Jólasöfnun körfunnar
Góðan dag,
Nú hefst hin árlega Jólasöfnun Körfuknattleiksdeildar Fjölnis.
Við erum að selja flatkökur, klósett- og eldhúspappír, kaffi, egg, jólarósir og kerti og vegleg handklæði merkt Fjölni. Nýtt: Fjölnishandklæði
Sölublöðum og greiðslu er skilað eigi síðar en sunnudag 9. desember kl. 22:00. Afhending vara verður fimmtudaginn 13. desember.
Eins og áður safna iðkendur fyrir sjálfa sig um leið og þeir safna fyrir körfuboltadeildina. Iðkendur safna sér inn pening með því að selja ákveðinn fjölda af vörum (sjá blöð vegna Jólasöfnunar Fjölnis 2018).
Leitast verður við að dreifa blöðum Jólasöfnunar Fjölnis 2018 á næstu æfingum. Hvetjum alla til að byrja söluna sem allra fyrst og nota ljósmyndina af söluvörunum t.d. með því að dreifa til vina og vandamanna.
Blöð Jólasöfnunar Fjölnis má nálgast hér: https://drive.google.com/file/d/1FoTsXoMWJyce0XiJFSiGQeLaxk-QA3j_/view?usp=sharing
Samningur við Hummel endurnýjaður
Knattspyrnudeild Fjölnis og Hummel hafa endurnýjað samstarf til næstu fjögurra ára.
Fjölnir mun því spila áfram í Hummel búningum til a.m.k. ársins 2022. Samstarfið við Hummel hefur verið farsælt í gegnum árin og hefur þjónustan hjá Hummel sífellt verið að aukast.
Nú nýlega opnuðu forsvarsmenn Hummel á Íslandi verslunina Sport 24 í Sundaborg 1 og þar er nú komin stórglæsileg alhliða íþróttavöruverslun. Samhliða þessari fjögurra ára framlengingu á Hummel samningnum þá gerist Sport 24 myndarlegur styrktaraðili knattspyrnudeildar til næstu fjögurra ára.
Á myndinni, sem tekin var þegar samningurinn var handsalaður, eru Árni Hermannsson formaður knattspyrnudeildar, Ásta Björk Matthíasdóttir búningastjóri knattspyrnudeildar, Júlíus Óskar Ólafsson frá DanSport/Hummel og Georg Birgisson frá SPORT24
#FélagiðOkkar
Fréttir yngri flokka
Mikið hefur verið um að vera hjá yngri flokkum deildarinnar síðustu helgar. Fjölliðamót HSÍ hófust í október og iðkendur hafa sýnt miklar framfarir og áhuginn eykst viku eftir viku.
BUR stóð fyrir átaki í yngri flokkum í samvinnu við frístundaheimili Grafarvogs, svokallað "frístundafjör". Hátt í 200 börn í 1. og 2. bekk fengu að kynnast handbolta undir leiðsögn þjálfara deildarinnar og leikmanna meistaraflokkanna okkar.
Vinavikur fóru fram samhliða frístundafjöri og gafst það verkefni vel.
8. flokkur
Iðkendur í Egilshöll og Hamraskóla mættu með sameiginlegt lið á fyrsta mót vetrarins í Mosó. Miklar framfarir sáust á iðkendunum og stóðu þau sig mjög vel innan sem utan vallar. Við hvetjum alla áhugasama að kíkja á æfingu hjá Elínu og Berglindi :)
7. flokkur
Helgina 12. - 14. október fór fram fyrsta mótið í vetur hjá 7. flokki karla. Það var frábær þátttaka og alls tóku fjögur lið frá Fjölni þátt á mótinu. Öll liðin stóðu sig frábærlega og var spilamennskan þeirra til fyrirmyndar. Miklar framfarir sáust hjá leikmönnum á milli leikja.
Við í Fjölni eigum svo sannarlega framtíðarstjörnur í handbolta. Sömu helgi fór fram fyrsta mótið í vetur hjá 7. flokki kvenna. Stelpurnar stóðu sig heldur betur vel og eiga hrós skilið fyrir flotta spilamennsku.
Það er alltaf pláss fyrir fleiri stelpur og þess vegna hvetjum við allar stelpur til að koma á æfingu og prófa. Æfingarnar eru á þriðjudögum í Dalhúsum og föstudögum í Egilshöll. Báðar æfingarnar eru kl. 17:00-18:00.
6. flokkur karla
Í október fór fram fyrsta mótið í vetur hjá eldra árinu í 6. flokki karla. Strákarnir stóðu sig mjög vel á mótinu. Gaman var að sjá skemmtilegan karakter og flotta liðsheild hjá liðinu.
Liðið lék fjóra leiki um helgina, vann tvo og tapaði tveimur. Strákarnir munu því leika aftur i 2. deildinni á næsta móti.
Í byrjun október fór fram fyrsta mótið í vetur hjá yngra árinu í 6. flokki karla. Mótið var haldið á Akureyri. Strákarnir stóðu sig virkilega vel og kepptu í sterkum riðli. Ferðin var mjög skemmtileg og var meðal annars farið í sund, kíkt í jólahúsið og fór allur hópurinn út að borða á Greifann. Flottir strákar sem eiga framtíðina fyrir sér í handbolta.
Yngra árið í 6. flokki keppti á sínu öðru móti í vetur. Mótið fór fram í Valsheimilinu. Strákarnir stóðu sig mjög vel og unnu þeir þrjá leiki af fjórum. Vörnin og markvarslan var sérstaklega góð og allir strákarnir sýndu flotta takta í sóknarleiknum. Næsta mót strákanna er í febrúar.
6. flokkur kvenna
Stelpurnar í 6.fl kv eldri voru að spila á sínu fyrsta móti í Íslandsmótinu. Þær voru í 3. deild, spiluðu fjóra leiki og unnu fjóra. Þær sýndu mikla baráttu og leikgleði. Þær einbeita sér núna að næsta móti sem er í nóvember.
5. flokkur karla
Í október fór fram fyrsta mótið hjá 5. flokki karla yngri. Liðið endaði í 2. sæti í sinni deild og gat ágætlega vel við unað. Flottir strákar sem geta náð langt með áframhaldandi dugnaði
5. flokkur kvenna
Stelpurnar í 5. flokki eyddu seinustu helgi í Vestmannaeyjum að taka þátt í Eyjablikksmótinu. Þær stóðu sig frábærlega og þakka fyrir skemmtilegt mót.
Fleiri fréttir og myndir má nálgast á samfélagsmiðlunum okkar á FACEBOOK og INSTAGRAM
Skákdeild Fjölnis leiðir Íslandsmótið
Skákdeild Fjölnis er í forystu á Íslandsmóti skákfélaga eftir fimm umferðir af níu. Framúrskarandi frammistaða Fjölnismanna kom mjög á á óvart enda skáksveitin í 4. sæti eftir styrkleikalista. Enginn gat séð þetta fyrir enda þótt Fjölnir hafi unnið til bronsverðlauna sl. tvö ár. Sjö af átta liðsmönnum Fjölnis hækka á stigum fyrir frammistöðuna. Sveitin er yngsta skáksveitin á mótinu með helming liðsmanna um tvítugt. Síðari hluti Íslandsmótsins fer fram helgina 28. feb - 2. mars 2019. Í þessari fræknu skáksveit eru Jesper Thybo Evrópumeistari U18, Rimaskólameistararnir Dagur Ragnarsson, Oliver Aron Jóhannesson og Jón Trausti Harðarson, sænski alþjóðlegi meistarinn Pontus Carlson, Davíð Kjartansson fv. liðsstjóri Rimaskóla í skák, Tómas Björnsson og Sigurbjörn J. Björnsson. Fjölnir vann stórsigur á Skákdeild KR 7½-½. í 5. umferð Íslandsmótsins og tyllti sér á toppinn.
Flottur sigur hjá okkar mönnum
Á þriðjudagskvöldið var hörku leikur í Hertz deild karla í íshokkí þegar Íslandsmeistarar SA kom í heimsókn í Grafarvoginn. Leikurinn byrjaði með þreifingum í fyrsta leikhluta en í öðrum leikhluta fór að draga til tíðinda þegar okkar menn skoruðu tvö mörk gegn engu. Í þriðja leikhluta héldum við áfram af sama krafti og bættum við þriðja marki og vorum komin með þægilega forystu. SA er lið sem gefst aldrei upp og settu spennu í leikinn með að lumma inn tveimur mörkum í lokin, það dugði ekki til í þetta skiptið og fyrsti sigur Bjarnarins kominn í hús í vetur. Frábær sigur að baki en það sem mestu máli skiptir að þetta var mjög flottur leikur tveggja góðra liða og flott auglýsing fyrir íþróttina. Þökkum við liði SA fyrir mjög flottan leik.
Það er óhætt að segja að Bjarnarliðið sé talsvert breytt frá síðasta vetri, ekki einungis eru það máttarstólpar liðsins síðustu ár sem eru á sínum stað, ungu strákarnir okkar eru að bæta sig gríðarlega mikið og greinilegt að við eigum mikinn efnivið í Grafarvoginum. Undanfarið höfum við líka fengið til baka gamla Bjarnarmenn sem eru frábærir leikmenn og fengum við t.a.m. tvö mörk frá einum slíkum í þessum leik. Þess fyrir utan erum við búnir að fá í hópinn okkar flotta drengi upprunna úr liði SA ásamt öflugum útlendingum. Hópurinn er orðinn gríðarsterkur og er að smella saman hjá okkur eins og hefur sést á síðustu leikjum liðsins, ekki bara hefur verið gaman að fylgjast með þeim inn á svellinu heldur er einnig áberandi að stemmning innan liðsins er öflug.
Það eru spennandi tímar framundan hjá okkur í vetur með þennan flotta hóp og hvetjum við alla til að koma á leiki liðsins og fylgjast með. Næsti heimaleikur okkar er nk. Þriðjudag kl: 19:45 er við tökum á móti öflugu liði SR sem hefur unnið okkur í tvígang á tímabilinu.
Áfram Fjölnir – Björninn !!
Eygló Dís Ármannsdóttir sigrar á stórmóti í tennis
Um helgina fór fram stórmót Tennissambands Íslands. Þar náði Eygló Dís Ármannsdóttir þeim frábæra árangri að sigra í flokki U12 með glæsibrag.
Við óskum henni til hamingju.
#FélagiðOkkar
Greifamótið á Akureyri
Um síðustu helgi (12-14. október) hélt SA hið árlega Greifamót fyrir 5.-7. flokk og fór Björninn að vanda með galvaska krakka norður að keppa. Ferðin heppnaðist mjög vel og voru bæði keppendur og fullorðnir ánægðir með ferðina. Góður andi var í ferðinni og mikið um hópefli bæði á svellinu og utan þess eins og myndirnar sýna klárlega.
Zamboni bilaður
Því miður er Zamboni-inn bilaður og verða því engar æfingar að minnstaskosti í tvo daga. Við vonumst til að æfinginar verði samkvæmt dagskrá á fimmtudaginn en munum láta vita.