sara Kristinsdóttir úr Fjölni með 20.43 stig. Í Keppnisflokki Intermediate Novice voru það tvær Fjölnisstúlkur sem voru í efstu sætunum þar sem Valdís María Sigurðardóttir var í fyrsta sæti með 24.33 stig, í öðru sæti var Harpa Karin Hermannsdóttir með 24.18 stig og í þriðja sæti var Ólöf Thelma Arnþórsdóttir úr SR með 23.41 stig.

Á laugardeginum lauk einnig keppni í flokknum Intermediate Ladies. Þar stóð Berglind Óðinsdóttir úr Fjölni sem sigurvegari með 36.66 stig, Elísabet Ingibjörg Sævarsdóttir úr SA var í öðru sæti með 34.41 stig og Sólbrún Víkingsdóttir úr Fjölni var í þriðja sæti með 32.19 stig.

Keppendur í flokkum Advanced Novice, Junior og Senior skautuðu stutta prógramið sitt í lok laugardagsins. Þessir keppendur komu svo aftur og kepptu í frjálsa prógraminu á sunnudeginum. Að keppni lokinni var það Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir úr SA sem stóð uppi sem Íslandsmeistari í keppnisflokki Advanced Novice með hvorki meira né minna en 106.07 stig samanlagt úr báðum prógrömum, aldeilis frábær árangur hjá henni. Í öðru sæti var Rebekka Rós Ómarsdóttir úr SR með 74.64 stig og Herdís Heiða Jing Guðjohnsen úr SR í þriðja sæti með 74.21 stig. Íslandsmeistari í keppnisflokki Junior var Marta María Jóhannsdóttir úr SA með samanlagt 103.10 stig, í öðru sæti var Aldís Kara Bergsdóttir úr SA með 100.51 stig og í þriðja sæti var Viktoría Lind Björnsdóttir með 91.71 stig.

Íslandsmeistari í keppnisflokki Senior var Margrét Sól Torfadóttir úr SR með samanlagt 102.25 stig og í öðru sæti var Eva Dögg Sæmundsdóttir úr Fjölni með 86.97 stig. Óskum við þeim ásamt öllum keppendum mótsins til hamingju með frammistöðu sína um helgina.


Hörku spennandi leikslok í viðureign Bjarnarins og SR

Í viðureign Bjarnarins og SR í gær mættu SR-ingar sterkir til leiks og sýndu að þeir voru alveg með á nótunum með því að skora tvö mörk á fyrstu mínútunni. Þeir bættu svo um betur með tveimur mörkum til viðbótar í fyrsta leikhluta. Bjarnarmenn voru hins vegar seinir að taka við sér og var staðan 0-4 fyrir SR eftir fyrstu lotu.

Bjarnarmenn vöknuðu aðeins í leikhlé og mættu einbeittari til leiks í upphafi annar lotu og börðust vel og drengilega í gegnum alla lotuna. Ekki var mikið um mörk en þó átti Kristers Bormanis fyrstamark Bjarnarmanna með stoðsendingu frá Róberti Pálssyni. Því miður minkaði munurinn á mörkum ekkert því tæpum tíu mínútum áður höfðu SR-ingar nælt sér í eitt mark í viðbót. Staðan eftir lotuna var því 1-5 fyrir SR.

Þrátt fyrir mikinn markamun létu Bjarnarmenn það ekki á sig fá og komu tví (eða þrí) efldir til leiks í síðust leiklotu. Þetta var hörkuspennandi lota og sýndu strákarnir virkilega hvað í þeim býr þegar þeir röðuðu inn fimm mörkum á þrettán mínútum. Annað mark Bjarnarins skoraði Viktor Svavarsson með stoðsendingu frá Kristers Bormanis og kom stöðunni í 2-6, eftir leikhlé sem SR-ingarnir tóku sýndi Hjalti hvað í sér býr og skoraði þriðja mark Bjarnarins með stoðsendingu frá Edmunds og Jóni Alberti, sex mínútum síðar var það svo aftur Kristers sem var að verki og skoraði fjórða markið án stoðsendingar. Mínútu síðar kom Ólafur Björnsson með fimmta mark Bjarnarmanna með stoðsendingu frá Ingþóri Árnasyni og tveimur mínútum eftir það jafnaði Kristers leikinn 6-6 með stoðsendingu frá Ólafi Björnsyni.

Leikurinn endaði í framlengingu þar sem liðin léku þrír á þrjá og fyrsta mark varð sigurmark. Þrátt fyrir hörku og þrautsegju í strákunum tókst þeim ekki að innsigla sigurinn og fengu SR-ingar fyrsta markið í framlengingu og loka staðan því 6-7 fyrir SR-ingum.

Við þökkum Sr-ingum fyrir heimsóknina og hörku spennandi og skemmtilegan íshokkíleik.


Frábær árangur á haustmóti

Haustmót í 3.-1. þrepi og frálsum æfingum fór fram síðastliðna helgi í Björkunum. 19 keppendur kepptu á mótinu frá Fjölni, 17 stúlkur og 2 drengir. Árangur helgarinnar var glæsilegur og  unnu Fjölniskrakkar alls  24 verðlaun á mótinu. Keppt var á einstökum áhöldum og í fjölþraut. Við erum gríðarlega stolt af þessum myndarhóp og þjálfurum þeirra enda stöðu þau sig frábærlega. Við óskum ykkur öllum til hamingju með árangurinn og hlökkum til þess að fylgjast með ykkur áfram á mótum vetrarins.

Verðlaunasæti:

1. þrep kvk 13 ára og yngri
3. sæti  stökk - Leóna Sara Pálsdóttir

1. þrep kvk 14 ára og eldri
1. sæti í fjölþraut – Venus Sara Hróarsdóttir
3.sæti á stökki - Katrín S. Vilhjálmsdóttir
1. sæti á tvíslá – Venus Sara Hróarsdóttir
2. sæti á tvíslá – Katrín S. Vilhjálmsdóttir
3. sæti á tvíslá – Agla Bríet Gísladóttir
3. sæti á slá – Venus Sara Hróarsdóttir

2. þrep kk
1. sæti á öllum áhöldum  - Sigurður Ari Stefánsson
1. sæti í fjölþraut – Sigurður Ari Stefánsson

3. þrep 11 ára og yngri
1. sæti á stökki - Júlía Mekkín Guðjónsdódttir
3. sæti á stökki – Sigríður Dís Bjarnadóttir
4. sæti í fjölþraut – Lilja Katrín Gunnarsdóttir

3. þrep kvk 12 ára
2. sæti á gólfi - Eva Sóley Kristjánsdóttir

3. þrep kvk 13 ára og eldri
3. sæti á slá – Tinna Líf Óladóttir

3. þrep kk 12 ára og eldri
2. sæti á gólfi – Davíð Goði Jóhannsson
1. sæti í hringjum  - Davíð Goði Jóhannsson
1. sæti á tvíslá – Davíð Goði Jóhannsson
1. sæti á svifrá – Davíð Goði Jóhannsson
2. sæti í fjölþraut  - Davíð Goði Jóhannsson


Getraunakaffi Fjölnis hefst aftur

Hið margrómaða Getraunakaffi Fjölnis fer aftur í gang núna á laugardaginn 8. september og alla laugardaga eftir það til og með 15. desember á milli kl. 10:00 og 12:00 í Egilshöll.

Það eru allir velkomnir, t.d. kjörið fyrir foreldra að koma við, kíkja í kaffi og tippa þegar búið er að skutla krökkunum á æfingu. Alltaf heitt á könnunni og bakkelsi frá Bakarameistaranum á boðstólnum.

Leikurinn er sáraeinfaldur en það eru tveir aðilar saman í liði að giska á úrslit í enska boltanum. Flottir vinningar í boði í hópleiknum. Allir sem skrá sig eiga möguleika á þátttökuverðlaunum. Dregið er úr skráningum.

Skráning fer fram á 1x2@fjolnir.is þar sem fram koma nöfn beggja liðsmanna, kennitala, sími, netfang og nafn á liðinu. Það er algjör mýta að þetta sé bara fyrir karla því viljum við bjóða konur sérstaklega velkomnar.

Við ætlum að vera með 15 vikna hópleik þar sem 12 bestu vikurnar gilda. Þátttökugjald er einungis 4.990 kr. per hóp eða 2.495 kr. á mann og greiðist beint inn á reikning félagsins: 0114-05-060968 kt: 631288-7589

Ef liðin komast ekki þá er alltaf hægt að senda seðlana í gegnum netfangið 1x2@fjolnir.is - einfalt og þægilegt.

Reglur og frekari upplýsingar í leiknum má finna hér:
https://www.fjolnir.is/knattspyrna/getraunir1/

Sérstök Facebook grúbba fyrir Getraunakaffi Fjölnis má finna hér:
https://www.facebook.com/groups/1299902466780921/

Taktu þátt í félagsstarfinu og vertu með frá byrjun!

#FélagiðOkkar