Uppskeruhátið Fjölnis 2025
Hin árlega Uppskeruhátíð Fjölnis fór fram við hátíðlega athöfn í Keiluhöllinni í gær, þann 11. desember, og heppnaðist kvöldið einstaklega vel. Vel var mætt á viðburðinn en hátt í 100 manns voru viðstaddir athöfnina. Veitt voru verðlaun fyrir íþróttaafrek ársins, ásamt því að valið á Fjölnismanni, íþróttakarli og -konu var tilkynnt.
Íþróttafólk deilda er kjörið ár hvert af deildum félagsins, aðalstjórn félagsins velur svo úr hópi þeirra einn íþróttakarl og eina íþróttakonu Fjölnis. Aðalstjórn félagsins velur einnig Fjölnismann ársins út frá ábendingum. Þau hljóta öll farandbikar sem þau varðveita í eitt ár og einnig fá þau afhentan bikar til eignar sem gjöf.
Jarþrúður Hanna formaður félagsins stýrði athöfninni ásamt öðrum úr aðalstjórn. Gunnar Jónatans sá um að taka glæsilegar myndir á hátíðinni.
Við óskum fólkinu okkar innilega til hamingju og þökkum öllum sem komu í gær kærlega fyrir komuna og kvöldið! Hér fyrir neðan má sjá þau sem hlutu viðurkenningar og verðlaun.
Íþróttakona ársins: Helga Þóra Sigurjónsdóttir
Helga Þóra Sigurjónsdóttir hefur náð mjög góðum árangri í hástökki á árinu. Hún hefur æft frjálsar íþróttir frá 9 ára aldri. Hún er nú með bestu hástökkvurum á landinu í kvennaflokki. Hennar besta afrek 2025 er stökk upp 1,83 m sem erfjórði besti árangur íslenskrar konu í hástökki frá upphafi. Það er nú ekkert smá
Mynd: Gunnar Jónatans
Íþróttakarl ársins: Daði Arnarson
Daði hefur átt einstaklega öflugt ár og fest sig rækilega í sessi sem einn allra besti millivegalengdarhlaupari landsins. En hann hefur jafnframt verið þjálfari hjá deildinni.
Hann sigraði bæði 800m og 1500m á íslandsmeistaramótinu innanhúss og tryggði sér jafnframt sigur í 1500m á bikarkeppni FRÍ innanhúss. Daði átti stóran þátt í því að karlalið frjálsíþróttadeildar Fjölnis, í samstarfi við UMSS, næði glæsilegum sigri á bikarmótinu.
Á árinu keppti Daði fyrir hönd Íslands bæði á Smáþjóðleikunum og á Evrópubikarmótinu í Slóveníu, þar sem hann stóð sig vel við krefjandi aðstæður. Besti árangur hans á árinu er í 800m, sem hann hljóp á 1:54,12, sem gefur honum 963 IAAF stig en sá árangur er jafnframt sextándi besti árangur Íslendings í greininni innanhúss frá upphafi.
Auk afreka sinna á brautinni hefur Daði verið afar mikilvægur leiðtogi og þjálfari innan frjálsíþróttahópsins síðustu ár og lagt mikið af mörkum til uppbyggingar og árangurs deildarinnar.
Mynd: mynd vantar
Fjölnismaður ársins Róbert Línberg Runólfsson
Róbert Línberg Runólfsson gjaldkeri handknattleiksdeildar og formaður barna- og unglingaráðs deildarinnar.
Róbert hefur sinnt starfi gjaldkera handboltadeildar og verið formaður barna og unglingaráðs undanfarin ár. Hann hefur unnið afar mikilvægt starf gjaldkera af mikilli alúð og vandvirkni í krefjandi aðstæðum. Þá hefur Róbert hefur leitt Barna- og unglingaráð af mikilli festu og verið lykilmaður í nánu og góðu samstarfi við handknattleiksdeild Fylkis.
Þá hefur Róbert, eiginkona hans og dætur að stórum hluta séð um miðasölu og sjoppu á leikdögum og þannig hefur fjölskyldan verið einn af föstu punktunum í kringum leiki meistaraflokksliðanna.
Við teljum því Róbert einstaklega vel að því komin að hljóta útnefninguna Fjölnismaður ársins 2025.
Innilega til hamingju Róbert.
Mynd: Gunnar Jónatans
Fimleikadeild
Fimleikakona: Nicole Hauksdóttir
Nicole hefur á árinu tekið þátt í nokkrum FSÍ mótum og náð frábærum árangri. Á Íslandsmóti vann Nicole silfurverðlaun í fjölþraut og hlaut fjögur önnur verðlaun á einstökum áhöldum. Enn fremur vann hún þrjú gullverðlaun og þrjú bronsverðlaun á öðrum FSÍ mótum.
Nicole er efnileg íþróttakona sem nú undirbýr sig fyrir úrtökumót fyrir sæti í Úrvalshópi FSÍ.
Mynd: Gunnar Jónatans
Frjálsíþróttadeild
Frjálsíþróttakarl: Daði Arnarson
Daði hefur átt einstaklega öflugt ár og fest sig rækilega í sessi sem einn allra besti millivegalengdarhlaupari landsins. Hann sigraði bæði 800m og 1500m á íslandsmeistaramótinu innanhúss og tryggði sér jafnframt sigur í 1500m á bikarkeppni FRÍ innanhúss. Daði átti stóran þátt í því að karlalið frjálsíþróttadeildar Fjölnis, í samstarfi við UMSS, næði glæsilegum sigri á bikarmótinu.
Á árinu keppti Daði fyrir hönd Íslands bæði á Smáþjóðleikunum og á Evrópubikarmótinu í Slóveníu, þar sem hann stóð sig vel við krefjandi aðstæður. Besti árangur hans á árinu er í 800m, sem hann hljóp á 1:54,12, sem gefur honum 963 IAAF stig en sá árangur er jafnframt sextándi besti árangur Íslendings í greininni innanhúss frá upphafi.
Auk afreka sinna á brautinni hefur Daði verið afar mikilvægur leiðtogi og þjálfari innan frjálsíþróttahópsins síðustu ár og lagt mikið af mörkum til uppbyggingar og árangurs deildarinnar.
Mynd: vantar mynd
Frjálsíþróttakona: Helga Þóra Sigurjónsdóttir
Helga Þóra hefur aldrei verið betri en í ár og er meðal allra bestu hástökkskvenna á landinu og hefur verið það um nokkurra ára skeið.
Helga Þóra sigraði bæði á Íslandsmeistaramótinu og bikarmótinu utanhúss í sumar og hélt þannig áfram að styrkja stöðu sína í fremstu röð.
Hennar besta afrek á árinu 2025 er stökk yfir 1,83 m á Corky Classic móti í Texas í byrjun ársins. Sá árangur gefur 1052 IAAF stig og er afar glæsilegur. Þá er sá árangur Helgu Þóru fjórði besti árangur íslenskrar konu í hástökki frá upphafi. En hún er nú í 150. sæti á heimslista kvenna í greininni, sem undirstrikar framúrskarandi getu og stöðuga framför.
Mynd: Gunnar Jónatans
Handknattleiksdeild
Handboltakarl ársins: Aðalsteinn Örn Aðalsteinsson
Aðalsteinn Örn, eða Alli, er í dag fyrirliði meistaraflokks karla í handbolta og er hann án efa að spila eitt sitt besta tímabil sem leikmaður. Hann var einn þeirra leikmanna sem fór fyrir liðinu í baráttunni fram undir síðustu umferð í Olísdeildinni á síðasta tímabili. Og í Grilldeildinni nú í haust hefur Alli farið hamförum og setti meðal annars 18 mörk í einum og sama leiknum gegn Víkingi í fyrri umferðinni.
Alli er einnig þjálfari yngri flokka sem skapar dýrmæta tengingu fyrir yngri iðkendur við meistaraflokk, þar sem hann er frábær fyrirmynd, innan sem utan vallar. Við erum afar rík af því að eiga leikmenn eins og Alla.
Mynd: Þorgils
Handboltakona ársins: Sólveig Ása Brynjarsdóttir
Sólveig Ása er uppalin í Fjölni og það hefur alltaf sést hversu sterkt samband hún hefur við félagið. Hún átti frábært tímabil, var markahæst í liðinu og sýndi mikinn metnað og áreiðanleika – Svo kom að því að hún varð barnshafandi — og í stað þess að nýta það sem fullkomið tilefni til að taka sér örlítið hlé frá handboltanum, þá ákvað hún auðvitað að halda áfram. Hún hoppaði beint í hlutverk sjúkraþjálfara og nýtir þar þekkingu sína sem menntaður slökkviliðs- og neyðarflutningamaður og framtíðar hjúkrunarfræðingur. Þetta er liðsandi sem ekki er hægt að kenna — þetta er bara Sólveig, svo ótrúlega mikilvæg fyrir félagið jafnt innan vallar sem utan. Sólveig hefur verið fyrirmynd, stuðningur og lykilmanneskja í öllum aðstæðum. Hún er sannur Fjölnismaður. Kæra Sólveig — til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu. Við erum stolt af þér.
Mynd: Gunnar Jónatans
Íshokkídeild
Íshokkíkarl ársins: Hektor Hrólfsson
Hektor á skilið að hljóta titilinn Íshokkímaður Fjölnis þar sem hann er góður fulltrúi félagsins bæði innan og utan íss. Hann er uppalinn Fjölnismaður sem hefur farið alla leið í gegnum yngri flokkana og er nú orðinn lykilleikmaður í meistaraflokki og U22-liðinu. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann þegar unnið sér sæti í unglingalandsliðum Íslands og er farinn að banka á dyr A-landsliðsins. Hektor er góð fyrirmynd; ávallt áreiðanlegur, mætir samviskusamlega á allar æfingar og leggur sig 100% fram. Hann er jafnframt góður liðsfélagi sem lyftir bæði liðinu og umhverfi sínu upp með viðhorfi sínu og vinnusemi. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Hektor þegar sannað að hann á framtíðina fyrir sér í íshokkí, og það verður spennandi að fylgjast með áframhaldandi þróun hans á næstu árum.
Mynd: Gunnar Jónatans
Íshokkíkona ársins: Eva Hlynsdóttir
Frá fyrstu æfingu tímabilsins setti Eva viðmiðið fyrir hvað það þýðir að vera skuldbundin. Hún mætir snemma, dvelur lengi og nálgast hverja æfingu af einbeitingu, ákafa og metnaði til að bæta sig. Samkvæmni hennar hefur gert hana að einum áreiðanlegasta leikmanni liðsins og keppnisskapið hennar lyftir frammistöðu allra í kringum hana.
Á ísnum hefur Eva verið drifkraftur liðsins okkar. Hvort sem það er hraðinn hennar, ákvarðanatökur eða hæfni hennar til að stíga upp þegar mest á reynir, þá hefur hún skilað frábærri frammistöðu leik eftir leik. Hún spilar af hjarta, með útsjónarsemi og er reiðubúin að leggja á sig þá vinnu sem ekki alltaf sést á tölfræðiblaðinu, en skilar sér svo sannarlega í úrslitunum.
Utan íss er Eva fyrirmynd fyrir allt liðið. Viðhorf hennar og liðsheildarhugsun skapa menningu sem aðrir fylgja eftir af sjálfu sér. Hún leiðir með fordæmi – með aga, dugnaði og sterkri hollustu við liðið. Allir þessir eiginleikar gefa Evu ekki aðeins bjarta framtíð innan félagsins heldur einnig á landsliðssviði. Eva er holdgervingur þeirra gilda sem félagið okkar vill standa fyrir.
Mynd: Gunnar Jónatans
Karatedeild
Karatekarl ársins: Gabriel Sigurður Pálmason
Gabriel Sigurður er frábær fyrirmynd fyrir alla innan deildarinnar. Hann hefur sýnt þrautseigju og dugnað, og er margfaldur íslandsmeistari í kata. Gabríel hefur keppt fyrir hönd Íslands víðs vegar erlendis með landsliðinu. Að auki þjálfar hann byrjendur og er orðinn virtur dómari á mótum hérlendis. Það er okkur því sannur heiður að tilnefna hann í ár.
Mynd: Þorgils G
Karatekona ársins: Sunna Rut Guðlaugardóttir
Sunna Rut byrjaði að æfa karate 6 ára og hefur síðan unnið til fjölda titla, sem dæmi Íslandsmeistari í kumite í tvígang á yngri árunum, smáþjóðaleika meistari í hópkata á unglingsárunum og keppir enn til verðlauna á hverju móti á fullsorðins aldri. Auk þess er hún frábær fyrirmynd, þjálfar byrjendur og framhaldsiðkendur og hjálpar til
á mótum sem liðsstjóri. Það er okkur sannur heiður að tilnefna hana því að hún á þetta svo sannarlega skilið.
Mynd: Gunnar
Knattspyrnudeild
Körfuknattleiksdeild
Körfuboltakarl ársins: Sigvaldi Eggertsson
Sigvaldi hefur verið lykilmaður liðsins, var valinn í lið ársins í 1. deild karla á síðasta tímabili og hefur farið frábærlega af stað á yfirstandandi tímabili. Hann er í hópi efstu manna deildarinnar í fjölmörgum tölfræðiflokkum, þar á meðal stigum, fráköstum, stoðsendingum og heildarframlagi. Auk þess er Sigvaldi fyrirliði liðsins og fyrirmynd fyrir yngri iðkendur félagsins.
Mynd: Þorgeir Örn Tryggvason
Körfuboltakona ársins: Arna Rún Eyþórsdóttir
Arna Rún er uppalin leikmaður meistaraflokks kvenna, í fyrra tók hún sín fyrstu skref í ungum meistaraflokki Fjölnis í 1. deild kvenna þar sem hún ásamt 7 öðrum leikmönnum úr sterkum 2009 árgangi spiluðu lykilhlutverk. Arna stóð sig frábærlega í deildinni og hefur fylgt því eftir með öflugum leikjum í deildinni í ár en hún er með 12 stig og 6 fráköst að meðaltali ásamt því að vera mjög öflugur varnarmaður. Arna var einnig í u16 kvenna landsliðinu seinasta sumar þar sem hún byrjaði alla leiki í byrjunarliðinu og var félaginu og landi svo sannarlega til sóma. Við hlökkum til að fylgjast með Örnu og okkar efnilega meistaraflokki komandi ár.
Mynd: Gunnar Jónatans
Listskautadeild
Skautakona ársins: Elín Katla Sveinbjörnsdóttir
Elín Katla hefur ár eftir ár sýnt fram á einstaka eljusemi og hollustu við listskautun. Frá unga aldri hefur hún stöðugt skilað frábærum árangri fyrir sjálfa sig, fyrir félagið okkar og fyrir Ísland. Hún er sterkur íþróttamaður og ýtir sífellt undir framfarir og ný viðmið.
Hún hefur verið Íslandsmeistari í yngri flokkum og hefur nú tvö ár í röð verið Íslandsmeistari í Advanced Novice flokki. Á yfirstandandi keppnistímabili hefur Elín Katla enn á ný skarað fram úr með því að setja þrjú ný Íslandsmet í stuttu prógrammi, frjálsu prógrammi og í heildarstigum.
Á alþjóðavettvangi hefur Elín Katla staðið sig með mikilli prýði og unnið til tveggja gullverðlauna á ISU alþjóðlegum mótum á þessu ári sem verður að teljast frábær árangur.
Eljusemi, agi og ástríða Elínar Kötlu gera hana að framúrskarandi fyrirmynd fyrir yngri skautara og verðuga að þessari viðurkenningu.
Mynd: Gunnar Jónatans
Skákdeild
Skákkarl ársins: Dagur Ragnarsson
Skákdeild Fjölnis valdi Dag Ragnarsson sem íþróttakarl deildarinnar annað árið í röð en Dagur var jafnframt kjörinn íþróttamaður Fjölnis 2024.
Dagur hefur á árinu 2025 fylgt eftir góðum árangri frá fyrra ári. Í janúar náði hann sigri á alþjóðlega skákmótinu New York Blitz Fuel GM/IM þar sem 10 þátttakendur tefldu allir innbyrðis. Dagur er í A-sveit Skákdeildar Fjölnis sem annað árið í röð vann Íslandsmót skákfélaga með fullu húsi vinninga. Þá sigraði Dagur á Boðsmóti Taflfélags Reykjavíkur, vann A flokkinn á Haustmóti TR og sterkt Skákmót Garðabæjar. Dagur var valinn í landslið Íslands til þátttöku á EM landsliða sem haldið var í október sl. í bænum Batuni í Georgíu.
Mynd: Gunnar Jónatans
Skákkona ársins: Emilía Embla B. Berglindardóttir
Annað árið í röð velur Skákdeild Fjölnis Emilíu Emblu skákkonu ársins. Hin 13 ára Emilía Embla hefur átt afar farsælt ár við skákborðið og tekið þátt í nánast öllum barna- og unglingaskákmótum ársins. Emilía Embla er stúlknameistari Reykjavíkur annað árið í röð. Hún hefur unnið öll bikarsyrpumót stúlkna á árinu, unnið Friðrikssyrpumót og þá um leið efsta sæti stúlkna. Emilía Embla vann ásamt skáksveit Rimaskóla Íslandsmót barnaskólasveita 2025 og fylgdi skáksveitin sigrinum eftir með 3. sæti á Norðurlandamóti barnaskólasveita í Helsinki nú í haust. Áhugaverðasti árangur Emilíu Emblu á árinu var líkast til 3. sæti í Opnum flokki á fjölmennu Haustmóti Taflfélags Reykjavíkur. Loks má geta þess að nú í lok árs vann Emilía Embla Íslandsmeistaratitil stúlkna í aldursflokknum U14.
Skákdeild Fjölnis væntir mikils af Emilíu Emblu sem ung að árum er komin í hóp öflugustu skákkvenna Íslands.
Mynd: Gunnar Jónatans
Tennisdeild
Tenniskarl ársins: Daniel Pozo
Daniel hefur átt mjög gott ár en auk þess að vera íslandsmeistari í U16 ára flokki bæði innanhúss og utanhúss náði hann eftirtektarverðum árangri í meistaraflokki karla á árinu í einliðaleik en þar náði hann t.d. 3. sæti á Íslandsmóti innanhúss og komst í undanúrslit Íslandsmótsins utanhúss. Auk þess náði hann 2. sæti á Íslandsmóti utanhúss í tvenndarleik í meistaraflokki. Daniel endar árið 2025 í 2. sæti á styrkleikalista Tennissambandsins í tvíliða leik karla.
Mynd: Gunnar Jónatans
Tenniskona ársins: Bryndís Rosa Armesto Nuevo
Bryndís sem nú er á sínu öðru ári að spila háskólatennis í Bandaríkjunum varð á árinu í 2. sæti á Íslandsmótinu utanhúss bæði í einliða- og tvíliðaleik. Bryndís náði einnig öðru sæti á 2nd Annual UTR Sports NAIA Individual National Championships í Bandaríkjunum. Þá var hún fjórða árið í röð valin í íslenska landsliðið til að keppa í Billie Jean King Cup.
Mynd: Gunnar Jónatans
Vorsýning fimleikadeildar
Vorsýning fimleikadeildar Fjölnis 31. maí
Nú fer að koma að því að við förum að setja okkur í vorsýningarstellingar.
ATHUGIÐ
Æfingar eru ekki endilega á hefðbundnum tímum og því mikilvægt að foreldrar og iðkendur fylgist vel með æfingaskipulagi næstu daga inná XPS. Hér fyrir neðan má síðan finna samæfingaskipulag fyrir alla hópa.
Smellið á myndirnar til þess að sjá þær stærri
Miðasala er hafin á Stubb.is
Smellið á sýningarnar til þess að fara beint á miðasölu – Athugið að það getur verið misjafnt á hvaða hópar sýna
Sjálfboðaliðaskjal
https://docs.google.com/spreadsheets/d/1hjjn4dKN-ejcus6f2qGQjdOCyX9JR7wQGjR2Sc7RhdA/edit?usp=sharing
Miðaverð
- 16 ára og eldri 2.750 kr
- 6-15 ára 1.750 kr
- 5 ára og yngri Frítt *
*ætlast til þess að setið sé undir börnum undir 5 ára
Almennar upplýsingar
Búningar
Mikilvægar dagsetningar framundan
Mikilvægar dagsetningar
Nú er farið að síga á seinnihluta vorannarinnar með tilheyrandi fimmtudags frídögum – gott að vera með þessa frídaga á hreinu.
Vorönninni lýkur hjá grunnhópum og æfingahópum með pompi og prakt á vorsýningu 31. maí
Sumaræfingatöflur hjá keppnishópum verða von bráðum klárar og birtar á heimasíðu en sérstakur sumaræfingatími tekur við 10. júní
Bangsar – Kríli – Stubbar – Síðasta æfing annarinnar verður sunnudaginn 25. maí
Fjör í fimleikasal í Dymbilvikunni

Fjör í fimleikasal í Dymbilvikunni
Við ætlum að bjóða krökkum á aldrinum 2018-2013
tækifæri á því að koma í fimleikasalinn okkar dagana 14.-16. apríl frá kl 09:00-12:00
Verð 3500 kr hver dagur
Við viljum bjóða upp á fimleika, skemmtun og afþreyingu fyrir börn á þessum aldri í páskafríiinu.
Skráning er opin á XPS !
Fimleikaæfingar falla niður útaf mótahaldi

Um helgina erum við að halda Bikarmót í hópfimleikum og áhaldafimleikum.
Í dag ,fimmtudag, kl 18:30 hefst uppsetning fyrir mótið.
Allar æfingar falla því niður frá 18:30 í dag og engar æfingar verða fram yfir helgi.
Vonandi komast skilaboðin til allra.
Á mánudaginn verður venjuleg dagskrá.
Iceland Classic
Fimmtudaginn 27. febrúar hófst keppni í Iceland Classic. Mótið er orðið stórt í sniðum og um 700 keppendur komnir til þess að taka þátt á mótinu. Gerpla er mótshaldari þessa móts ár hvert og eiga þau mikið hrós skilið fyrir skemmtilega uppsetningu og gott utanumhald.
Í mótagjöldum er innifalinn fimleikabolur sem allir þáttakendur fá í hendurnar fyrir mót og setur það skemmtilegan svip á mótið
Fjölnir átti 69 þáttakendur á þessu móti og áttum við keppendur í öllum þrepum.
Okkar keppendur stóðu sig glæsilega og fjölmargir sem fóru heim með medalíur fyrir árangur á mótinu.
Frábært íþróttafólk og fyrirmyndir sem við eigum í Fjölni
Þrepamót 2
Helgina 1. – 2. febrúar fór fram Þrepamót 2.
Mótið var haldið hjá nágrönnum okkar í Fylki og var keppt í 4. og 5. þrepi stúlkna og drengja.
Fjölnir átti keppendur í báðum þrepum bæði í keppni drengja og stúlkna. Það er alltaf gaman að sjá ökkar keppendur blómstra á keppnisgólfinu.
Öll úrslit má skoða hér
Við teljum hér upp verðlaunasæti
William Rökkvi 4.þrep drengja
- 3. – 4. sæti á stökki
- 1. sæti á svifrá
- 2. sæti fyrir samanlagðar einkunnir
Elvar Örn 4. þrep drengja
- 2. sæti á svifrá
Hanna Guðmundsdóttir 4. þrep stúlkna
- 1. sæti stökk
Elísa Arna 4. þrep kvk 4.þrep stúlkna
- 2. sæti stökk
Emilía Sara 4. þrep stúlkna
- 3. sæti stökk
Emelía Nótt 4. þrep stúlkna
- 2. sæti gólf
Iðunn Eldey 4. þrep stúlkna
- 3. sæti gólf
Öll úrslit frá mótinu er má sjá hér
Þrepamót í 1.-3. þrepi
Um helgina fór fram Þrepamót í 1.-3. þrepi. Keppni fyrir stúlkur fór fram í Keflavík Gymnastics Academy en keppni fyrir drengi fór fram í fimleikasal Ármanns í Laugardalnum. Þar var keppt í 1., 2. og 3. þrepi á Fimleikastiganum. Fjölnir átti keppendur í öllum þrepum. Fjölnir var með stúlkur frá öllum þrepum og drengi á 3. þrepi. Öll sýndu þau góðar frammistöður og það var yndislegt að sjá framfarir þeirra frá fyrri mótum.
Hjá stúlkum áttum við þrisvar keppendur á palli en gefin eru verðlaun fyrir hvert áhald og svo samanlagða einkunn.
Júlía Ísold (1.þrep) – 1. sæti á slá
Elísa Ósk (2.þrep) – 2. sæti á slá
Rakel María (3.þrep) – 2.sæti í gólfæfingum
Í keppni drengja kom Daníel Baring heim með þrenn verðlaun
Daníel Baring (3.þrep) – 3. sæti fyrir gólfæfingar, tvíslá og samanlagðar einkunnir
Við viljum óska öllum keppendum og þjálfurum innilega til hamingju með góðar frammistöður á Þrepamótinu. Við erum mjög stolt af ykkur!
Öll úrslit frá mótinu er má sjá hér
Vorsýning Fimleikadeildar - Upplýsingar
Vorsýning fimleikadeildar Fjölnis 8. júní
Nú erum við hjá fimleikadeildinni búin að skipta yfir í vorsýningargír.
ATHUGIÐ
Æfingar eru ekki endilega á hefðbundnum tímum og því mikilvægt að foreldrar og iðkendur fylgist vel með æfingaskipulagi næstu daga inná XPS. Hér fyrir neðan má síðan finna samæfingaskipulag fyrir alla hópa.
Við höfum sent út nokkra upplýsingapósta en það er líka gott að hafa allar upplýsingar aðgengilegar hér.
Smellið á myndirnar til þess að sjá þær stærri
Miðasala er hafin á Stubb.is
Smellið á sýningarnar til þess að fara beint á miðusölu.








































































